51. fundur bæjarstjórnar
51. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2002-2006 – haldinn föstudaginn 13. janúar 2006 kl. 17:00 í Ráðhúsinu, Austurvegi 2, Selfossi.
Mætt:
Ásmundur Sverrir Pálsson
Þorvaldur Guðmundsson
Páll Leó Jónsson
Gylfi Þorkelsson
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Margrét K. Erlingsdóttir
Einar Pálsson
Halldór Valur Pálsson
Torfi Áskelsson
Einar Njálsson, bæjarstjóri
Helgi Helgason, bæjarritari, ritaði fundargerð.
I. Fundargerðir:
1.
a) Skipulags- og byggingarnefnd frá 06.12.05
b) Starfshópur um aðalskipulag frá 05.12.05
c) 154. fundur bæjarráðs frá 15.12.05
Fundargerðirnar staðfestar samhljóða .
2.
a) Skipulags- og byggingarnefnd frá 13.12.05
b) Skólanefnd grunnskóla frá 12.12.05
c) Félagsmálanefnd frá 12.12.05
d) Íþrótta- og tómstundanefnd frá 08.12.05
e) Starfskjaranefnd STÁ og FOSS frá 08.12.05
f) Yfirkjörstjórn frá 22.09.05-26.09.05,
07.10.05-08.10.05-25.10.05
05.10.05-06.10.05-
g) 155. fundur bæjarráðs frá 22.12.05
2g) bæjarráð – Ragnheiður tók til máls um lið 5 aðgerðaráætlun í forvarnarmálum og lýsti sérstakri ánægju með þetta starf, einnig vakti hún athygli á lið 9 tillögu að breytingu á innritunnareglum leikskóla.
Fundargerðirnar staðfestar samhljóða með framkomnum athugasemdum.
3.
a) Leikskólanefnd frá 21.12.05
b) Skipulags- og byggingarnefnd frá 20.12.05
c) 156. fundur bæjarráðs frá 05.01.06
3c) bæjarráð – Páll Leó ræddi lið 3 leigusamning um húsnæði fyrir Tónlistaskóla og lýsti ánægju með samninginn.
Fundargerðirnar staðfestar samhljóða með framkominni athugasemd.
4.
a) Skipulags- og byggingarnefnd frá 10.01.06 - liður 2 - afgreiðsla aðalskipulags Sv.fél. Árborgar 2005-2025
Halldór Valur spurði hvort þessi liður væri ekki til umræðu undir öðrum málum.
Forseti sagði svo vera.Einar Pálssontók einnig til máls en síðan var liðurinn borinn upp og staðfestur samhljóða.
II. Önnur mál:
1. Aðalskipulag Sveitarfélagsins Árborgar 2005-2025 – afgreiðsla athugasemda sem borist hafa á auglýsingartíma og staðfesting skipulagsins.
Alls hafa borist athugsemdir frá 382 einstaklingum og stofnunum, þar af 351 samhljóða bréf frá ýmsum íbúum Eyrabakka, 6 önnur bréf frá einstaklingum á Eyrabakka og 25 bréf frá ýmsum aðilum.
Halldór Valur tók til máls um skipulagstillöguna og lagði fram 6 breytingartillögur
TILLAGA 1:
Þéttbýlisuppdráttur Eyrarbakki breytist þannig, að allt svæðið milli núverandi byggðar norðan Túngötu að 100 metra fjarlægð sunnan Eyrarbakkavegur, frá Álfsstétt í austri að Bárðarbrú í vestri, sem nú er reitað niður í “íbúðarsvæði”, “opin svæði til sérstakra nota” og “óbyggð svæði”, verði skilgreint í heild sem blönduð landnotkun til “íbúðabyggðar” og “opin svæði til sérstakra nota vegna flóðavarna” til nánari útfærslu í heildardeiliskipulagi fyrir reitinn með það að markmiði að hámarka nýtingu þess til íbúðabyggðar.
Í grein 7 – Ferli og samþykkt aðalskipulags – Breytingar á þéttbýlisuppdrætti Eyrarbakka á bls. 80 komi í stað setninganna
Íbúðabyggð hefur verið stækkuð til norðurs upp að flóðasvæði og fara lóðir lítillega inn á flóðasvæðið. Kvaðir verða settar í deiliskipulagi á hæðarafsetningu húsa vegna flóðahættu og frárennslislagna. Íbúðarsvæðið er ekki stækkað meira þar sem þessu svæði var haldið auðu vegna flóðahættu og líkur eru á að það skapi núverandi byggð hættu verði landið hækkað meira, auk þess sem byggðin verður að vera a.m.k. 100 metra frá Eyrarbakkavegi.
setningarnar
Íbúðabyggð hefur verið stækkuð til norðurs að lágmarksfjarlægð frá Eyrarbakkavegi. Svæðinu var upphaflega haldið auðu að mestu vegna flóðahættu, sem vissulega er til staðar og kann að skapa núverandi byggð hættu verði landið hækkað meira. Vegna þess hvernig landið liggur að núverandi byggð er hins vegar mikilvægt að hámarka nýtingu þess til íbúðabyggðar, sem best verður gert með því að deiliskipuleggja svæðið sem heild, þannig að staðsetning og umfang flóðavarna, sem reynast nauðsynlegar, verði stýrt af hagkvæmni en ekki þeirrar tilviljunar hvar landið er lægt í dag. Stefnt verði að því að hluti þessa reits verði næsta byggingarsvæði á eftir Hulduhól. Kvaðir verða settar á í deiliskipulagi á hæðarstaðsetningu húsa vegna flóðavarna og frárennslislagna.
GREINARGERÐ
Þorpið Eyrarbakki er langt og mjótt, byggðin 2.000 m meðfram ströndinni, 200-250 m á breidd. Milli þorpsins og fjarlægðarverndarmarka Eyrarbakkavegar er álíka stórt svæði, - með öðrum orðum mætti “tvöfalda” þá íbúðabyggð, sem nú þegar hefur verið skipulögð, með því að nýta þetta svæði.
Þess í stað stefnir aðalskipulagstillagan að því að nýta einungis um fimmtung svæðisins, án nokkurrar sýnilegrar yfirvegunar á vali þess, og torvelda eða jafnvel útiloka þar með frekari nýtingu þess í framtíðinni, en lengja byggðina þess í stað um 900 m án þess að skapa með því aðstæður fyrir meira en “þriðjungs” fjölgun íbúa.
Orsök þess er í lokaútgáfu greinargerðar frá hendi skipulagshöfunda sögð sú, að svæðið ofan þorpsins sé [frá náttúrunnar hendi] flóðasvæði, “og líkur eru á að það skapi núverandi byggð hættu verði landið [allt – innskot flutningsmanna] hækkað meira”. Spildan, sem aðalskipulagstillagan gerir ráð fyrir að nýta með kvöð um landhækkun liggur órofin gjörvalla leiðina milli núverandi byggðar og þess flóðasvæðis, sem væntanlega er talið æskilegt til að taka við sjógusum, sem kunna að spýtast yfir sjóvarnargarða í miklum sjávarflóðsveðrum.
Öll umfjöllun um þetta flóðasvæði, umfram þá staðreynd að svæðið stendur lágt og þarf að hækka til byggingarnota, er óljós, styðst ekki við yfirvegaðar forsendur og ályktanir, sem gefið er í skyn að séu dregnar, stangast á innbyrðis. Hér eru því engin rök fyrir því að afskrifa þetta svæði, því síður fyrir að nýta tilviljanakenndan hluta þess af handahófi. Kostir legu þess að núverandi byggð ásamt erfiðu eðli þess eru hins vegar sameiginlega brýn rök fyrir því að skipuleggja svæðið í heild með hliðsjón af samspili vegtengingamöguleika, frárennslisaðstæðna og þýðingu svæðisins fyrir flóðavarnir.
Sennilega hefði verið rétt að þetta hefði verið unnið í aðalskipulaginu, en það var ekki gert. Sennilega má lesa skýringuna í auglýstri útgáfu greinargerðarinnar, í setningunni “Ásýnd frá þjóðvegi á gömlu byggðina haldist og verði ekki breytt með nýrri byggð ofan þeirrar eldri, enda er svæðið milli núverandi byggðar og þjóðvegar flóðasvæði”. Þegar af þeirri ástæðu að ásýndinni skyldi ekki breytt, enda máttarvöldin þess vegna haldið svæðinu láglendu, þurfti ekki að ígrunda frekar hvaða áhrif núverandi landhæð hefði á nýtingarmöguleika svæðisins að hluta eða öllu leyti.
Þótt fallið hafi verið frá firrunni um meinta ásýnd þorpsins eftir mótmæli Eyrbekkinga, sitja áhrif hennar eftir. Spildan er afgreidd með málamyndanýtingu og heildarnýtingarmöguleikar hennar stórlega skemmdir til frambúðar auk þess sem færa má veruleg rök fyrir því, að einmitt sú nýting sem lögð er til hámarki þá flóðahættu, sem kunni að skapast fyrir núverandi byggð. Sú hætta hefur hins vegar ekki verið skilgreind, nánast óljóst hvort hún stafi af sjávarflóði eða leysingaflóði ofan af mýrinni, sem var fram undir þessa daga vandamál, né nokkuð gert til að kanna leiðir til gagnráðstafana.
Fyrst ekki virðist talinn tími til að vinna þetta innan aðalskipulagsins, er nærtækasti kosturinn að deiliskipuleggja reitinn allan í einu skrefi, þótt það verði svo gert byggingarhæft í áföngum, líkt og Suðurbyggðin á Selfossi var unnin.
Þessi tillaga mótar þá stefnu að þetta svæði verði að minnsta kosti að hluta tekið til byggingar áður en ráðist verði í íbúðabyggingar meðfram sjónum vestan Hafnarbrúar, eins og aðalskipulagstillagan gerir núna ráð fyrir. Auk þess sem lega þessa svæðis liggur mun betur að núverandi byggð, koma einnig til efasemdir um að skynsamlegt sé að gera frekar ráð fyrir lengingu þorpsins til vesturs frekar en til austurs. Ekki verður séð að sá kostur hafi verið hugleiddur, þrátt fyrir að í greinargerðinni sé mikil áhersla sögð lögð á að efla tengsl Eyrarbakka og Stokkseyrar. Stokkseyri er austan við Eyrarbakka. Það sakar sennilega ekki að spurningin um austur eða vestur fái að meltast með mönnum áður en ekki verður aftur snúið.
Langt er enda seilst til raka fyrir þessu “vali”. Inn á skipulagsuppdrátt er sýnd lenging á núverandi sjóvarnargarði til austurs og vesturs og réttilega tekið fram að slíkur garður sé forsenda nýs íbúðahverfis við ströndina. Í greinargerðinni er sagt að uppdrátturinn sýni núverandi sjóvarnargarða ásamt áætlunum Siglingamálastofnunar um fyrirhugaðar styrkingar og viðbætur. Samkvæmt upplýsingum Siglingamálastofnunar eru á verkefnaskrá einhvern tíma eftir árið 2008 600m lenging sjóvarnagarðs til austur frá barnaskólanum, en framkvæmdir þar fyrir austan og frá gömlu Eyrarbakkahöfn til vesturs til athugunar sem seinni tíma framkvæmdir.
Kannski byggir valið á notalegum tilfinningum einhvers skipulagshöfundanna af lýsingunni “Byggðin kúrir bak við sjóvarnargarðinn .....”, og vissulega býður brattur bakkinn innan sjávarkambsins vestan þorpsins frekar upp á kúr en flatirnar austan þess. Viðbrögð Eyrbekkinga hafa hins vegar sýnt, að þeir kunna að meta gamla þorpið sem kúrir og vilja veg þess og viðgang sem mestan, en allur þorri þeirra vill stækka þorpið með lágreistri, öfgalausri nútímabyggð, sem laðar fram beina og óbeina nálægð við sem flesta nágranna, í stað þess að fjarlægð milli vina og ættingja geti orðið 3 km í þúsund manna þorpi.
Halldór Valur Pálsson Páll Leó Jónsson
TILLAGA 2:
Í grein 4.4.5 – Friðuð mannvirki, húsakannanir, hverfisvernd á bls. 30 falli burt orðin “bæði ..... sjálfu svo og út fyrir það”, þannig að í stað setningarinnar
Mikilvægt er, ekki aðeins fyrir sveitarfélagið heldur einnig landið allt, að glata ekki þessum einkennum heldur styrkja þau og vernda og nota til jákvæðrar uppbyggingar og þéttingar bæði á verndarsvæðinu sjálfu svo og út fyrir það.
komi setningin
Mikilvægt er, ekki aðeins fyrir sveitarfélagið heldur einnig landið allt, að glata ekki þessum einkennum heldur styrkja þau og vernda og nota til jákvæðrar uppbyggingar og þéttingar á verndarsvæðinu.
Halldór Valur Pálsson Páll Leó Jónsson
TILLAGA 3:
Í grein 4.5.1 – Sérkenni og þróun þéttbýliskjarna á bls. 33 komi í stað setningarinnar
Stækkun þorpsins verður meðfram sjónum til vesturs og eins með þéttingu og nýrri byggð norðan þorpsins eins og aðstæður samkvæmt deiliskipulagi leyfa, en þar þarf að taka tillit til flóðahættu, einnig m.t.t. núverandi byggðar, því land er þar lægra en í núverandi byggð.
komi setningin
Stækkun þorpsins verður með nýrri byggð norðan þorpsins eins og aðstæður samkvæmt deiliskipulagi leyfa, en þar þarf að taka tillit til flóðahættu, einnig m.t.t. núverandi byggðar, því land er þar lægra en í núverandi byggð, og eins með þéttingu og meðfram sjónum til vesturs.
GREINARGERÐ:
Sjá greinargerð með tillögu 1.
Halldór Valur Pálsson Páll Leó Jónsson
TILLAGA 4:
Í grein 4.6.3 – Áhrif íbúðaspár á aðalskipulagstillögu, fyrirhuguð uppbygging svæða á bls. 35 bætist við setninguna
Gert er ráð fyrir að byggðamynstur verði áfram svipað og verið hefur.
orðin “.... og stefnt sé að því að lóðaframboð í þorpunum þremur verði ávallt nægilegt til að þau geti orðið samstíga í íbúafjölgun”, þannig að setningin verði
Gert er ráð fyrir að byggðamynstur verði áfram svipað og verið hefur og stefnt sé að því að lóðaframboð í þorpunum þremur verði ávallt nægilegt til að þau geti orðið samstíga í íbúafjölgun.
GREINARGERÐ:
Þótt felld hafa verið burt úr niðurlagi þessarar greinar setningin “Á Eyrarbakka og Stokkseyri mun uppbygging að mestu háð eftirspurn”, sem í samhengi við greinina í heild er torskilin, gæti verið margslungin og gæfi einna helst í skyn að annars staðar í sveitarfélaginu skyldi byggja óháð eftirspurn, þykir rétt að staðfesta með þessum hætti, að meginstefna sveitarfélagsins sé að lóðaframboð hvetji til fjölgunar í öllum þorpunum.
Halldór Valur Pálsson Páll Leó Jónsson
TILLAGA 5:
Í grein 4.6.3 – Áhrif íbúðaspár á aðalskipulagstillögu, fyrirhuguð uppbygging svæða á bls. 37 bætist orðin “..... utan hverfisverndarsvæða og á nýju svæði norðan byggðarinnar við Túngötu .....” inn í setninguna
Lögð er áhersla á þéttingu byggðar á þegar deiliskipulögðum svæðum áður en byggt verður á nýju svæði vestast í þorpinu.
Þannig að setningin verði
Lögð er áhersla á þéttingu byggðar á þegar deiliskipulögðum svæðum utan hverfisverndarsvæða og á nýju svæði norðan byggðarinnar við Túngötu áður en byggt verður á nýju svæði vestast í þorpinu.
GREINARGERÐ:
Ekki verða séð rök fyrir því að gera fullnýtingu hverfisverndaðra svæða, þar sem þétting byggðarinnar þarf að vera háð mjög sérstökum kröfum, að forsendu fyrir lóðaframboði til almennra íbúðabygginga. Hafi þetta ákvæði á annað borð einhvern hugsaðan tilgang kemur aðeins tvennt til greina,
að setja hömlur á stækkun þorpsins,
eða að skeyta lítið um kröfugerð til bygginga á hverfisverndarsvæðunum,
og er hvorugt gott.
Fullbygging hverfisverndarsvæðanna hlýtur samkvæmt eðli máls að vera langtímaverkefni, en stækkun þorpsins að öðru leyti má gjarnan verða hröð.
Um forgang nýs hverfis norðan byggðarinnar við Túngötu vísast til greinargerðar með tillögu 1.
Halldór Valur Pálsson Páll Leó Jónsson
TILLAGA 6:
Í grein 4.6.3 – Áhrif íbúðaspár á aðalskipulagstillögu, fyrirhuguð uppbygging svæða á bls. 37 komi orðin “..... einbýlis-, par- og raðhús til samræmis við .....” í stað orðanna “.....í hlutföllum aðlöguð .....”, þannig að í stað setningarinnar
Ný byggð verði í hlutföllum aðlöguð fyrirliggjandi byggð svo byggðaeinkenni þessa sérstaka þorps haldist.
komi setningin
Ný byggð verði einbýlis-, par- og raðhús til samræmis við fyrirliggjandi byggð svo byggðaeinkenni þessa sérstaka þorps haldist.
GREINARGERÐ:
Gamla þorpið, hverfisverndaði hluti Eyrarbakka, er sérstakt og yfirbragð þess og sérstöðu ber að varðveita og hlúa að.
Nýrri hluti þorpsins sem byggður hefur verið í hrinum frá miðri síðustu öld, er á engan hátt sérstakur, endurspeglar aðeins að þorpið hefur byggst upp á löngum tíma og mun vonandi halda áfram að byggjast.
Stefna í þá átt að teygja svipmót nýrrar byggðar gegn tíðarandanum og breyttum lífsháttum í átt fram á fyrri hluta síðari aldar mundi byggjast á því að höfða til húsbyggjenda með aðrar þarfir og önnur viðhorf en almennt gerist.
Eyrbekkingar eru venjulegt fólk með venjulegar þarfir, og þeir hafa ekki markað sér þá stefnu að vera eða verða öðruvísi en aðrir.
Eyrbekkingar hafa á síðustu árum horft á eftir tugum eldri íbúa í leit að þægilegra og minna húsnæði og ungs fólks sem vill sinn búskap smátt burt úr þorpinu til staða sem bjóða upp á húsnæðismöguleika, sem eru því hentugri.
Slíku hefur ekki verið til að dreifa á Eyrarbakka, þar sem ekki hefur verið boðin par- eða raðhúsalóð í meira en áratug, þar til nú í haust.
Halldór Valur Pálsson Páll Leó Jónsson
Einar Pálssontók einnig til máls. Forseti gerði fundarhlé áður en tillögurnar voru teknar til afgreiðslu.
Forseti bar fram dagskrártillögu:
Tillögur minnihlutans varða veigamikla þætti aðalskipulagsins. Til að bæjarfulltrúar geti kynnt sér tillögurnar ítarlega legg ég fram svohljóðandi dagskrártillögu: “Bæjarstjórnarfundi verði frestað til . kl. 17:00 n.k. sunnudags 15. janúar 2006.”
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.
---------------------------------------------------------------------------------------------------------
Fundi framhaldið sunnudaginn 15.1.2006, kl. 17:00
Forseti leitaði afbrigða um að taka á dagskrá 10. lið fundargerðar skipulags- og byggingarnefndar frá 11.1.2006
Afbrigðin samþykkt samhljóða.
Síðan var framhaldið umræðum um aðalskipulag.
Þorvaldur tók til máls og lagði fram bókun frá meirihluta bæjarstjórnar:
“Bókun meirihluta S og B lista vegna breytingartillagna Halldórs Vals Pálssonar og Páls Leó Jónssonar við aðalskipulagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar 2005 – 2025.
Fagnað er þeim lifandi áhuga á skipulagsmálum sem fram kemur hjá íbúum Eyrarbakka. Þessi áhugi birtist meðal annars í mjög góðri aðsókn að íbúaþingi við upphaf skipulagsvinnunnar árið 2003 og þeim fjölmörgu athugasemdum sem komu frá Eyrbekkingum nú á athugasemdatíma við auglýsta aðalskipulagstillögu. Skýrsla íbúaþinganna reyndist mikill hugmyndasjóður sem nýst hefur vel í vinnu við gerð aðalskipulagsins. Starfshópur um aðalskipulag og skipulags- og byggingarnefnd í samstarfi við aðalskipulagsráðgjafa fóru mjög vandlega yfir allar athugasemdir. Þessir aðilar lögðu sig fram um að koma til móts við athugasemdirnar og er það mat bæjarfulltrúa meirihlutans að það hafi tekist mjög vel.
Komið hefur verið til móts við óskir íbúa á Eyrarbakka um stækkun byggðarinnar til norðurs í átt til þjóðvegarins. Ítrekaðar eru þær ástæður sem settar eru fram fyrir því að ekki er unnt að skipuleggja frekari byggð norðan núverandi byggðar í átt að þjóðvegi. Ákvörðunin byggir á þeim bestu rannsóknum sem þekktar eru. Rannsóknirnar eru ítarlegar og unnar af viðurkenndum vísindamanni Páli Imsland. Skýrsla Páls var unnin í tengslum við aðalskipulagsgerðina og er dags. í febrúar 2005. Einnig er haft að leiðarljósi að gæta hagsmuna íbúanna eins og kostur er og tryggja öryggi þeirra. Það er því mat meirihlutans að ekki sé unnt að verða við óskum um frekari stækkun íbúðabyggðar á þessu svæði nema til komi enn meiri vísindarannsóknir en nú eru þekktar.
Aðalskipulagsáætlunin markar mjög skýra stefnu um uppbyggingu á Eyrarbakka ekki síður en á öðrum stöðum í sveitarfélaginu. Stefnumörkun áætlunarinnar í heild er gerð með hagsmuni allra íbúa að leiðarljósi og reynt að gæta jafnræðis í hvívetna. Einnig er bent á að aðalskipulagsáætlunin er lifandi stefnumörkun sem þróast og tekur breytingum eftir því sem aðstæður breytast. Auk þess eru ákvæði í lögum um reglubundna endurskoðun aðalskipulags á fjögurra ára fresti. Bæjarfulltrúar meirihlutans telja því ekki þörf á að gera miklar breytingar á þeirri tillögu að aðalskipulagsáætlun sem hér liggur fyrir.”
15.01.06
Bæjarfulltrúar S og B lista
Einar Pálssontók til máls og lagði fram tillögu:
Tillaga um rannsóknir á flóðahættu og framkvæmd aðalskipulags.
“Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að láta gera meiri rannsóknir á flóðahættu á svæðinu milli núverandi byggðar á Eyrarbakka og þjóðvegarins m.t.t. þess að skoða möguleika á frekari nýtingu svæðisins. Stefnt er að því að þeim rannsóknum verði lokið tímanlega fyrir næstu lögboðna endurskoðun aðalskipulagsáætlunarinnar. Bæjarstjórn samþykkir ennfremur að leggja áherslu á að skipulagið verði framkvæmt þannig að uppbygging þegar deili skipulagðra svæða og svæða í norður jaðri núverandi byggðar hafi forgang gagnvart uppbyggingu á nýjum svæðum vestast í þorpinu. Þannig vinnst tími, áður en kemur að formlegri endurskoðun aðalskipulags, til þess að endurskoða áform um hvort stækka eigi byggðina til vesturs.”
Meirihluti S og B lista.
Margrét Erlingsdóttir ræddi nokkur atriði skipulagstillögunnar og lagði síðan fram bókun:
“Aðalskipulag Sveitarfélagsins Árborgar 2005-2025 er nú fullfrágengið til Skipulagsstofnunar ríkisins og þar með staðsetning á nýrri brú á Ölfusá yfir Efri Laugardælaeyju. Fullt samkomuleg er um staðsetningu brúarinnar milli Hraungerðishrepps og Sveitarfélagsins Árborg einnig hefur Vegagerð ríkisins lagt áherslu á þetta brúarstæði um áratuga skeið. Af þessu tilefni skorar bæjarstjórn Árborgar á alþingismenn kjördæmisins, Vegagerð ríkisins og samgöngunefnd Alþingis að beita sér fyrir því að ný brú yfir Ölfusá verði sett á vegaáætlun og komi til framkvæmda á næstu fimm árum. Ölfusábrú er einn af mikilvægustu þáttum í samgöngubótum á Suðurlandi þar sem umferðarþungi er mikill. Umferð um Suðurland fer öll um miðbæ Selfoss þar með taldir allir þungaflutningar.
Umferðarálag í miðbænum er algjörlega óviðunandi og gerð er krafa um að þegar verði farið að vinna að lausn málsins”
Meirihluti B og S lista.
Ragnheiður Hergeirsdóttir ræddi ýmis atriði skipulagstillögunar m.a. um svæði sem hugsuð eru til uppbyggingar á þjónustu við aldraða.
Torfi Áskelsson ræddi nokkur atriði tillögunar og lagði fram breytingartillögu:
“Breytingartillaga meirihluta S og B lista
við kaflann Breytingar á þéttbýlisuppdrætti Eyrarbakka á bls. 80 í greinargerð með aðalskipulagi.
Innskot í 1. málsgrein kaflans í setningu sem hljóðar svo: “Aukið er við íbúðabyggð í vesturhluta Eyrarbakka, (innskot) íbúðabyggð við Hulduhól breytt lítillega, og hluta athafnasvæðis “o.s.frv. Tilsvarandi breyting verður gerð á uppdrætti.”
Bæjarfulltrúar S og B lista.
Gylfi Þorkelsson ræddi breytingartillögur fulltrúa minnihlutans varðandi byggð á Eyrarbakka og fleiri atriði. Lagði síðan fram tillögu:
Breytingartillaga S og B lista við breytingartillögu 2 frá minnihluta.
Meirihlutinn leggur til að tillaga minnihlutans hljóði svo:
“Mikilvægt er, ekki aðeins fyrir sveitarfélagið heldur einnig landið allt, að glata ekki þessum einkennum heldur styrkja þau og vernda og nota til jákvæðrar uppbyggingar og þéttingar.” Brott falli orðin “ á verndarsvæðinu”
Bæjarfulltrúar S og B lista.
Páll Leó Jónsson tók til máls um framkomnar breytingartillögur.
Þorvaldur ræddi atriði sem komu fram í máli Páls.Einar Pálssonræddi sömu atriði og lagði fram bókun:
“Undirritaður bendir á að í þessari síðustu tillögu að aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið er komið verulega til móts við þær athugasemdir sem bárust frá íbúum. Hvað varðar athugasemdir frá íbúum á Eyrarbakka, þar sem meðal annars var gerð skýlaus krafa um að óbyggt svæði fyrir norðan byggðina verði skilgreint sem íbúðasvæði, er rétt að benda á að stór hluti umrædds svæðis er skilgreint sem flóðahættusvæði. Dr. Páll Imsland jarðfræðingur telur í skýrslu sinni frá því í febrúar 2005 þetta varasamasta byggingarland þorpsins. Í þessari aðalskipulagstillögu er íbúðabyggð stækkuð til norðurs á þessu svæði alveg upp að flóðamörkum og sum staðar inn fyrir það. Þar er m.a. möguleiki á að bæta við einni íbúðagötu með ca. 56 lóðum sem ætti að rúma um 140 íbúa. Það væri óábyrgt af mér sem íbúa á svæðinu og kjörins fulltrúa íbúanna að samþykkja að gengið sé lengra í þessa átt án frekari rannsókna á svæðinu. Öryggissjónarmið hljóta að hafa forgang. Fagaðilar og sérfræðingar sem komið hafa að málinu fram að þessu telja að verði svæðið stækkað frekar séu meiri líkur á að það skapi núverandi byggð hættu. Ég mun ekki standa að slíku. Samkomulag er innan meirihluta bæjarstjórnar að fram fari slík rannsókn og mun ég verða fyrstur manna til að fagna því ef það reynist unnt að taka stærri hluta þessa svæðis undir íbúðabyggð. Jafnframt hefur orðið að samkomulagi að þetta svæði, ásamt þéttingu byggðar, hafi forgang gagnvart uppbyggingu á svokölluðu vestursvæði þannig að það gefist tími til þess skoða hvort heppilegra sé að byggja til vesturs eða austurs í framtíðinni.
Tillagan gerir ráð fyrir 34 lóðum með þéttingu byggðar og 56 lóðum fyrir norðan byggðina eða samtals 90 lóðum á þessum svæðum sem myndu rúma um 225 íbúa fjölgun. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir um 100 lóðum til vesturs eða 250 íbúa fjölgun. Að fullnýttum þessum möguleikum gætu íbúar á Eyrarbakka verið orðnir 1045 í lok tímabilsins þ.e. fjölgun um 475 íbúa eða sem samsvarar 83% fjölgun. Jafnframt er gert ráð fyrir búgarðabyggð fyrir norðan þjóðveginn sem rúma á 225 íbúa. Komi það í ljós að þetta framboð reynist ekki nægjanlegt mun sveitarstjórn á hverjum tíma að sjálfsögðu bregðast við með auknu framboði lóða. Það er aðalmálið.
Í ljósi þessara upplýsinga hlýtur að vera erfitt að fullyrða að ætlun bæjaryfirvalda, með þessari aðalskipulagstillögu, sé að íbúðaþróun og lóðaframboð á Eyrarbakka verði haldið í lágmarki nema slíkar fullyrðingar séu settar fram í pólitískum tilgangi á kosningavetri
Það hefur ekki verið neitt launungarmál að ég hef ekki verið ánægður með þann gang sem verið hefur á lóðaúthlutunum fram að þessu á Eyrarbakka frekar en margir íbúar þar en ég tel ekki rétt að það hafi úrslitaáhrif á afstöðu mína til þessarar aðalskipulagstillagna né til tillagna minnihlutans í málinu enda um annað mál að ræða.
Ég styð þá aðalskipulagstillögu sem liggur fyrir fundinum.”
Einar Pálsson
Gylfi ræddi tillögur minnihlutans.
Halldór Valur tók til máls og ræddi nokkur atriði sem komið hafa fram í umræðum. Margrét ræddi um flóðaskýrslu.
Páll Leó ræddi ýmis atriði skipulagstillögunnar.Einar Pálssonræddi atvinnumál ofl.
Atkvæðagreiðslur um tillögur:
Tillaga 1 frá HVP og PLJ felld með 7 atkv. ( meirihl) gegn 2
Tillaga 2 frá HVP og PLJ með breytingartillögu meirihl. Samþ með 7 atkv. 2 sátu hjá ( minnihl.)
Tillaga 3 frá HVP og PLJ felld með 7 atkv. ( mei