Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


10.5.2006

57. fundur bæjarstjórnar

  1.  57. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2002-2006 –  haldinn miðvikudaginn 10. maí  2006  kl. 17:00 í Ráðhúsinu, Austurvegi 2, Selfossi.

Mætt:
Ásmundur Sverrir Pálsson                  
Páll Leó Jónsson                                
Gylfi Þorkelsson                                 
Ragnheiður Hergeirsdóttir                   
Torfi Áskelsson                                  
Halldór Valur Pálsson             
Einar Pálsson                                     
Margrét K. Erlingsdóttir 
Þorvaldur Guðmundsson
Einar Njálsson, bæjarstjóri      
Helgi Helgason, bæjarritari, ritaði fundargerð.

Forseti leitaði afbrigða um að taka á dagskrá , undir önnur mál  liði  5, 6, 7 og 8.
Afbrigðin samþykkt samhljóða.

Dagskrá.

I. Fundargerðir:

1.   
a) Íþrótta- og tómstundanefnd                              frá 30.03.06
b) Framkvæmda- og veitustjórn                            frá 29.03.06
c) 170. fundur bæjarráðs                                      frá 12.04.06

Fundargerðirnar staðfestar samhljóða.

2.   
a) Félagsmálanefnd                                              frá 10.04.06
b) Skólanefnd grunnskóla                                     frá 10.04.06
c)  Skipulags- og byggingarnefnd                         frá 11.04.06 
d) 171. fundur bæjarráðs                                    frá 27.04.06

2 d) bæjarráðs - Ragnheiður vakti athygli á bókun varðandi úttekt á launum  karla og kvenna. Einar Pálsson ræddi 6. lið fundargerðarinnar og lagði fram tillögu:

“Efnisvinnsla á Ingólfsfjalli
Bæjarstjórn Árborgar telur ekki skynsamlegt út frá umhverfissjónarmiðum að leggjast gegn afdráttarlausu áliti Skipulagsstofnunar sem leggst gegn frekari efnistöku á Ingólfsfjalli. Við berum öll ábyrgð á umhverfismálunum. Bæjarstjórn áréttar mikilvægi þess að vinnsla jarðefna sé sem mestri sátt við umhverfið og að ekki sé gengið lengra en eðlilegt má teljast í þeim efnum. Vinnsla jarðefna er mjög mikilvæg fyrir uppbyggingu í Sveitarfélaginu Árborg sem og nágrannasveitarfélögum og er hagsmunamál allra íbúanna.

Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að óska eftir viðræðum við nágrannasveitarfélög og aðra hagsmunaaðila s.s. verktaka og landeigendur um að kannaðir verði til hlítar aðrir möguleikar til efnistöku og vinnslu jarðefna, öllum til hagsbóta.                                                                                       Einar Pálsson” 

Ragnheiður ræddi tillöguna og lagði til að henni verði vísað til bæjarráðs til frekari umræðu.Einar Pálssontók til máls um tillögu Ragnheiðar og mælti gegn þeirri málsmeðferð,  en tillaga Ragnheiðar var síðan borin upp og samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1 atkv. EP  2 sátu hjá ( HVP og PLJ)                                

Fundargerðirnar staðfestar samhljóða með framkomnum athugasemdum

1.       
a)  Leikskólanefnd                                                frá 26.04.06
b)  Skipulags- og byggingarnefnd                        frá 25.04.06
c)  172. fundur bæjarráðs                                   frá 04.05.06

3c) bæjarráð, liður 2a) fundargerð Atvinnuþróunarsjóðs  Páll Leó lýsti ánægju með hugmyndir um stofnun háskóladeildar á Suðurlandi. Gylfi ræddi sama mál og tók undir með Páli.Einar Pálssontók einnig undir þetta mál.
Einar lýsti einnig ánægju með ráðningu leikskólastjóra nýs leikskóla við Erlurima.

Fundargerðirnar staðfestar samhljóða með framkomnum athugasemdum

 II. Önnur mál:

 1. Tillaga meirihluta S og B lista um uppbyggingu skólahúsnæðis Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. 

Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að byggja upp húsnæði fyrir skólann, bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri.  Byggingar á hvorum stað verða miðaðar við fullbúin skólahús og skiptan nemendahóp eins og er í dag.  Verkefnisstjóra fræðslumála, í samstarfi við framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs, er falið að fylgja eftir þeirri uppbyggingaráætlun sem samþykkt bæjarstjórnar felur í sér.

