41. fundur bæjarstjórnar
41. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010, haldinn mánudaginn 22. desember 2008 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.
Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Jón Hjartarson, forseti, V listi,
Þorvaldur Guðmundsson, B listi,
Helgi S. Haraldsson, B listi,
Ragnheiður Hergeirsdóttir S listi,
Gylfi Þorkelsson S listi,
Eyþór Arnalds D listi,
Þórunn Jóna Hauksdóttir, D listi,
Elfa Dögg Þórðardóttir, D listi
Grímur Arnarson, D-lista
Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari, sem ritar fundargerð.
Forseti bæjarstjórnar setti fundinn og leitaði afbrigða til að taka á dagskrá beiðni Sýslumannsins á Selfossi um lengingu á opnunartíma 800 bars yfir hátíðarnar.
Var það samþykkt samhljóða.
Einnig leitaði forseti bæjarstjórnar afbrigða að taka á dagskrá kauptilboð V.I.P. Drífandi ehf í eignina Austurveg 28
Var það samþykkt samhljóða.
Dagskrá:
I. Fundargerðir til kynningar:
•1.
a) 0801043
Fundargerð lista- og menningarnefndar frá 4.nóv. 2008
•2.
b) 117. fundur bæjarráðs 0801020 frá 13.nóv. 2008
•3.
a) 0801021
Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 13.nóv.2008
b)0801034
Fundargerð félagsmálanefndar frá 22.okt. 2008
frá 31.okt. 2008
frá 4.nóv. 2008
c) 0801114
Fundargerð atvinnuþróunarnefndar Árborgar frá 12.nóv. 2008
frá 17.nóv. 2008
d) 118. fundur bæjarráðs 0801020 frá 27.nóv. 2008
•4. a) 0801047
Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar frá 26.nóv. 2008
b) 0801021
Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 27.nóv. 2008
c) 119.fundur bæjarráðs 0801020 frá 4.des. 2008
•5. a) 0801114
Fundargerð atvinnuþróunarnefndar Árborgar frá 2.des. 2008
b) 0801039
Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 4. des. 2008
c) 0801043
Fundargerð lista- og menningarnefndar frá 4.des. 2008
d) 120.fundur bæjarráðs 0801020 frá 11.des 2008
•6.
a) 0801034
Fundargerð félagsmálanefndar frá 8.des.2008
b) 0801021
Fundargerð skipulags- og byggingarfulltrúa frá 11.des. 2008
c) 0801026
Fundargerð skólanefndar grunnskóla frá 11. des. 2008
d) 121.fundur bæjarráðs 0801020 frá 18. des. 2008
-liður 1a, fundargerð lista- og menningarnefndar, 5. liður, 0709111, skýrsla RHA um húsnæði og menningarstarfsemi í Árborg, Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun bæjarfulltrúa D-lista:
Bæjarfulltrúar taka undir bókun Björns Inga Bjarnasonar, D-lista, og ítreka þá skoðun sína að leggja beri kapp á að koma menningarsalnum í Hótel Selfoss í gagnið.
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Undirrituð hvetur sveitarfélagið sérstaklega til að gera andlitslyftingu á miðbæjarkjörnunum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Slíkt myndi skila sér út í samfélagið og auka hróður þessara bæjarkjarna enn frekar.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls og óskaði eftir að bókað yrði:
Áhugavert væri að tillögur kæmu frá minnihluta D-lista um með hvaða hætti menningarsalur yrði tekinn í gagnið og að fram kæmi tillaga að fjármögnun.
-liður 4b, fundargerð skipulags- og byggingarnefndar, 8. liður, 0805007, fyrirspurn um viðbyggingu við flugskýli á Selfossflugvelli, Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Í því árferði sem nú er ætti að heimila slíkar umsóknir þar sem litlar líkur eru á niðurrifi húsa næstu misserin. Í slíkri heimild mætti einnig setja fram fyrirvara um niðurrif vegna gildandi deiliskipulags.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls.
-liður 3d, Þórunn Jóna Hauksdóttir tók til máls um 5. lið, 0811055, bréf Meistarafélags Suðurlands um stöðu byggingariðnaðarins, og lagði fram svohljóðandi bókun frá fulltrúum D-lista:
Bæjarfulltrúar D-lista minna á mikilvægi þess að halda uppi atvinnu og telja affarsælt að sveitarfélagið setji fjármuni til aðstoðar atvinnulífinu í kreppuástandi. Fjármunir þessir nýtast ekki síður en þeir sem fara í aðstoð við þá sem missa atvinnu. Tillaga þessa efnis verður lögð fram við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar, síðar á fundinum.
-liður 5d, Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls um lið 8, almenningssamgöngur Selfoss-Reykjavík, mál nr. 0808032.
