Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


20.9.2007

61. fundur bæjarráðs

 

61. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 20. september 2007 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10.

 

Mætt:
Þorvaldur Guðmundsson, formaður, B-lista
Jón Hjartarson, bæjarfulltrúi, V-lista
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

 

Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, leitaði afbrigða til að taka á dagskrá fyrirspurn varðandi málefni Fagraskógar. Var það samþykkt samhljóða.

 

Dagskrá:

 

Fundargerðir til staðfestingar:

 

1. 0701012 - Fundargerð félagsmálanefndar
frá 10.09.07


-liður 8, 0709025, bæjarráð bendir á að um er að ræða tímabundna ráðningu.
Fundargerðin staðfest.

2. 0701035 - Fundargerð landbúnaðarnefndar
frá 11.09.07


-liður 1, 0708138, bæjarráð þakkar umsögnina. Málið verður afgreitt þegar skipulags- og byggingarnefnd hefur fjallað um málið.
Fundargerðin staðfest.


3.  0701117 - Fundargerð menningarnefndar Árborgar
frá 12.09.07


-bæjarráð þakkar ábendingu nefndarinnar um að aflað verði álits hennar vegna úthlutunar styrkja.
-liður 15, 0705069, Vinabæjarmót í Kalmar 2007, bæjarráð þakkar ungmennunum sem fóru á vinabæjarmótið í Kalmar í ágúst s.l. kærlega fyrir þátttökuna og afar gott framlag þeirra. Ungmennin voru þau Gunnar Guðni Harðarson, Fannar Magnússon, Jóhanna Margrét Einarsdóttir, Helga María Ragnarsdóttir og Karítas Harpa Davíðsdóttir. Framlag þeirra var metnaðarfullt og til fyrirmyndar í alla staði. Þá var það ánægjulegt hve mikla aðdáun framkoma þeirra vakti meðal annarra þátttakenda í vinabæjarmótinu og haft var á orði að þarna færu saman góðir hæfileikar og einlægni. Leikstjóra hópsins Ólafi Guðmundssyni, leikara og leiklistarkennara er þakkað fyrir vel heppnaða vinnu og fyrir að leggja málinu lið. Þá er þeim Höllu Dröfn Jónsdóttur og Andrési Sigurvinssyni þakkað fyrir afar gott starf jafnt við undirbúning ferðarinnar sem í ferðinni sjálfri. Bæjarráð lýsir yfir sérstakri ánægju með þau tengsl sem mynduðust milli hinna ungu fulltrúa vinabæjanna og vonast til þess að þau séu upphafið að enn frekara samstarfi á sviði menningar og ungmennastarfs þessara vinabæja í framtíðinni.
-liður 18, 0706080, 60 ára afmæli Selfoss, bæjarráð Árborgar lýsir yfir ánægju sinni með vel heppnaða hátíð og þakkar forsvarsmanni hátíðarinnar, Kjartani Björnssyni, og öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd hennar, fyrir stórhuga framtak.
Sveitarfélagið Árborg er vel sett hvað það varðar að hér er öflug grasrót fólks sem lætur til sína taka á flestum sviðum mannlífsins. Slíkt er afar dýrmætt. Það er fólkið sem býr á hverjum stað sem skapar menninguna og hefur sterk áhrif á þá mynd sem aðrir fá af staðnum. Þau eru fjölmörg tilefnin sem íbúar Árborgar hafa til að gera sér glaðan dag, sagan er rík af merkilegum atburðum sem gaman er að minnast. Það er því mikill auður fólginn í því þegar einstaklingar eiga frumkvæði að viðburðum þar sem markmiðið er að rifja upp söguna og efla tengslin manna í milli. Slíkt framtak er vel til þess fallið að skapa samkennd meðal íbúanna og styrkir enn frekar það gróskumikla starf sem hér fer fram á hinum ýmsu sviðum.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, óskaði eftir að bóka:
Ástæða er til að benda á að fagnefndir hafa verið afskiptar í ýmsum málum, auk þess sem ákvörðunum fagnefnda hefur verið snúið í bæjarráði. Eðlilegt er að lista- og menningarnefnd sé höfð með í ráðum í málefnum sem varða lista- og menningarmál.
Fundargerðin staðfest.


4. 0701055 - Fundargerð skólanefndar grunnskóla
frá 13.09.07


-liður 2, 0704109, bæjarráð staðfestir reglur um sveigjanleika í námi og fagnar þessum áfanga sem gerir skólunum kleift að koma enn frekar til móts við nemendur sem náð hafa góðum árangri í námi.
-liður 4, 0709044, með afgreiðslu sinni á 60. fundi bæjarráðs þann 13. september s.l. var skólastjóra Sunnulækjarskóla falið að velja staðsetningu fyrir heimasvæði skólavistar í því rými skólans sem nú er tilbúið, þ.e. 1. eða 2. áfanga, og best þykir henta bæði m.t.t. til starfsemi skólans og skólavistar. Tillagan byggir á þeim grunni að næstu 2-3 ár verður húsnæðið ekki fullnýtt í Sunnulækjarskóla. Elsti bekkurinn skólaárið 2007 – 2008 er 7. bekkur og því ekki fyrr en haustið 2010 sem fyrsti 10. bekkurinn verður í skólanum. Meirihluti bæjarráðs telur eðlilegt að leitað verði leiða til að nýta húsnæði skólans betur fram að haustinu 2010 enda er þarna um að ræða mikla fjárfestingu fyrir sveitarfélagið. Áætlanir um skipulag skólavistunar Sunnulækjarskóla frá og með þeim tíma sem húsnæðið verður fullnýtt fyrir skólastarf, munu liggja fyrir tímanlega og verða unnar í fullu samráði við skólanefnd og stjórnendur skólans.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, óskaði eftir að bókað yrði: Mikilvægt er að fundin sé varanleg lausn á skólavistun í Sunnulækjarskóla í fullu samráði við fagnefnd og fagfólk skólans. Sú leið að einskorða lausnina við núverandi húsnæði er takmarkandi til lengri tíma litið. Árekstrar í skólastarfi geta átt sér stað þegar ólík starfssemi er á sama stað. Því er brýnt að vinna nú þegar að framtíðarlausn á skólavist Sunnulækjarskóla með sem bestum hætti. Bráðabirgðaúrræði eru nauðsynleg nú, en á sama tíma þarf að vinna markvisst að varanlegri lausn.
-liður 6, 0504050. Minnt er á að skólanefnd á fulltrúa í byggingarnefnd Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri og lýtur meirihlutinn svo á að það tryggi að sjónarmið fagnefndarinnar skili sér inni í undirbúningsvinnu og ákvarðanatöku vegna uppbyggingar BES.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Brýnt er að ekki verði frekari tafir á uppbyggingu BES og tímasetningar standist. Miklar væntingar hafa verið til uppbyggingar skólahúsnæðis BES og hafa breytingar á áætlunum veikt trú manna á framhaldinu. Vonandi tekst nú að vinna málið markvisst áfram.
Fundargerðin staðfest.


5. 0701068 - Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar
frá 13.09.07


Fundargerðin staðfest.

 

Fundargerðir til kynningar:

 

6. 0701073 - Fundargerð stjórnar SASS
405. fundur


Lögð fram.


7.  0701126 - Fundargerð stjórnar Atvinnuþróunarfélags Suðurlands
frá 07.09.07


Lögð fram.


8. 0701067 - Fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands
frá 02.09.07


Lögð fram.


Almenn erindi

 

9. 0709055 - Beiðni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um umsögn - reglugerð um lögreglusamþykktir

Bæjarráð felur bæjarritara að vinna umsögn um reglugerðina.


10. 0608118 - Erindi Þórs Vigfússonar og Hannesar Stefánssonar varðandi starfsemi á Selfossflugvelli

Bæjarráð felur bæjarstjóra og bæjarritara að ræða við bréfritara og svara erindinu.


11. 0709035 - Beiðni Guðjóns Þórissonar og Ólafs V. Björnssonar um vilyrði fyrir lóðarúthlutun - Búðarstígur 25, Eyrarbakka

Bæjarstjóra er falið að ræða við umsækjendur og afla nánari upplýsinga um erindið.


12. 0707136 - Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga um verkefni um hagsmunagæslu í úrgangsmálum

Bæjarráð samþykkir að taka þátt í verkefninu.


13. 0408078 - Ósk um kaup á 9 ha landi í eigu Sv.fél. Árborgar, aðliggjandi Kotleysutanga

Bæjarráð vísar erindinu til frekari vinnslu hjá bæjarritara.


14. 0709039 - Umsókn Krafts ehf. um lóð fyrir húsið Ingólf

Bæjarstjóra og bæjarritara er falið að ræða við bréfritara.


15. 0709075 - Milliuppgjör 2007

Formaður bæjarráðs lagði fram svohljóðandi bókun:
Niðurstaða rekstrar Sveitarfélagsins Árborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins er 176,9 millj.kr. rekstrarafgangur. Í áætlun var gert ráð fyrir rekstrarhalla sem nemur 40,6 millj.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins en í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 84,6 millj.kr. Mismunur tímabilsins og ársáætlunar er því 92,3 millj.kr.
Meirihlutinn þakkar starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góða og ábyrga vinnu og lýsir yfir ánægju sinni með þann árangur sem náðst hefur í fjármálastjórn sveitarfélagsins á undanförnum misserum.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Rétt er að fagna því að tekist hafi að halda útgjöldum innan rekstraráætlunar á fyrri hluta ársins. Vert er þó að benda á að afgangur af reglulegum rekstri bæjarsjóðs fyrir fjármagnsliði fer þó minnkandi milli ára og fer úr 114 milljónum á síðasta ári í 40 milljónir á fyrri hluta ársins.
Ástæða er til benda á að stærsti hluti hagnaðar tímabilsins kemur af jákvæðri gengisþróun íslensku krónunnar. Viðsnúningur vegna fjármagnsliða er um 170 milljónir frá síðasta ári og má ætla að langstærsti hluti þessa fráviks sé vegna gengishækkunar íslensku krónunnar. Hækkandi skuldir auka þessar sveiflur. Breytingar á erlendum skuldum til lækkunar vigtar hér þyngst, enda hefði sambærileg breyting í neikvæða átt haft mikil áhrif á niðurstöðu reikningsins. Það er því ljóst að gengi íslensku krónunnar verður mikilvægt fyrir afkomu sveitarfélagsins á næstu misserum.

16. 0709056 - Fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista um Fagraskóg.

Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Er það rétt að verið sé að fjarlægja tré úr „Fagraskógi" sem Yrkjusjóður Vigdísar Finnbogadóttur fv. forseta stóð að?
Fyrirspurninni verður svarað á næsta fundi.

 

Erindi til kynningar

 

17. 0506104 - Erindi Sorpstöðvar Suðurlands varðandi svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, niðurstöður ráðgjafa um meðhöndlun lífræns úrgangs og urðunarstaði

Til kynningar.


18. 0709064 - Útgáfa kynningarblaðs um Suðurland í samstarfi SASS, AÞS o.fl.

Lagt fram.


19. 0504045 - Ályktun stjórnar SASS um Suðurlandsveg

Lagt fram.


20. 0709049 - Bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga um viðmiðunarreglur um kirkjugarðsstæði

Lagt fram.


Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl. 09:30.

Þorvaldur Guðmundsson
Jón Hjartarson
Eyþór Arnalds
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica