21. fundur lista- og menningarnefndar
21. fundur lista- og menningarnefndar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn þriðjudaginn 21. apríl 2009 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:00
Mætt:Andrés Rúnar Ingason, formaður, V-lista (V)
Ingveldur Guðjónsdóttir, nefndarmaður B-lista (B)
Kjartan Björnsson, nefndarmaður D-lista (D)
Andrés Sigurvinsson, verkefnisstjóri íþrótta-, forvarna- og menningarmála
Kjartan Björnsson, vék af fundi meðan umræða um styrkveitingu til Karlakórsins fór fram í máli no:0902062 og tók síðan sæti aftur að niðurstöðu lokinni.
Dagskrá:
- 1. 0902064 - Menningarhátíðin Vor í Árborg 2009 Verkefnisstjóri gerði grein fyrir stöðu mála. Fram kom að fjöldi manns hafa sent inn tillögur/hugmyndir og beiðnir um að koma og/eða taka þátt í dagskrágerð á Vorinu dagana 21.- 24. maí nk. Á næstu dögum verður hafist handa við að vinna fyrstu drög að dagskrá og ræða við hlutaðeigendur. Dagskráin verður með svipuðu sniði og í fyrra, líf og fjör í hverjum byggðarkjarna. Gaman saman- fjölskylduleikurinn verður á sínum stað.Hátíðin verður sett kl. 14:00 fyrir framan Ráðhús Árborgar. Á sama tíma hefjast 100 ára afmælishátíðarhöld Bókasafns Árborgar. Sérstakt blað með dagskrá verður prentað og borið inn á hvert heimili. Sömuleiðis verða allar upplýsingar setta jafnóðum á heimsíðu - www.arborg.is Flest dagskráratriðin verða ókeypis en þó mun verða selt inn á einstaka atburði til að hafa upp í kostnað. Rætt var um möguleika á að gera sérstakan samstarfssamning við einkaaðila um utanumhald, kynningu, sölu og skipulag. Hámarksgjaldtaka yrði ákveðin og frítt yrði inn á atburði sem ætlaðir væru börnum 16 ára og yngri. Á móti fengi einkaaðilinn alla innkomu aðgangseyris. Verkefnisstjóri minnti á mikilvægi þess m.t.t. kynningar og markaðssetningar á svæðinu, að Árborg verður gestasveitarfélag á menningarnótt í Reykjavík 22.ágúst og væri tilvalið að prufukeyra atriði hér heima á Vorinu. LMÁ lýsti ánægju sinni á að náðst hafi samstarf við Listahátíð í Reykjavík 2009 með tónlistaratriði sem verða í Húsinu Eyrarbakka á Vorinu og þakkar upplýsingarnar. Hvetur íbúa til fjölmenna á atburði.
