42. fundur félagsmálanefndar
42. fundur félagsmálanefndar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn mánudaginn 8. febrúar 2010 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15
Mætt:
Þorgrímur Óli Sigurðsson, formaður, B-lista,
Katrín Ósk Þorgeirsdóttir, varamaður S-lista,
Sædís Ósk Harðardóttir, nefndarmaður V-lista,
Guðmundur B. Gylfason, nefndarmaður D-lista,
Bjarnheiður Ástgeirsdóttir, nefndarmaður D-lista,
Anný Ingimarsdóttir, verkefnisstjóri félagslegrar ráðgjafar,
Þórunn Elva Bjarkadóttir (s) boðaði forföll, varamaður kom inn fyrir hana. Anný Ingimarsdóttir, verkefnisstjóri ritaði fundagerð.
Dagskrá:
1. 0911149 - Yfirfærsla málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga
Rætt var um málefnið. Í kjölfar þess bókar Félagsmálanefnd Árborgar eftirfarandi um greinargerð um tilfærslu málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og myndun þjónustusvæða á suðurlandi:
Á fundi bæjarráðs þann 29. janúar 2010 var óskað eftir umfjöllun félagsmálanefndar Árborgar um greinargerð framkvæmdastjóra Fjölskyldumiðstöðvar Árborgar um tilfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og myndun þjónustusvæða á Suðurlandi.
Höfundar greinargerðarinnar, framkvæmdastjóri og tveir verkefnisstjórar Fjölskyldumiðstöðvarinnar, eru valinkunnir, vandaðir, vel menntaðir og hafa mikla reynslu af málefnum er varða almenna félagsþjónustu.
Greinargerðin er ítarleg. Rakinn er undirbúningur verkefnisins og greint frá tilgangi þjónustusvæða, þjónustuforma og markmiði verkefnisins.
Í greinargerðinni er lýst fimm leiðum til myndunar þjónustusvæða á Suðurlandi, kostum þeirra og göllum.
Fulltrúar félagsmálanefndar hafa farið yfir greinargerðina af gaumgæfni og metið þá fimm kosti sem þar eru settir fram. Niðurstaða nefndarmanna er að mæla með leið 1 sem gerir ráð fyrir myndun þjónustusvæðis sem nái til Sveitarfélagsins Árborgar, Sveitarfélagsins Ölfuss, Hveragerðisbæjar og Flóahrepps. Árborg yrði leiðandi sveitarfélag. Samið verði við félagsþjónustu Ölfuss og Hveragerðis um afmörkuð verkefni og Flóahreppi boðið að kaupa almenna félagsþjónustu af Árborg. Mat nefndarinnar er að þessi leið sé mjög skilvirk og uppfylli best markmið um tilfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Tekið er undir rök greinarhöfunda um kosti þessa forms sem eru: Heildstæð þjónusta á einni hendi, auðvelt að samþætta velferðarþjónustu, mikil fagþekking, skýr ábyrgð á framkvæmd þjónustu, allir íbúar njóta sömu þjónustu, innri jöfnunaraðgerðir óþarfar, fjárhagslegt hagræði, betri nýting fjár fyrir þjónustuþega og sveitarfélag, sjálfstjórn sveitarfélaga og möguleiki til myndunar annars fjölmenns þjónustusvæðis á Suðurlandi. Um nánari útfærslu þessara þátta vísast í liði 1.1., til 1.8., í IV kafla greinargerðarinnar.
Afar mikilvægt er að halda til haga faglegri og öflugri félagsþjónustu Árborgar og tryggja fötluðum íbúum sveitarfélagsins þá bestu þjónustu sem mögulegt er. Félagsmálanefnd ítrekar að það verði best gert með því að velja ofangreinda leið.
Hratt flýgur stund. Hafa skal það í huga við afgreiðslu þessa máls. Tímarammi verkefnisins er mjög knappur og ríður á að vinna hratt í framgangi málsins. Félagsmálanefnd óskar bæjarfulltrúum heilla og góðs gengis við afgreiðslu þessa mikilvæga málaflokks og vonast til að full samstaða náist um þjónustuform sem best hentar þeim fötluðu einstaklingum sem þurfa á þjónustu að halda. Í því liggur styrkleikinn.
Félagsmálanefnd Árborgar
Bjarnheiður Ástgeirsdóttir
Guðmundur Björgvin Gylfason
Katrín Ósk Þorgeirsdóttir
Sædís Ósk Harðardóttir
Þorgrímur Óli Sigurðsson, formaður
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:00
Þorgrímur Óli Sigurðsson
Katrín Ósk Þorgeirsdóttir
Sædís Ósk Harðardóttir
Guðmundur B. Gylfason
Bjarnheiður Ástgeirsdóttir
Anný Ingimarsdóttir