Þorvaldur Guðmundsson, B-lista, tók til máls.
-liður 5d) Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls og óskaði eftir að bókað yrði:
Verulega má bæta upplýsingagjöf í fundargerðum lista og menningarnefndar og vill undirrituð því hvetja nefndarmenn til að setja saman bókanir sem gefa nánari mynd af erindum auk þess sem efni erindanna sjálfra mætti vera gerð frekari skil.
-liður 5a) Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, tók til máls.
Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði og staðfestar samhljóða.
•II. Önnur mál
•a) 0812149
Beiðni Sýslumannsins á Selfossi um umsögn um beiðni eigenda 800 bar um lengdan opnunartíma 800 bars yfir hátíðarnar.
Bæjarstjórn samþykkir að skemmtistaðurinn verði opinn aðfaranótt 27. desember n.k. til kl. 04:00 og aðfaranótt 1. janúar n.k. til 05:00.
•b) 0812162
Kauptilboð í Austurveg 28
Lagt var fram kauptilboð sem ríkiskaupum hefur borist í Austurveg 28, Selfossi, frá VIP Drífanda ehf. Sveitarfélagið Árborg er meðeigandi að eigninni.
Lagt var til að erindinu yrði vísað til afgreiðslu í bæjarráði.
Var það samþykkt samhljóða.
•c) 0812134
Tillaga um breytingar á samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Árborgar, fyrri umræða.
Drög að samþykktum voru lögð fram.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista tók til máls og lagði fram tillögu um að kjörnir fulltrúar í lista- og menningarnefnd og íþrótta- og tómstundanefnd verði þrír, og þrír til vara og að skóla- og leikskólanefnd heiti fræðslunefnd.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tóku til máls.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi breytingatillögu:
1. Bæjarfulltrúum verði fækkað úr 9 í 7 og 1. gr. hljóði svo:
Stjórn Sveitarfélagsins Árborgar nefnist bæjarstjórn og er skipuð 7 bæjarfulltrúum kjörnum skv. lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, sbr. 8. og 12. gr. Sveitarstjórnalaga nr. 45/1998.
2. Vegna upplýsingaöflunar og starfa nefnda muni 52. gr. hljóða svo:
Nefndarfundir skulu haldnir fyrir luktum dyrum. Nefnd getur kvatt á sinn fund einstaka starfsmenn sveitarfélagsins. Ennfremur getur nefnd boðið aðila að koma á sinn fund til viðræðna um tiltekin mál.
3. Vegna bæjarstjóra sem er jafnframt bæjarfulltrúi muni 59. gr. hljóða svo:
Bæjarstjórn ræður bæjarstjóra. Gera skal skriflegan ráðningarsamning við hann þar sem m.a. skal kveðið á um ráðningartíma, kaup og kjör. Ráðningarsamningur skal staðfestur af bæjarráði. Nú gegnir bæjarfulltrúi starfi bæjarstjóra og skulu þá bæjarstjóralaunin standa óskert en bæjafulltrúalaunin falla niður.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, og Eyþór Arnalds, D-lista, tóku til máls.
Jón Hjartarson, V-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Tillaga fulltrúa D-listans um fækkun bæjarfulltrúa úr 9 í 7 miðar að því, fyrst og síðast, að skerða lýðræðislega umræðu á vettvangi stjórnsýslunnar og tryggja eigin völd og hefur þar af leiðandi ekkert með sparnað að gera.
Eyþór Arnalds, D-lista, Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, tók til máls. Óskaði hún eftir að gert yrði fundarhlé.
Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi bókun:
Fækkun fulltrúa úr 9 í 7 er eðlileg þar sem slíkt er heimilt samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Fulltrúa V lista skal bent á að fækkun um tvo myndi hafa áhrif til jafns á alla flokka eðli máls samkvæmt. Með þessari breytingu væri verið að spara á sviði kjörinna fulltrúa líkt og annars staðar.
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, og Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tóku til máls.
Lagt var til að tillögu um breytingu á samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins verði vísað til síðari umræðu.
Var það samþykkt samhljóða.
•d) 0812135
Tillaga um innkaupastefnu
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
•e) 0812124
Tillaga um innkaupareglur
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, fylgdi tillögunni úr hlaði.
Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls.
Reglurnar voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.
•f) 0812137
Tillaga um breytingu á gjaldskrá sorphirðu, fyrri umræða
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, fylgdi tillögunni úr hlaði.
Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls.
Lagt var til að tillögunni yrði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn, var það samþykkt samhljóða.
•g) 0812132
Tillaga að reglum um styrki til greiðslu fasteignaskatts
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, fylgdi tillögunni úr hlaði.
Reglurnar voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.
•h) 0810126
Fjárhagsáætlun 2009, fyrri umræða
Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista tók til máls og lagði fram svohljóðandi
Greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir árið 2009
I. Inngangur
Fjárhagsáætlun ársins 2009 er unnin við óvenjulegar aðstæður og mikla óvissu um þróun efnahagsmála. Til að laga þjónustu og rekstur sveitarfélaga að breyttum veruleika þá þarf að yfirfara alla þætti rekstrar og draga úr rekstrarkostnaði vegna verkefna sveitarfélaga til framtíðar. Mörg sveitarfélög munu þurfa að hækka álögur á íbúa, a.m.k. tímabundið, og gera má ráð fyrir að framkvæmdir á vegum sveitarfélaga í landinu dragist verulega saman á næstu misserum. Við þessar aðstæður er nú lagt fram frumvarp að fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2009.
II. Undirbúningur og forsendur fjárhagsáætlunar 2009
Í upphafi ársins 2008 hafði verið gert ráð fyrir að vinna við rammafjárhagsáætlun Árborgar vegna 2009 hæfist í byrjun sumars. Suðurlandsskjálftinn þann 29. maí s.l. setti strik í reikninginn og fóru flestar vinnustundir stjórnenda hjá sveitarfélaginu s.l. sumar í úrvinnslu mála sem upp komu í kjölfar náttúruhamfaranna. Undirbúningur að gerð fjárhagsáætlunar hófst því ekki fyrr en í ágúst s.l. og var hann nokkuð á veg kominn þegar fjármálakreppan skall á í byrjun október. Í kjölfar þess voru spilin stokkuð upp á nýtt. Bæjarstjórn samþykkti eftirfarandi megináherslur til að styðjast við í þeim aðstæðum sem komnar voru upp.
Yfirlýsing bæjarstjórnar Árborgar frá 8. október 2008 vegna stöðu efnahags- og fjármála í landinu:
"Á þeim erfiðu tímum sem nú eru vegna alvarlegrar stöðu í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar og vegna þeirra áhrifa sem það hefur á atvinnulíf og lífskjör í landinu þá er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að sveitarfélög og ríki standi vörð um samfélagsleg gildi, atvinnuvegi og velferð íbúanna. Sveitarfélögin eru stærsti vinnuveitandi landsins á eftir ríkinu og bera uppi stóran hluta velferðarþjónustu hins opinbera og því er nauðsynlegt að rekstur þeirra verði tryggður við þessar aðstæður.
Bæjarstjórn Árborgar mun standa vörð um velferð og réttlæti og leggja áherslu á að grunnþjónusta við íbúana skerðist ekki. Leitað verður allra leiða til að komast hjá hækkun þjónustugjalda vegna velferðarþjónustu. Strax verður leitað leiða til að draga úr rekstrarkostnaði og ekki verður um nýráðningar að ræða hjá sveitarfélaginu nema í undantekningartilvikum og til að veita grunnþjónustu. Vegna mikils óvissuástands í efnahagsmálum hefur verið hægt á framkvæmdum og ekki verður hjá því komist að endurskoða framkvæmdaáætlanir sveitarfélagsins í ljósi breyttra aðstæðna. Leitað verður allra leiða til að sveitarfélagið geti staðið fyrir þeirri uppbyggingu og viðhaldi eigna og umhverfis sem nauðsynleg er til að halda megi úti lögbundinni þjónustu.
Þegar er hafin vinna á vegum sveitarfélagsins vegna þessara aðstæðna og verður upplýsingar lagðar fyrir bæjarráð jafnóðum.
Nauðsynlegt er að aðilar s.s. sveitarfélög, ríkið, fulltrúar launþega og atvinnurekenda leggi sig fram um að halda atvinnulífinu gangandi og mun Sveitarfélagið Árborg leggja sitt af mörkum í slíkri vinnu.
Bæjarstjórn Árborgar lítur á það sem eitt af brýnustu verkefnum sínum næstu misserin að standa vörð um góða velferðar- og félagsþjónustu svo samfélagið beri sem minnstan skaða af þeim áföllum sem nú ríða yfir."
Í þessum anda voru síðan forsendur fjárhagsáætlunar 2009 samþykktar í bæjarráði þann 6. nóvember s.l. með svohljóðandi bókun:
Forsendur þessar eru lagðar fram miðað við stöðuna í dag en vegna mikillar óvissu um þróun efnahagsmála á næstu vikum og mánuðum má gera ráð fyrir að endurskoða þurfi fjárhagsáætlunina á fyrri hluta næsta árs. Auk þess gæti komið til þess að taka þurfi upp forsendur síðar í áætlanagerðinni en afar erfitt er að áætla þessa dagana um væntanlegar tekjur og gjöld sveitarfélagsins.´
Á bæjarstjórnarfundi þann 12. nóvember s.l. var eftirfarandi samþykkt samhljóða um vinnu við gerð frumvarps að sameiginlegri fjárhagsáætlun fyrir árið 2009:
"Það alvarlega ástand sem nú er í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar hefur bein áhrif á rekstrarhorfur sveitarfélaga í landinu og er Sveitarfélagið Árborg þar ekki undanskilið. Þessi staða krefst þess að sveitarstjórnafólk hvar í flokki sem það stendur snúi bökum saman við að leiða sveitarfélög sín í gegnum þá erfiðleika sem við blasa. Fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn Árborgar samþykkja að við gerð fjárhagsáætlunar vegna ársins 2009 muni oddvitar flokkanna fjögurra mynda samstarfshóp sem hafi það hlutverk að vinna frumvarp að sameiginlegri fjárhagsáætlun meirihluta og minnihluta fyrir árið 2009."
Oddvitar flokkanna áttu nokkra fundi og samráð um gerð frumvarpsins sem hér er lagt fram. Meðal þess sem samþykkt var af öllum fulltrúum er tímabundin lækkun launa bæjarfulltrúa og bæjarstjóra um 15 % og nefndafólks um 10 %, auk breytinga á fjölda og stærð nefnda.
Ekki náðist samstaða milli meirihluta og minnihluta um endanlegt frumvarp og er það því lagt fram af bæjarfulltrúum meirihlutans.
Meirihluti bæjarstjórnar leggur fram breytingatillögu á áður samþykktum forsendum fjárhagsáætlunar frá 6. nóvember s.l. og telur það nauðsynlegt til að unnt sé að leggja fram áætlun með ásættanlegri niðurstöðu. Breytingin varðar hækkun á útsvarsprósentu, hækkun álagningarhlutfalls á fasteignaskatti og hækkun sorphirðugjalda. Í yfirlýsingu bæjarstjórnar frá 8. október s.l. er áhersla lögð á að standa vörð um góða velferðar- og félagsþjónustu svo samfélagið beri sem minnstan skaða af þeim áföllum sem nú ríða yfir. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að forðast í lengstu lög hækkanir þjónustugjalda vegna velferðarþjónustu. Þá telur meirihlutinn mikilvægt að sveitarfélagið reyni að skapa þær aðstæður að íbúar þurfi ekki að flytjast úr sveitarfélaginu til að stunda nám og atvinnu en sem kunnugt er ekur stór hópur fólks frá Selfossi til höfuðborgarsvæðisins oft í viku í þeim tilgangi. Sveitarfélagið hafði tekist á hendur skuldbindingar um einkaleyfi á almenningssamgöngum milli Reykjavíkur og Selfoss í þeim tilgangi að fjölga ferðum og lækka fargjaldakostnað íbúanna. Frá og með næstu áramótum munu íbúar Árborgar eiga þess kost að ferðast á mun ódýrari máta auk þess sem tíðni ferða mun stóraukast. Ekki er horfið frá þessum áformum þrátt fyrir stórtækar hagræðingaraðgerðir á öllum sviðum, enda telur meirihluti bæjarstjórnar verkefnið til þess fallið að bæta hag fjölskyldna í sveitarfélaginu á þessum erfiðu tímum.
Útgjöld sveitarfélagsins munu aukast á árinu vegna verðbólgu og íbúafjölgunar. Í frumvarpi að fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir rúmlega 126 millj.kr. lækkun frá fyrra ári á öðrum rekstrarkostnaði. Þetta jafngildir 17 % niðurskurði sé horft til verðbólguþróunar, en gert er ráð fyrir verðlagsbreytingum milli ára um 10 % vegna verðbólgu. Víðtækar aðhaldsaðgerðir eru nauðsynlegar í launum og starfsmannatengdum kostnaði og í framlögðu frumvarpi er gert ráð fyrir að þær skili um 60 millj.kr. lækkun á árinu 2009 frá því sem annars hafði verið áætlað. Meðal þess sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er tímabundin frestun á ráðningu framkvæmdastjóra Fjármála- og stjórnsýslusviðs en staðan hefur verið ómönnuð síðan 1. október s.l. og starfsmannastjóra en sú staða verður ómönnuð frá áramótum. Unnið verður að nánari útfærslu á hagræðingarkröfu frumvarpsins fram að síðari umræðu en eftir er að skipta um 40 millj.kr. niður á grunn- og leikskóla vegna ársins 2009. Áhrifa af aðgerðum til hagræðingar mun ekki gæta að fullu fyrr en á árinu 2010 vegna þess að taka mun nokkurn tíma að koma í framkvæmd sumum liðum í skipulagsbreytingum. Þrátt fyrir þessa lækkun þá verður ekki hjá því komist a