Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


20.2.2006

35. fundur skólanefndar

 

35. fundur skólanefndar Árborgar haldinn á Stokkseyri 20. febrúar 2006 kl. 17:15.

 

Mættir kjörnir fulltrúar:
Margrét K. Erlingsdóttir, Elín Karlsdóttir, Gísli Skúlason, Ari Thorarensen, Sigríður Jensdóttir.

 

Aðrir fulltrúar: Eyjólfur Sturlaugsson, Arndís Harpa Einarsdóttir (skólastjórar), Kristinn M. Bárðarson, Sædís Ósk Harðardóttir (fltr. kennara),  Anne Biehl Hansen (fltr. Flóahreppa),Sigurður Bjarnason.

 

Margrét setti fund.

 

1. Húsnæðismál BES.Sigurður Bjarnasonlýsti starfi vinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Hópurinn mælir með nýju skólahúsi mitt á milli þorpanna. Margrét dreifði punktum um niðurstöður íbúaþings. Harpa lýsti undrun á því að þeir punktar væru nú dregnir fram. Taldi hún það gera heldur lítið úr vinnu vinnuhópsins. Einnig hefði mátt tengja hana betur við vinnu Ásbjarnar Blöndal um sama efni frá 2003. Kristinn lýsti ánægju með skýrsluna en saknaði þess að ekki væru settar fram spár um nemendafjölda. Einnig taldi hann að vænlegra væri að byggja upp á báðum stöðum frekar en á milli bæjanna. Of mikið sé gert úr göllunum við að reka skólann á tveimur stöðum. Harpa lagði fram eftirfarandi bókun:

 

Bókun vegna greinargerðar um vinnu starfshóps vegna hugmyndavinnu um framtíðarskipan húsnæðismála Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri :

 

Undirrituð fagnar útkomu skýrslu um framtíðarskipan húsnæðismála skólans og þakkar gott samstarf í vinnuhópnum sem skipaður var vegna efnis hennar. Skýrslan er þó ekki gallalaus að mínu mati því í hana vantar afgerandi niðurstöðu vinnuhópsins. Í skýrslunni er heldur ekki mikið um faglega eða fjárhagslega umfjöllun um kostina sem voru til umfjöllunar á vinnufundunum í haust. Aðeins eru punktar frá hópavinnu tíndir til.

 

Á síðasta vinnufundinum var tveimur möguleikum stillt upp; þ.e. að byggja einn skóla á milli þorpanna eða að byggja við skólann í báðum þorpum. Menn áttu að nefna kosti og galla hvors möguleika.  Í samantektinni eru tíundaðir kostir og gallar sem fengu ekkert stig, þ.e. fegnu ekki undirtektir annarra fundarmanna. Sbr. gallar við möguleikann á að byggja skóla undir einu þaki, á bls. 4; punktar no. 2, 5, 7 og 8 en gallar sem fengu stig eru ekki nefndir.

 

Það hefði styrkt skýrsluna að tengja hana við faglega úttekt sem lögð var vinna í á vormánuðum 2003 undir stjórn framkvæmdastjóra Framkvæmda-og veitusviðs Árborgar. Sú skýrsla ásamt  aðkomu foreldraráðs að málinu í fyrra og óviðunandi ástands núverandi skólahúsnæðis sem lýst er þar, er meginástæða þess að ákveðið var að skipa vinnuhópinn.

 

Raddir sem fram komu á íbúaþingi fyrir þremur árum eru tíundaðar í skýrslunni en ekki fyrrnefnd skýrsla. Því er að mínu mati í hæsta máta óeðlilegt að vitna til þeirra skoðana sem þar komu fram (sbr. bls. 7). Í þessu sambandi er vert að geta þess að allir sem óskuðu eftir að komast  í vinnuhópinn fengu sæti þar.

 

Niðurstaða vinnuhópsins er ótvíræð; afgerandi meirihluti vill að byggður verði nýr heildstæður skóli á milli þorpanna. Mikill meirihluti þeirra sem lögðu krafta sína í þessa vinnu telja það vera góðan kost fyrir faglegt skólastarf og vöxt þorpanna (sjá bls. 1-8 í punktum um kosti og galla sameiginlegs skóla). Ég fagna þessari niðurstöðu og vona að skólanefnd taki tillit til afstöðu mikils meirihluta vinnuhópsins og hefji sem fyrst undirbúning að nýrri skólabyggingu.

