4. fundur fræðslunefndar
4. fundur fræðslunefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014 haldinn fimmtudaginn 18. nóvember 2010 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15
Mætt:
Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður, D-lista
Ragnheiður Guðmundsdóttir, nefndarmaður, D-lista,
Grímur Arnarson, nefndarmaður, D-lista
Arna Ír Gunnarsdóttir, nefndarmaður, S-lista
Andrés Rúnar Ingason, nefndarmaður, V-lista
Kristjana Hallgrímsdóttir, fulltrúi kennara
Guðrún Thorsteinsson, fulltrúi kennara
Guðbjörg Helga Guðmundsdóttir, fulltrúi kennara
Guðbjartur Ólason, fulltrúi skólastjóra,
Linda Rut Ragnarsdóttir, fulltrúi foreldra,
Helga Geirmundsdóttir, fulltrúi leikskólastjóra,
Hanna Rut Samúelsdóttir, fulltrúi starfsmanna,
Stefanía Geirsdóttir, fulltrúi Flóahrepps
Sigurður Bjarnason. verkefnisstjóri fræðslumála,
Í upphafi fundar leitaði formaður afbrigða til að taka á dagskrá erindi frá fulltrúum kennara í fræðslunefnd.
Afbrigðið samþykkt.
Dagskrá:
1. 1011125 – Kynning á starfsemi Skólaskrifstofu Suðurlands – Kristín Hreinsdóttir
Kristín Hreinsdóttir, forstöðumaður Skólaskrifstofu Suðurlands kynnti starfsemi skrifstofunnar. Fræðslunefnd þakkar Kristínu fyrir greinargóðar upplýsingar um starfsemi Skólaskrifstofu Suðurlands.
2. 0902081 – Yfirlit frá verkefnisstjóra fræðslumála
Verkefnisstjóri fór yfir stöðu fjárhagsáætlunargerðar hjá leikskólum og grunnskólum. Allir stjórnendur skólanna hafa fengið úthlutaðan fjárhagsramma fyrir sínar stofnanir og eru skil á fjárhagáætlun, þar sem er búið að deila úthlutuðum ramma niður á bókhaldslykla, áætluð 22. nóvember.
3. 1010135 – Fyrirspurnir frá fulltrúum kennara í fræðslunefnd
Lögð voru fram eftirfarandi svör við fyrirspurnum frá fulltrúum kennara í fræðslunefnd, sbr. fundarlið 5 á fundi fræðslunefndar 21. október 2010:
Spurning 1. Grunnþjónusta í skólum Árborgar- mikilvægt að verja grunnþjónustuna sem skólum er skylt að veita, s.s. afleysingar, stuðning og sérkennslu. Einnig má benda á lítið val í unglingadeildum og þann niðurskurð sem átt hefur sér stað þar.
Svar:
Í rekstri grunnskóla hjá Sveitarfélaginu Árborg er lögð áhersla á að sinna lögboðnum skyldum varðandi nám og kennslu grunnskólabarna. Það á ekki síst við núna með tilliti til fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og ganga því lögboðnar skyldur fyrir framboði á valgreinum. Þar að auki hefur valmöguleikum í valgreinum á unglingastigi fækkað m.a. vegna fækkunar nemenda í einstaka skólum og því hefur ekki verið hægt að hafa í boði eins mörg valfög fyrir nemendur í unglingadeildum og verið hefur á undanförnum árum.
Spurning 2. Hver er stefna Árborgar í menntunarkröfum starfsmanna skólanna? Í skólastefnu sveitarfélagsins er talað um að fá vel menntað fólk eða eins og best gerist en auglýsingar hafa ekki borið þess vott. Benda má á eldhús Vallaskóla þar sem ekki hefur verið leitað eftir menntuðu starfsfólki á sínu sviði og nýlega ráðningu aðstoðarskólastjóra í Vallaskóla sem og skólastjóra þar sem einn sótti um. Velta má upp spurningu um stefnu og hvort fræðslunefnd komi þar að.
Svar:
Við ráðningu kennara og stjórnenda ber Sveitarfélaginu Árborg, eins og öðrum þeim aðilum sem reka grunnskóla, að fara eftir lögum um grunnskóla og lögum frá 2008 nr. 87 12. júní, „Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla” Við ráðningar starfsmanna er starfsmannastefna Sveitarfélagsins Árborgar höfð að leiðarljósi.
Hjá Sveitarfélaginu Árborg eru umsækjendur um störf kallaðir í viðtöl þar sem farið er m.a. yfir menntun, reynslu, persónulega hæfni o.fl. Að viðtölum loknum eru umsækjendur metnir út frá þeim þáttum sem ber að gera samkvæmt lögum og einnig út frá öðrum þáttum sem skipta máli fyrir viðkomandi stofnun. Við þetta mat er menntun metin hátt en aðrir þættir s.s. reynsla og sérhæfð þekking ( menntun ) sem nýtist til þeirra starfa sem er verið að ráða í á hverjum tíma, hafa einnig talsvert vægi í heildarmatinu.
Spurning 3 Hafa komið fram einhverjar hugmyndir um það hvernig fræðslunefnd ætti að sinna eftirlitskyldu sinni sbr. starfslýsingu skólanefndar dreift á síðasta fundi?
Svar:
Á aðalfundi Skólaskrifstofu Suðurlands sem haldinn var á Selfossi 13. september 2010 var samþykkt tillaga um að skipa starfshóp til að skoða kosti og galla þess að standa sameiginlega að heildarmati í skólastarfi á starfssvæði skólaskrifstofunnar. Heildarmat er heildstæð leið til að meta skólastarf og gefur góða mynd af stöðu skóla. Matið uppfyllir skyldur sveitarfélaga um ytra mat sveitarfélaga skv. 37. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008. Ákvæði 37. gr. grunnskólalaga er síðan nánar útfært í „Reglugerð um mat og eftirlit í grunnskólum og eftirlitsskyldu sveitarfélaga” Búið er að skipa starfshópinn og miðað er við að hann skili niðurstöðum fyrir 1. mars 2011.
Fræðslunefnd Árborgar mun skoða niðurstöður starfshópsins og taka ákvörðun í framhaldinu um fyrirkomulag ytra mats sveitarfélagsins samkvæmt 37. gr. grunnskólalaga.
Spurning 4. Foreldrafélög- stuðningur við þau og það mikla starf sem þau vinna. Hvernig hefur verið unnið að málum í skólunum, t.d í Vallaskóla við að reyna að koma á starfshæfu félagi þar? Á að taka upp ferðir á ný s.s. fastar ferðir eins og í Þórsmörk og fl.?
Fá foreldrar í foreldraráðum einhverja fræðslu til að skoða skólanámskrá eða til að starfa í skólaráðum skólanna?
Svar:
Samkvæmt lögum um grunnskóla er það skólastjóri hvers skóla sem er ábyrgur fyrir stofnun foreldrafélags og á að sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Skólastjórar í grunnskólum Árborgar hafa rækt þessa skyldu sína vel á undanförnum árum og eru í dag starfandi virk foreldrafélög í öllum skólum sveitarfélagsins.
Skólaferðalög og vettvangsferðir eru rekstrarþættir sem hafa verið skornir niður í rekstri grunnskólanna í sparnaðarskyni. Ekki er fyrirhugað að veita fjármunum af rekstri grunnskólanna til ferðalaga á árinu 2011.
Samkvæmt reglugerð um skólaráð við grunnskóla er það skólastjóri sem hefur forgöngu um stofnun skólaráðs. Hann situr í skólaráði og stýrir starfi þess. Fræðslu til foreldra og annarra fulltrúa sem sitja í skólaráðum grunnskólanna í Árborg, um þau málefni sem tekin eru fyrir í ráðinu á hverjum tíma, hefur skólastjóri hvers skóla séð um.
Bókun frá Guðbjarti Ólasyni fulltrúa skólastjóra
Í þessum spurningum kennarafulltrúanna er ítrekað vikið sérstaklega að starfi og starfsfólki Vallaskóla. Úr því að ég sit þennan fund vil ég af þessu tilefni biðja um að eftirfarandi atriði verði færð til bókar:
„Allt skólastarf er sífelld og þrotlaus vinna sem byggist fyrst og fremst á jákvæðu samstarfi máttarstoðanna þriggja, starfsfólks skólans, nemendanna og heimila þeirra. Þetta samstarf verður stöðugt að þola það og vera við því búið að vera sett undir mæliker.
Hvað grunnþjónustu varðar hefur hún verið varin í Vallaskóla. Auk lögboðinnar almennrar kennslu hefur kennslukvóti til forfallakennslu ekki verið skertur. Sérkennslukvóti hefur heldur ekki verið skertur né kennslumagn vegna kennslu nýbúa.
Í Vallaskóla er mjög öflugt og vel menntað starfsfólk og aldrei í sögu skólans hefur menntunarstig starfsfólks skólans verið hærra eða starfsmannaveltan minni. Þessu til staðfestingar vil ég nefna tvö atriði sem sýna ótvírætt að þetta starfslið og samstarfsaðilar þess eru að ná góðum árangri.
Í nýlegri alþjóðlegri könnun um heilsu og lífskjör skólanema sem gefin var út 15. okt. sl. er Vallaskóla getið sérstaklega fyrir góðan árangur í baráttu gegn einelti. Þar kemur fram að hlutfall barna í Vallaskóla sem verða aldrei fyrir einelti í 6. 8. og 10. bekk er 98%. Þetta rímar við niðurstöður Olweusar könnunar sem árlega fer fram í skólanum um stöðu þessara mála í 5. – 10 bekk. Árið 2008 mældist einelti í Vallaskóla 8,6% en þá var landsmeðaltalið 8,7%. En árið 2009 mældist einelti í Vallaskóla 4,2 % þegar landsmeðaltalið var 9,2%.
Í annan stað kemur fram í skýrslu um frammistöðu nemenda í samræmdum könnunarprófum 2006-2009 í 4. og 7. bekk að árangur Vallaskóla er í öðru sæti skóla á Suðurlandi með fleiri en 100 nemendur. Þegar árangri nemenda 10. bekkjar er bætt við er Vallaskóli í fjórða sæti í þessum samanburðarhópi á þessu árabili.
Ég tel fulla ástæðu til að þakka öllum hlutaðeigendum, starfsmönnum, nemendum og forráðamönnum þeirra, þennan góða árangur á báðum þessum sviðum sem ég hef hér tilgreint.
Við Vallaskóla er starfandi foreldrafélagið Hugvaki. Ég vil við þetta tækifæri þakka þeim fyrir þátt þeirra í mjög vel heppnuðum fundi um forvarnir sem haldinn var í Sunnulækjarskóla í samvinnu við hin foreldrafélögin í Árborg.
4. 1011079 – Erindi frá foreldrum í 9. bekk Vallaskóla
Lagt var fram erindi frá fulltrúum foreldra 9. bekkjar í Vallaskóla.
Efni erindisins er undanþága skólaskyldu vegna náms utan grunnskóla sem jafngildir grunnskólanámi, vegna vettvangsferðar 9. bekkinga í Vallaskóla að Laugum í Sælingsdal.
Jafnframt var lagt fram bréf frá umsjónarkennurum 9. bekkjar Vallaskóla um sama efni.
Foreldrar sækja um leyfi bæjaryfirvalda til undanþágu skólaskyldu vegna náms utan grunnskóla sem jafngildir grunnskólanámi. Leyfið væri veitt í samræmi við seinni málslið 3. mgr. 15. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008: „Skólastjóra er heimilt að viðurkenna nám utan grunnskóla sem jafngildi grunnskólanáms”
Fræðslunefnd fagnar þeim áhuga sem foreldrar sýna með framgöngu sinni í því að koma á ferð 9. bekkjar að Laugum í Sælingsdal. Áður en fræðslunefnd tekur erindið til afgreiðslu er verkefnisstjóra falið að afla frekari upplýsinga.
5. Erindi frá fulltrúum kennara í fræðslunefnd
Eftirfarandi fyrirspurnir frá fulltrúum kennara voru lagðar fram:
1) Vegna bréfs frá stuðningsfulltrúum sem kynnt var á síðasta fundi hafa komið upp spurningar um hver sjái alla jafna um að svara erindum sem þessum.
2) Óskum eftir upplýsingum um forföll kennara vegna veikinda og hvort um aukningu sé að ræða vegna álags – sbr. fyrirspurn Málfríðar Garðarsdóttur á síðasta fundi.
3) Hugmyndin að flutningi úr gamla Sandvíkurskóla yfir í gamla safnahúsið sem hýsir nú félagsmiðstöðina Zelsiuz vekur upp margar spurningar. Helstar eru:
a. Hentar húsnæðið til kennslu, gluggar eru t.d. ofarlega, spurning um loftun, brunavarnir, aðbúnað skv. grunnskólalögum og staðla heilbrigðiseftirlits.
b. Hver er fjárhagslegur ávinningur Sveitarfélagsins; borgar það sig að breyta húsinu, hefur verið gerð kostnaðaráætlun?
c. Er fækkun nemenda í Vallaskóla viðvarandi, m.ö.o. er aðgerðin tímabær?
d. Er það æskileg þróun að fækka nemendum í Vallaskóla en að nemendum fjölgi að sama skapi í Sunnulækjarskóla?
e. Hvað með félagsmiðstöðina Zelsíus og starfið þar, s.s. áhrif flutningsins á starfsemina og hvort hún eigi samleið með rekstri Pakkhússins?
f. Hvað á að gera við gamla Sandvíkurskóla?
Fræðslunefnd þakkar framkomnar spurningar frá fulltrúum kennara og er formanni og verkefnisstjóra falið að koma með svör við þeim á næsta fund fræðslunefndar.
Erindi til kynningar:
6. 1011048 – Trúnaðarmál
Trúnaðarmál var tekið fyrir og bókað í trúnaðarmálabók.
7. 1011047 – Afrit af bréfi frá foreldrafélagi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, dagsett 20. október 2010.
Lagt fram afrit af bréfi frá foreldrafélagi Barnaskólans á Eyrarbaka og Stokkseyri til skólastjóra BES. Efni bréfsins er ósk um að samkennslu í 8. og 9. bekk í BES verði hætt.
8. 1002091 – Fundargerð skólaráðs BES frá
Lögð fram fundargerð skólaráðs BES frá 29. október 2010.
9. 0905085 – Fundargerðir frá fundum leikskólastjóra og sérkennslufulltrúa
Lögð fram fundargerð leikskólastjóra og sérkennslufulltrúa frá 19. október 2010.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 20:30
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Ragnheiður Guðmundsdóttir
Grímur Arnarson
Arna Ír Gunnarsdóttir
Andrés Rúnar Ingason
Guðrún Thorsteinsson
Guðbjartur Ólason
Kristjana Hallgrímsdóttir
Linda Rut Ragnarsdóttir
Guðbjörg Helga Guðmundsdóttir
Helga Geirmundsdóttir Sigurður Bjarnason
Stefanía Geirsdóttir