Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


5.11.2015

55. fundur bæjarráðs

55. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn fimmtudaginn 5. nóvember 2015 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10.  Mætt: Gunnar Egilsson, formaður, D-lista, Sandra Dís Hafþórsdóttir, bæjarfulltrúi, D-lista, Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi, B-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi, S-lista, Eyrún Björg Magnúsdóttir, varamaður, Æ-lista, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, sem ritaði fundargerð. Dagskrá: 
Fundargerðir til kynningar
1. 1503251 - Fundargerð hverfisráðs Eyrarbakka
20. fundur haldinn 13. október
Bæjarráð þakkar fundargerðina. -liður 3, umræður um stöðu mála vegna gönguleiðar. Í framhaldi af staðfestingu breytingar á aðalskipulagi vegna breyttrar legu Fjörustígs hefur verið óskað eftir tilboðum í verkið og verða tilboð opnuð seinna í dag, sjá auglýsingu á vef sveitarfélagsins https://www.arborg.is/utbod-sveitarfelagid-arborg-oskar-eftir-tilbodum-i-strandstigur-2015/ . -liður 4, ásýnd þorpsins. Á undanförnum árum hefur af hálfu sveitarfélagsins verið unnið í því að bæta ásýnd þorpsins, má þar t.a.m. nefna frágang við barnaskólann, endurnýjun gangstétta og götulýsingar og nú síðast endurnýjun gangstéttar við Túngötu meðfram Garðstúni. Bæjaryfirvöld hafa hins vegar afar takmarkaðar heimildir til að láta lagfæra útlit húsa eða laga til innan lóða. Heimildir til slíks takmarkast af eignarrétti einstaklinga og er einungis heimilt að grípa til ráðstafana ef hætta stafar af eða skaðar fyrir heilsu. Þá er rétt að minna á að í árlegu hreinsunarátaki sem sveitarfélagið stendur fyrir á vorin gefst íbúum kostur á að losna við rusl í gáma sem komið er fyrir við þorpið. Bæjarráð hvetur íbúa til að huga að eignum sínum og lagfæra ásýnd þeirra. -liður 5, fjölgun bílhræja. Sveitarfélagið og heilbrigðiseftirlitið eiga í stöðugu samstarfi varðandi það að láta fjarlægja númerslausa bíla sem standa á landi sveitarfélagsins. Er það gert með þeim hætti að HES festir tilkynningu á viðkomandi ökutæki um að það skuli fjarlægt, og ef ekki hefur verið orðið við því innan tilskilins frests er verkið unnið á kostnað eiganda. Engar heimildir eru til að fjarlægja bílhræ sem standa innan lóða, nema hætta stafi af, svo sem að framan er rakið, og hefur m.a. reynt á þetta atriði fyrir Hæstarétti Íslands. Bæjarráð hvetur íbúa til að fjarlægja ónýta bíla sem víða standa innan lóða. -liður 6, malbiksviðgerðir. Samið var við verktaka um að annast yfirlagnir á Fossheiði og Álfsstétt og laga skemmdir í malbiki á nokkrum stöðum nú í haust í sömu umferð. Vegna vætu hefur ekki verið unnt að ráðast í yfirlagnir og hafa viðgerðir því einnig beðið. Ekki liggur fyrir dagsetning á því hvenær farið verður í þessi verk, en það verður gert um leið og færi gefst. -liður 7, staða miðbæjarskipulags. Eins og fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar frá 21. október sl.,  sbr. og fundargerð bæjarráðs frá 14. október og fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 7. október, hefur deiliskipulagstillaga vegna miðsvæðis á Eyrarbakka verið afgreidd frá sveitarfélaginu. Tillagan bíður nú endanlegrar staðfestingar Skipulagsstofnunar og auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.
Almenn afgreiðslumál
2. 1510186 - Styrkbeiðni Hestamannafélagsins Sleipnis vegna endurbóta á vallarsvæði Sleipnis og stöðu húsvarðar í Sleipnishöll, auk beiðni um úrbætur á frárennslis- og hitaveitumálum.
Beiðni um úrbætur í frárennslismálum í hesthúsahverfi er til athugunar. Bæjarráð vísar erindi varðandi styrk til lagfæringar á vellinum til fjárhagsáætlunargerðar. Erindi varðandi starfskraft til starfa við Sleipnishöll er til skoðunar í tengslum við verkefni innan félagsþjónustunnar.
3. 1510171 - Styrkbeiðni Afréttarmálafélags Flóa og Skeiða vegna girðinga á afrétti og endurbætur á Reykjaréttum, beiðni um 200.000 kr styrk.
Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunargerðar.
4. 1510152 - Styrkbeiðni Bókabæjanna austanfjalls vegna starfsmanns bókabæjanna 2016
Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunargerðar.
5. 1510191 - Styrkbeiðni stjórnar Skógræktarfélags Eyrarbakka vegna áframhaldandi uppbyggingar í Hallskoti
Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunargerðar.
6. 1510133 - Drög að brunavarnaáætlun Brunavarna Árnessýslu FYRRI HLUTI               SEINNI HLUTI
Bæjarráð samþykkir brunavarnaáætlunina fyrir sitt leyti, bæjarráð bendir á að fjárfesting hvers árs fyrir sig verður ákveðin í fjárhagsáætlun á hverjum tíma.
7. 1510178 - Stofnsamningur um Héraðsnefnd Árnesinga bs - breytingar samþykktar á haustfundi Héraðsnefndar Árnesinga
Bæjarráð samþykkir samninginn með þeim breytingum sem lagðar eru til.
8. 1510138 - Beiðni Markaðsstofu Suðurlands, dags. 19. október 2015, um framlengingu á samstarfssamningi
Bæjarráð samþykkir framlengingu á samstarfssamningnum með óbreyttri krónutölu, 360 kr. á íbúa, til eins árs. Bæjarráð óskar eftir upplýsingum um hvernig brugðist verði við taprekstri.
Erindi til kynningar
9. 1509052 - Svar Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 20. október 2015, við umsókn sveitarfélagsins um byggðakvóta fiskveiðiársins 2015-2016
Bæjarráð samþykkir eftirfarandi sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta fyrir Sveitarfélagið Árborg. Ákvæði reglugerðar nr. 605/2015 gilda um úthlutun byggðakvóta Eyrarbakka og Stokkseyrar með eftirfarandi viðauka/breytingum: a) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið á tímabilinu 1. september 2014 til 31. ágúst 2015. b) 2. mgr. 4. gr. fellur brott. c) Ákvæði 1. og 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2015 til 31. ágúst 2016. Aflinn skal nema, í þorskígildum talið 1,5 földu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari. Rökstuðningur: Í byggðarlögunum Eyrarbakka og Stokkseyri háttar þannig til að ekki er hafnaraðstaða til löndunar afla. Nauðsynlegt er því að veitt verði undanþága frá þeirri skyldu að afla sem fellur til á grundvelli byggðakvóta sé landað í viðkomandi byggðarlagi. Verði slík undanþága veitt verður fiskiskipum, sem fá byggðakvóta úthlutað, unnt að landa afla í öðrum höfnum. Megináhersla laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og reglugerðar nr. 605/2015 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa er að styrkja atvinnusköpun innan byggðarlaga sem uppfylla tiltekin skilyrði með úthlutun byggðakvóta. Í sveitarfélaginu eru reknar fiskvinnslur, tvær á Stokkseyri og ein á Eyrarbakka. Fiskvinnslurnar eru allar litlar og sérhæfðar og því nauðsynlegt að heimilað verði að vinna aflann innan sveitarfélagsins til að koma í veg fyrir að byggðakvótinn falli niður. Bæjarráð óskar eftir að reglunum verði breytt á þann veg að ekki þurfi að skila tvöföldu magni til vinnslu, heldur verði miðað við stuðulinn 1,5. Ástæðan er sú að fiskvinnslurnar í Árborg eru sérhæfðar og litlar og vinna einkum ýsu. Erfitt er að fá ýsukvóta og því sýnt að útgerðirnar myndu lenda í vanda með að skila tvöföldu aflamarki til vinnslu.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 09:50.
Gunnar Egilsson Sandra Dís Hafþórsdóttir
Helgi Sigurður Haraldsson Arna Ír Gunnarsdóttir
Eyrún Björg Magnúsdóttir Ásta Stefánsdóttir

Þetta vefsvæði byggir á Eplica