10.7.2017
37. fundur skipulags- og byggingarnefndar
37. fundur skipulags- og byggingarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn þriðjudaginn 13. júní 2017 að Austurvegi 67, Selfossi, kl. 17:00.
Mætt:
Ásta Stefánsdóttir, formaður, D-lista
Magnús Gíslason, nefndarmaður, D-lista
Gísli Á. Jónsson, nefndarmaður, D-lista
Ragnar Geir Brynjólfsson, nefndarmaður, B-listi
Viktor Pálsson, nefndarmaður, S-lista
Bárður Guðmundsson, skipulags- og byggingafulltrúi
Sveinn Ægir Birgisson, áheyrnarfulltrúi ungmennaráðs.
Dagskrá:
Almenn afgreiðslumál |
1. |
1504330 - Deiliskipulagsbreyting að Austurvegur 39-41 Selfossi. |
|
Lögð var fram eftirfarandi tillaga að afgreiðslu nefndarinnar: Eftir að deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun komu athugasemdir dagsettar 7. júní 2017 sem leiddu til breytinga á skipulagsgögnum og því er málið, á ný, tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd Árborgar. Sveitarfélaginu Árborg barst eitt erindi með athugasemdum við tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Austurveg 39-41 á Selfossi. Athugasemdirnar voru frá íbúum í Grænumörk 2 og 2a á Selfossi. Athugasemdirnar eru ódagsettar en bárust 19. júlí 2016. Skipulags- og bygginganefnd telur ekki þörf á að svara í bókun þessari þeim athugasemdum sem ekki varða deiliskipulagið með efnislegum hætti. Skipulags- og bygginganefnd leggur til við bæjarstjórn að tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir Austurveg 39-41 verði samþykkt og tekin verði eftirfarandi afstaða til athugasemda sem bárust frá íbúum Grænumarkar 2 og 2a á Selfossi. Athugasemdir íbúa í Grænumörk 2 og 2a. Samantekt athugasemda: Í athugasemdum er byggt á því að nauðsynlegt sé að mæla fyrir um í deiliskipulaginu að um verði að ræða íbúðir sem séu skilyrtar fyrir íbúa 50 ára og eldri, sérstaklega vegna fjölgunar aldraðra íbúa á Selfossi. Þá eru gerðar athugasemdir við hátt nýtingarhlutfall bygginganna á lóðinni og of mörg bílastæði sem leiði til þess að nánast ekkert rými sé fyrir gróður. Umsögn skipulags- og bygginganefndar: Breytingar hafa verið gerðar á deiliskipulagstillögunni frá því að hún var fyrst auglýst til þess að koma á móts við athugasemdir íbúa í Grænumörk 2 og 2a. Í fyrsta lagi var frá upphafi ætlun eiganda lóðar að reisa íbúðir fyrir íbúa 50 ára og eldri, athugasemd þess efnis hefur verið færð inn í greinargerð með deiliskipulagstillögunni. Farið hefur verið yfir nýtingarhlutfall lóðarinnar miðað við fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu. Nýtingarhlutfallið er 1,08 og er það í samræmi við skilmála aðalskipulags sem mælir fyrir um nýtingarhlutfall 1-2 fyrir lóðina. Nýtingarhlutfallið er því í neðri mörkum þess sem heimilt er skv. aðalskipulagi og getur vart verið minna. Á lóðinni er gert ráð fyrir 50 bílastæðum og fleiri bílastæðum í neðanjarðar bílageymslu þannig að stæði verði 2 á hverja íbúð. Heildarfjöldi íbúða verður á bilinu 32-35. Telja verður að fjöldi bílastæða á lóð sé í samræmi við það sem almennt getur talist hæfilegt þegar um er að ræða fjölbýlishús. Þá hefur athugasemd um gróður verið sett inn á deiliskipulagsuppdrátt um að gróður verði á þaki neðanjarðarbílageymslu. Athugasemdir Skipulagsstofnunar og umsögn Vegagerðar. Í fyrsta lagi gerði Skipulagsstofnun athugasemd við það að ekki hefði verið rökstutt sérstaklega að meira en 6 mánuðir liðu frá lokum auglýsingarfrests þar til deiliskipulag var sent Skipulagsstofnun til yfirferðar. Skýringar á þeim drætti eru þær að gera þurfti breytingar á auglýstum skipulagsgögnum auk þess sem breytingar urðu á eignarhaldi á lóðinni sem tafði fyrir skipulagsferlinu. Í öðru lagi gerði Skipulagsstofnun athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda vegna fyrirliggjandi umsagnar Vegagerðarinnar við samþykkt deiliskipulag. Eftir að athugasemdir Skipulagsstofnunar bárust var haft samráð við Vegagerðina og gerðar breytingar á fyrirliggjandi deiliskipulagsgögnum þannig að Vegagerðin gæti fallið frá athugasemdum. Aðkoma á lóðinni verður einungis þegar ekið er í vestur átt eftir Austurvegi og útakstur af lóðinni verður einungis til vesturs. Breytingarnar miðast þannig við bætt umferðaröryggi. Í þriðja lagi gerði Skipulagsstofnun athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda þar sem ekki væri gerð grein fyrir því hvaða áhrif breytt fyrirkomulag hefði á umhverfið, hvað varðar skuggavarp á íbúðalóðir við Grænumörk 2a og 3. Þegar skipulagsgögn voru send Skipulagsstofnun fórst fyrir að senda skuggavarpsteikningar með, sem hluti af skipulagsgögnum, úr því mun verða bætt. Varðandi aðrar ábendingar um ágalla á skipulagsgögnum: breytingar á auglýstum skipulagsgögnum hafa verið færðar inn í greinargerð, heildregin lína utan um byggingar hefur verið felld út, skilmálar um sorpskýli hafa verið sett inn í greinargerð og sorpskýli færð til, ræma milli bílastæða á lóð Austurvegs 39-41 og Grænumarkar hefur verið felld út, akstursaðkoma er ekki frá Grænumörk enda engar akstursstefnuörvar inn á lóðina frá Grænumörk og ekki verður séð annað en að í nýtingarhlutfall hafi verið reiknuð bæði A og B rými.
Tillagan var samþykkt samhljóða,
Ragnar Geir Brynjólfsson, B-lista, óskaði eftir að gera grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:
Vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda við Austurveg 39-41 er nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram. Um er að ræða mannvirki sem eiga að standa við Austurveg sem er fjölfarnasta gata Selfoss. Í því ljósi verður að gera enn ríkari kröfur til útlits og samræmingar en ella. Til að hægt sé að gera sér grein fyrir sameiginlegum þáttum í útliti húsa við Austurveg er hægt að renna yfir helstu kennileiti. Þegar komið er til Selfoss eftir Suðurlandsvegi blasir við hin stílhreina og klassíska Selfosskirkja séð yfir lygnu árinnar. Brúin sjálf er einnig fallegt mannvirki og setur svip á bæinn. Handan hringtorgsins er ráðgert að endurbyggja byggðakjarna í klassískum stíl, meðal þeirra húsa sem þar eiga að rísa er gamla Mjólkurbúið. Til vinstri þegar komið er yfir brúna er hinn tiltölulega nýuppgerði og snyrtilegi Tryggvaskáli og litlu austar setur Ráðhúsið sterkan svip á bæinn, einnig stílhrein, fögur og klassísk bygging. Húsin í framhaldi af því til austurs t.d. Miðgarður eru svo lík Ráðhúsinu að til samans mynda þau heildstæða sýn og festa klassíska götumynd í sessi. Handan götunnar er síðan Kaffi krús sem ásamt Tryggvaskála ber með sér og styrkir tilfinningu fyrir aðlaðandi hlýleika. Ef haldið er í austur er samskonar prýði að gömlu húsunum sem þegar eru á svæðinu. Landsbankahúsin bæði gamla og hið yngra samsvara sér vel og tillit til þeirra vekur ánægju, þau halda við og varðveita þann klassíska tón sem þegar er sleginn. Þegar haldið er enn austar er stílbrotið á húsunum sem þar eru komin ekki enn það mikið að tilfinningin fyrir heildstæðri sýn nær að viðhaldast út úr bænum. Það er í verkahring sveitarstjórnarmanna í Sveitarfélaginu Árborg að standa vörð um menningarverðmæti svæðisins. Heildstæð götumynd hlýtur að vera hluti þessara verðmæta. Þetta er götumynd sem gefur svæðinu sérstöðu og ímynd, laðar fólk til sín og gerir það verðmætara en ella, en leggur einnig línurnar varðandi aðrar byggingar á svæðinu. Það hlýtur að vera skylda sveitarstjórnar að tryggja að þeir aðilar sem hanna byggingar við aðalgötur bæjarins átti sig á þessum atriðum og hanni byggingar sem kallast á við þessa heildstæðu sýn og festi hana í sessi. Ekki er með neinu móti hægt að segja að þau mannvirki sem teiknuð hafa verið á skýringarmynd á ásýnd frá Austurvegi standist þessar kröfur og því beri að hafna þeim teikningum á útlitslegum forsendum. |
|
|
|
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 17:35
Ásta Stefánsdóttir
Magnús Gíslason
Gísli Á. Jónsson
Ragnar Geir Brynjólfsson
Viktor Pálsson