- 2. 0902062 - Menningarstyrkir LMÁ - úthlutun 2009 Alls sóttu 16 einstaklingar og/eða félagasamtök um styrkveitingu að upphæð kr. 3 milljónir og einn tilgreindi ekki fjárhæð. Aðeins verður úthlutað einu sinni árið 2009 og er kr. 1 milljón til úthlutunar. Allir umsækjendur hlutu styrki og eru þeir eftirfarandi: Gunnar G.Gunnarsson, til myndlistarsýningar kr. 50.0000, Leikfélag Selfoss, kr. 150.000, Inga Hlöðvers, vegna myndlistarsýningar kr. 50.000 , Guðmundur Karl Sigurdórsson, verkefni Myndir ársins kr. 50.000, Guðmundur Brynjólfsson, Bakkinn og bókmenntir kr. 60.000,Unglinga- og eldri kór Selfosskirkju kr. 50.000, Yngri barnakór Selfosskirkju kr. 50.000, Karlakór Selfoss kr. 100.000, Benny Crespo´s Gang tónleikar kr. 80.000, Ferjustaður - Alda Sigurðardóttir kr. 50.000, Hrútavinafélagið Örvar, kaup á líkani kr. 40.000, Hörpukórinn kr. 100.000, Jón Ingi Sigurmundsson vegna myndlistarsýningar 40.000, Vigdís Sigurðardóttir vegna ljósmyndasýningar kr. 40.000,Regína Guðjónsdóttir, vegna málverkasýningar kr. 40.000 og Kammerkór Suðurlands vegna tónleika kr. 50.000. Samþykkt samhljóða
- 3. 0901089 - Ferðamenn í Árborg 2003 -2008 LMÁ finnst þetta tilboð um heildarsamantekt áhugavert og felur verkefnisstjóra að kanna hvort þessar upplýsingar og/ eða sambærilegar liggi ef til vill þegar fyrir hjá ferðamannasamtökum hér á svæðinu. Jafnframt upplýsti verkefnisstjóri að sögukort, sem Rögnvaldur Guðmundsson, frá rannsókn og ráðgjöf ferðaþjónustunnar tók að sér að vinna fyrir S.Á. fyrir margt löngu verður afhent í júní n.k. LMÁ þakkar upplýsingarnar.
- 4. 0904164 - Menningarviðurkenning Árborgar 2009 LMÁ ræddi nokkra möguleika um útnefningar menningarviðurkenningar og komst að sameiginlegri niðurstöðu fyrir árið 2009. Afhending menningarviðurkenningarinnar verður á Vori í Árborg. Eðli málsins samkvæmt er útnefning viðurkenningar enn trúnaðarmál. Jafnframt leggur LMÁ til við bæjarstjórn að á næstu fjárhagsáætlun verði gert ráð fyrir sérstökum starfslaunum til bæjarlistamanns Árborgar eftir fyrirmynd annarra sambærilegra sveitarfélaga og yrði auglýst eftir umsóknum og tilkynnt fyrst á Vori í Árborg 2010. Samhliða yrði afhending sérstakrar menningarviðurkenningar í þeirri mynd sem nú er lögð af. Samþykkt samhljóða.
Erindi til kynningar:
- 5. 0903118 - Lionsþing á Selfossi 22.og 23. maí 2009 LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar að fá allt að 250 Lionsmenn og gesti í heimsókn á einum bretti og býður þá hjartanlega velkomna. Samtök verslunar og þjónustu í Árborg og íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að kynna fyrirtæki sín og vörur, bjóða upp á uppákomur og sértök kjör þessa heimsóknardaga en þeir eru sömu og menningarhátíðin Vor í Árborg stendur yfir.
- 6. 0810097 - Opnun endurbættrar heimasíðu - kynningarmyndbönd - Mín Árborg - aðrar stofnanir Á síðast liðnu ári hefur staðið yfir vinna að nýrri og endurbættri heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar. Hönnuðir á vegum Hvítahússins í Reykjavík ásamt verkefnisstjóra hafa undirbúið og unnið að þessum málum í samráði við bæjarstjóra, bæjarritara og aðra hlutaðeigandi starfsmenn sveitarfélagsins. Einnig verða þrjú kynningarmyndbönd um Sveitarfélagið Árborg frumsýnd og kynnt á opnuninni, og verða þau hluti af síðunni og aðgengileg öllum sem inn á hana koma. Þau voru framleidd af Prófilm ehf. Árborg er fyrst sveitarfélaga að nota slík kynningarmyndbönd. Með þessari framsetningu verður öll kynning og markaðssetning á S.Á. aðgengilegri og markvissari. Sérstakur gluggi er fyrir myndböndin sem opnar um leið möguleika á að sýna þar beint í gegn um heimasíðuna frá bæjarstjórnarfundum. Þegar hefur verið greitt fyrir tvö önnur myndbönd og verður fuglafriðlandið í Flóagaflsmýrinni sett í vinnsluferli á sumri komandi. Mín Árborg, sem er einnig hluti af þessum breytingum en það er sérstakur íbúagáttarvefur á heimasíðunni. Er enn í vinnslu. verður opnaður seinni partinn í sumar. Þar geta íbúar í framtíðinni m.a. annars sótt um niðurgreiðslur/hvatagreiðslur vegna íþrótta- og tómstundaiðkana, leikskólapláss, skráð í mötuneyti ofl. Formleg opnun á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar verður 27. apríl nk. og eru allir velkomni til þeirra athafnar, sem verður í Pakkhúsinu/ Ungmennahúsi Árborgar. Sömuleiðis er búið að útlits hanna og skipuleggja og greiða fyrir sérstakar heimssíður fyrir alla leikskóla Árborgar. Einnig er búið að útlits hanna og forvinna heimasíður fyrir Bókasafn Árborgar -og Upplýsingamiðstöðina, félagsmiðstöðina Zelsíus og Pakkhúsið. Bókasafnið og Upplýsingamiðstöðin stefna á að opna sínar heimasíður í upphafi afmælishátíðar í maí nk. LMÁ fagnar þessu metnaðarfulla framtaki og hvetur sem flesta til að mæta við opnunarathöfnina á heimasíðu SV.Árborgar.
- 7. 0902096 - Styrkjaumsóknir - úthlutun Menningarráðs Suðurlands 2009 Sveitarfélagið og ýmsar stofnanir þess sendu inn á annan tug umsókna og höfum við fengið fregnir af að okkur verði úthlutað kr. 1.450 þús í allt, þar af eru kr. 750 þúsund í verkefni sem sótt var um fh. Lista- og menningarnefndar. Nokkrum var og hafnað. Úthlutun fer fram í Vestmanneyjum þann 7. maí nk.kl. 17:00 og verður þá tilkynnt opinberlega hvaða verkefni hlutu styrki. Verkefnisstjóri upplýsti og að bréf um skiptingu styrkveitinga sbr. 16.mál no.0809049 frá 18. fundi LMÁ verði sent formanni Menningarráðs Suðurlands næstu daga. LMÁ þakkar upplýsingarnar
- 8. 0903053 - Samstarf Ísl. Dansflokksins og Sv. Árborgar, fræðsla - kennsla - kynning Verkefnisstjóri gerði grein fyrir stöðu málsins. M.a. kom fram að í næstu viku verður fundað með skólastjórnendum og aðilum sem að málinu koma. LMÁ þakkar upplýsingarnar og öllum sem komið hafa að framkvæmd þessarar hugmyndar og hvetur hlutaðeigandi aðila til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að festa þetta samstarf í sessi. Hvetur íbúa til að fjölmenna á sýninguna á Vori í Árborg.
- 9. 0903158 - Menningarhátíðir í Sveitarfélaginu Árborg 2009 Verkefnistjóri upplýsti jafnframt að nú væri búið að gera skriflega þjónustusamninga við flest félagasamtök vegna aðkomu þeirra að hátíðarhöldum og viðburðum sveitarfélagsins. Þar eru réttindi og skyldur hvors aðila skilgreindar, m.a. kemur fram í hvað fjárstyrkir sem sveitarfélagið reiðir fram eru notaðir. LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar fjölbreytni og mikilli grósku í þessum málum.
- 10. 0903085 - Ráðstefna - Menningarlandið maí 2009 LMÁ þakkar upplýsingarnar og leggur áherslu á að S.Á. sendi fulltrúa á þessari ráðstefnu sem verður á Stykkishólmi í maí. Þar verða m.a. menningarsamningar þeir sem menntamálaráðuneytið hefur gert við samtök innan sjö sveitarfélaga ræddir og framtíð og framlenging þeirra.
- 11. 0902008 - Málþing - Almenningsfræðsla á Íslandi. Verkefnisstjóri greindi frá að vegna ófyrirsjáanlegar ástæðna hefði orðið að fresta fyrirhuguðu málþingi um Alþýðufræðslu á Íslandi, sem halda átti nú í vor til haustsins. En eins og menn muna er málþing þetta haldið að frumkvæði S.Á í samstarfi við HÍ og KÍ og styrkt af Menningarráði Suðurlands og fl. Undirbúningur þess er langt á veg kominn. LMÁ þakkar upplýsingarnar.
- 12. 0903234 - Ráðstefna um Pál Lýðsson bóndann, félagsmálamanninn og fræðimanninn LMÁ fagnar þessu framtaki Fræðslunets Suðurlands og hvetur íbúa til að fjölmenna 2. maí í salarkynni FSu kl. 14:00 - 17:00. Margir frábærir fyrirlesarar og gestir taka þátt í ráðstefnunni, m.a. rifja þeir Guðni Ágústsson fv. ráðherra og forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson upp kynni sín af Páli.
- 13. 0903090 - Göngustígar og aðgengi við Kríuna Siggeir Ingólfsson verkstjóri umhverfisdeildar og skrúðgarðyrkjufræðingur hefur skilað inn tillögum um göngustíga og aðgengi að Kríunni, listaverki Sigurjóns Ólafssonar, sem Alþýðusamband Íslands gaf Eyrarbakkahreppi til heiðurs Ragnari Jónssyni frá Mundakoti vegna hinnar miklu listaverkagjafar hans til Listasafns alþýðu á sínum tíma. LMÁ þakkar upplýsingarnar.
- 14. 0903068 - Keppnislið Árborgar í Útsvari LMÁ tekur undir orð bæjarstjórnar og óskar hinu sigursæla keppnisliði hjartanlega til hamingju með frábæran árangur.
- 15. 0903048 - Drepstokkur 2009 Verkefnisstjóri gerði grein fyrir málinu. Þar kom m.a. fram að ávörp voru flutt af fulltrúum ungmenna, menningarfulltrúa Suðurlands og bæjarstjóra sem jafnframt setti hátíðina. Menningarráð Suðurlands styrkti þessa hátíð myndarlega og tókst hún í alla staði mjög vel og var öllum aðstandendum til sóma. Leiðinlegt var að upplifa hversu fáir voru mættir við setningu en aðsókn jókst jafnt og þétt og var góð í það heila. Bæjaryfirvöldum var sérstaklega þakkað af ungmennunum, að hafa ekki slegið Ungmennahúsið af á þessum þrengingartímum. Sérstakar þakkir eiga skyldar Magnús Matthíasson fv. verkefnisstjóri og þeir Vignir Egill Vigfússon, starfandi umsjónarmaður og Bragi Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi sem héldu undirbjuggu og héldu utan um fjölbreytta dagskrá. LMÁ þakkar upplýsingarnar og jafnframt öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd á Drepstokk, menningarhátíð ungafólksins á Suðurlandi.
- 16. 0904081 - Samráðsvettvangur í menningar-, verslunar- og ferðamálum LMÁ lýsir yfir ánægju sinni með þessa sameiginlegu samþykkt allrar bæjarstjórnar og telur hana muni styrkja og treysta öll samskipti félaga og samtaka til muna. Gerir að tillögu sinni að verkefnisstjóra verði gert að vera fulltrúa Sv. Árborgar á þessu samráðsvettvangi.
- 17. 0809163 - Ölfusársetur Verkefnisstjóri upplýsti um stöðu mála. LMÁ þakkar upplýsingarnar og fagnar að von sé á styrk frá menningarráði Suðurlands sem notaður verð til að halda málþing um hugmyndina og kalla sem flesta að til að ræða og kynna hugmyndina enn frekar og felur verkefnisstjóra og forstöðumanni Bókasafns Árborgar að vinna málið áfram.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:10
Andrés Rúnar Ingason Ingveldur Guðjónsdóttir Kjartan Björnsson Andrés Sigurvinsson