Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


15.4.2009

45. fundur bæjarstjórnar

45. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010, haldinn miðvikudaginn 15. apríl 2009 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.

 

Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir: Þorvaldur Guðmundsson, forseti, B listi, Jón Hjartarson, V-listi, Helgi S. Haraldsson, B listi, Ragnheiður Hergeirsdóttir S listi, Þórunn Elva Bjarkadóttir S listi, Eyþór Arnalds D listi, Þórunn Jóna Hauksdóttir, D listi, Elfa Dögg Þórðardóttir, D listi Grímur Arnarson, D-lista

Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari, sem ritar fundargerð.

Forseti bæjarstjórnar setti fundinn.

Forseti bæjarstjórnar leitaði afbrigða til að taka á dagskrá mál nr. 0904047, breyting á aðal- og deiliskipulagi við Merkilandstún. Var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

 

 

 

•I. Fundargerðir til staðfestingar:

 

1. a) 0903005 Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar frá 4.mars 2009

 

b) 0901098 Fundargerð fræðslunefndar frá 5.mars 2009

 

c) 0903025 Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 5.mars 2009

 

d) 132. fundur bæjarráðs 0901006 frá 12. mars 2009

 

2. a)0901024 Fundargerð félagsmálanefndar frá 9.mars 2009

 

b) 133.fundur bæjarráðs 0901006 frá 19.mars 2009

 

3. a) 134.fundur bæjarráðs 0901006 frá 26.mars 2009

 

4. a) 0901097 Fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar frá 26.mars 2009

 

b) 135.fundur bæjarráðs 0901006 frá 2.apríl 2009

 

-liður 3a, 134. fundur bæjarráðs, 4. tl. mál nr. 0508068, tillaga bæjarfulltrúa D-lista um innheimtu skuldar Miðjunnar ehf., Eyþór Arnalds, D-lista, Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, og Grímur Arnarson, D-lista, tóku til máls. Að beiðni forseta tók bæjarritari, Ásta Stefánsdóttir, til máls um lagatúlkun varðandi málið. Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, tók til máls og óskaði eftir að bókað yrði:

 

Miðbæjarskipulagið var auglýst í b-deild stjórnartíðinda 18. ágúst 2008 og tók þannig lögformlega gildi. Samkvæmt 4. grein samnings sveitarfélagsins við Miðjuna ehf. ber Miðjunni að greiða 45.000.000,- krónur fjörutíu og fimm milljónir 100/00 níutíu dögum eftir að deiliskipulagið tekur gildi. Skuld Miðjunnar hefur því verið í vanskilum síðan í nóvember á síðasta ári án þess að nokkur viðleitni hafi verið að hálfu meirihlutans til að innheimta skuldina með einum eða öðrum hætti. Það skal áréttað vegna ummæla í fjölmiðlum að þeir 8.800m2 byggingarréttar sem bæjarfélagið á að afhenda eru til og í eigu sveitarfélagsins innan deiliskipulagsreitsins. Þau vandræði sem meirihlutinn hefur sjálfur ratað í vegna lágmarksbyggingarréttar og illa ígrundaðra áforma um að leggja bæjargarðinn undir fjölbýlishús koma uppgjöri þessu ekki við. Vandræðagangur með bæjargarðinn mega ekki verða til þess að bæjarsjóður verði af tekjum enda þröngt í búi. Það er sorgleg uppgjöf sem blasir nú við í miðbæjarmálum Selfoss þar sem eftir standa útgjöld bæjarins án þess að nokkuð hafi risið eða farið af stað.

 

-liður 4b, 135. fundur bæjarráðs, 6. tl., líkamsræktaraðstaða í Sundhöll Selfoss, Eyþór Arnalds, D-lista, tók til máls og lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:

 

Líkamræktaraðstaða og aukin aðsókn í sund almennt reyna enn frekar á búningsaðstöðu en nú er. Gott væri að vita hver staða er á hugmyndum meirihlutans um "endurbyggingu útiklefa við Sundhöll Selfoss vorið 2009" sem samþykktar voru 11. febrúar síðastliðinn í bæjarstjórn.

 

Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tók til máls og sagði tillögu verða lagða fyrir bæjarráð í næstu viku.

 

Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði og staðfestar samhljóða.

 

II. Önnur mál:

 

a) 0903078 Alþingiskosningar 2009 Breytingar í kjörstjórnum

 

Undirkjörstjórn 1 Varamaður í stað Ásu Líneyjar Sigurðardóttur verði Lára Ólafsdóttir.

 

 

 

 

 

Undirkjörstjórn 2 Aðalmaður í stað Margrétar Ingþórsdóttur verði Rut Stefánsdóttir

 

 

 

Undirkjörstjórn 3 Aðalmaður í stað Magnúsar Gunnarssonar verði Arna Ír Gunnarsdóttir Varamaður í stað Gunnars Þórðarsonar verði Grétar Páll Gunnarsson Varamaður í stað Kristins Ásmundssonar verði Guðjón Axelsson.

 

 

 

Undirkjörstjórn 4 (Stokkseyri) Aðalmaður í stað Einars Sveinbjörnssonar verði Þröstur Bjarkar Snorrason.

 

 

 

Undirkjörstjórn 5 (Eyrarbakki) Varamaður í stað Sverris Geirmundssonar verði Íris Böðvarsdóttir.

 

Tillögurnar voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

 

b) 0901045 Breyting á fulltrúum B-lista í bæjarstjórn og bæjarráð 2009

 

Margrét Katrín Erlingsdóttir óskar eftir að leyfi hennar frá störfum í bæjarstjórn ljúki 1. maí n.k. Lagt var til að hún verði varamaður í bæjarráði í stað Helga S. Haraldssonar.

 

Samþykkt samhljóða.

 

c) 0901046 Breyting á fulltrúum D-lista í bæjarstjórn og nefndum 2009

 

Lagt var til að Elfa Dögg Þórðardóttir verði varamaður í bæjarráði í stað Þórunnar Jónu Hauksdóttur.

 

Samþykkt samhljóða.

 

d) 0508068 Fyrirspurn frá fulltrúum D-lista um niðurfellingar á skólaferðalögum 7. og 10. bekkjar

 

Lögð var fram svohljóðandi fyrirspurn: Hver er áætlaður sparnaður af því að fella niður skólaferðalög 7. og 10. bekkjar?

 

Hvaða aðrar leiðir voru skoðaðar þegar ákvörðun var tekin? Var leitað til rekstraraðila um mögulega styrki vegna aksturs?

 

Var samráð við foreldra?

 

Er þessi ákvörðun í þetta eina skipti eða er stefnt að því að afsetja skólaferðalög í Árborg alfarið?

 

Forseti bæjarstjórnar lagði fram svohljóðandi bókun bæjarfulltrúa B-, S- og V-lista:

 

Við gerð fjárhagsáætlunar Árborgar fyrir árið 2009 var gerð rík krafa um aðhald í rekstri. Vandlega var farið yfir alla rekstrarþætti og öllum stjórnendum gert að leita leiða til að draga úr útgjöldum. Bæjarfulltrúum má öllum vera það ljóst að framundan er enn frekari niðurskurður í rekstri sveitarfélagsins, niðurskurður sem mun leiða til breytinga á þjónustu. Sú staðreynd blasir við öllum. Bæjarstjórn hefur áður lýst því yfir að hún ætli að standa vörð um velferð íbúanna og af hálfu meirihluta B, S og V lista verður það áfram leiðarljósið við rekstur sveitarfélagsins. Faglegar ákvarðanir um niðurskurð í einstökum stofnunum er í höndum stjórnenda þeirra.

 

Vakin er athygli á því að bæjarfulltrúar D listans bókuðu við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í janúar s.l. að enn lengra hefði þurft að ganga í hagræðingu á rekstri sveitarfélagsins. Verkefni kjörinna fulltrúa geta verið vandasöm, ekki síst þegar efnahagsvandi þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar er af þeirri stærðargráðu sem nú. Verkefnið framundan er að forgangsraða og ákveða hvaða leiðir séu færar til að draga saman útgjöldin án þess að ógna velferð íbúanna og atvinnulífsins.

 

Fyrirspurn D listans er vísað til úrvinnslu hjá Fjölskyldumiðstöðinni og verði svör lögð fram á bæjarstjórnarfundi í maí n.k..

 

e) 0904081 Tillaga um samráðsvettvang í menningar-, verslunar- og ferðamálum

 

Lögð var fram svohljóðandi tillaga: Bæjarstjórn samþykkir að eiga frumkvæði að því að koma á fót formlegum samráðsvettvangi fulltrúa sveitarfélagsins, fulltrúa verslunar og þjónustu í Árborg, ferðaþjónustuaðila og aðila sem standa fyrir lista- og menningarstarfsemi í sveitarfélaginu.

 

Markmiðið sé að efla enn frekar þá blómlegu starfsemi sem fram fer víða í sveitarfélaginu og skapa aðstæður til að laða hér að fjölda ferðamanna þegar á árinu 2009.

 

Bæjarstjóra verði falið að boða til fundar með hlutaðeigandi aðilum.

 

Greinargerð: Selfoss hefur mikla sérstöðu sem þjónustubær og eru ákveðin sóknarfæri í því samdráttarskeiði sem nú er í þjóðfélaginu. Íslendingar munu í enn frekari mæli sækja sumarbústaðabyggðir og þar er sóknarfæri nú þegar í vor. Þá hafa verslunarmenn myndað öflug grasrótarsamtök sem unnt er að vinna markvissar með. Á Eyrarbakka og Stokkseyri er afar eftirsótt ferðamannaþjónusta. Hátíðirnar Vor í Árborg, Sumar á Selfossi, Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka og Bryggjuhátíðin á Stokkseyri eru allt vaxtarbroddar sem geta fengið enn meira afl. Þá hefur Selfoss mikið tækifæri að verða "Jólabær" og vera aðdráttarafl fyrir íbúa á stór-höfuðborgarsvæðinu um hver jól. Mikill velvilji er fyrir frumkvæði og nýsköpun á íslenskri þjónustu. Víst má telja að markviss framtíðarsýn sveitarfélagsins geti lagt grunn að margvíslegum nýjungum og þannig stuðla að stuðningi ríkisins, fjölmiðla og annarra aðila.

 

Sveitarfélagið Árborg hefur á undanförnum árum unnið markvisst að stefnumörkun í öllum helstu málaflokkum sem varða starfsemi og þróun sveitarfélaga. Má þar m.a. nefna atvinnumálastefnu og menningarstefnu. Unnið er í samræmi við staðardagskrá 21 sem kemur inn á öll svið samfélagsins með áherslu á sjálfbært samfélag. Sérkenni og saga sveitarfélagsins Árborgar með hinni miklu fjölbreytni sem finnst í náttúrufari, atvinnulífi og menningararfi hvers byggðakjarna skapa ómetanleg tækifæri til afþreyingar, menningarstarfsemi, útivistar, ferðaþjónustu, markaðssetningar og atvinnuuppbyggingar. Á þessum sérkennum byggir sveitarfélagið í sinni stefnumörkun og þeim fjölmörgu verkefnum sem sett hafa verið á laggirnar eða eru í farvegi.

 

Uppbygging og markaðssetning Fuglafriðlands í Flóagaflsmýrinni, einhverrar merkilegustu náttúruperlu landsins, er í fullum gangi í samvinnu við Fuglavernd Íslands og búast má við að í framtíðinni muni ferðamönnum, innlendum jafnt sem erlendum, fjölga jafnt og þétt.

 

Uppbygging íþróttamannvirkja í Árborg hefur verið mikil undanfarin ár og framundan er bygging nýrra útiklefa við Sundhöll Selfoss auk þess sem uppbygging aðalleikvangs við íþróttavöllinn við Engjaveg á Selfossi er vel á veg komin.

 

Sveitarfélagið hefur lagt Hestamannafélaginu Sleipni til styrk til að byggja reiðhöll sem þjóna mun m.a. barna og æskulýðsstarfi í Árborg og skapa tækifæri til fjölbreytts mótahalds og uppákoma sem draga munu að fjölmenni hvaðanæva að.

 

Mörg undanfarin ár hefur sveitarfélagið styrkt Brúarhlaup Selfoss með fjárframlagi, en þessi viðburður dregur inn í bæinn fjölda fólks árlega.

 

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á tjaldsvæðum á Eyrarbakka og Stokkseyri og rekstraraðilar tjaldsvæða á Selfossi hafa unnið ötullega að stórbættri aðstöðu þar. Þá má nefna að undirbúningur að stofnun Ölfusárseturs er í fullum gangi sem og Skólasöguseturs á Eyrarbakka. Þarna eru á ferðinni verkefni sem vekja munu mikla eftirtekt innlendra jafnt sem erlendra gesta.

 

Sveitarfélagið Árborg hefur og undanfarin ár unnið markvisst að því að styrka háskólamenntun, vísinda- og rannsóknastarf á svæðinu og á næstunni opna Landnýtingarsetur Háskóla Íslands og Háskólafélag Suðurlands starfsstöðvar sínar í húsnæði leikskólans Glaðheima á Selfossi. Áætlanir um uppbyggingu fræða- og menningarsamfélags í miðbæ Selfoss eru og í fullu gildi, þótt þær tefjist eitthvað vegna efnahagsaðstæðna. Sú uppbygging munu styrkja alla þjónustu í sveitarfélaginu og lýsir einlægum vilja bæjaryfirvalda til að skapa hvetjandi umhverfi fyrir menningar- og atvinnulíf.

 

Á síðustu árum hefur fjöldi samninga verið gerður við ýmis félagasamtök sem koma að hátíðarhöldum og viðburðum í sveitarfélaginu, þar sem sveitarfélagið leggur til fjármagn og / eða aðstöðu og vinnu ýmiskonar. Þarna má taka sem dæmi hátíðarhöld eins og Sumar á Selfossi, Sumardaginn fyrsta, Sjómannadaginn, 17. júní, Jónsmessuhátíð og Bryggjuhátíð.

 

Sveitarfélagið hefur frá árinu 2003 staðið fyrir menningarhátíðinni Vor í Árborg þar sem áhersla er lögð á samstarf við grasrótina og fjölbreytni dagskrárliða er mikil. Fjöldi fólks, jafnt íbúa sem annarra gesta, sækja viðburðina ár hvert. Um árabil hefur sveitarfélagið staðið fyrir hátíðarhöldum við Ölfusárbrú þegar jólasveinarnir koma í bæinn um miðjan desember ár hvert. Síðustu tvö árin hefur sveitarfélagið boðið gestum upp á kakó og vöfflur í samstarfi við félagasamtök. Árið 2007 átti sveitarfélagið frumkvæði að því að gefa út sérstakt viðburðadagatal fyrir jólin og fékk til liðs við sig verslunar- og þjónustuaðila á svæðinu. Því miður náðist ekki samstaða meðal þeirra um útgáfu slíks viðburðadagatals fyrir jólin 2008, þrátt fyrir einlægan vilja hjá bæjaryfirvöldum og forsvarsmönnum Samtaka verslunar og þjónustu.

 

Vakin er sérstök athygli á því að Sveitarfélagið Árborg hefur þegið boð borgarstjórans í Reykjavík um að vera gestasveitarfélag á Menningarnótt í Reykjavík í ágúst n.k.. Þar er á ferðinni stórkostlegt tækifæri til kynningar og markaðssetningar á því sem hér er að gerast. Sömuleiðis erum við í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík 2009 með ákveðna viðburði sem koma hingað austur fyrir fjall. Slíkt tilboð kemur ekki af sjálfu sér heldur er það afrakstur blómlegrar starfsemi á sviði lista- og menningar hér í Árborg og markvissrar og skapandi vinnu á vegum starfsmanna sveitarfélagsins.

 

Fyrir skömmu óskuðu fulltrúar Samtaka og verslunar í Árborg eftir því að fá að kynna starfsemi sína fyrir bæjarfulltrúum Árborgar. Góðar samræður voru á þessum fundi og lýstu báðir aðilar yfir miklum vilja til góðs samstarfs enda sameiginlegir hagsmunir að hér sé góð og eftirsóknarverð þjónusta og afþreying jafnt fyrir íbúa sem gesti. Það eru líka sameiginlegir hagsmunir að styrkja sérstöðu allra byggðakjarnanna í Árborg og þar liggja fjölmörg sóknarfæri. Til þess að ná sem mestum árangri verða aðilar að vinna vel saman og leggjast á eitt um að ná jákvæðri og kröftugri kynningu á því sem svæðið hefur upp á að bjóða.

 

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, og Ragnheiður Hergeirsdóttir, S-lista, tóku til máls.

 

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 

Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði sínu.

 

f) 0904082 Tillaga frá fulltrúum D-lista um atvinnuslökkvilið Brunavarna Árnessýslu

 

Eyþór Arnalds, D-lista fylgdi tillögunni úr hlaði: Bæjarstjórn samþykkir að stefnt skuli að því að BÁ verði rekið sem atvinnuslökkvilið svo fljótt sem því verður komið við. Bæjarstjóra er falið að ræða við samstarfsaðila Sveitarfélagsins Árborgar um þessa stefnumótun.

 

Greinargerð: Mikil íbúafjölgun í þéttbýli og flóknari atvinnurekstur í sýslunni kalla á tæknivæddara slökkvilið en nú er. Grundvallarforsenda fyrir framkvæmd þessa er að sjúkraflutningar verði hluti af starfssemi BÁ. Þá mun atvinnurekstur auðvelda sérþjálfun slökkviliðsmanna og annarra starfsmanna BÁ.

 

Gert var fundarhlé.

 

Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun: Lengi hefur verið áhugi og vilji fyrir því meðal forsvarsmanna Sveitarfélagsins Árborgar, og fleiri sveitarfélaga, að BÁ verði atvinnuslökkvilið. Öllum sem skoðað hafa málin er ljóst að forsenda þess að stofna atvinnuslökkvilið er að sjúkraflutningar sýslunnar færist til BÁ. Síðast þegar ríkið samdi um rekstur sjúkraflutninga þá stóð BÁ til boða að taka þá að sér fyrir rúmar 50 millj.kr. sem er a.m.k. helmingi lægra en raunkostnaður við starfsemina. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að starfsemi sjúkraflutninga tekur til allrar Árnessýslu en BÁ gera það hins vegar ekki, a.m.k. ekki enn. Meirihlutinn í Árborg er mjög hlynntur því að hér verði starfrækt atvinnuslökkvilið en telur framlagða tillögu ekki tímabæra.

 

Helgi S. Haraldsson, B-lista, lagði til að tillögu D-lista yrði vísað frá.

 

Frávísunartillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með fimm atkvæðum gegn atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista.

 

Eyþór Arnalds, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði bæjarfulltrúa D-lista:

 

Mikilvægt er að sveitarfélagið Árborg sem stærsti aðili Brunavarna Árnessýslu hafi skýra framtíðarsýn á starfssemina. BÁ eru á tímamótum í rekstri og er mikilvægt að sveitarfélagið Árborg leiði framtíðarskipan mála í góðu samráði við aðra samstarfsaðila. Það er því ekki ótímabært að fjalla um þetta mál heldur löngu tímabært.

 

g) 0810016 Samþykkt um kattahald í Sveitarfélaginu Árborg - síðari umræða

 

Tillaga að samþykkt um kattahald var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 

h) 0904047, tillaga að breyttu aðalskipulagi við Merkilandstún, Selfossi.

 

Tillagan var lögð fram.

 

Bæjarstjórn samþykkir að tillagan verði auglýst.

 

Eyþór Arnalds, D-lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu:

 

Bæjarfulltrúar D-lista fagna þessum áfanga og vonast til að uppbyggingin gangi vel.

 

Fleira ekki gert. Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 18:55.

Þorvaldur Guðmundsson Helgi S. Haraldsson Jón Hjartarson Ragnheiður Hergeirsdóttir Þórunn Elva Bjarkadóttir Eyþór Arnalds Þórunn Jóna Hauksdóttir Grímur Arnarson Elfa Dögg Þórðardóttir Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari


Þetta vefsvæði byggir á Eplica