 

Arndís Harpa Einarsdóttir, skólastjóri

 

Margrét ræddi þá fullyrðingu sem fram kemur í skýrslunni að ekki sé hægt að vinna faglega meðan skólinn sé á 2 stöðum. Sædís sagðist ekki kannast við þetta vandamál sem fyrrverandi starfsmaður skólans. Kristinn taldi ákveðin vandamál skapast af skiptingunni. Harpa taldi að það hefði ákveðin vandamál í för með sér að vera á 2 stöðum en með tímanum hefði gengið betur að leysa þau. Meirihluti starfsmanna vilji að skólinn sé undir einu þaki.

 

Ályktun skólanefndar um húsnæðismál BES

 

Skólanefnd Árborgar hefur yfirfarið skýrslu vinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Nefndin hefur ákveðnar efasemdir um þá lausn sem meirihluti hópsins mælir með, að byggja nýjan skóla á milli þorpanna. Sú lausn gengur gegn þeim vilja íbúanna sem fram kom á íbúaþingi 2003, en þar var lögð rík áhersla á að skólastarf yrði áfram í báðum þorpum.

 

Skólanefnd mælir með að byggt verði upp fullnægjandi skólahúsnæði í báðum þorpum. Hafist verði handa sem allra fyrst. Skólanefnd mælir jafnframt með að framkvæmdir verði aðeins á öðrum staðnum í einu.

 

Skólanefnd bendir á að íbúafundur við ströndina gæti verið heppilegur til að kynna niðurstöður skýrslunnar.

 

Samþykkt samhljóða.

 

Harpa lýsti óánægju með bókunina og taldi að hún þýddi að vinna starfshópsins væri fótum troðin. Kristinn fagnaði bókuninni og lýsti sig sammála efni hennar.

 

2. Sigurður kynnti fjárhagsáætlun skólanna. Greinargerð um þróun útgjalda fyrir hvern skóla síðustu 3 ár lögð fram á næsta fundi, og þá verður fjárhagsáætlun rædd nánar.

 

3. Önnur mál.
a) Margrét minnti á málþing um málefni grunnskóla á Suðurlandi nk. föstudag á Hótel Selfossi.

 

b) Margrét lagði fram fréttabréf Skólaskrifstofu Suðurlands til kynningar.

 

c) Kristinn ræddi könnun á högum starfsfólks á vegum sveitarfélagsins; hvort ekki hefði verið eðlilegt að Persónuvernd hefði komið að því máli. Vildi Kristinn fá að vita hver tilgangurinn væri með svo persónulegum spurningum sem vinnuveitanda komi ekki við svo séð verði. Sigurður taldi tilganginn vera að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir til að bæta líðan starfsfólks og hag stofnananna. Sigurði falið að kanna málið fyrir næsta fund.

 

d) Sædís lýsti ánægju með nýliðna þemadaga í Sunnulækjarskóla sem hefðu heppnast mjög vel og margir gestir mætt á sýningu á verkum nemendanna.

 

e) Margrét kynnti fyrirhugaðar heimsóknir skólanefndar í BES 9. mars og Sunnulækjarskóla 23. mars.

 

Næsti skólanefndarfundur í Ráðhúsinu 13. mars kl. 17:10, og síðan 3. apríl.

 

Fundi slitið kl. 19:30.

Mættir kjörnir fulltrúar:
Margrét K. Erlingsdóttir                                 
Elín Karlsdóttir
Gísli Skúlason                                                
Ari Thorarensen
Sigríður Jensdóttir

 

Aðrir fulltrúar:
Eyjólfur Sturlaugsson                        
Arndís Harpa Einarsdóttir (skólastjórar)
Kristinn M. Bárðarson                                   
Sædís Ósk Harðardóttir (fltr. kennara)    
Anne Biehl Hansen (fltr. Flóahreppa)
Sigurður Bjarnason

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica