5. fundur menningarnefndar
5. fundur menningarnefndar Árborgar kjörtímabilið 2006-2010, haldinn í ráðhúsi Árborgar, fimmtudaginn 21. desember 2006, kl. 17:15.
Mætt: Alma Lísa Jóhannsdóttir, formaður, Böðvar Bjarki Þorsteinsson, Þórir Erlingsson, Kjartan Björnsson og Grímur Hergeirsson. Sigrún Jónsdóttir forfallaðist.
Dagskrá:
1. mál Kosning varaformanns og ritara.
Menningarnefnd samþykkti með tveim atkvæðum fulltrúa S og V lista að kjósa Böðvar Bjarka Þorsteinsson varaformann nefndarinnar og Grím Hergeirsson ritara hennar. Fulltrúar D lista sátu hjá.
2. mál 0610102
Styrkbeiðni frá Hörpukórnum vegna ársins 2007.
Vísað til nefndarinnar frá bæjarráði 9/11´06.
Menningarnefnd úthlutar í umboði bæjarstjórnar Árborgar styrkjum til menningarstarfsemi tvisvar á ári, í apríl og október. Nefndin bendir Hörpukórnum á að sækja um styrk vegna ársins 2007 þegar auglýst verður eftir umsóknum í apríl nk.
3. mál Næstu skref í gerð Menningarstefnu.
Nefndin samþykkti að halda áfram þar sem frá var horfið fyrr í vetur við undirbúning að gerð menningarstefnu Árborgar. Samþykkt að halda sérstakan vinnufund um málið þriðjudaginn 23. janúar 2007 kl. 17:15.
4. mál Menningarhátíðir.
Þórir Erlingsson og Kjartan Björnsson lögðu fram svo hljóðandi tillögu:
Menningarnefnd leggur til við bæjarstjórn Árborgar að efla menningu og menningartengt starf í sveitarfélaginu með ráðningu menningar- og ferðamálafulltrúa. Öflug menning og ferðaþjónusta eru hverju sveitarfélagi til sóma. Öflug grasrót hefur unnið gríðarlegt starf í uppbyggingu menningar, menningarhátíða og ferðaþjónustu. Nú er komið að sveitarfélaginu að sinna sínu hlutverki.
Fulltrúar S og V lista óskuðu eftir fundarhléi.
Tveir fulltrúar D lista greiddu atkvæði með tillögunni en fulltrúar S og V lista greiddu atkvæði gegn tillögunni. Tillagan var því felld á jöfnu.
Fulltrúar S og V lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Þar sem vinna við fjárhagsáætlun stendur enn yfir teljum við ekki tímabært að samþykkja tillöguna.
Fulltrúar D lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar D lista lýsum yfir vonbrigðum okkar yfir því að núverandi meirihluti sjái sér ekki fært að efla menningar- og ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.
Fulltrúar S og V lista óskuðu eftir fundarhléi.
Fulltrúar S og V lista lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar S og V lista hafna því að núverandi meirihluti treysti sér ekki til að styrkja og efla menningarstarf í sveitarfélaginu og benda á að margar leiðir eru til þess aðrar en minnihlutinn leggur til. Meirihluti B, S og V lista vill viðhafa ábyrga stjórnsýslu og telur að ákvarðanir um mannaráðningar eigi að fara í gegn um þar til gerð ferli.
5. mál. Málefni bókasafnsins á Eyrarbakka.
Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða:
Menningarnefnd Árborgar leggur til við bæjarstjórn Árborgar að hún falli frá áformum um að loka bókasafni UMFE á Eyrarbakka og efli starf þess með því að vinna að sameiningu bókasafns UMFE og skólabókasafns BES á Eyrarbakka. Sérstaklega verði tekið tillit til þessa í undirbúningi og hönnun nýs skólahúsnæðis á Eyrarbakka.
Fundi slitið kl. 18:45
Alma Lísa Jóhannsdóttir
Böðvar Bjarki Þorsteinsson
Þórir Erlingsson
Kjartan Björnsson
Grímur Hergeirsson