62. fundur bæjarráðs
62. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 27. september 2007 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10
Mætt:
Þorvaldur Guðmundsson, formaður, B-lista
Jón Hjartarson, bæjarfulltrúi, V-lista
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari
Fundargerðir til staðfestingar:
1. 0701062 - Fundargerð leikskólanefndar
frá 19.09.07
-liður 2, 0709059, bæjarráð samþykkir að starfsdagar leikskólans Ásheima verði 23. og 25. apríl 2008.
-liður 4, 0709062, bæjarráð lýsir ánægju með að tekist hafi að manna allar stöður í leikskólum Árborgar, þá fagnar meirihlutinn því enn og aftur að unnt skuli að veita börnum frá tveggja ára aldri leikskólapláss í sveitarfélaginu. Bæjarráð vekur athygli á að unnt hefur verið að veita börnum niður í 18 mánaða aldur leikskólavist nú í haust.
Fundargerðin staðfest.
2. 0702011 - Fundargerð umhverfisnefndar
frá 19.09.07
-bæjarráð þakkar umhverfisnefnd ábendinguna varðandi umsagnir um deiliskipulag.
Fundargerðin staðfest.
3. 0701012 - Fundargerð félagsmálanefndar
frá 17.09.07
Fundargerðin staðfest.
Fundargerðir til kynningar:
4. 0702120 - Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga
frá 10.09.07
Lögð fram.
Almenn erindi
5. 0703158 - Samkomulag útgerðar Mána ÁR 70 og fiskverkenda í sveitarfélaginu varðandi ráðstöfun afla
Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við það fyrirkomulag sem er gert ráð fyrir í samningnum.
6. 0709056 - Áskorun til bæjaryfirvalda í Árborg vegna Fagraskógar
Áskorunin lögð fram.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, lagði fram svohljóðandi tillögu:
Tillaga sjálfstæðismanna vegna Fagraskógar:
Haldinn verði opinn fundur með íbúum Árborgar svo fljótt sem verða má. Bæjarritara verði falið að vinna að fundarboði með forsvarmönnum áskorunarlistans.
Gert var fundarhlé.
Tillagan var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum fulltrúa B- og V-lista, gegn atkvæði fulltrúa D-lista.
Formaður lagði fram eftirfarandi bókun frá fulltrúum B og V lista.
Í aðalskipulagi Árborgar sem samþykkt var í byrjun árs 2006 er svæði það sem um ræðir, græna beltið milli Lambhaga og Berghóla á Selfossi, minnkað frá því sem var í eldra aðalskipulagi. Íbúðalóðir í Suðurbyggð voru færðar aðeins nær Hagahverfi en verið hafði í eldra skipulagi og græna svæðið þannig minnkað. Áður en skipulag öðlast gildi hefur það verið auglýst og fólki gefinn kostur á gera athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu. Hvorki bárust athugasemdir á sínum tíma vegna aðalskipulagstillögu né deiliskipulagstillögu af svæðinu. Lóðunum við Berghóla var síðan úthlutað fyrir ári síðan, og áttu þær að koma til afhendingar nú í september. Auglýsingaferill og afgreiðsla máls var með eðlilegum hætti og ekki er áformað að breyta því skipulagi sem þarna var samþykkt fyrir einu og hálfu ári síðan.
Nú er í gangi vinna við að flytja þau tré sem eru utan skipulags gróðurbeltis og á að koma þeim fyrir á grænum beltum í næsta nágrenni. Áhersla er lögð á að verkið sé unnið af kostgæfni og að plöntunum sé þannig komið fyrir að þær geti haldið áfram að dafna og prýða umhverfið. Göngustígur og skjólbelti verða áfram á þessu græna belti. Leitað var til landslagsarkitekts við að finna plöntunum nýja staði og huga að skipulagningu grænna belta á þessu svæði. Rétt er að geta þess að fulltrúar meirihlutans ásamt tæknifræðingi og landslagsarkitekt hafa átt ágætan fund með nokkrum íbúum við Lambhaga eftir að áskorunin var afhent bæjarstjóra þann 17. september s.l.. Þar var farið yfir málið og fram komu ýmsar hugmyndir sem notaðar verða við frágang á svæðinu.
7. 0709056 - Svar við fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista frá 61. fundi um Fagraskóg
Svar lagt fram:
Þessa dagana er verið að flytja hluta þeirra trjáa sem eru í “Fagraskógi” á græn svæði í næsta nágrenni. Tré sem plantað var út í græna beltið sem nefnt er “Fagriskógur” og liggur á milli Lambhaga og Berghóla, voru að stærstum hluta keypt á almennum markaði af sveitarfélaginu. Einnig munu hafa verið setta niður plöntur sem fengust úr Yrkjusjóði og Pokasjóði. Plöntur sem fengust úr Yrkjusjóði munu hafa farið á nokkur svæði á Selfossi, m.a. töluvert á Gesthúsasvæðið og í Hellisskóg.
Vert er að geta þess að nafnið Fagriskógur varð upphaflega til sem vinnuheiti um svæðið sunnar byggðar á Selfossi. Það mun dregið af örnefni á svæðinu, en s.n. Fagradæl var við enda Lambhaga og heyjuðu Selfossbændur hana á árum áður. Ekki sjást lengur merki um dælina.
8. 0709109 - Viðauki við samning um skuldaskilaverkefni Árborgar og UMFS
Bæjarráð samþykkir samninginn og felur framkvæmdastjóra Fjölskyldumiðstöðvar að ganga frá samningnum.
9. 0709085 - Beiðni Samtakanna ´78 um viðræður vegna þjónustusamnings
Bæjarráð vísar erindinu til Fjölskyldumiðstöðvar.
10. 0709093 - Beiðni um aukafjárveitingu vegna endurbóta á mörkum á íþróttavöllum
Bæjarráð samþykkir erindið og skal færa kostnað kr. 702.052 á liðinn óráðstafað.
11. 0709111 - Tillaga um að hafin verði for- og undirbúningsvinna við að koma á fót lista- og menningarhúsi
Tillaga um að hafin verði for- og undirbúningsvinna við að koma á fót lista- og menningarhúsi.
Meirihluti B, S og V lista samþykkir að á árinu 2008 verði unnin for- og undirbúningsvinna að stofnun sérstaks lista- og menningarhúss sem staðsett verði í hinum nýja miðbæjarkjarna Selfoss í Sveitarfélaginu Árborg eða sem næst honum.
Verkefnisstjóra íþrótta-, forvarna- og menningarmála er falið að forvinna og undirbúa málið og jafnframt að kostnaðarmeta þessa vinnu og leggja fram fyrir fjárhagsáætlanagerð komandi árs.
Greinargerð:
Með stöðugri fjölgun íbúa og uppbyggingu í Sveitarfélaginu Árborg og víðar á Suðurlandi verður þörfin fyrir sérstakt húsnæði fyrir lista- og menningarstarf sífellt meiri. Meirihluti B, S og V lista telur tímabært að kannaður verði grundvöllur þess að koma á fót slíku húsnæði og jafnframt að skoðað verði hvaða möguleikar séu fyrir hendi varðandi fjármögnun, rekstur og rekstrarform. Greina þarf m.a. hvaða starfsemi þyrfti og gæti farið þar fram og hvers eðlis húsnæðið þyrfti að vera. Eðlilegt og æskilegt er að leitað verði eftir samstarfi við menningarráð og menningarfulltrúa Suðurlands og að horft verði til mögulegs samstarfs við önnur sveitarfélög á Suðurlandi og við ríkið.
Til að unnt sé að taka ákvörðun um svo umfangsmikla framkvæmd sem stofnun lista og menningarhúsnæðis er, þá er nauðsynlegt að fram fari vönduð greiningarvinna sem taki til allra þeirra þátta sem að framan eru greindir. Verkefnisstjóra íþrótta-, forvarna- og menningarmála er hér falið að gera tillögu um hvernig æskilegt sé að standa að slíkri greiningarvinnu þannig að gera megi ráð fyrir fjármunum til þeirrar vinnu á næsta ári.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa B- og V-lista, gegn atkvæði fulltrúa D-lista.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, lagði fram svohljóðandi bókun:
Ekkert mat liggur fyrir um kostnað eða umfang verkefnisins, stærð hússins, þarfir eða staðsetningu. Ekki liggur fyrir álit listamanna, félagasamtaka, fagaðila eða leikfélags Selfoss. Auk þess er ámælisvert að gengið sé fram hjá menningarmálanefnd í þessu stóra máli.
Þá liggur fyrir að veruleg fjárfesting liggur nú þegar í svokölluðum „menningarsal" í Hótel Selfoss sem ekki hefur verið fullkláraður og er ekki í notkun svo vitað sé.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista lagði fram fyrirspurnir vegna menningarsalar:
Hefur það verið kannað að unnt sé að nýta þá fjárfestingu og hvort sú leið liggi ekki beinast við í stað þess að stofna til nýrrar framkvæmdar sem er auk þess bundinn við nýtt og umdeilt byggingarsvæði?
Hver er munurinn á for- og undirbúningsvinnu í tillögu meirihlutans?
12. 0709117 - Viðurkenning til meistaraflokks karla í knattspyrnu
Lögð var fram svohljóðandi tillaga um viðurkenningu til meistaraflokks karla í knattspyrnu vegna árangurs á Íslandsmóti 2007.
Bæjarráð samþykkir að veita meistaraflokki UMFS í knattspyrnu karla viðurkenningu að upphæð 750 þúsund krónur fyrir góðan árangur á Íslandsmótinu 2007. Kostnað skal færa á liðinn óráðstafað.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, lagði fram svohljóðandi breytingartillögu:
Ég legg til að knattspyrnudeild UMF Selfoss verði styrkt að upphæð krónur 1.200 þúsund. Jafnframt verði fallið frá 1.200 þúsund króna útgjöldum sem samþykkt voru í bæjarráði af liðnum óráðstafað 13. september sl og ætlað er til að vinna að „endurskoðun á íþrótta- og tómstundastefnu"
Greinargerð:
Ljóst er að þessi útgjöld við stefnumótun eru með öllu óþörf enda eru ákvarðanir teknar í samkvæmi 9 dögum eftir að meirihlutinn lætur bóka eftirfarandi: „Framundan eru gríðarlega umfangsmikil og kostnaðarsöm verkefni við uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu og mikilvægt að ákvarðanir séu teknar að vel athuguðu máli."
Þar sem tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum vinstri meirihlutans gegn atkvæði mínu hefur hún ekki hlotið fullnaðarsamþykki bæjarstjórnar. Það hlýtur því að vera öllum ljóst að þessi vinna er vita gagnslaus þegar ákvarðanir eru teknar með jafn óábyrgum hætti og raun ber vitni. Þessi breytingartillaga er í raun 450 þúsund króna raunlækkun fyrir bæjarsjóð.
Gert var fundarhlé.
Breytingartillagan var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði bæjarfulltrúa D-lista.
Jón Hjartarson, V-lista, lagði fram svohljóðandi bókun meirihluta bæjarráðs:
Ákvörðun um að veita knattspyrnudeild UMF Selfoss viðurkenningu að upphæð 750 þúsund krónur er tekin að vel athuguðu máli. Meirihluti B, S og V lista leggur áherslu á nauðsyn þess að unnið verði að stefnumörkun vegna íþrótta- og tómstundastarfs og lýsir undrun sinni á þessari afstöðu fulltrúa D listans varðandi mikilvægi stefnumörkunar.
13. 0709116 - Tillaga um að hafinn verði undirbúningur að uppbyggingu aðalleikvangs við Engjaveg
Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Bæjarráð samþykkir að þegar verði hafist handa við skipulag og hönnun á fullbúnum aðalleikvangi við Engjaveg til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir fyrir áramót við endurnýjun hans. Framkvæmda og veitusviði er falið að vinna að málinu í samráði við bæjarstjóra.
Greinargerð:
Ætlunin er að byggja upp aðalleikvang á íþróttavallarsvæðinu við Engjaveg. Leikvangurinn verði með fullbúnum knattspyrnuvelli, bestu aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir og gert verði ráð fyrir áhorfendastúkum. Þessi framkvæmd er í samræmi við þá forgangsröðun sem forysta íþróttahreyfingarinnar hefur áður sett fram. Mikilvægt er að leggja kapp á að hægt verði að taka völlinn í notkun árið 2008, en nú liggur fyrir að meistaraflokkur karla í knattspyrnu leikur í 1. deild að ári og einnig er mjög brýnt að frjálsíþróttafólk í sveitarfélaginu fái nútímalega og góða æfinga- og keppnisaðstöðu. Landsmót UMFÍ verður haldið í Árborg árið 2012 og því ekki seinna vænna að frjálsíþróttafólk hafi aðstöðu í heimabyggð til undirbúnings fyrir mótið.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, lagði fram svohljóðandi breytingatillögu:
Bæjarráð samþykkir að þegar verði hafist handa við skipulag og hönnun á fullbúnum aðalleikvangi við Engjaveg og verði hann tilbúinn fyrir upphaf keppnistímabils í knattspyrnu í maí 2008. Ennfremur verið þegar hafist handa við undirbúning á fjölnotaíþróttahúsi við Engjaveg sem verði tekið í notkun í lok árs 2008.
Greinargerð:
Ástæða er til að fagna því að meirihluti VS og B lista skuli vera tilbúinn að byggja upp íþróttaaðstöðu við Engjaveg. Við Sjálfstæðismenn höfum lagt alla áherslu á þetta svæði og er ánægjulegt að vinstri meirihlutinn skuli vera kominn á þá skoðun. Þá er ánægjulegt að meirihlutinn skuli vera tilbúinn að festa lok verksins fyrir upphaf keppnistímabilsins sem hefst 15. maí 2008. Því miður verður að áminna bæjarstjóra og vinstrihlutann vegna vinnubragða, en samkvæmt orðum formanns íþrótta- og tómstundanefndar stendur yfir vinna í „vinnuhópi um forgangsröðun íþróttamannvirkja." Sá hópur hefur ekki skilað af sér og er nauðsynlegt að fá skýrslu hópsins inn á fund bæjarráðs að viku liðinni. Þá verður að minna bæjarstjóra á góða stjórnsýsluhætti þar sem málið er fyrst „afgreitt" í veislu á laugardagskvöldi en er tekið fyrir í bæjarráði nú. Þá hefur málið ekki hlotið afgreiðslu í íþrótta- og tómstundanefnd og er enn og aftur gengið fram hjá fagnefndum.
Gert var fundarhlé.
Breytingartillagan var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði bæjarfulltrúa D-lista.
Jón Hjartarson, V-lista, lagði fram svohljóðandi bókun:
Ákvörðun um að nú þegar verði hafin vinna við aðalleikvang við Engjaveg er tekin að vel athuguðu máli.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Erindi til kynningar
14. 0709097 - Fundarboð vegna verkefnisins Safnaklasi Suðurlands
Lagt fram.
15. 0709084 - Ársskýrsla Rauða kross Íslands 2006
Skýrslan liggur frammi hjá bæjarstjóra.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 9:30
Þorvaldur Guðmundsson
Jón Hjartarson
Eyþór Arnalds
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir