47. fundur bæjarstjórnar
47. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn miðvikudaginn 20. nóvember 2013 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.
Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Ari Björn Thorarensen, D-lista, forseti bæjarstjórnar,
Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Kjartan Björnsson, D-lista,
Tómas Ellert Tómasson, varamaður, D-lista,
Helgi Sigurður Haraldsson, B-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista
Fulltrúar ungmennaráðs Árborgar sitja fundinn sem sérstakir gestir bæjarstjórnar:
Hrefna Björg Ragnarsdóttir, Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, Tómas Smári Guðmundsson, Freydís Leifsdóttir, Guðmunda Bergsdóttir og Andrea Lind Guðmundsdóttir.
Unnur Þórisdóttir boðaði forföll.
Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, og Rósa Sif Jónsdóttir sem ritar fundargerð.
Forseti bæjarstjórnar setti fundinn og bauð sérstaklega velkoma fulltrúa ungmennaráðs Árborgar og lagði til að breyting yrði á dagskrá.
Dagskrá:
I. Fundargerðir til staðfestingar
1. a) 1301007
Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar 63. fundur frá 21. október
64. fundur frá 22. október
b) 157. fundur bæjarráðs ( 1301006 ) frá 31. október
Úr fundargerð bæjarráðs, til afgreiðslu:
- liður 5, málsnr. 1208044 – Kaupsamningur um Eyrarbraut 25, Stokkseyri, til nota fyrir smíðastofu.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykktur verði viðauki við fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 3.400.000. Fjárfestingu verði að öðru leyti vísað til fjárfestingaáætlunar fyrir árið 2014.
2. a) 158. fundur bæjarráðs ( 1301006 ) frá 7. nóvember
3. a) 1301008
Fundargerð félagsmálanefndar 31. fundur frá 4. nóvember
b) 159. fundur bæjarráðs ( 1301006 ) frá 14. nóvember
Úr fundargerð bæjarráðs, til afgreiðslu:
-liður 4, málsnr. 1310148 –Beiðni Brunavarna Árnessýslu um heimild til lántöku.
Bæjarráð vísar beiðni um heimild til lántöku til bæjarstjórnar.
Hrefna Björg Ragnarsdóttir fulltrúi ungmennaráðs kom upp og kynnti ungmennaráð og fór yfir störf ungmennaráðs á liðnu ári.
II. 1311087
Tillaga ungmennaráðs Árborgar um fjölda fulltrúa í ungmennaráði
Hrefna Björg Ragnarsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Við leggjum til að stækka ungmennaráð úr 7 fulltrúum í 9 þannig að hver grunnskóli eigi einn fulltrúa í ungmennaráðinu.
Við leggjum til að stækka ungmennaráð þá helst til þess að fá fulltrúa úr hverjum skóla fyrir sig úr Árborg en ekki alltaf einn fyrir hönd allra skólanna. Einnig að fá fleiri og mismunandi skoðanir frá stærri hópi.
Þegar allir skólar hafa einn talsmann fyrir sinn skóla þá er öruggt að a.m.k. einn fulltrúi í ungmennaráðinu komi neðan af strönd.
Þeir sem virkilega hafa áhuga á því að komast í ungmennaráðið eiga ekki endilega möguleika á því þegar skipt er á milli skóla eftir árum. Mismunandi skoðanir koma frá mismunandi skólum og það er mjög mikilvægt að við heyrum raddir sem flestra.
Gunnar Egilsson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, og Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista, tóku til máls.
Lagt var til að tillögunni yrði vísað til bæjarráðs Árborgar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
III. 1311088
Tillögur ungmennaráðs Árborgar um skólamál
Tómas Smári Guðmundsson lagði fram eftirfarandi tillögur frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að reglur verði samræmdar innan skóla sveitarfélagsins hvað varðar nesti nemenda.
Mikilvægt er að hafa þessar reglur mjög skýrar og ákvarðaðar í samstarfi við foreldra og kennara. Sömu reglur myndu þá gilda fyrir alla skólana og allan aldur.
Í framhaldi af fyrri tillögu myndum við vilja aukið samstarf á milli skóla í sveitarfélaginu hvað hádegismat varðar.
Leggjum með þessu til að þeir sem stýri mötuneytum í leik- og grunnskólum fái vettvang til að deila hugmyndum og verklagi. Með því viljum við leggja áherslu á að öll börn í sveitarfélaginu á leik- og grunnskólaaldri fái svipaða næringu í hádeginu. Fólk er að borga sama verð fyrir misgóðan mat eftir skólum sem getur skapað vissan meting innan samfélagsins. Að lokum teljum við að með þessu sá verið að auðvelda þeim foreldrum sem eru með börn í sitthvorum skólanum að hafa sameiginlegan kvöldmat.
Hrefna Björg Ragnarsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að bætt verði við sameiginlegt val í grunnskólum.
Frá síðasta fundi hefur ein sameiginleg valgrein verið starfrækt sem er stuttmyndagerð. Við viljum bæta við fleiri valfögum. Með meiri sameiningu teljum við krakkar kynnast betur á milli skóla og þar af leiðandi minni rígur og minni einangrun. Spara mætti mikið með sameiginlegu vali ásamt því að minni líkur væru á að fella þyrfti niður einhver valfög vegna dræmrar þátttöku, meiri nýting á hverjum skóla til mismunandi hluta. t.d. málmsmíðastofa í Vallaskóla, útivist á stokkseyri og fleira. Valið er góður kostur fyrir unglinga að kynnast öðrum einstaklingum með sambærilegt áhugasvið innan sveitarfélagsins. Með þessu geta unglingar notið alls þess góða sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða óháð búsetu innan sveitarfélagsins.´
Helgi S. Haraldsson, B-lista, Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista, Tómas Smári Guðmundsson, ungmennaráði, Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.
Lagt var til að tillögunum yrði vísað til fræðslunefndar Árborgar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
IV. 1311093
Tillögur ungmennaráðs Árborgar um heilsueflingu
Vígdís Fríða Þorvaldsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögur frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að fleiri hlaupa- og gönguleiðir verði merktar innan sveitarfélagsins ásamt því að vegalendir verði merktar inn á þær.
Við viljum fleiri merktar gönguleiðir innan sveitarfélagsins. Okkur finnst hafa orðið jákvæð þróun varðandi þetta mál en viljum stuðla að áframhaldi þess. Með því að dreifa gönguleiðum yfir mismunandi bæjarhluta, viljum við stuðla að heilsueflandi sveitarfélagi og þá geta fleiri nýtt sér aðstöðuna. Við leggjum einnig til að hafa skilti sem gefa til kynna vegalengd frá upphafspunkti.
- Þetta stuðlar að meiri hreyfingu,
- Það er mjög gott að geta vitað vegalengdina sem maður gengur eða hleypur, þannig er auðveldara að setja sér markmið varðandi að bæta persónulega tíma.
-Til lengri tíma litið getur fólk mælt sér mót á fyrirfram ákveðnum stöðum, t.d. 3 km marki. Þeir sem nýta hlaupabrautina vel, myndu þá vita hvar það væri.
-Þetta verkefni gæti verið atvinnuskapandi tímabundið, t.d. í sumarstarf ungmenna eða VISS.
Ungmennaráðið vill sjá afgirt hundasvæði í göngufjarlægð frá Selfossi.
-Það er gott fyrir hunda að fá að hreyfa sig frjálsir þar sem lausaganga hunda er ekki leyfð í sveitarfélaginu.
- Stuðlar að jákvæðari ímynd hundahalds.
- Þetta stuðlar að bættri og fjölbreyttari hreyfingu fólks og hunda.
- Þetta myndi skapa vettvang fyrir hundaþjálfun.
- Stuðlar að bættri geðheilsu hjá hundum og mönnum.
Okkar uppástunga að hentugu hundasvæði er hluti af nýja tjaldsvæðinu (Suðurhólatjaldsvæðið). Okkur finnst einnig að það mætti skoða að setja upp fleiri lokaðar hundaúrgangstunnur á víð og dreif um sveitarfélagið.
Hrefna Björg Ragnarsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögur frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið vill sjá fleiri hjólreiðastíga í Árborg, meðal annars á milli Selfoss og Stokkseyrar
Við viljum fleiri hjólreiðastíga í Árborg. Okkur finnst mjög jákvætt að það sé kominn stígur á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka sem hægt er að nota til hjólreiða en einnig óskum við eftir því að það komi stígur á milli Selfoss og Stokkseyrar.
-Það eru margir sem myndu nýta sér það, t.d. Tjarnarbyggðin
-Þetta stuðlar að því að fleiri geta hjólað í vinnu eða í skóla í staðinn fyrir að nota alltaf bílinn.
-Þetta myndi einnig skapa vettvang fyrir nemendaferðir sem næðu út fyrir þéttbýliskjarnana.
- Þetta stuðlar að minni slysahættu þar sem núverandi aðstaða er mjög óhentug, hægt er að velja á milli þess að vera á þjóðveginum eða reiðstíg.
Ungmennaráðið leggur til að boðið verði upp á opna tíma í íþróttahúsi einu sinni í viku.
Þetta myndi vekja athygli á mismunandi íþróttagreinum þar sem hægt væri að kynna sína starfsemi hinna ýmsu íþróttagreina án þess að fólk þurfi að stökkva beint inn á æfingu með atvinnumönnum. Íþróttastarfsemi sem er hér nú þegar og er að koma undir sig fótum í Árborg gæti vel nýtt sér þetta til að kynna sínar greinar. Gott tækifæri fyrir þá sem ekki eru að æfa íþróttir en vilja fá tækifæri til að hreyfa sig með öðru fólki.Þetta stuðlar að bættri heilsu hjá ungmennum og fullorðnum sem eru hættir að stunda reglulegar íþróttir. Þetta skapar vettvang fyrir vini til að hittast og gera eitthvað uppbyggilegt en á sama tíma skemmtilegt.
Tómas Smári Guðmundsson lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráð vill sjá bætta aðstöðu fyrir þá sem stunda jaðaríþróttir.
- Þetta stuðlar að því að fleiri geti stundað jaðaríþróttir sem hafa áhuga á þess konar íþróttum.
- Ef gott svæði finnst, t.d. nálægt ungmennahúsi og félagsmiðstöð þá er yfirleitt einhver sem gæti haft eftirlit með þeim sem væru á vellinum. Einnig væri hægt að leita strax til þeirra ef eitthvað kemur upp á.
- Lélegt svæði fyrir jaðaríþróttir stuðlar að því að einstaklingar sem hafa áhuga á að stunda þessa íþrótt, notfæra sér það sem þeir finna í sveitarfélaginu, innan um almenning þar sem gæti skapast hætta af því.
- Fordómar fyrir íþróttinni yrðu minni ef það tekst að skapa almennilega aðstöðu, þar sem að hver sem er gæti sótt í þetta.
- Það hefur verið mikil aukning í aðsókn í jaðaríþróttir í Árborg og sú staðreynd kallar á betri aðstöðu.
- Jaðaríþróttir eru komnar til að vera.
Gunnar Egilsson, D-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, ungmennaráði, Freydís Ösp Leifsdóttir, ungmennaráði, Tómas Ellert Tómasson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista og Tómas Smári Guðmundsson, ungmennaráði, tóku til máls.
Lagt var til að tillögunum yrði vísað til bæjarráðs Árborgar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
V. 1311089
Tillaga ungmennaráðs Árborgar um Mína Árborg
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að aðgangur að síðunni Mín Árborg verði takmarkaður við 16 ára aldur en ekki 18 ára eins og nú er.
Allir 18 ára og eldri geta skráð sig inn á Mína Árborg og tilgangur síðunnar er þessi:,, „Með opnun íbúagáttarinnar er tekið stórt skref í rafrænni þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Í gegnum gáttina er nú hægt að sækja um hvatagreiðslur og leikskólapláss. Áður en langt um líður verður einnig hægt að senda inn formleg erindi, fylgjast með málum og koma skoðunum sínum á málefnum sveitarfélagsins á framfæri hvar og hvenær sem er.". (Þarna er líka hægt að sækja um vinnu) Tillagar okkar er að Sveitarfélagið lækki aldurinn inn á síðuna niður í 16 ára.
-Ef breytingin ætti sér stað gætu unglingar, 16 – 18 ára, sótt um vinnuskólann og bæjarvinnuna sjálf. Fyrstu tvö árin í vinnuskólanum sækja foreldrarnir um vinnuna og börnin læra af því, svo taka þau sjálf við og það getur reynst þeim ágætis reynsla í að sækja um vinnu.
- Það er mjög gott fyrir þennan aldur að fá að axla ábyrgð á eigin gjörðum.
- Margir foreldrar eiga sjálfir í erfiðleikum með tölvur, unga fólkið er oft reyndara hvað þær varðar.
-Ungar mæður geta átt í miklum erfiðleikum með t.d. að sækja um leikskólapláss ef að aldurinn verður ekki lækkaður, vegna þess að þær þyrftu að biðja foreldra sína um að sækja um fyrir sig.
- Okkur finnst að 16 ára og eldri ungmenni eigi rétt á því eins og aðrir í sveitarfélaginu að fá að koma skoðunum sínum á framfæri á síðunni, þegar þar að kemur.
Lagt var til að tillögunni yrði vísað til bæjarráðs Árborgar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
VI. 1311091
Tillaga ungmennaráðs Árborgar um æskulýðssjóð
Freydís Ösp Leifsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að stofnaður verði æskulýðssjóður í sveitarfélaginu Árborg.
Æskulýðsfélög eða aðrir hópar ungmenna geta sótt um litla styrki í sjóðinn til að styrkja viðburði, samstarf og önnur álitleg verkefni rekin af ungmennum.
Ákvarða þyrfti hver hefði umsjón með sjóðnum, hvort sem það væri ungmennaráð eða önnur nefnd skipuð ungmennum. Styrkir yrðu svo veittir eftir umsóknum. Tillagan er í raun sú að Sveitarfélagið Árborg myndi leggja til 100 þúsund króna stofnframlag fyrsta árið til prufu og væri sjóðurinn endurskoðaður að ári. Ef hugmyndin myndi virka þá myndi umrædd nefnd ganga í það að sækja um auka fjármagn frá einkaaðilum og/eða fyrirtækjum. Svipaðir sjóðir eru mjög algengir annars staðar á Norðurlöndunum og hafa gengið vel og sóttum við innblástur þangað. Fyrsta árið yrði umsóknarfrestur tvisvar á ári, að vori og hausti, og styrkir yrðu veittir í æskulýðsverkefni. Sjóðurinn yrði opinn öllum sem varða æskulýðsmálefni og verkefnum unga fólksins.
Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar, Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, ungmennaráði, Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tóku til máls.
Lagt var til að tillögunni yrði vísað til bæjarráðs Árborgar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
VII. 1311090
Tillaga ungmennaráðs Árborgar um samgöngumál
Guðmunda Bergsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögur frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til strætó verði starfræktur innan Árborgar um helgar.
Það er margt fólk frá Eyrarbakka og Stokkseyri sem sækir áhugamál sín á Selfoss og öfugt og það er bæði dýrt og tímafrekt að keyra alltaf á milli. Börn og unglingar sem hafa ekki umráð yfir bíl ættu ekki að þurfa að vera háð foreldrum sínum ef þau vilja komast á milli innan sveitafélagsins um helgar. Það á líka við um fullorðna einstaklinga sem hafa ekki yfir bíl að ráða. Unglingum niðri á strönd hættir til að einangrast frá vinum sínum á Selfossi og öfugt, því er mikilvægt að hafa gangandi strætó um helgar. Einnig eru margir sem sækja vinnu annars staðar en þar sem þeir búa. Oft er um að ræða ungt fólk í vaktavinnu t.d í matvöruverslunum og á Draugasetrinu. Því leggjum við mikla áherslu á að það verði ferðir um helgar þó það væri ekki nema tvær ferðir hvora leið á dag. Áður fyrr voru reglulegar ferðir á milli þéttbýlisstaðanna í Árborg um helgar.
Ungmennaráðið leggur til að lögð verði meiri áherslu á að ryðja og salta göngustíga.
Á veturna gleymist oft að skafa og salta gangstéttirnar, sérstaklega göngustíga sem eru ekki við götur. Að okkar mati er mikilvægt að fólk geti gengið til og frá skóla og vinnu og því er mikilvægt að hafa greiðar gönguleiðir. Skólabörn nýta sér einnig göngustígana mikið vegna þess að það er öruggara og styttra en að ganga meðfram akbrautum í skólann. Maður spyr sig samt hversu mikið öryggið er þegar það er glerhálka eða mikill snjór og því viljum við hvetja sveitarfélagið til að passa upp á þetta. Að auki er það hvetjandi í heilsueflandi samfélagi að hafa gangstéttir auðar. Árborg ætti að hvetja fólk að skilja bílinn eftir sem oftast og ganga eða hjóla í skóla og/eða vinnu.
Freydís Ösp Leifsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögur frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að menningarstrætó eða rúta verði starfrækt innan Árborgar.
Þegar haldnir eru viðburðir innan sveitarfélagsins er mikilvægt að ungmenni og annað fólk komist á milli staða þótt þau hafi ekki tök á að keyra til að komast á milli staða. Sem dæmi má nefna Jónsmessuhátíðina á Eyrarbakka og Sumar á Selfossi. Það getur verið erfitt að finna far á milli staða og þá væri tilvalið að hafa rútuferðir á milli staða á skikkanlegum tímum, sem sagt í samræmi við dagskrá, helst án endurgjalds.
Ungmennaráðið leggur til að Sveitarfélagið lýsi upp göngustíginn í gegnum skóginn við Suðurengi.
Í gegnum skóginn móti Jötunheimum og við Suðurengi liggur stígur sem nær alveg að Sunnulækjarskóla. Á sumrin er hann mjög fallegur og gaman að ganga um hann en á veturna þegar dimmt er getur hann verið mjög drungalegur. Hann er alveg óupplýstur og skapar því hættu. Það væri frábært að geta nýtt þennan göngustíg á veturna þegar dimmt er og tillaga okkar er því sú að koma fyrir nokkrum ljósastaurum eða slíku til að lýsa upp leiðina.
Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar, Tómas Ellert Tómasson, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Freydís Ösp Leifsdóttir, ungmennaráði, og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.
Lagt var til að tillögunum yrði vísað til bæjarráðs Árborgar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
VIII. 1311092
Tillaga ungmennaráðs Árborgar um aðkomu ungmenna að skipulagningu viðburða.
Guðmunda Bergsdóttir lagði fram eftirfarandi tillögu frá ungmennaráði:
Ungmennaráðið leggur til að fulltrúi ungmenna komi að skipulagningu menningarviðburða innan sveitarfélagsins.
Okkur finnst mikilvægt að ungt fólk fái að koma að skipulagningu menningarviðburða innan sveitarfélagsins.
Aldurshóparnir 13-15 og 16-18 ára vilja oft verða út undan og gleymast þegar kemur að skipulagningu viðburða innan sveitarfélagsins. Sem dæmi um það má nefna fjölskylduhátíðina Sumar á Selfossi en á henni voru viðburðir fyrir alla aldurshópa nema aldurshópinn 16-18 ára.
Það hefur mikið forvarnargildi að hafa markvisst framboð fyrir þennan aldurshóp.
Ungt fólk hefur betra innsæi í það sem ungt fólk vill heldur en þeir sem eldri eru. Ungt fólk er mjög hugmyndaríkt og getur oft komið með góðar og raunsæjar hugmyndir.
Í framhaldi af þessu væri gaman að byggja upp hátíð sem haldin er með ungmenni sem sérstakan markhóp.
Á Selfossi hefur hingað til ekki verið nein hátíð eða sérstök viðburðadagskrá sem höfðar sérstaklega til ungmenna. Þessu viljum við breyta. Við sjáum mikla möguleika varðandi þetta mál og viljum sjá árlegan viðburð sem höfðar til unglinga (aðal markaðshópur). Þessi viðburður yrði af sjálfsögðu áfengis- og vímuefnalaus.
Sem dæmi um slíkar hátíðir sem heppnast hafa vel eru músíktilraunir, LungA, unglist, landsmót Samfés, unglingalandsmót og fleiri.
Kjartan Björnsson, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, og Tómast Ellert Tómasson, D-lista, tóku til máls.
Lagt var til að tillögunum yrði vísað til bæjarráðs Árborgar, tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar, þakkaði ungmennaráði fyrir komuna og gott framlag til fundarins.
Fundargerðir.
- liður 1 b) Fundargerð bæjarráðs frá 31. október - liður 5, málsnr. 1208044 – Kaupsamningur um Eyrarbraut 25, Stokkseyri, til nota fyrir smíðastofu.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykktur verði viðauki við fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 3.400.000. Fjárfestingu verði að öðru leyti vísað til fjárfestingaáætlunar fyrir árið 2014.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
- liður 1 b) Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 31. október, lið 12, málsnr. 1310168 – Ósk Ungmennafélags Stokkseyrar um afnot af Stjörnusteinum fyrir búningsaðstöðu.
- liður 3 b) Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls um fundargerð bæjarráðs frá 14. nóvember, lið 1, málsnr. 1301008, fundargerð félagsmálanefndar, fjárhagsáætlun 2014.
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
"Undirrituð harma það hvað Sveitarfélagið Árborg hefur dregist aftur úr öðrum sveitarfélögum varðandi grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til þeirra sem verst standa í Svf. Árborg. Skv. staðfestum tölum frá 35 sveitarfélögum víða um land er grunnfjárhæðin hvergi lægri en í Svf. Árborg. Við erum u.þ.b. 10 þúsund krónum lægri en meðaltals grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar á landinu.
Einnig er algerlega óskiljanlegt af hverju grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar hækkar ekki skv. neysluvísitölu eins og eðlilegt væri og gert er í langflestum sveitarfélögum á landinu. Undirrituð hvetja til þess að grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar verði hækkuð meira en sem nemur þessum 4% sem lagt er til af félagsmálanefnd og taki framvegis breytingum skv. neysluvísitölu."
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi S-lista.
Eggert Valur Guðmundsson bæjarfulltrúi S-lista.
Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista, tók til máls og tók undir bókun fulltrúa S-lista.
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Tómas Ellert Tómasson, D-lista, Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, og Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar, tóku til máls.
- liður 3 b) Fundargerð bæjarráðs frá 14. nóvember - liður 4, málsnr. 1310148 –Beiðni Brunavarna Árnessýslu um heimild til lántöku. Bæjarráð vísar beiðni um heimild til lántöku til bæjarstjórnar.
Eftirfarandi tillaga var borin upp til samþykktar og samþykkt samhljóða.
Sveitarfélagið Árborg samþykkir hér með að veita Brunavörnum Árnessýslu, sem sveitarfélagið á í samvinnu við önnur sveitarfélög, einfalda og hlutfallslega ábyrgð miðað við eignarhluti 1. janúar 2013 í Brunavörnum Árnessýslu vegna lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 300.000.000 kr. Er ábyrgð þessi veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Er lánið tekið til að fjármagna höfuðstöðvar félagsins sem fellur undir lánshæf verkefni sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Sveitarstjórn skuldbindur hér með sveitarfélagið sem einn af eigendum Brunavarna Árnessýslu til að selja ekki félagið að neinu leyti til einkaaðila.
Fari svo að Sveitarfélagið Árborg selji eignarhlut í Brunavörnum Árnessýslu til annarra opinberra aðila, skuldbindur Sveitarfélagið Árborg sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.
Jafnframt er Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdarstjóra Sveitarfélagsins Árborgar, kt. 251070-3189, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Sveitarfélagsins Árborgar veitingu ofangreindrar veðtryggingar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu tryggingar þessarar.
Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða að undanskildum þeim liðum sem áður höfðu verið samþykktir.
IX. 1311046
Tillaga að breytingu á gjaldskrá fyrir sorphirðu í Árborg 2014 – fyrri umræða
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista, og Gunnar Egilsson, D-lista, tóku til máls.
Lagt var til að gjaldskránni yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða.
X. 1310170
Tillaga að breytingu á gjaldskrá vegna fráveitu (tæmingar rotþróa) – fyrri umræða
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls.
Gert var fundarhlé.
Fundi var haldið áfram.
Lagt var til að gjaldskránni yrði vísað til síðari umræðu. Var það samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert. Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 19:30
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Ari Björn Thorarensen
Gunnar Egilsson
Kjartan Björnsson
Tómas Ellert Tómasson
Helgi Sigurður Haraldsson
Eggert Valur Guðmundsson
Arna Ír Gunnarsdóttir
Þórdís Eygló Sigurðardóttir
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri
Rósa Sif Jónsdóttir, ritari