30. fundur bæjarstjórnar
30. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010, haldinn miðvikudaginn 12. mars 2008 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.
Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Jón Hjartarson, forseti, V listi,
Þorvaldur Guðmundsson B listi,
Helgi Haraldsson, varamaður, B listi
Ragnheiður Hergeirsdóttir S listi,
Gylfi Þorkelsson S listi,
Eyþór Arnalds D listi,
Snorri Finnlaugsson D listi
Grímur Arnarson, varamaður,D-listi
Ari B. Thorarensen, varamaður, D listi
Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari, sem ritar fundargerð.
Dagskrá:
I. Fundargerðir til staðfestingar:
•1. a) 0703171 -
Fundargerð Leigubústaða Árborgar ehf frá 08.02.06
b) 0802009 -
Fundargerð stjórnar Atvinnuþróunarf. Suðurlands frá 17.01.08
c) 80. fundur bæjarráðs 0801020 frá 14.02.08
•2. a) 0607048 -
Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar frá 11.02.08
b) 0801021 -
Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 14.02.08
c) 0801034 -
Fundargerð félagsmálanefndar frá 11.02.08
d) 0801042 -
Fundargerð leikskólanefndar Árborgar frá 11.02.08
e) 81. fundur bæjarráðs 0801020 frá 21.02.08
•3. a) 0801026 -
Fundargerð skólanefndar grunnskóla frá 14.02.08
b)0801042 -
Fundargerð leikskólanefndar frá 20.02.08
c) 82. fundur bæjarráðs 0801020 frá 28.02.08
•4. a) 0801021 -
Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 28.02.08
b) 0801047 -
Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar frá 28.02.08
c) 83. fundur bæjarráðs 0801020 frá 06.03.08
Forseti lagði til leiðréttingu á fundardagskrá, þannig að liðir a) og b) yrðu felldir út undir 1. lið. Varð það samþykkt samhljóða.
2e) 1. mál á dagskrá 81. fundar bæjarráðs, mál nr. 0802001, gjaldskrá fyrir sundstaði 2008, var borið undir atkvæði sérstaklega þar sem mótatkvæði kom fram við afgreiðslutillögunnar í bæjarráði. Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með fimm atkvæðum gegn atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.
Eyþór Arnalds, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði bæjarfulltrúa D-lista, og óskað eftir að bókað yrði að ekki væri ástæða til gjaldskrárhækkunar.
4a) fundargerð skipulags- og byggingarnefndar, Snorri Finnlaugsson, D-lista, og Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tóku til máls.
4c) 10. liður, mál nr. 0803001, forseti lagði til að umræðum um 10. lið yrði frestað til umræðna um lið II c) á dagskrá fundarins.
Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði, að undanskildum þeim lið sem þegar hafði verið staðfestur og samþykktar samhljóða.
- II. Önnur mál:
- a) 0709116 Tillaga frá meirihluta B-, S- og V-lista um uppbyggingu íþróttamannvirkja við Engjaveg
Gylfi Þorkelsson, S-lista, tók til máls og fylgdi úr hlaði tillögu frá bæjarfulltrúum B, S og V lista um uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu við Engjaveg á Selfossi.
Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að á íþróttavallarsvæðinu við Engjaveg verði byggðir upp tveir leikvangar, annar fyrir knattspyrnu og hinn fyrir frjálsar íþróttir. Byggingarreitur fyrir fjölnota hús verði sunnan núverandi gervigrasvallar, þar sem gert verði ráð fyrir búnings- og baðaðstöðu og annarri stoðþjónustu við vellina. Þá verði gert ráð fyrir byggingarreitum nyrst á svæðinu fyrir starfsaðstöðu félaga og deilda þar sem jafnframt verði möguleiki á að koma fyrir búnings- og baðaðstöðu, geymslum og íþróttatengdri starfsemi. Stúkur eru áformaðar austan við vellina. Á næstu mánuðum fari fram nánari útfærsla svæðisins í góðu samráði fulltrúa sveitarfélagsins og fulltrúa íþróttahreyfingarinnar.
Skipaður verði samráðshópur sem vinni með hönnuðum. Hópinn skipi íþrótta- og tómstundafulltrúi Árborgar, framkvæmdastjóri Framkvæmda- og veitusviðs, formaður ÍTÁ og einn fulltrúi tilnefndur af stjórn UMFS. Formaður hópsins verði formaður ÍTÁ.
Gert er ráð fyrir fjármagni til framkvæmda þessara í fjárhagsáætlun 2008.
Greinargerð.
Nýverið var kynnt skýrsla Ræktar ehf vegna stefnumótunar í íþrótta- og tómstundamálum í Árborg. Í skýrslunni eru m.a. lagðar fram tillögur um uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu, m.a. að vallarsvæðið við Engjaveg verði byggt upp með sameiginlegum frjálsíþrótta- og knattspyrnuvelli ásamt búningsaðstöðu og áhorfendastúkum og að á svæðinu verði gert ráð fyrir fjölnota íþróttahúsi.
Í bæjarráði s.l haust var samþykkt að ráðast þegar í byggingu aðalleikvangs við Engjaveg fyrir frjálsar íþróttir og knattspyrnu. Að höfðu samráði við fulltrúa íþróttahreyfingarinnar var svo ákveðið að skoða möguleika þess að byggja tvo velli í stað eins, og gerðu aðilar sér þá grein fyrir að það myndi þýða seinkun á framkvæmd þessa verkefnis.
Í þeirri tillögu sem hér er borin fram er í meginatriðum farið að tillögu Ræktar um uppbyggingu á Engjavegssvæðinu með þeirri breytingu að byggðir verði tveir vellir, annar fyrir knattspyrnu og hinn fyrir frjálsar íþróttir, í samræmi við óskir íþróttahreyfingarinnar þar um.
Ekkert er því til fyrirstöðu af hálfu sveitarfélagsins að verkið hefjist strax í vor og hefur fulltrúum íþróttahreyfingarinnar verið gerð grein fyrir því. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við byggingu vallanna tveggja verði skipt í tvo áfanga og geti þeim verið lokið haustið 2009. Miðað við að hefja framkvæmdir í vor þá myndi við fyrri áfanga fara fram jarðvegsskipti á svæðinu, grasið kæmi á fótboltavöllinn í ágúst og hann þá nothæfur næsta sumar. Auk þess yrði gengið frá frjálsíþróttavellinum þannig að hann verði tilbúinn undir yfirborðsfrágang sem hæfist vorið 2009. Í síðari áfanga verði þá yfirborðsfrágangur á frjálsíþróttavellinum og verklok áætluð í september 2009.
Eyþór Arnalds, D-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, Grímur Arnarson, D-lista, Gylfi Þorkelsson, S-lista, Snorri Finnlaugsson, D-lista, tóku til máls.
Gert var fundarhlé.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Eyþór Arnalds, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði bæjarfulltrúa D-lista:
Það er ánægjulegt að meirihluti V, S og B lista hafi formlega snúist hugur og nú verði áhersla lögð á uppbyggingu íþróttamannvirkja við Engjaveg en ekki við Eyðimörk eins og áður hefur verið talið. Vandséð er þó af fjárhagsáætlun að verulegum fjármunum verði varið í þessa uppbyggingu
Það skýtur hins vegar skökku við að fyrsta ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar í íþróttamálum eftir að skýrsla Ræktar ehf. var lögð fram skuli einmitt brjóta í bága við efni skýrslunnar. Ekki veit það á gott. Í niðurstöðu vinnu Ræktar sem unnin var í samvinnu við íþróttahreyfinguna í sveitarfélaginu er áhersla lögð á samvinnu óháð stjórnmálaflokkum og að "Í sveitarfélaginu Árborg hafa menn tilhneigingu til að vinna í kössum hver í sínu horni. Mikill mannauður gæti nýst milli kassa fer til spillis. Kassarnir aðskilja fólk eftir flokkspólitík, áhugamálum eða jafnvel fjölskyldum", eins og segir í skýrslu Ræktar.
Sú ákvörðun meirihluta V, S og B lista að skipa starfshóp með einum pólitískum fulltrúa án þátttöku stærsta stjórnmálaflokksins í Árborg brýtur klárlega gegn niðurstöðu skýrsluhöfundanna um samstarf og samráð. Veldur þetta vonbrigðum.
Þá vekur það sérstaka athygli að nú sé stofnaður nýr starfshópur undir stjórn Gylfa Þorkelssonar formanns ÍTÁ um uppbyggingu íþróttamannvirkja þar sem annar slíkur hópur er síðast þegar vitað er enn að störfum undir stjórn Gylfa Þorkelssonar.
- b) 0803019 Tillaga um áætlunarferðir milli Reykjavíkur, Hveragerðis og Selfoss
Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, fylgdi úr hlaði svohljóðandi tillögu lista um áætlunarferðir milli Reykjavíkur, Hveragerðis og Selfoss.
Bæjarstjórn Árborgar lýsir yfir miklum áhuga á því að efla almenningssamgöngur milli sveitarfélagsins og höfuðborgarsvæðisins. Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að hefja nú þegar viðræður við Hveragerðisbæ um möguleikann á því að sveitarfélögin sæki í sameiningu um einkaleyfi á almenningssamgöngum milli Árborgar, Hveragerðis og Reykjavíkur. Sömu aðilum verði ennfremur falið að ræða við Vegagerðina og væntanlega samningsaðila um kostnað og fyrirkomulag almenningssamgangna á umræddri leið og að leggja fyrir bæjarstjórn/bæjarráð tillögur að framkvæmd.
Greinargerð:
Strætisvagnaferðir milli Reykjavíkur, Hveragerðis og Selfoss hafa verið eitt af baráttumálum bæjarstjórnar Árborgar til langs tíma. Gildandi sérleyfi á umræddri leið hefur aftur á móti gert það að verkum að ekki hefur verið hægt að vinna málinu brautargengi þar til nú. Um næstu áramót rennur núverandi sérleyfi út og þá gefst sveitarfélögunum tækifæri til að stórbæta búsetuskilyrði á svæðinu með því að sækja um einkaleyfi á umræddri leið í samræmi við 7. gr. laga nr. 73 frá 2001. Ef af verður er hér á ferðinni spennandi verkefni sem hefur mikla þýðingu fyrir íbúa sveitarfélaganna.
Snorri Finnlaugsson, D-lista, Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista, Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, Eyþór Arnalds, D-lista, Grímur Arnarson, D-lista, tóku til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
•c) 0803001 Tillaga frá bæjarfulltrúum D-lista um úttekt á þjónustugjöldum
Eyþór Arnalds, D-lista, fylgdi svohljóðandi tillögu úr hlaði:
Bæjarstjórn samþykkir að fá óháðan endurskoðanda til að gera úttekt á öllum þjónustugjöldum, þar með töldum fasteignatengdum þjónustugjöldum eins og fráveitugjaldi og vatnsgjaldi, sem Sveitarfélagið Árborg og stofnanir þess innheimta og ganga rækilega úr skugga um að innheimta þeirra sé í samræmi við lög og ennfremur hvernig fasteignatengd þjónustugjöld eru í samanburði við önnur sambærileg sveitarfélög. Kostnaður vegna úttektarinnar verði tekinn af liðnum óráðstafað í fjárhagsáætlun 2008.
Greinargerð:
Samkvæmt lögum er sveitarfélögum, auk innheimtu skatta, heimilt í ákveðnum tilvikum að innheimta gjöld vegna þeirrar þjónustu sem þau veita. Ekki er heimilt samkvæmt lögum að innheimta hærri gjöld en samsvarar þeim kostnaði sem af þjónustunni hlýst í hverju tilviki. Nokkur óvissa hefur vaknað hjá mörgum greiðendum þjónustugjalda í sveitarfélaginu um hvort gjöldin geti í einhverjum tilvikum verið hærri en sá kostnaður sem af þjónustunni hlýst. Úttekt var gerð á þjónustugjöldum Árborgar 2004 þar sem komið var með ýmsar ábendingar um nauðsynlegar lagfæringar. Frá þeim tíma hefur orðið stórfelld hækkun á gjöldum. Sem dæmi má nefna að nú greiða húseigendur 81% meira í vatnsgjald en 2004 og 149% meira í fráveitugjald en 2004. Ekki er líklegt að þjónusta vegna þessa hafi hækkað svo mikið á þessum tíma. Því er nauðsynlegt fyrir bæjaryfirvöld að fá nákvæma skoðun á þessu og gera lagfæringar ef með þarf.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Snorri Finnlaugsson, D-lista, Eyþór Arnalds, D-lista, Grímur Arnarson, D-lista, Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, tóku til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum gegn atkvæðum fulltrúa D-lista.
Helgi Haraldsson, B-lista, gerði grein fyrir atkvæði meirihluta bæjarstjórnar:
Bæjarfulltrúar meirihlutans telja mjög mikilvægt að þjónustugjöld sveitarfélagsins séu hófleg. Sveitarfélög hafa ákveðið svigrúm um þjónustugjöld upp að því marki að gjaldtakan skal ekki vera hærri en nemur kostnaði við hvert verkefni, þó með þeirri undantekningu að vatnsgjald má aldrei verða hærra en 0.5 % af fasteignamati eignar.
Þjónustugjöld í Sveitarfélaginu Árborg byggja á heimildum laga og ekki er tilefni til umræddrar úttektar.
Fulltrúar B, S og V lista
- d) 0803052 Tillaga frá bæjarfulltrúum D-lista um styrki til eigenda hesthúsa í Árborg.
Eyþór Arnalds, D-lista, fylgdi úr hlaði tillögu um styrki til eigenda hesthúsa í Árborg.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra og bæjarritara að hafa forgöngu um að gera reglur um styrki til hesthúsaeigenda. Styrkir verði allt að 70% af fasteignaskatti og holræsagjaldi hesthúsa í Árborg.
Greinargerð:
Háir fasteignaskattar á hesthúsaeigendur í Árborg draga úr samkeppnishæfi sveitarfélagsins. Skattstuðullinn er nú 1,472% sem eru verulega mikið hærra en gengur og gerist hjá sambærilegum sveitarfélögum. Mikilvægt er að Árborg haldi og auki samkeppnisstöðu sína með þessari aðgerð.
Ari B. Thorarensen, D-lista, Grímur Arnarson, D-lista, Snorri Finnlaugsson, D-lista, Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, Eyþór Arnalds, D-lista, Gylfi Þorkelsson, S-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, tóku til máls.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum gegn atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, gerði grein fyrir atkvæði meirihlutans:
Fasteignagjöld vegna hesthúsa í Árborg voru færð í þann gjaldaflokk sem þau eru núna árið 2005, í samræmi við gildandi lög. Bæjarstjórn samþykkti í kjölfar þeirra breytinga að veita 20% afslátt af fasteignaskatti af hesthúsum árið 2006. Í janúar s.l. samþykkti bæjarstjórn Árborgar að lækka álagningu fasteignaskatts í gjaldaflokki c ( þar eru m.a. hesthús) úr 1,6 í 1,472 sem er 8 % lækkun. Við þá ákvörðun er fasteignaskattur á húsnæði í c flokki í Árborg með því sem lægst gerist meðal sveitarfélaga af svipaðri stærðargráðu.
Bæjarfulltrúar B, S og V lista.
Fleira ekki gert. Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 19:50
Jón Hjartarson
Þorvaldur Guðmundsson
Helgi Haraldsson
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Gylfi Þorkelsson
Eyþór Arnalds
Grímur Arnarson
Snorri Finnlaugsson
Ari B. Thorarensen
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari