Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


11.2.2009

43. fundur bæjarstjórnar

43. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010, haldinn miðvikudaginn 11. febrúar 2009 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:

Þorvaldur Guðmundsson, forseti, B listi,
Jón Hjartarson, V-listi,
Helgi S. Haraldsson, B listi,
Ragnheiður Hergeirsdóttir S listi,
Gylfi Þorkelsson S listi,
Eyþór Arnalds D listi,
Elfa Dögg Þórðardóttir, D listi
Grímur Arnarson, D-lista
Ari B. Thorarensen, D-listi, varamaður

Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari, sem ritar fundargerð.

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn.

Dagskrá:

•I.       Fundargerðir til staðfestingar:

•1.      a) 0901038
         Fundargerð skólanefndar grunnskóla                             frá   8. jan. 2009
         b) 124. fundur bæjarráðs 0901006                                frá   15.jan. 2009

•2.      a) 0901024
         Fundargerð félagsmálanefndar                                      frá   12. jan. 2009
         b) 0901040
         Fundargerð þjónustuhóps aldraðra                                 frá      7. jan. 2009
         c) 125.fundur bæjarráðs 0901006                                  frá    22. jan. 2009

•3.      a) 0901097
         Fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar                 frá        22. jan. 2009 
         b) 126.fundur bæjarráðs 0901006                              frá        29. jan. 2009

4.      a) 127.fundur bæjarráðs 0901006                              frá          5.feb. 2009

Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

II. Önnur mál:

•a)      0901048

Breyting á fulltrúum V-lista í nefndum.

Lagt var til að Valgeir Bjarnason verði varamaður í atvinnuþróunarnefnd.

Lagt var til að Sigrún Þorsteinsdóttir verði aðalmaður í félagsmálanefnd og Sædís Ósk Harðardóttir varamaður.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

b)   0902029

Tillaga frá B, S og V lista um að opna þjónustumiðstöð á Selfossi fyrir fólk í Árborg sem misst hefur atvinnu og fyrir fólk í atvinnuleit

Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi tillögu:            

Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að opna þjónustumiðstöð og frumkvöðlasmiðju fyrir fólk í Árborg sem misst hefur atvinnu og fyrir fólk í atvinnuleit.

Miðstöðin verði opnuð í framhaldi af Nýsköpunarsmiðju sem sveitarfélagið stendur fyrir í Hótel Selfoss þann 27. febrúar n.k. í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Suðurlands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.  Notað verði, a.m.k. fyrst um sinn, húsnæðið við Austurveg 36 á Selfossi. Bæjarstjóra, framkvæmdastjóra Fjölskyldumiðstöðvar og formanni atvinnumálanefndar Árborgar verði falið að vinna að málinu fyrir hönd sveitarfélagsins í samstarfi við aðra sem málinu tengjast. Kostnaði sem af verkefninu hlýst fyrir sveitarfélagið verði mætt af sérstökum lið sem samþykktur var við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2009.

Greinargerð:

Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi í október s.l. og þeirrar efnahagskreppu sem nú gengur yfir heiminn hefur atvinnuleysi stóraukist og fjárhagsvandi einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja fer hratt vaxandi.  Í Árborg hefur samsetning atvinnulífsins verið með þeim hætti að stórfelldur samdráttur nú í byggingaiðnaði og fasteignaviðskiptum mun hafa mikil áhrif á atvinnuástandið á svæðinu og mikilvægt að brugðist verið við með öllum tiltækum ráðum.  Hlutverk og skyldur sveitarfélaga liggja á sviði almannaþjónustu og hefur bæjarstjórn Árborgar lýst því yfir að hún muni leita allra leiða til að draga sem verða má úr alvarlegum afleiðingum efnahagsástandsins fyrir íbúana. 

Meðal þess sem þörf er á að gera og liggur á verksviði sveitarfélagsins, er að veita persónulegan stuðning og ráðgjöf við fólk sem lendir í erfiðleikum vegna atvinnuleysis og vaxandi skulda og að skapa vettvang fyrir þróun nýrra hugmynda á sviði atvinnumála í sveitarfélaginu. Fjölskyldumiðstöð Árborgar fyrir hönd sveitarfélagsins hefur frá því í október s.l. leitt samstarf ýmissa aðila á svæðinu við ráðgjöf og stuðning vegna þeirra áfalla sem fólk hefur lent í vegna efnahagsástandsins. Sú þjónusta sem þar hefur verið veitt myndi flytjast í þjónustumiðstöðina.  Nýsköpunarsmiðja sem Árborg stendur fyrir í lok febrúar er hugsuð sem vettvangur fyrir fólk sem hefur misst atvinnu, eða er með ótrygga atvinnu, og annað áhugafólk um nýsköpun og umsköpun á eigin atvinnu. Markmiðið með Smiðjunni er að ná fólki saman til þess að skiptast á hugmyndum og skoðunum um nýsköpun og ný atvinnutækifæri. Mikilvægt er fólki verði gert mögulegt að þróa áfram hugmyndir sem fram koma í Smiðjunni og myndi Frumkvöðlasmiðjan verða vettvangur til þess. Atvinnumálanefnd Árborgar hefur að undanförnu í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Suðurlands unnið að hugmyndum um verkefnið "Leið til framtíðar" sem gengur út á það að leita tækifæra fyrir fyrirtæki og fólk sem misst hefur atvinnu sína til að leiða saman krafta sína í þágu nýrra verkefna. Nánari útfærsla og framkvæmd þess verkefnis myndi fara fram í frumkvöðlasmiðjunni. 

Leitað verði samstarfs og samráðs við hinar ýmsu stofnanir og samtök sem veita fólki ráðgjöf og stuðning sem þörf er fyrir við þær aðstæður sem nú eru uppi vegna efnahags- og atvinnuástands. Þegar hefur verið leitað samstarfs við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um að koma hið allra fyrsta á fót Frumkvöðlasetri á Selfossi eins og gert hefur verið víða um land og hefur það fengið mjög góðar undirtektir.

Eyþór Arnalds, D-lista, Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls.

Gert var fundarhlé.

Grímur Arnarson, D-lista, Gylfi Þorkelsson, S-lista, Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista og Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tóku til máls.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með fimm atkvæðum, bæjarfulltrúar D-lista sátu hjá.

Eyþór Arnalds, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði bæjarfulltrúa D-lista:

Æskilegt er að takmarkaðir fjármunir sveitarfélagsins nýtist sem allra best í atvinnuuppbyggingu en óljóst er hver árangur og endanlegur kostnaður verður af þessu verkefni. Þær 5 milljónir sem eru eyrnamerktar atvinnumálum á fjárhagsáætlun 2009 gætu nýst betur í undirbúning verklegra framkvæmda fremur en í þetta verkefni enda takmarkaðir fjármunir. Fulltrúar D-listans leggja áherslu á að fá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarf vegna mögulegs Frumkvöðlaseturs á Selfossi.

•c)      0902030

Tillaga frá B, S og V lista um að gerð verði kostnaðar- og framkvæmdaáætlun vegna endurbyggingar útiklefa við Sundhöll Selfoss vorið 2009

Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi tillögu:

Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að fela Framkvæmda- og veitusviði að gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um endurbyggingu útiklefa við Sundhöll Selfoss vorið 2009. Áætlunin taki mið af því efnahagsástandi sem nú er og þess að bæta þjónustuna við sundlaugargesti eins og verða má miðað við fjárhagslega getu sveitarfélagsins.

Greinargerð:

Fyrirliggjandi áætlanir um byggingu þjónustuhúsnæðis við Sundhöll Selfoss munu ekki geta gengið eftir á næstunni vegna efnahagsástandsins.  Ekki er gert ráð fyrir að þær aðstæður skapist næstu árin að unnt verði að fylgja eftir framtíðaráformum.  Því er hér lagt til að farið verði í mun kostnaðarminni aðgerðir sem þó munu bæta aðstöðuna til mikilla muna og gætu þjónað sundlaugargestum a.m.k. í nokkur ár, þar til hægt verður að ráðast í stærri framkvæmdir.

Grímur Arnarson, D-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista, og Eyþór Arnalds, D-lista, tóku til máls og lagði Eyþór fram svohljóðandi breytingatillögu:

Fallið verði frá áformum um bráðabirgðabreytingar á Sundhöll Selfoss. Þess í stað verði áfram unnið að því að koma upp viðbyggingu þeirri sem samstaða hefur verið um. 

Greinargerð: 

Mikill áhugi er á því að viðbygging verði reist við Sundhöll Selfoss í samstarfi við einkaaðila. Kostnaður Sundhallarinnar væri fólginn í leigu á móttöku- og búningsrými en annað rými væri nýtt af einkaaðilum. Ekki væri því um útlagðan fjárfestingarkostnað fyrir sveitarfélagið að ræða en hins vegar væri hér um að ræða mikinn búhnykk fyrir iðnaðarmenn til skamms tíma og metnaðarfulla uppbyggingu á Sundhöllinni til frambúðar. 

Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, Eyþór Arnalds, D-lista, Gylfi Þorkelsson, S-lista, Grímur Arnarson, D-lista, tóku til máls.

Gert var fundarhlé.

Breytingatillagan var borin undir atkvæði og felld með fimm atkvæðum gegn atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.

Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði meirihlutans:

Upphafleg tillaga meirihlutans felur ekki í sér ákvörðun um framkvæmdir. Ekki hefur verið fallið frá áformum um framtíðaruppbyggingu. Aðstæður eru ekki fyrir hendi í þjóðfélaginu til að ráðast í 800 milljón króna framkvæmd af þessu tagi.

Tillaga B-, S- og V-lista, var borin undir atkvæði og samþykkt með fimm atkvæðum gegn atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.

Eyþór Arnalds, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði bæjarfulltrúa D-lista:

Fulltrúar D-listans leggja áherslu á varanlegar lausnir í framkvæmdum við Sundhöll Selfoss sem annars staðar. Aukin eftirspurn er eftir sundi og vaxandi ferðamennska innanlands kallar enn frekar á bætta aðstöðu og styrkir enn frekar hugmyndir um líkamsræktaraðstöðu við Sundhöll Selfoss. Bráðabirgðabreytingar eru ekki til þess fallnar að bæta úr til skamms eða langs tíma auk þess sem þær kosta mikið. Þá er hugmyndin óljós hvað varðar kostnað eða forskrift hönnunar.

•d)      0902018

Þriggja ára áætlun 2010 - 2012 - fyrri umræða

Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista,  tók til máls og fylgdi frumvarpi að þriggja ára áætlun 2010-2012 úr hlaði með svohljóðandi greinargerð:

Greinargerð með 3ja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2010-2012

Hér er lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Árborgar þriggja ára rammaáætlun um rekstur, fjármál og fjárfestingar Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árin 2010-2012.  Áætlunin er unnin í samræmi við 63. gr. sveitarstjórnarlaga. Ástand í efnahagsmálum á Íslandi í dag er afar erfitt og óljóst hver þróunin verður næstu misserin.  Við slíkar aðstæður er áætlanagerð af þessu tagi háð ýmsum óvissuþáttum og verður áætlunin að skoðast í því ljósi. 

Forsendur

Til að unnt sé að setja fram áætlunina hafa ákveðnar forsendur verið lagðar til grundvallar, forsendur sem á þessari stundu er erfitt að segja til um hvort líklegar séu til að standast.  Þær eru þessar:

Áætlunin er á sama verðlagi og áætlun ársins 2009, þó er gert ráð fyrir  3% verðbólgu á verðtryggð lán.

Gert er ráð fyrir 2% íbúafjölgun milli ára.

Gert er ráð fyrir að tekjur lækki um 2% milli áranna 2009 og 2010. Í ljósi áætlunar um fjölgun íbúa um 2 % þá er gert ráð fyrir að útsvarstekjur haldist óbreyttar milli áranna 2009 og 2010.

Gert er ráð fyrir að útsvarstekjur hækki svo um 2% 2011 og aftur 2012.

Aðrar tekjur og gjöld haldast í meginatriðum óbreytt frá áætlun 2009.

Framkvæmda- og fjárfestingaáætlun:

Í þriggja ára áætlun koma fram áætlaðar fjárfestingar þau ár sem hún tekur til og eru við hefðbundnar aðstæður yfirlit yfir það sem er á dagskrá næstu árin.  Við þær aðstæður sem nú eru uppi er alls óljóst hvenær unnt verður að ráðast í þær framkvæmdir sem settar eru inn í þriggja ára framkvæmdaáætlun.  Hér er valin sú leið að birta þær framkvæmdir sem taldar eru æskilegar og /eða nauðsynlegar á næstu árum til að halda úti góðri þjónustu við íbúa og atvinnulíf sveitarfélagsins og til að Árborg geti áfram þjónað hlutverki sínu sem höfuðstaður Suðurlands.  Af þessu leiðir að gert er ráð fyrir lántökum til framkvæmda auk lántökum vegna niðurgreiðslu eldri lána. 

Skv. lögum fer þriggja ára áætlun í tvær umræður í bæjarstjórn Árborgar.  Áætlunin sem hér er lögð fram getur tekið breytingum milli umræðna en seinni umræða er áætluð eftir fjórar vikur eða þann 11. mars n.k..

Árborg 11. febrúar 2009
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri

Eyþór Arnalds, D-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, tóku til máls.

Lagt var til að frumvarpi að þriggja ára áætlun yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert.

Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 18:40

Þorvaldur Guðmundsson
Helgi S. Haraldsson
Jón Hjartarson                                  
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Gylfi Þorkelsson                                            
Eyþór Arnalds
Ari B. Thorarensen
Grímur Arnarson
Elfa Dögg Þórðardóttir
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari  

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica