31.fundur félagsmálanefndar
31. fundur félagsmálanefndar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn mánudaginn 13. október 2008 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15
Mætt:
Þorgrímur Óli Sigurðsson, formaður, B-lista (B)
Sædís Ósk Harðardóttir, nefndarmaður V-lista (V)
Katrín Ósk Þorgeirsdóttir, varamaður S-lista
Guðmundur B. Gylfason, nefndarmaður D-lista (D)
Bjarnheiður Ástgeirsdóttir, nefndarmaður D-lista (D)
Anný Ingimarsdóttir, verkefnisstjóri félagslegrar ráðgjafar
Einnig mætti Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, verkefnisstjóri félagslegra úrræðna og Ragnheiður Thorlacíus, framkvæmdastjóri Fjölskyldumiðstöðvar Anný Ingimarsdóttir ritar fundargerð. Formaður nefndarinnar Þorgrímur Óli Sigurðsson óskaði eftir að leitað yrði afbrigða frá áður auglýstri dagskrá og óskar eftir að bæta máli undir liðin erindi til kynningar, sérstök aðstoða v. aðstæðna í efnahagsmálum, mun það verða 4 mál á dagskrá. Nefndarmenn gerðu ekki athugasemd við breytingar á dagskrá.
Dagskrá:
•1. 0809057 - Barnaverndarlög nr. 80/2002 - mat á reynslu þeirra
Bréf barst til félagsmálanefndar Árborgar í byrjun september sl. frá stafshópi sem hefur verið skipaður af Félags-og tryggingamálaráðuneytinu og ætlað að meta reynsluna af barnaverndarlögum nr. 80/2002 og gera tillögur að breytingum eftir því sem talin verður ástæða til. Félagsmálanefnd Árborgar hittist á vinnufundi þann 25. september sl. og fór yfir barnaverndarlögin og vinnslu barnaverndarmála í kjölfar þess var verkefnisstjóra félagslegrar ráðgjafar falið að koma tillögum til formanns starfshópsins.
•2. 0810048 - Auglýsing frá 800 BAR
Félagsmálanefnd Árborgar, sem fer með jafnréttismál í Sveitarfélaginu Árborg, fordæmir harðlega auglýsingu frá veitingahúsinu 800 Bar, Eyravegi 35 á Selfossi um svokallað „Dirty night" sem fram fór á veitingastaðnum laugardagskvöldið 4. október sl. Í auglýsingunni er mynd af fáklæddri konu og í texta koma m.a. fram eftirfarandi skilaboð: „Við seljum staup af berum kroppum", „Fáklæddir barþjónar", „Dansbúr á svæðinu" og „Sjóðandi heit undirfatasýning". Það er álit félagsmálanefndar að vegna samhengis texta og myndar sé auglýsingin í heild konum til lítilsvirðingar og minnkunar í skilningi 29. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. nr. 10/2008.
Auglýsingin birtist í héraðsfréttablöðum þann 2. október sl. í fyrsta lagi í Dagskránni á áberandi stað á blaðsíðu tvö. Blaðið er gefið út í 8.900 eintökum og dreift ókeypis inn á öll heimili í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur- Skaftafellssýslu. Auk þess liggur blaðið frammi í stærstu verslunum og þjónustustöðum á Selfossi og er gefið út í pdf-formi á tveimur netsíðum. Í öðru lagi birtist auglýsingin á áberandi stað á fimmtándu blaðsíðu í Sunnlenska fréttablaðinu sem dreift er til áskrifanda og selt í lausasölu víða um Suðurland.
Félagsmálanefnd Árborgar harmar að héraðsfréttablöðin Dagskráin og Sunnlenska fréttablaðið skulu hafa birt umrædda auglýsingu þann 2. október sl. og vekur athygli fyrirtækjanna á skyldum þeirra sem birta auglýsingar samkvæmt 29. gr. laga um jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008
Með vísan til 5. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008, skorar félagsmálanefnd Árborgar á Jafnréttisstofu að taka til meðferðar umrædda auglýsingu og gera viðeigandi ráðstafanir ef ætla má að auglýsingin brjóti í bága við 29. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.
Framkvæmdastjóra Fjölskyldumiðstöðvar er falið að koma bókun þessari á framfæri við rekstraraðila 800 Bar, Dagskrárinnar, Sunnlenska fréttablaðsins og Jafnréttisstofu.
Erindi til kynningar:
•3. 0806045 - Áfallahjálp í kjölfar jarðskjálftans 29. maí sl.
Ragnheiður Thorlacius, framkvæmdastjóri Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar, gerði grein fyrir málinu. Eftirfarandi kom fram hjá Ragnheiði:
Rauði krossinn og prestar veittu áfallahjálp í fjöldahjálparstöðinni á Selfossi strax í kjölfar Suðurlandsskjálftans 29. maí sl. Skipulögð áfallahjálp hófst síðan í þjónustumiðstöðinni í Tryggvaskála að kvöldi 31. maí sl. Sunnudaginn 1. júní tók til starfa áfallahjálparteymi í sveitarfélaginu skipað fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu), Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar, Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Suðurlandi, Rauða krossins og Árnesprófastsdæmis. Hlutverk teymisins er að skipuleggja og samræma áfallahjálp í Árborg í kjölfar jarðskjálftans. Teymið er starfandi enn í dag.
Frá 4. júní sl. var umsjón áfallahjálpar í höndum heilbrigðisþjónustunnar og komu m.a. til aðstoðar sérfræðingar frá geðsviði Landspítala háskólasjúkrahúss. Prestar störfuðu áfram og Rauði krossinn sá um móttöku í Tryggvaskála. Áfallahjálpin flutti úr Tryggvaskála í húsnæði HSu í lok júní og hefur þjónustan verið í höndum sérfræðinga HSu sem sérstaklega voru ráðnir í þetta verkefni. Fjölmargir hafa notfært sér áfallahjálpina á HSu og þjónustan mun standa til boða áfram.
Í júní stóð Fjölskyldumiðstöð Árborgar fyrir fræðslufundum um áfallahjálp, bæði fyrir almenning og starfsmenn. Bæklingar voru sendir í hús og heimasíðan var lifandi.
Starfsmenn félagsþjónustu Árborgar, skólafólk og aðrir sérfræðingar fylgjast vel með líðan barna og fullorðinna. Samstarf innan áfallateymisins hefur skilað góðum árangri og teymið fylgist reglulega með stöðu mála.
•4. 0810066 - Sérstök aðstoð v/aðstæðna í efnahagsmálum -samvinnuverkefni
Fjölskyldumiðstöð Árborgar hefur í samstarfið við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands, Vinnumálastofnun Suðurlands, presta og Rauði krossinn ákveðið að bjóða íbúum Árborgar á stuðningsviðtöl sem þurfa á að halda vegna efnahagsmála á Íslandi. Fyrst um sinn verður opið þriðjudaga og fimmtudaga milli kl. 17:00 -19:00 á 3ju hæð í Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi. Á þeim tíma verða starfsmenn ofantalinna stofnana til viðtals. Þjónustan hefst þriðjudaginn 14. október nk. kl. 17:00. Félagsmálanefnd Árborgar vill lýsa yfir þakklæti til starfsmanna fjölskyldumiðstöðvar Árborgar yfir skjótum viðbrögðum að stofna teymi til að aðstoða fólk í erfiðum aðstæðum.
•5. 0801054 - Greinagerð Jóns Björnssonar um öldurnarþjónustu
Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir, verkefnisstjóri félagslegrar úrræðna kom inn á fundinn. Greinagerðin lögð fram til kynningar.
Ragnheiður Thorlacíus framkvæmdarstjóri yfirgaf fundinn.
•6. 0807027 - Forvarnaáætlun 2008, aðgerðaáætlun 2008-2009
Anný Ingimarsdóttir verkefnisstjóri félagslegrar ráðgjafar sagði frá forvarnar- og aðgerðaráætlunina. Í máli hennar kom m.a. fram að hún hafi verið kynnt inn á foreldrafundum grunn-og leikskólum sveitarfélagsins sem og Fsu. Félagsmálanefnd Árborgar fagnar forvarnarstefnunni og ekki síður þeirri aðgerðaráætlun sem fylgir henni. Félagsmálanefnd þakkar öllum þeim aðilum sem komu að vinnslu áætlunarinnar.
•7. 0809056 - Aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegt ofbeldi - neyðarkort
Bréf barst frá Félags-og tryggingamálaráðuneytinu þar sem fram kemur að nefnd hafi verið skipuð til að vinna í að hrinda í framkvæmd aðgerðaráætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegu ofbeldi. Aðgerðaráætlunin var samþykkt í ríkisstjórn í september 2006. Í bréfinu segir að meginmarkmiðið er að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi. Í framangreindri nefnd eiga sæti fulltrúar frá félags-og tryggingamálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Jafnréttisstofu. Þá kemur fram að eitt af verkefnum nefndarinnar er að gefa út svokölluð ,,neyðarkort" en það eru lítil kort með fyrirsögninni ,,Við hjálpum" á fimm tungumálum. Kortinu er ætlað að vera þeim til hjálpar sem þurfa að leita sér aðstoðar vegna ofbeldis á heimili eða kynferðislegs ofbeldis og er þar að finna símanúmer hjá Neyðarlínunni, Kvennaathvarfinu, Neyðarmóttöku vegna nauðgunar, Stígamótum og Hjalparsíma Rauða kross Íslands.
•8. 0802031 - Sískráning ágúst og september 2008
Tilkynningar til barnaverndar Árborgar voru 8 í ágúst og 20 tilkynningar bárust í september.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 19:10
Þorgrímur Óli Sigurðsson
Sædís Ósk Harðardóttir
Katrín Ósk Þorgeirsdóttir
Guðmundur B. Gylfason
Bjarnheiður Ástgeirsdóttir
Anný Ingimarsdóttir