Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


13.9.2007

60. fundur bæjarráðs

 

60. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 13. september 2007 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

 

Mætt:
Þorvaldur Guðmundsson, formaður, B-lista
Jón Hjartarson, bæjarfulltrúi, V-lista (V)
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista (D)
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri (S)
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

 

Dagskrá:

 

Fundargerðir til staðfestingar:

 

1. 0703038 - Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar
frá 05.09.07


-liður 1, 0708137, hraðahindranir á Túngötu, bæjarráð tekur undir afgreiðslu framkvæmda- og veitustjórnar og felur framkvæmdastjóra að fá verktaka til að setja upp í það minnsta tvær hraðahindranir eins fljótt og auðið er.
-liður 3, 0706077, kostnaður og greining aðgengismála, bæjarstjóra er falið að ganga frá málinu í samráði við framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs.
Eyþór Arnalds, D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Á fundi Skipulags- og bygginganefndar 14.júní sl.voru aðgengismál í sveitarfélaginu tekin til umræðu að frumkvæði Elfu Daggar Þórðardóttur fulltrúa D-lista. Í framhaldi af því fól bæjarráð á fundi sínum þann 21. júní sl. framkvæmdastjóra framkvæmda- og veitusviðs að vinna kostnaðaráætlun við gerð úttektar á aðgengismálum í Sveitarfélaginu Árborg. Við hvetjum til að úttektin verði framkvæmd eins fljótt og kostur er á þeim grundvelli sem rætt var um á fundinum.

 

Fundargerðin staðfest.

 

2. 0701118 - Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar
frá 05.09.07


-liður 2, 0706074, endurskoðun á íþrótta- og tómstundastefnu,lagt var til að bæjarráð samþykki afgreiðslu nefndarinnar. Kostnað, kr. 1.200.000, skuli færa á liðinn óráðstafað.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Eyþórs Arnalds, D-lista, sem óskaði eftir að bókað yrði:
Enn á ný er farin sú leið að kaupa ráðgjöf fyrir milljónir króna í málefnum sem skýr stefna ætti að liggja fyrir í. D-listinn vill nú sem fyrr að fjármunir sem renna til íþróttamála renni til starfsseminnar beint. Þá er 1.200.000 kr. há upphæð þegar litið er til þess hve hlutfallslega lítið rennur til íþróttamála í Árborg miðað við sambærileg sveitarfélög. Stefna D-listans í íþróttamálum er skýr samanber tillögu um byggingu fjölnotaíþróttahúss við Engjaveg.
Jón Hjartarson, V-lista, lagði fram svohljóðandi bókun meirihluta bæjarráðs:

Meirihluti B, S og V lista leggur áherslu á vönduð vinnubrögð við stefnumörkun og skipulagning í málaflokkum eins og íþrótta- og æskulýðsmálum. Framundan eru gríðarlega umfangsmikil og kostnaðarsöm verkefni við uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu og mikilvægt að ákvarðanir séu teknar að vel athuguðu máli. Stefnumörkun í íþrótta- og tómstundamálum snýst um fleira en mannvirki. Hún snýst um áherslur, forgangsröðun og skipulagningu barna og ungmennastarfs sem sveitarfélagið er aðili að. Auk þess varðar hún skipulag á aðstöðu og tækifærum hins almenna borgara til frístundaiðkunar af fjölbreyttu tagi s.s. hestamennsku, golfíþróttar og fl. Þrátt fyrir að bygging fjölnota íþróttahúss á Selfossi sé eitt af þeim stórum verkefnum sem framundan eru þá er það mikil einföldun að benda á það sem merki um skýra stefnu í svo umfangsmiklum málaflokki sem íþrótta og tómstundamál eru.
 
-liður 6, 0709011, ungmennahús, bæjarráð samþykkir tillögu nefndarinnar.
Fundargerðin staðfest.

Fundargerðir til kynningar:

 

3.  0702070 - Fundargerð stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands
frá 22.08.07

Lögð fram.

 

4.0702029 - Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
frá 30.08.07

Lögð fram.

 

Almenn erindi

 

5. 0709044 - Tillaga um skólavist fyrir Sunnulækjarskóla

Lögð var fram svohljóðandi tillaga um opnun skólavistar við Sunnulækjarskóla frá og með næstu áramótum:
Bæjarráð samþykkir að opnuð verði skólavist fyrir nemendur í 1. – 4. bekk í Sunnulækjarskóla frá og með næstu áramótum. Yfirmaður skólavistar verði skólastjóri Sunnulækjarskóla en ráðinn verði umsjónarmaður/forstöðumaður til að halda utan um daglegan rekstur. Skólastjóra Sunnulækjarskóla er falið að velja staðsetningu fyrir heimasvæði skólavistar í því rými skólans sem nú er tilbúið, þ.e. 1. eða 2. áfanga, og best þykir henta bæði m.t.t. til starfsemi skólans og skólavistar.

Verkefnisstjóra fræðslumála og skólastjóra Sunnulækjarskóla er falið að vinna að undirbúningi opnunar skólavistar, þ.m.t. ráðningu starfsmanna. Skoðað verði sérstaklega, í samráði við verkefnisstjóra félagslegra úrræða, hvort hagkvæmt sé að sami umsjónarmaður/forstöðumaður hafi einnig umsjón með lengdri viðveru fatlaðra sem er til húsa í Sunnulækjarskóla.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

6. 0411055 - Tillaga um breytingu á reglum um úthlutun lóða í Sveitarfélaginu Árborg

Lögð var fram svohljóðandi tillaga um breytingu á reglum um úthlutun lóða í Sveitarfélaginu Árborg

Lagt er til að 8. gr. reglnanna verði breytt á eftirfarandi hátt:

Bæjarráði er í sérstökum tilvikum heimilt að veita vilyrði fyrir lóðum, án undangenginna auglýsinga, þegar sótt er um lóðir innan skipulagðra svæða eða á óskipulögðum svæðum. Bæjarráð ákveður þegar vilyrði er veitt hversu lengi það skal gilda, þó ekki lengur en 6 mánuði. Umsækjandi getur sótt um framlengingu á gildistíma vilyrðis ef lóð er ekki byggingarhæf, af ástæðum sem varða sveitarfélagið, innan þess tíma sem vilyrðið gildir. Endanleg úthlutun getur aldrei farið fram fyrr en að lokinni skipulagsvinnu, sé hennar þörf og að fengnu samþykki bæjarstjórnar.
Umsókn um vilyrði skal sett fram á þar til gerðu eyðublaði.

 
Vegna ákvæðis 3. mgr. 8. gr. laga um gatnagerðargjald er eftirfarandi breyting einnig lögð til:

Við 10. tl. bætist eftirfarandi ákvæði:

Afturkalla skal lóðarúthlutun ef lóðarhafi greiðir ekki gatnagerðargjald á tilskildum tíma. Lóðarhafa skal send viðvörun með sannanlegum hætti með 30 daga fyrirvara, áður en lóðarúthlutun er afturkölluð.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

7. 0709027 - Beiðni Guðrúnar Thorsteinsson og Símonar Ólafssonar um umsögn um stofnun lögbýlis - Byggðarhorn landnr. 209296

Bæjarráð vísar erindinu til landbúnaðarnefndar og skipulags- og byggingarnefndar til umsagnar.


8. 0709037 - Beiðni Rúnars Gestssonar um umsögn um stofnun lögbýlis í landi Jórvíkur

Bæjarráð vísar erindinu til landbúnaðarnefndar og skipulags- og byggingarnefndar til umsagnar.


9.  0704036 - Verksamningur - ræsting og hreingerning nokkurra stofnana Sveitarfélagsins Árborgar

Bæjarráð staðfestir samninginn.


10. 0708068 - Leigusamningur um Skólavelli 3, Selfossi, leigutaki Tónkjallarinn ehf.

Bæjarráð staðfestir samninginn.
Eyþór Arnalds, D-lista, óskaði eftir að bókað yrði að hann lýsti ánægju með að tekist hafi að finna húsnæði í Árborg.


11.  0704039 - Viðbótarsamningur um byggingu leikskóla við Leirkeldu

Bæjarráð staðfestir samninginn.


12.  0704039 - Samningur um eftirlit vegna byggingar leikskóla við Leirkeldu

Bæjarráð staðfestir samninginn.


13. 0612058 - Svar við fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista um fasteignskatt 70 ára og eldri og afslætti

Lagt var fram svohljóðandi svar:
Álagður fasteignaskattur á 70 ára og eldri er 16,2 m.kr. á árinu 2007. Afslættir til ellilífeyrisþega 67 ára og eldri eru áætlaðir 10 m.kr. Þá njóta þeir aðilar einnig afsláttar af holræsagjöldum sem áætluð eru 9,2 m.kr. fyrir sama tímabil. Enn er verið að vinna í afslætti vegna líðandi árs og liggur ekki enn fyrir hver afsláttur ársins verður fyrir 70 ára og eldri, en áætlun byggir á rauntölum s.l. árs og er miðaður við 67 ára og eldri.
Eyþór Arnalds, D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Sú leið að afnema fasteignaskatta hjá 70 ára eldri á það húsnæði sem viðkomandi býr í er mannúðleg og hagkvæm leið til að styðja eldri borgara til búsetu á heimilum sínum. Ekki er ljóst af svari við fyrirspurninni hver kostnaðurinn sé nákvæmlega, en þó er ljóst að hann liggur á bilinu 6-16,2m króna á næsta ári. Heimild er í lögum til að lækka eða fella niður fasteignaskatta á eldri borgara, en þessi skattur hefur farið ört hækkandi, ekki síst vegna hækkandi fasteignamats. Engar tekjur koma á móti hjá eldri borgurum til að greiða þennan kostnaðarauka. Kostnaður við vistun eldri borgara er ört vaxandi, auk þess sem mannúðlegra er að gera öldruðum kleift að búa á eigin heimili svo lengi sem kostur er á. D-listinn vill áfram vinna að málefnum aldraðra, ekki síst með þeim leiðum sem sveitarfélagið hefur úr að spila, enda oft erfitt að ná fram auknum framlögum frá ríkinu. Hér getur sveitarfélagið gert betur.

Jón Hjartarson, V-lista, lagði fram svohljóðandi bókun meirihluta bæjarráðs:
Í 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4 frá 1995 segir: “ Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.”

Í fjárhagsáætlun 2008 mun meirihlutinn hækka tekjuviðmið hjá eldri borgurum og öryrkjum vegna fasteignaskatta. Því munu fleiri tekjulágir njóta afsláttar en nú er. Bent er á að tekjuviðmið hefur verið hækkað árlega undanfarin ár og þannig hafa fleiri eldri borgarar og öryrkjar fengið afslátt af fasteignagjöldum. Auk þess hefur afslátturinn náð til holræsagjalda.

Erindi til kynningar

 

14.  0703155 - Erindi verkefnisstjórnar Háskólafélags Suðurlands um stofnun Háskólafélags Suðurlands

Erindið var lagt fram. Bæjarráð fagnar þeim áfanga sem náðst hefur í undirbúningi að stofnun Háskólafélags Suðurlands. Sveitarfélagið Árborg er reiðubúið til samstarfs og uppbyggingar á öllum þeim sviðum sem snerta málið.


15. 0708149 - Íslensku byggingalistaverðlaunin 2007

Lagt fram.


16. 0709009 - Uppsögn Silkeborg Kommune samningi um vinabæjarsamstarf

Bæjarstjóra var farið að senda Silkeborg Kommune bréf og þakka samstarfið í gegnum árin.


17. 0512077 - Upplýsingar um nýtingu á húsnæði Tónlistarskóla Árnesinga

Bæjarráð lýsir ánægju með hversu nýting á húsnæði Tónlistarskólans er góð.


18. 0504045 - Bréf samgönguráðuneytisins um fund með fulltrúum úr bæjarstjórn Árborgar

Bréfið var lagt fram.
Bæjarráð skorar á Alþingi og ríkisstjórn að ráðast nú þegar í tvöföldun Suðurlandsvegar. Alvarleg slys að undanförnu sýna og sanna að brýnt er að ráðast í framkvæmdir sem allra fyrst. Bæjarráð Árborgar telur mikilvægt að framkvæmdir verði hafnar frá Reykjavík og frá Selfossi í fyrsta áfanga, svo fljótt sem verða má.


Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 09:18

Þorvaldur Guðmundsson                                  
Jón Hjartarson
Eyþór Arnalds                                    
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica