Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


25.10.2007

66. fundur bæjarráðs

66. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 25. október 2007 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 12:00

Mætt:
Jón Hjartarson, varaformaður, V-lista (V)
Margrét Katrín Erlingsdóttir, varamaður B-lista
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista (D)
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri (S)
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

Formaður leitaði afbrigða til að taka á dagskrá áskorun frá starfsmönnum Litla-Hrauns. Var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

Fundargerðir til staðfestingar:

1. 0701062 - Fundargerðir leikskólanefndar
frá 25.09.07 og 17.10.07


-Bókun vegna 17. fundar leikskólanefndar:
Á 24. fundi bæjarstjórnar haldinn 17.10.2007 lagði Snorri Finnlaugsson fram bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa D lista, með athugasemd um að fulltrúi V lista í landbúnaðarnefnd hafi ekki setið tvo fundi, né boðað varamann í sinn stað. Vegna þessa vill undirritaður vekja athygli á, að það er ekki bundið við neinn einn flokk að það geti ekki hent, að aðalmaður forfallist og að varamaður sé ekki tiltækur, eins og líklega hefur gerst á 17. fundi leikskólanefndar þegar Ari B. Thorarensen fulltrúi D lista boðaði forföll án þess að varamaður mæti í hans stað. Þetta er auðvitað ætíð mjög bagalegt og erfitt að verjast í öllum tilfellum. Þess vegna vill undirritaður benda bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Árborgar á, að hingað til hafi það ekki talist góður siður að kasta grjóti úr glerhúsi.
Jón Hjartarson V lista.

Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Það er gagnlegt að ræða um mætingu bæjarfulltrúa og annarra nefndarmanna og væri vert að taka slíka umræðu sérstaklega inn á dagskrá bæjarráðs. Það er hins vegar afar sérstakt svo ekki sé meira sagt að taka út einstaka mál út inn á vettvang bæjarráðs, sérstaklega þegar sá sem í hlut á er fjarverandi og sá sem bókaði um málið í bæjarstjórn sömuleiðis. Rétt er að benda formanni bæjarráðs á að verulegur misbrestur hefur verið á mætingu í ýmsar nefndir hjá bæjarfélaginu og í sumum tilfellum hafa nefndarfundir ekki verið boðaðir í heilu nefndunum svo mánuðum skiptir. Réttast væri því að fara skipulega yfir þessi mál á faglegan hátt og láta ekkert undanskilið. Væri réttast að bæjarráð fengi skýrslu um málið hið fyrsta.
En fyrst formaður bæjarráðs kýs að gera mætingu í leikskólanefnd að fundarefni er rétt að benda á fundargerð vegna 16. fundar leiksskólanefndar, en þar eru 2 af 5 pólitískum fulltrúum mættir; fulltrúi D-lista Ari B. Thorarensen og Sædís Ósk Harðardóttir V-lista. Það er því ljóst að ekki þarf að leita langt yfir skammt til að finna misbresti í mætingu nefndarmanna.
-liður 1 í fundargerð frá 17.10.07, 0710038, þýðingar á upplýsingum og reglum vegna leikskóla, leikskólanefnd er þökkuð góð ábending og bent á að meirihluti bæjarstjórnar gerir ráð fyrir fjármagni við gerð fjárhagsáætlunar 2008 til að styrkja þjónustu við útlendinga sem flytjast í sveitarfélagið.

Almenn erindi

2. 0709136 - Álagning gjalda hjá Sveitarfélaginu Árborg fyrir árið 2008

Lagt var til að bæjarráð samþykki álagningu gjalda samkvæmt yfirlitinu.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa B- og V-lista, gegn atkvæði fulltrúa D-lista, sem óskaði eftir að bókað yrði:
Bæjarfulltrúi D-lista greiðir atkvæði gegn með svohljóðandi bókun: Bæjarfulltrúar D-lista munu leggja fram breytingatillögu á næsta bæjarstjórnarfundi í tengslum við fjárjagsáætlun.

3.  0710067 - Beiðni Steyputaks ehf. um vilyrði fyrir lóðum, Norðurhólum 5 og 7

Bæjarráð hafnar erindinu. Lóðin verður auglýst til úthlutunar þegar deiliskipulagningu er lokið.

4. 0710072 - Beiðni Fjölbrautaskóla Suðurlands um styrk vegna samstarfs við skóla í Beijing í Kína

Bæjarráð samþykkir að veita Fjölbrautaskóla Suðurlands styrk að fjárhæð kr. 300.000. Styrkinn skal færa á liðinn óráðstafað.

5. 0710086 - Tillaga um sölu fasteigna

Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Bæjarráð Árborgar samþykkir að eftirtaldar fasteignir í eigu sveitarfélagsins verði seldar:

Hafnargata 10
Austurvegur 36
Vallartröð 3 (gröftur og jarðvegsfylling)

Að auki samþykkir bæjarráð að selja til brottflutnings lausar kennslustofur á lóð Sandvíkurskóla (tvær stofur sem mynda saman “L”).

Greinargerð:
Fasteignin Hafnargata 10 á Stokkseyri (áður þjónustuskrifstofa) er ekki nýtt nema að litlu leyti og er unnt að koma þeirri starfsemi sem þar fer fram fyrir í öðru húsnæði.

Starfsemi leikskólans Ásheima að Austurvegi 36 mun flytja í nýtt húsnæði við Leirkeldu haustið 2008. Afhendingartíma fasteignarinnar verði hagað í samræmi við það.

Lóðinni að Vallartröð 3 var skilað til sveitarfélagsins eftir að farið hafði fram jarðvegsfylling. Ekki er unnt að setja lóðina í hefðbundið úthlutunarferli þar sem verðgildi hennar hefur verið aukið með þeim framkvæmdum sem fram hafa farið á henni.

Notkun tveggja kennslustofa á lóð Sandvíkurskóla hefur verið hætt og þar sem húsin nýtast sveitarfélaginu ekki er lagt til að þau verði seld.

Bæjarráð samþykkir tillöguna. Eignirnar verða metnar og auglýstar.

6. 0710087 - Beiðni um aukningu á stöðugildi í skólavistuninni á Stokkseyri

Bæjarráð samþykkir erindið. Kostnað, kr. 250.000, skal færa á liðinn óráðstafað.

7. 0710070 - Beiðni um tímabundna aukningu á stöðugildi í leikskólanum Hulduheimum

Bæjarráð samþykkir erindið. Kostnað, kr. 500.000, skal færa á liðinn óráðstafað.

8. 0710088 - Beiðni um aukningu á stöðugildi kennara

Bæjarráð samþykkir erindið.

9. 0710089 - Fyrirspurn Önnu Kristínar Pétursdóttur um athafnasvæði við Eyrarbraut á Stokkseyri

Bæjarráð felur bæjarritara og bæjarstjóra að svara erindinu.

10. 0704151 - Tillaga um að leitað verði samninga við Þingvallaleið ehf. um almenningssamgöngur á sérleyfisleiðinni Selfoss- Eyrarbakki - Stokkseyri

Lögð var fram svohljóðandi tillaga um almenningssamgöngur

Bæjarráð Árborgar samþykkir að fela bæjarstjóra og bæjarritara að semja við Þingvallaleið ehf um að komið verði á almenningssamgöngum á sérleyfisleiðinni Selfoss- Eyrarbakki – Stokkseyri frá og með næstu áramótum. Um verði að ræða tilraunaverkefni til eins árs. Samningur skal lagður fyrir bæjaráð til staðfestingar.

Greinargerð:
Í gildi er sérleyfi á leiðinni Selfoss – Eyrarbakki – Stokkseyri. Núverandi sérleyfishafi er Þingvallaleið ehf., skv. samningi við Vegagerðina sem gildir til 20. desember 2008. Bæjarráð telur nauðsynlegt að koma á tíðari samgöngum milli byggðarlaga innan sveitarfélagsins sem fyrst og vill með þessum hætti stíga fyrsta skrefið í átt að bættum samgöngum innan sveitarfélagsins.
Í samræmi við ákvörðun bæjarráðs frá 47. fundi hefur verið rætt við forsvarsmann Þingvallaleiðar ehf. um möguleika á tilraunaverkefni um almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins. Niðurstaða þeirra viðræðna var sú að Þingvallaleið ehf. er reiðubúin til samstarfs um verkefnið.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa B- og V-lista, gegn atkvæði fulltrúa D-lista.
Bæjarfulltrúi D-lista greiðir atkvæði gegn tillögunni með svohljóðandi bókun: "Í sveitarfélaginu er starfrækt eitthvert öflugasta og metnaðarfyllsta fyrirtæki landsins á sviði almenningssamgangna og sinnir það nú þegar þjónustu fyrir sveitarfélagið. Mikilvægt er að horfa til fleiri aðila en sérleyfishafans þegar hugað er að þjónustunni til lengri tíma. Sérleyfið gildir aðeins til loka næsta árs og þarf að huga að samningsstöðu Árborgar í þessu máli. Þá er óljóst hver kostnaðurinn er af samningi þeim sem áformaður er við Þingvallaleið ehf"
 

Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi D-lista, lagði fram tillögu:
Bæjarstjóra verði falið að kanna verð á þjónustu vegna tilraunaverkefnisins meðal aðila til 12 mánaða annars vegar og 24 mánaða hins vegar.

Gert var fundarhlé.

Eyþór Arnalds, D-lista, lagði fram svohljóðandi greinargerð:
Mikilvægt er að bæta almenningssamgöngur innan byggðakjarna Árborgar hið fyrsta. Því miður er Árborg bundin af sérleyfi sem bindur hendur sveitarfélagsins í þessu máli og gekk í gildi með samningi vegagerðarinnar dags. 17. ágúst 2006. Í þessu samhengi hefði verið betra að samgöngur innan byggðakjarna í Árborg hefðu verið undanskildar. Engu að síður er mikilvægt að ná kostnaði niður eins og kostur er. Þá er brýnt að ganga ekki fram hjá þeim fyrirtækjum sem fyrir eru í sveitarfélaginu og gefa þeim kost á að taka þátt í nýjum verkefnum.

Tillagan var borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum gegn atkvæði fulltrúa D-lista.
Jón Hjartarson, V-lista, gerði grein fyrir atkvæði meirihlutans
Bent er á að í gildi er sérleyfi á þessari akstursleið til loka árs 2008, á meðan svo er er sveitarfélaginu ekki heimilt að semja við aðra um verkefnið. Stjórnvöldum hefur ítrekað verið bent á frá fulltrúum sveitarfélagsins Árborgar að nauðsynlegt sé að afnema sérleyfið.
Fulltrúar B- og V-lista.

11. 0609074 - Tillaga um niðurfellingu fundar bæjarráðs í 44. viku vegna aðalfundar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

12. 0710114 - Áskorun frá starfsmönnum á Litla-Hrauni

Áskorunin var lögð fram.
Bæjarráð Árborgar lýsir yfir eindregnum stuðningi við áskorun starfsmanna fangelsisins að Litla-Hrauni um að farið verði í enn frekari uppbyggingu á Litla-Hrauni en nú eru áform um. Bæjarráð hvetur ríkisvaldið til að skoða þetta mál af fullri alvöru og lýsir sig tilbúið til samráðs um slíka uppbyggingu.

Erindi til kynningar

13. 0710069 - Vinnuverndarvikan 2007

Lagt fram til kynningar.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 13:20.

Jón Hjartarson                        
Margrét K. Erlingsdóttir
Eyþór Arnalds                        
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica