Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


30.11.2018

4. fundur íþrótta- og menningarnefndar

4. fundur íþrótta- og menningarnefndar Árborgar, kjörtímabilið 2018-2022, haldinn þriðjudaginn 13. nóvember 2018 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 16:45.  Mætt: Guðbjörg Jónsdóttir, formaður, B-lista Guðmundur Kr. Jónsson, nefndarmaður, M-lista Jóna Sólveig Elínardóttir, nefndarmaður, Á-lista Kjartan Björnsson, nefndarmaður, D-lista Karolina Zoch, nefndarmaður, D-lista Bragi Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúi  Formaður býður Emilíu Sól Guðmundsdóttur, fulltrúa ungmennaráðs, velkomna í nefndina. Bragi Bjarnason ritaði fundargerð. Dagskrá: 
Almenn afgreiðslumál
1.   1809115 - Uppbygging menningarsalarins í Hótel Selfossi
  Nefndarmenn fóru í skoðunarferð um menningarsalinn í Hótel Selfossi undir leiðsögn Kjartans Björnssonar. Nefndarmenn sammála um að það þurfi að fara strax í framkvæmdir á þaki til að verja salinn fyrir vatnsleka. Nefndin skorar á þingmenn Suðurlands og mennta- og menningarmálaráðherra að fylgja eftir þingsályktunartillögu um menningarsalinn svo hægt verði að hefja uppbygginu salarins árið 2019. Samþykkt samhljóða
     
2.   1810117 - Uppskeruhátíð ÍMÁ 2018
  Farið yfir breytingartillögu að reglugerð um kjör íþróttakonu og -karls Árborgar 2018. Ákveðið að breyta atkvæðagreiðslu um kjörið á þann veg að sérstök sjö fulltrúa valnefnd velji íþróttakonu og- karl Árborgar á móti netkosningu sem myndi gilda 20% á móti valnefndinni. Starfsmanni nefndarinnar falið að óska eftir tilnefningum í kjör íþróttakonu og -karls Árborgar frá íþróttafélögum og vinna þau gögn fyrir valnefnd og fyrir netkosningu. Niðurstöður kjörsins verða svo tilkynnt á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar fim. 27. desember nk. í hátíðarsal FSu. Samþykkt samhljóða
     
3.   1811069 - Staða forvarnarmála í Sveitarfélaginu Árborg
  Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson, tómstunda- og forvarnarfulltrúi og Guðbjörg Ester Einarsdóttir, lögreglumaður, koma inn á fundinn og ræða stöðu mála í forvarnarmálum í Sveitarfélaginu Árborg. Fram komu áhyggjur nefndarmanna af fíkniefnaumræðunni í samfélaginu í dag og rætt var hvað hægt sé að gera gagnvart aukinni fræðslu og samstarfi fagaðila á svæðinu í gegnum forvarnarhópinn. Fram kom að það væri því miður aukning í neyslu á þessu svæði og forvarnarhópurinn er á móti því að auka við fræðslu til unglinga, ungmenna og foreldra um þessa þætti. Fagaðilar eru nú meira inni í grunnskólunum og í ljósi vandans í dag var rætt um aukið samstarf við FSu og fjölmiðla í forvarnarmálum ásamt þvi að gera fræðsluefni aðgengilegra á heimasíðu sveitarfélagsins. Til framtíðar er vinnan við Snemmtæka íhlutun eitt af þeim þverfaglegu verkefnum sem vonandi mun skila því að hægt sé að grípa fyrr inn í sambærileg mál og minnka líkur á því að unglingar prófi þessi efni. Nefndin þakkar Gunnar Eysteini og Guðbjörgu Ester kærlega fyrir þeirra innlegg og umræður. Samþykkt samhljóða.
     
4.   1810247 - Hjólreiðasamgöngur í Árborg til framtíðar
  Jóna Sólveig Elínardóttir, nefndarmaður Á lista, lagði fram eftirfarandi tillögu ásamt greinargerð um bættar hjólareiðasamgöngur í Árborg til framtíðar: Hjólreiðasamgöngur í Árborg til framtíðar Sveitarfélagið Árborg býður upp á kjöraðstæður til öflugra hjólreiðasamgangna enda flatlent sveitarfélag með eindæmum og breiðar götur víða sem bjóða upp á hagkvæma möguleika til að gera viðeigandi breytingar. Því er lagt til að hjólreiðar verði skilgreindar og skipulagðar sem hluti af samgöngukerfi sveitarfélagsins. Í því felst að skipulag, allar framkvæmdir og gatnagerð taki mið af því frá og með þessu kjörtímabili. Með þetta að markmiði er lagt til að: Skipaður verði stýrihópur sem hafi það hlutverk að móta skammtíma og langtíma stefnu um samþættingu hjólreiða sem hluta af samgöngukerfi Árborgar. Stýrihópurinn hafi samráð við helstu hagaðila (fagnefndir, -stofnanir og -ráð, hverfisráð, ungmennaráð, viðeigandi félagasamtök o.s.frv.). Lagt er til að starfshópurinn skili af sér eigi síðar en sex mánuðum frá móttöku erindisbréfs. Stefnan verði tekin til umfjöllunar í bæjarstjórn og viðeigandi fagnefndum sveitarfélagsins og í kjölfarið send út í opið umsagnarferli. Lagt er til að því ferli ljúki innan 6 vikna. Fagnefndir fái málið aftur til umsagnar og leggi til breytingar ef þurfa þykir. Í kjölfarið taki bæjarstjórn málið í lokaafgreiðslu. ?Sett verði upp aðgerðaráætlun um hvernig hrinda skuli samþykktri stefnu í framkvæmd til skemmri og lengri tíma. Greinargerð Fjölbreyttari, betri og öruggari samgöngumöguleikar Í samkeppni um fólk og fyrirtæki geta góðir, fjölbreyttir samgöngumöguleikar og góð aðstaða til útivistar verið liðir í því að auka aðdráttarafl sveitarfélagsins enn frekar. Auk þess skapar vel skilgreint og skipulagt aðgengi fyrir hjólreiðafólk nýja hvata fyrir íbúa til að velja, í auknum mæli, hjólreiðar sem samgöngumáta innan sveitarfélagsins. Með vel skipulögðu hjólreiðastígakerfi verða hjólreiðar að öruggum ferðakosti sem aftur eykur lífsgæði gangandi, hjólandi eða akandi íbúa á öllrum aldri. Aukið umferðaröryggi fyrir alla Bættar hjólreiðasamgöngur auka öryggi gangandi vegfarenda og reiðhjólafólks á ferðum þeirra um sveitarfélagið auk þess sem ökumenn njóta líka góðs af skýrari reglum og mögulega minni bílaumferð en ella væri. Í ört vaxandi sveitarfélagi eins og Árborg skiptir slíkt miklu máli þar sem auknum íbúafjölda fylgir óumflýjanlega aukin umferð. Við slíkar aðstæður þarf að gera langtíma ráðstafanir til að hámarka umferðaröryggi til framtíðar. Góðar aðstæður til hjólreiða eru liður í því. Lýðheilsa og aðgengi Með því að bjóða íbúum upp á öruggari, umhverfisvænni og þar með betri möguleika til að velja hjólreiðar sem samgöngumáta eflum við lýðheilsu innan sveitarfélagsins. Slíkt eykur almenn lífsgæði auk þess sem afleidd áhrif gætu falið í sér samdrátt í kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Samhliða því sem ráðist væri í framkvæmdir til að bæta samgönguskilyrði fyrir hjólreiðafólk gæti verið hagkvæmt að huga að aðgengi fyrir þá sem þurfa að styðjast við hjólastóla eða eiga að öðru leyti erfitt um gang. Umhverfið Hjólreiðar eru umhverfisvænn samgöngukostur. Með því að vinna markvisst að því að bæta aðgengi hjólreiðafólks í Árborg er dregið úr bæði loft- og hljóðmengun. Þetta skiptir miklu máli í ört vaxandi sveitarfélagi eins og Árborg og getur skipt enn meira máli þegar fram í sækir ef að því kemur að sveitarfélög þurfi að axla aukna ábyrgð á því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hagkvæmar samgöngur og tækifæri Með auknum umferðarþunga, sem fylgir íbúafjölgun og aukinni umferð ferðamanna, eykst allur kostnaður við gatnagerð. Með því að skapa aðstæður fyrir fólk sem gera hjólreiðar að aðlaðandi samgöngukosti má draga úr þeim kostnaði. Einnig má leiða að því líkur að auknar hjólreiðasamgöngur skapi tækifæri fyrir áhugasama aðila að byggja upp þjónustu í kringum það. Íþróttabærinn Selfoss Selfoss hefur skapað sér orðspor sem bær sem elur af sér öflugt íþróttafólk. Að skipuleggja og bæta samgöngur í sveitarfélaginu með þeim hætti að þær styðji við heilsusamlegan lífstíl og bæti aðstöðu fyrir göngu-, hlaupa- og hjólreiðafólk, eflir enn frekar þá ímynd. Góðar umræður um tillöguna og allir nefndarmenn sammála um mikilvægi þess að gera hjóla-, göngu- og reiðstígum hátt undir höfði. Lagt til við bæjarráð að áðurnefndur stýrihópur verið stofnaður til að móta skammtíma- og langtímastefnu um samþættingu hjólreiða sem hluta af samgöngukerfi Árborgar ásamt því að skoða skipulag göngu- og reiðstíga í sveitarfélaginu til að þessir þættir vinni vel saman. Vinna stýrihópsins ætti að nýtast í fyrirhugaða endurskoðun á aðalskipulagi. Samþykkt samhljóða
     
Erindi til kynningar
5.   1810209 - Uppbygging íþróttamannvirkja á Selfossvelli
  Starfsmaður nefndarinnar fer yfir stöðu mála í framtíðaruppbyggingu á Selfossvelli og kom fram að hafin væri undirbúningur að fyrsta áfanga sem er hálft fjölnota íþróttahús í fullri stærð.
     
  Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 19:15
Guðbjörg Jónsdóttir   Guðmundur Kr. Jónsson
Jóna Sólveig Elínardóttir   Kjartan Björnsson
Karolina Zoch   Bragi Bjarnason

Þetta vefsvæði byggir á Eplica