Einnig samþykkir bæjarstjórn áætlun til að mæta strax brýnni þörf fyrir kennsluhúsnæði við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri og draga eins og kostur er úr akstri með nemendur á milli staða:

Framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs og verkefnisstjóra fræðslumála, í samstarfi við skólastjóra, er falið að vinna að (eftirfarandi) (málinu) fyrir haustið 2006:
að fyrirkomulag kennslu í 1.-5. bekk verði þannig að myndmennt, íþróttir og tölvukennsla verði kennd á Stokkseyri.
að fyrirkomulag kennslu 6. – 10. bekkjar á Eyrarbakka verði þannig að smíði, sund og matreiðsla verði kennd á Stokkseyri en hannyrðakennsla verði á Eyrarbakka.
að keyptur verði nauðsynlegur tölvubúnaður til að hægt sé að sinna upplýsingartækni- og tölvukennslu á Stokkseyri.
að festa kaup á tveimur útistofum sem settar verða niður við skólann á Eyrarbakka.  Í þeim væri möguleiki á að kenna hannyrðir og tónlist.
að leggja fram eins fljótt og unnt er kostnaðar- og framkvæmdaáætlun vegna fjárfestinga sem áformaðar eru fyrir upphaf skóla í ágúst 2006.
(sjá breytingatillögu) 

Greinargerð 

Á kjörtímabilinu hefur verið unnin mikil undirbúningsvinna vegna þessa verkefnis, íbúaþing, gagnasöfnun, áætlanagerð og nefndarstarf.  Alltaf hefur legið fyrir að ekki væri unnt að ráðast í byggingu tveggja grunnskóla í sveitarfélaginu á sama tíma en byggingu Sunnulækjarskóla mun ljúka á næsta ári. Úrlausn málsins er ekki einföld og skiptar skoðanir eru meðal íbúa um leiðir til að bæta húsnæðisaðstöðu skólans.  Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri býr við ófullnægjandi húsakost og takmarkaða aðstöðu til að stunda kennslu allra námsgreina á hvorum stað án þess að þurfa að aka nemendum á milli staða.  Með uppbyggingu skólahúsnæðis á báðum stöðum verður hægt að minnka þann akstur sem stundaður er í dag, húsnæði sem er til staðar nýtist áfram til skólahalds og hluti nemenda getur gengið til og frá skóla.  Einnig hefur komið fram mjög sterkt viðhorf íbúanna um að skóli í báðum þorpunum við ströndina sé grundvöllur að eðlilegri byggðarþróun á hvorum stað.  Tekið er undir þetta sjónarmið með tillögu þeirri sem hér er flutt.

 Í kjölfar þessarar samþykktar verður hafist handa við þarfagreiningu, hönnunarvinnu og útboð í lok árs 2006.  Lögð verður áhersla á að byggja fyrst upp aðstöðu skólans á Eyrarbakka sem þjónar sem best námsþörfum nemenda í 6. – 10. bekk.  Gert er ráð fyrir að nemendur fari enn um sinn í íþróttakennslu að Stað og sundkennslu á Stokkseyri.  Stefnt er að því að framkvæmdum við nýbyggingu á Eyrarbakka verði lokið haustið 2008.

 Uppbygging á aðstöðu skólans á Stokkeyri er áætluð strax í kjölfar framkvæmda á Eyrarbakka.  Á árinu 2008 verði hafist handa við þarfagreiningu, hönnun og útboð á aðstöðu sem þjónar sem best nemendum 1. –  5. bekkjar.  Áætlað er að framkvæmdum ljúki á Stokkseyri vorið 2010.  Gert er ráð fyrir að íþróttaaðstaða sem fyrir er á Stokkseyri, sundlaug og íþróttahús, verði nýtt áfram til kennslu.

Meirihluti Samfylkingar og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Árborgar.

Forseti kynnti tillöguna en síðan tók Einar Pálssontil máls og lagði fram bókun:

”Bókun vegna tillögu meirihluta bæjarstjórnar um uppbyggingu húsnæðis Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. 

Tillaga meirihluta bæjarstjórnar miðar að því að byggja við núverandi húsnæði í báðum þorpum. Þessu er ég ósammála og tel mjög óskynsamlega.

Sú vitneskja að húsnæði skólans væri algjörlega óviðunandi, bæði hvað varðar stærð og ástand, hefur legið fyrir í nokkur ár. Þrátt fyrir fögur loforð við síðustu kosningar um að nú yrði tekið á húsnæðismálunum hefur ekkert áþreifanlegt verið gert nema það hafa verið haldnir nokkrir fundir og skrifaðar tvær skýrslur þessi fjögur ár. Á meðan hafa börnin okkar lokið tæplega helmningi af sinni skólagöngu við ófullnægjandi aðstæður og húsnæði.

Til að kóróna svo allt leggur meirihlutinn til að fara í dýrar bráðabirgðalausnir korteri fyrir kosningar. Annað hvort er undirritaður orðin mjög aldraður og farinn að bresta minni eða var ekki borin út dreifibréf inn á öll heimili á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir mánuði síðan og því lofað að þetta mál yrði ekki leyst með bráðabirgðalausnum!

Ég vil gera eftirfarandi athugasemdir varðandi þær bráðabirgðalausnir sem lagðar eru til og eru þær gerðar í samráði við skólastjóra:

 Fyrirkomulag kennslu í 1.-5.bekk: 
-Myndmennt er þegar kennd í 1.-5. bekk á Stokkseyri og það hefur alltaf verið þannig.
-Íþróttir: Erfitt að segja til um kostnaðarlegan sparnað þar sem allflestar ferðir eru fjölnýttar, þ.e. til dæmis þegar bekkur fer á Eyrarbakka í íþróttir, þá er ferðin til baka nýtt undir 8. bekkinga sem eiga að fara í heimilisfræði á Stokkseyri. Helsti kosturinn við að kenna íþróttir 1.-5. b. á Stokkseyri er sá að minnka þvæling á nemendum milli þorpa og tímann sem fer í hann. Foreldraráð skólans hefur lagt þetta til eftir ábendingu skólastjórnenda á fundi í des. 05 og þegar hefur verið tekin ákvörðun um þetta. Á sínum tíma (1998-1999) var hætt að nota íþróttarhúsið á Stokkseyri vegna samninga milli UMF Stk. og sveitarfélagsins að sögn fyrrverandi verkefnisstjóra fræðslumála. Það var óvinsæl aðgerð í skólanum.
Tölvukennsla hefur alltaf farið fram í 1.-5. bekk á Stokkseyri þar til í fyrra. Skólinn er með 2 tölvur í hverri stofu þar. En það er hins vegar mun betra að komast í tölvuverið á Eyrarbakka.  Kostnaðarlegur sparnaður orkar tvímælis eins og í fyrri dæmum. Það væri mjög gott að fá fartölvuver á Stokkseyri, Þetta er líka hugmynd frá foreldraráðinu frá í vetur.
 -  Það er hins vegar ýmislegt annað sem myndi ganga fyrir slíku fartölvuveri að áliti skólastjórnenda, eins og t.d. öryggi barnanna á biðstöðvum og við skólaakstur (aðstaðan þegar þau fara í og úr rútu á Stokkseyri), leikvellirnir sem eru úr sér gengnir og illa farnir auk þess að vera ekki sniðnir fyrir réttan aldur á Eyrarbakka, lagfæringar eftir innbrot í fyrravetur, mötuneytis- og samkomuaðstaða, húsgögn og búnaður vegna mötuneytis. Rétt er að benda á að núna borða nemendur á göngum skólans á Eyrarbakka við samtíning af borðum og stólum og á Stokkseyri borða nemendur í alltof litlu rými skólavistunarinnar að hluta til við borð og stóla sem fengin voru að láni í Hólmaröst.

Fyrirkomulag kennslu í 6.-10.bekk: 
-  Að kenna hannyrðir á Eyrarbakka en ekki smíði leysir mjög lítinn vanda þar sem hannyrðakennsla og smíðakennsla er samkeyrð í öllum bekkjum. Þetta myndi ekki spara neinn akstur og auk þess þyrfti að semja við og borga kennara (kjarasamningsbundið) fyrir að fara á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar til að kenna. Þá væri stundaskrá nemenda enn flóknari.

 Kaup á tölvubúnaði á Stokkseyri: 
-   Sjá fyrsta lið.

 Kaup á 2 útistofum: 
-  Það er út í hött og gjörsamlega óásættanlegt að mínu mati að leggja kostnað í slíka bráðabirgðalausn sem 2 útistofur eru. Við höfum dæmi um slíkt bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri, 4 stofur sem eru enn í fullri notkun komnar á fertugsaldurinn (frá 1973 og 1980). Samkvæmt þeim upplýsingum sem undirritaður hefur aflað sér má ætla að kostnaður bara við þessar tvær útistofur verði ekki undir 30 mkr. Flest starfsfólk skólans og nemendur hafa þraukað þetta hingað til við núverandi aðstæður og vilja miklu frekar gera það eitthvað lengur ef þau eiga vísa varanlega úrbót.
-  Nýting eins og lögð er til að slíkum stofum er líka út í hött. Samanber það að ef flytja á hannyrðakennsluna (4 hópar á viku) á Eyrarbakka þá þarf samt sem áður að flytja smíðahópana á Stokkseyri svo að enginn aksturssparnaður verður. Það er mjög erfitt að stilla stundatöflu upp á annan hátt m.a. vegna viðmiðunarstundaskrár og hópastærða, myndi lengja vinnudag nemenda og gera stundaskrá þeirra flóknari.
-   Þá hefur tónlist alltaf verið kennd í heimastofum nemenda og ef það ætti að fara að kenna hana alla á Eyrarbakka þá kostaði það aukinn akstur með nemendur frá Stokkseyri því vissulega væri eðlilegt að nýta nýja tónlistarfstofu fyrir alla nemendur. Líka í ljósi þess að verið er að ráða til skólans nýútskrifaðan og mjög færan tónmenntarkennara þessa dagana. Þá þyrfti að huga að því hvernig nemendur TÁ sem eru á Stokkseyri kæmust yfir á Eyrarbakka þegar farið verður að taka þá út úr tímum eins og fyrirhugað er að gera á komandi skólaári (reyndar ekki pláss til þess í hvorugu skólahúsinu  í dag).

 Aðspurður segist skólastjóri skólans að ekkert hafi verið leitað til hans vegna þessara tillagna og hlýtur það að vekja furðu ef ætlun bæjaryfirvalda er að hafa fagmenn með í ráðum varðandi skólamálin. Að sögn framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs var heldur ekki leitað til hans.

 Í ljósi þess að hér er verið að leggja til miklar breytingar á innra starfi skólans, kennslufyrirkomulagi og ráðast í verklegar framkvæmdir, vil ég leggja fram þá spurningu, við flutningsmenn tillögunnar og óska  eftir svari hér áður en tillagan verður borin upp; Hvers vegna var ekkert samráð haft við ofangreinda aðila? 
Einar Pálsson”

Margrét tók til máls lagði fram breytingu á tillögunni:  Niðurlag 3.mgr. verði =  er falið að vinna að  málinu fyrir haustið 2006 -  sundurliðun þar á eftir falli út.

Einar Pálsson, lagði fram tillögu –
“Tillaga um framtíðarskipan húsnæðismála Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. 

Bæjarstjórn Árborgar samþykkir að byggja nýja skólabyggingu fyrir Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri. Skólabyggingin skal rísa á hentugum stað milli þorpanna. Miðað skal við heildstæðan skóla sem hýsir nemendur í 1. – 10. bekk og alla aðstöðu sem nútímaskólabygging krefst, þ.m.t. til íþróttaiðkunar og annarra lögbundna námsgreina í grunnskóla.

Lagt er til að nú þegar verði hafist handa við undirbúning verkefnisins og stefnt að því að ný skólabygging verði tekin í notkun við upphaf skólaárs 2009 - 2010. Samþykkt er að í sumar fari fram hugmyndasamkeppni um staðsetningu og skipulag skólasvæðisins sem og byggingarinnar, þar sem einnig verði hugað að annarri þjónustu fyrir íbúa.

Skipuð verði sérstök bygginganefnd skólans sem í eiga sæti framkvæmdastjóri framkvæmda- og veitusviðs, verkefnisstjóri fræðslumála, tveir fulltrúar bæjarstjórnar Árborgar, skólastjóri, fulltrúi kennara, fulltrúi annarra starfsmanna og fulltrúi foreldra Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Greinargerð 

Á kjörtímabilinu hefur verið unnin mikil undirbúningsvinna vegna þessa verkefnis. Haustið 2002 var skipaður starfshópur sem hafði það verkefni að gera úttekt á húsnæði og aðstöðu skólans og koma með tillögur að framtíðarskipan húsnæðismála skólans. Starfshópurinn skilaði áliti sínu í maí 2003. Þar kom m.a. fram að verulega skortir á að nægjanlegt húsrými sé til staðar fyrir starfsemi skólans miðað við það sem lög gera ráð fyrir. Einnig að mikið skortir á að það húsnæði sem fyrir hendi er,  sé boðlegt nútímaskólastarfi. Jafnframt segir í skýrslunni: “...það hlýst af því mikið óhagræði að skipta skólahaldi í tvennt og dreifa þannig rekstrinum á tvo staði. Líklega er ógerningur að ná fram hagkvæmni í slíkri rekstrartilhögun auk þess sem fagleg samvinna er skert og félagslíf háð verulegum annmörkum.”
Skýrslan var lögð fram á íbúaþingi haustið 2003 þar sem fram kom sterkur vilji íbúanna til að bæta húsnæðisaðstöðu skólans.

Í desember 2004 samþykkti loks bæjarráð Árborgar að skipa vinnuhóp sem hefði það markmið að fjalla um framtíðarstarf og aðstöðu skólans. Sú vinna skyldi endurspegla sýn íbúa á hvar og hvernig skyldi byggja upp aðstöðu til framtíðar. Jafnframt skyldi hópurinn koma með niðurstöðu sem nýtast myndi bæjarstjórn til ákvörðunar um framkvæmdir. Af einhverjum “óskiljanlegum” ástæðum var umræddur vinnuhópur ekki skipaður fyrr en tíu mánuðum síðar, í september 2005. Vinnuhópurinn sem skipaður var 22 einstaklingum;  fulltrúum frá skólanefnd, skólastjórnendum, kennurum, öðru starfsfólki skólans, foreldrafélagi og atvinnulífi, ásamt öllum þeim íbúum sem þess óskuðu, vann að verkefninu frá október 2005. Niðurstöður hópsins voru lagðar fram í febrúar 2006 og kynntar á skólanefndarfundi þann 20. febrúar sama ár. Þær voru afdráttarlausar: “Afgerandi meirihluti verkefnishópsins sér fyrir sér að sameiginleg ný skólabygging milli þorpanna sé sá kostur sem er áhugaverður til að byggja á til framtíðar.” Þrátt fyrir þetta kaus skólanefnd að hafa þessa niðurstöðu að engu, tók ákvörðun þvert á hana og lagði til að byggt yrði við núverandi húsnæði í báðum þorpum.

Skólanefnd benti á að heppileg leið til að kynna niðurstöður skýrslunnar væri að boða til íbúafundar og það var gert í byrjun apríl 2006.  Á fundinum kynntiÁsbjörn Blöndalframkvæmdastjóri framkvæmda- og veitusviðs ítarlega samantekt sína á húsnæðisþörf skólans og kostnaði við uppbyggingu tveggja kosta; að byggja við núverandi húsnæði í báðum þorpum eða að byggja eina skólabyggingu á milli þorpanna. Niðurstaða hans var sú að það væri fjárhagslega hagkvæmara að byggja eina nýbyggingu. Einnig að þessi kostur væri líka rekstrarlega séð hagkvæmari, ekki síst til lengri tíma litið. Niðurstöður skýrslu vinnuhópsins voru ekki kynntar á íbúafundinum þrátt fyrir ósk skólanefndar á febrúarfundi sínum og athugasemdir fulltrúa vinnuhópsins á kynningarfundinum. Þar með skorti algjörlega kynningu og umfjöllun með hliðsjón af faglegum forsendum málsins.  Eftir þessa einhliða kynningu á málinu og umræður um það var við lok fundarins efnt til “frjálsrar og óbundinnar viðhorfskönnunar” meðal fundarmanna sem lyktaði með því að meirihluti fékkst loksins fyrir uppbyggingu í báðum þorpum.

Kennarafundur í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri ályktaði um málið 2.mars á þessu ári og minnti á “samdóma álit meirihluta starfshóps sem skilaði skýrslu um þessi mál í vetur en í þeim hópi voru sex starfsmenn skólans, þar af tveir kennarar.”

Foreldraráð Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri segir svo í umfjöllun sinni um málið:

“Foreldraráð mælir með því að byggður verði upp einn skóli, miðsvæðis á milli þorpanna. Nokkur rök fyrir því hafa þegar verið tíunduð í fjölmiðlum. Þeim til viðbótar vill foreldraráð benda á að rekstur skóla undir einu þaki er ódýrari en þegar starfseminni er skipt á fleiri hús. Verði allt skólahald á einum stað verður um minni skólaakstur að ræða, akstursleiðir verða líka styttri. Auðveldara yrði að byggja upp öflugra félagslíf nemenda. Stoðþjónusta, svo sem bókasafn, námsráðgjöf og skrifstofa, yrði mun öflugri. Auðveldara yrði fyrir nemendur að flytjast af yngra stigi yfir á það eldra, þar sem ekki þyrfti að skipta um húsnæði. Auðveldara yrði faglega að fylgja nemendum eftir frá upphafi skólagöngu til loka, slíkt er sérstaklega mikilvægt ef eitthvað bjátar á, eða ef nemandi þarf sérstakan stuðning. Þá geta systkini og vinir frekar haft stuðning hvert af öðru ef skólahald verður á einum stað. “

Af því sem hér að framan greinir hníga öll rök, bæði fagleg og fjárhagsleg, í þá átt að byggja skuli heildstæðan nútímalegan grunnskóla undir einu þaki. Gera verður þá kröfu til kjörinna fulltrúa íbúanna að við ákvörðunartöku í þessu máli verði hagsmunir barnanna okkar hafðir að leiðarljósi en ekki þröngsýn sjónarmið.

Margrét lagði til að tillögu Einars yrði vísað frá.  Einar mótmælti þeirri málsmeðferð og krafðist rökstuðnings fyrir frávísun.
Margrét lagði fram bókun:
“Með tilvísun til þess að tillaga um uppbyggingu Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri sem send var út með fundarboði og samstaða er um í bæjarstjórn, liggur fyrir  fundinum til afgreiðslu, legg ég til að tillögu Einars Pálssonar verði vísað frá”.
Margét K. Erlingsdóttir. 

Frávísunartillagan borin upp og samþykkt með 8 atkv. gegn 1 atkv. Einars Pálssonar sem gerði grein fyrir atkvæði sínu með bókun:
“Sú ákvörðun meirihlutans að vísa tillögu minni frá og taka ekki efnislega afstöðu til hennar er í hæsta máta ólýðræðisleg og gerræðisleg. Málið er á dagskrá löglega boðaðs bæjarstjórnarfundar. Fyrir liggur tillaga sem ekki gengur eins langt og því óeðlilegt að vísa henni frá en ekki þeirri tillögu sem gengur skemur. Jafnframt má benda á að undirritaður sendi bæjarstjóra erindi sex dögum fyrir þennan fund og óskaði eftir því að þetta mál yrði tekið á dagskrá og að ég myndi hugsanlega bera fram tillögu og bókun um málið. Ég áskil mér allan rétt til að kanna lögmæti þessa.
Einar Pálsson”

Breytingartillaga Margrétar borin upp og samþykkt með 8 atkv. EP sat hjá

Tillaga meirihlutans með breytingum borin upp og samþykkt með 8 atkv. gegn 1 atkv. EP sem gerði grein fyrir atkvæði sínu með bókun:
“ Bókun vegna samþykktar bæjarstjórnar um húsnæðismál Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Undirritaður bæjarfulltrúi harmar mjög þá afstöðu sem meirihluti bæjarstjórnar hefur nú tekið í húsnæðismálum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Eftir að hafa farið yfir öll gögn málsins og rætt við fjölda fólks er alveg ljóst í mínum huga að langskynsamlegast er að byggja einn nýjan skóla milli þorpanna, bæði hvað varðar stofnkostnað, rekstrarkostnað og síðast en ekki síst út frá faglegu sjónarmiði. Þetta er sú framtíð sem ég og fleiri foreldrar við ströndina viljum búa börnunum okkar. Vissulega er þetta elsti barnaskóli landsins og ég virði ákv. byggðasjónamið en ég met framtíðina meira en fortíðina ! Í þessu máli vil ég frekar hlusta á raddir þeirra sem eiga beinna hagsmuni að gæta, s.s. barnanna, foreldra og starfsfólks Barnaskólans en fólks sem annað hvort er búsett er annarstaðar eða komið á þann aldur að það kemur ekki til með að þurfa á þessari þjónustu að halda fyrir börnin sín.

Það er ábyrgðaleysi að taka ákvörðun sem maður veit að er faglega röng, verður sveitarfélaginu mikið dýrari til frambúðar og sem stangast algjörlega á við álit allra þeirra fagaðila og hagsmunaaðila sem hafa tjáð sig um málið. Ég held að þið hafið tekið ranga ákvörðun sem á eftir að reynast sveitarfélaginu og íbúunum dýrkeypt.
Einar Pálsson”

Páll Leó, Halldór Valur, Gylfi og Ragnheiður gerðu grein fyrir atkvæðum sínum.

2. Samningur um kaup á jarðhitaréttindum K.Á. í landi Laugardæla og Þorleifskots í Hraungerðishreppi. 

Bæjarstjóri gerði grein fyrir samningnum og sagði frá afgreiðslu framkvæmda- veitustjórnar sem leggur til að samningurinn verði samþykktur.

Einar Pálsson gagnrýndi að samningurinn í heild liggi ekki fyrir með fundargögnum.
Bæjarstjóri baðs velvirðingar á þeim mistökum og kvaðst bæta úr því snarlega.

 Þorvaldur ræddi samninginn.

Samningurinn borinn upp og samþykktur með 8 atkv. 1 sat hjá ( EP)

3. Tillögur frá Einari Pálssyni:

 a) Brottför hersins og atvinnumál á Suðurnesjum 
Bæjarstjórn Árborgar fagnar  því að senn hillir undir það að Ísland verði herlaust land með brottför bandaríska hersins í haust. Lýkur þar með 66 ára erlendri hersetu á landinu.

Bæjarstjórn Árborgar skilur áhyggjur þeirra starfsmanna sem missa atvinnu sína í kjölfar brottför hersins og styður heilshugar viðleitni bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ og annarra til að útvega þeim aðra vinnu. Óvenju gott atvinnuástand á S-vestur horni landsins ætti að auðvelda það.
Einar Pálsson

Einar gerði grein fyrir tillögunni.  Páll Leó lagði til að tillögunum (a b og c )  verið vísað til bæjarráðs.
Tillaga Páls borin upp og samþykkt með 8 atkv. gegn 1 ( EP )

b) Flýting framkvæmda við göngustíg milli Eyrarbakka og Stokkseyrar 
Bæjarstjórn Árborgar  samþykkir að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum við göngustíg milli Eyrarbakka og Stokkseyrar sem gert er ráð fyrir á 3 ára áætlun sveitarfélagsins. Er þetta lagt til í ljósi góðrar afkomu sveitarfélagsins á liðnu ári. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist nú strax í sumar. Kostnaði sem áætlaður er 30 m.kr. verði mætt við endurskoðun fjárhagsáætlunar.
Einar Pálsson

Einar gerði grein fyrir tillögunni og lagði fram greinargerð:
 “Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var rætt um að leggja upplýstan göngustíg milli Eyrarbakka og Stokkseyrar. Á íbúaþingi haustið 2003 komu fram mjög ákveðnar óskir í þessa veru. Undirritaður hefur margáréttað við fjárhagsáætlanagerð síðustu ára að þetta kæmist í framkvæmd en ekki orðið ágengt í þeim efnum. Nú nýlega var hins vegar tekin ákvörðun um að veita sömu fjárhæð í reiðstíg milli Selfoss og Eyrarbakka.Þessi stígur nýtist fyrst og fremst hestamönnum en ekki gangandi vegfarendum eða hjólreiðamönnum.  Sú ákvörðun virðist ekki hafa tekið nema korter en íbúarnir á ströndinni, bæði börn og fullornir bíða enn eftir göngustígnum  “sínum”.”

Gylfi og Margrét tóku til máls vegna greinargerðarinnar. Einars

Tillögunni vísað til bæjarráðs með 8 atkv. gegn 1 ( EP )

c) Lýsing þjóðvegar milli þéttbýlisstaða í Árborg. 
Bæjarstjórn Árborgar fagnar heilshugar samningi Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss um lýsingu vegarins um Þrengsli, frá Suðurlandsvegi í Þorlákshöfn. Lýsingin mun auka umferðaröryggi allra þeirra sem leið eiga um veginn, jafnt íbúa Árborgar sem og annarra Sunnlendinga.

Jafnframt samþykkir bæjarstjórn Árborgar að hefja viðræður við Vegagerð ríkisins og Hitaveitu Suðurnesja um lýsingu þjóðvegarins milli þéttbýlisstaða sveitarfélagsins, þ.e. milli Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar.
Einar Pálsson

Einar fylgdi tillögunni úr hlaði.

Tillögunni vísað til bæjarráðs  með 8 atkv. gegn 1.Einar Pálssongerði grein fyrir mótatkvæði sínu með  bókun:
“Bæjarstjórn Árborgar hefur nú vísað öllum tillögum mínum frá fundi og til bæjarráðs. Tillögurnar voru lagðar fram með löglegum fyrirvara og eru á dagskrá þessa síðasta bæjarstjórnarfundi. Það hlýtur að orka mjög tvímælis, svo ekki sé sterkar að orði kveðið að kæfa lýðræðislega umræðu á bæjarstjórnarfundi með þessum hætti. Það hlýtur að vera öllum ljóst að þeir sem slíkt gera standa ekki traustum fótum málefnalega. Ef umræddir bæjarfulltrúar væru samkvæmir sjálfum sér myndu þeir líka vísa öllum þeim tillögum og bókunum sem ekki eru á dagskránni til bæjarráðs. Þær komu fyrst inn á fundinn nú í upphafi hans.
Einar Pálsson”

4. Fyrirspurn til bæjarstjóra frá Einari Pálssyni varðandi deiliskipulag Einarshafnarhverfis á Eyrarbakka.

Á undanförnum misserum hefur töluvert borið á óánægju íbúa á Eyrarbakka og Stokkseyri um að ekki hafi verið nægjanlegt framboð af byggingarlóðum í þorpunum tveimur. Eitthvað virðist vera að rætast úr þeim málum nú upp á síðkastið en samt sem áður ganga hlutirnir mun hægar en undirritaður hefði kosið.

Þann 23. september 2004, fyrir rúmu einu og hálfu ári, samþykkti bæjarráð Árborgar að auglýsa deiliskipulag á Einarshafnarhverfi á Eyrarbakka. Tillagan gerir ráð fyrir 21 nýjum lóðum á umræddu svæði. .Hún var síðan auglýst m.a. á heimasíðu sveitarfélagsins þann 20.október sama ár. Deiliskipulagið hefur ekki enn komið til endanlegrar samþykktar í bæjarstjórn og því hefur hvorki verið hægt að hefja gatnaframkvæmdir né úthluta lóðunum fram að þessu..

Undirritaður hefur margspurt munnlega um hverju þessi töf sæti en telur sig ekki hafa fengið fullnægjandi svör. Því sé ég mér ekki annað fært en að koma með formlega fyrirspurn um málið. 

1) Hvað veldur þessari óeðlilegri töf á vinnu við umrætt deiliskipulag ?
2) Hvenær má vænta þess að deiliskipulagstillagan verði tilbúin til samþykktar í bæjarstjórn?
Einar Pálsson

Bæjarstjóri lagði fram svar við fyrirspurninni:
“Bæjarstjórn Árborgar veitti á fundi sínum 9. febrúar 2005 heimild til þess að tillaga að deiliskipulagi Einarshafnarhverfis á Eyrarbakka yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Tillagan er unnin af fyrirtækinu Landformi á Selfossi. Skipulagsstofnun gerði athugasemd við tillöguna með bréfi 28. febrúar 2005 og heimilaði ekki auglýsingu hennar. Athugasemdirnar fjölluðu m.a. um að leita þyrfti umsagnarFornleifaverndarríkisinsogHúsafriðunarnefndarríkisins. Einnigþurftiað yfirfara hvort skipulagstillagan samræmdist gildandi lóðarsamningum á skipulagsreitnum. Umsagnir framangreindra stofnana lágu fyrir vorið 2005. Skipulags- og byggingarnefnd afgreiddi athugasemdir umsagnaraðila á fundi 12.07.05. Mismunandi sjónarmið hafa verið uppi síðan milli skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar annarsvegar og skipulagsráðgjafa hinsvegar um það með hvaða hætti skipulagstillagan verði aðlöguð athugasemdum Skipulagsstofnunar frá 28.02.05. Starfsmenn sveitarfélagsins hafa unnið jafnt og þétt að málinu án þess að tekist hafi að sætta sjónarmið og er það ástæða þess að deiliskipulagstillagan hefur ekki verið afgreidd. Stefnt er að því að koma á fundi með skipulagsráðgjafa innan tveggja vikna með það að markmiði að fá fram lokaniðurstöðu í málinu.
Einar Njálsson, bæjarstjóri”

Einar Pálsson þakkaði svarið og kvaðst vonast til að þessu máli ljúki farssællega
en lagði að málinun verði vísað til bæjarráðs. Var það borið upp og fellt með 8 atkv. gegn 1. (EP)

5. Breyting á skipan undirkjörstjórnar á Eyrarbakka – tillaga um að Lýður Pálsson taki sæti í stað Kristínar Eiríksdóttur. Samþykkt með 7 atkv. 2 sátu hjá (PLJ og HVP )


6. Viljayfirlýsing um stækkun þjónustumiðstöðvar aldraðra við Grænumörk.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir málinu.
Einar Pálsson lagði til í ljósi fyrri vinnubragða á fundinum að málinu verði vísað til bæjarráðs. Sú tillaga felld með 8 atkvæðum gegn 1.
Ragnheiður, Páll Leó og Gylfi tóku til máls og lýstu ánægju með viljayfirlýsinguna. Yfirlýsingin borin upp og staðfest samhljóða.

7. Staðfesting á 14. lið fundargerðar skipulags og byggingarnefndar frá 9.5.06

Einar Pálsson tók til máls og lagði til í ljósi fyrri vinnubragða á fundinum að málinu verði vísað til bæjarráðs. Sú tillaga felld með 8 atkvæðum gegn 1.
Liðurinn borinn upp og staðfestur með 8 atkv. 1 sat hjá.( EP)

8. Ályktunvarðandibyggingu3.hæðar við Heilbrigðisstofnun.

“Ályktun vegna þriðju hæðar viðbyggingarinnar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.
Bæjarstjórn fagnar ákvörðun heilbrigðisráðherra um að byggja þriðju hæðina ofan á viðbyggingu sem nú er unnið að við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Á hæðinni er gert ráð fyrir hjúkrunardeild fyrir aldraða. Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju með að á þriðju hæðinni verði lögð áhersla á að vistmenn búi í einbýli og að sköpuð verði sérstök aðstaða fyrir heilabilaða.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar.” Ályktunin borin upp og samþykkt samhljóða.

Í lok fundar þakkaði forseti bæjarfulltrúum og starfsmönnum fyrir samstarfið á kjörtímabilinu. Páll Leó, Einar Pálsson, Þorvaldur, Ragnheiður, Margrét og Torfi þökkuðu einnig samstarfið, sömuleiðis bæjarstjóri sem sagði frá afhendingu Tryggvaskála nk. laugardag.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl.20:50

Þorvaldur Guðmundsson
Margrét K. Erlingsdóttir
Páll Leó Jónsson
Gylfi Þorkelsson
Torfi Áskelsson
Helgi Helgason
Einar Pálsson
Halldór Valur Pálsson
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásmundur Sverrir Pálsson
Einar Njálsson 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica