Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


17.3.2016

68. fundur bæjarráðs

68. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2014-2018, haldinn fimmtudaginn 17. mars 2016 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10.  Mætt: Gunnar Egilsson, formaður, D-lista, Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi, D-lista, Íris Böðvarsdóttir, varamaður, B-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi, S-lista, Viðar Helgason, áheyrnarfulltrúi, Æ-lista, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri. Formaður leitaði afbrigða að taka á dagskrá umsókn Hvítahússins um tækifærisleyfi um páskana, áskorun starfsmanna og stéttarfélagsins Bárunnar og umsókn um tækifærisleyfi í íþróttahúsinu á Stokkseyri. Var það samþykkt samhljóða. Dagskrá: 

Fundargerðir til staðfestingar
1. 1601003 - Fundargerð fræðslunefndar
  19. fundur haldinn 10. mars
  -liður 4, 1602036, kostnaður sveitarfélagsins við rekstur skólaþjónustu. Bæjarfulltrúar D-lista lögðu fram eftirfarandi bókun vegna bókunar Örnu Írar Gunnarsdóttur, S-lista, á fundi fræðslunefndar: Við undirbúning að úrsögn Sveitarfélagsins Árborgar úr Skólaskrifstofu Suðurlands á árinu 2013 voru unnar áætlanir um rekstur skólaþjónustu Árborgar með tilliti til mönnunar og fleiri þátta. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014, sem var fyrsta árið sem sveitarfélagið sá alfarið um sérfræðiþjónustu grunnskóla, var gert ráð fyrir 65 mkr til verkefnisins. Við undirbúning var meðal annars litið til utanaðkomandi ráðgjafar sem sveitarfélagið sótti sér og viðræðna við skólastjórnendur í sveitarfélaginu og var mönnun skólaþjónustu ákveðin að teknu tilliti til framangreindra þátta. Séu kostnaðartölur fyrir árið 2015 og útgjöld sveitarfélagsins til Skólaskrifstofu Suðurlands og skrifstofu fræðslusviðs árið 2012 bornar saman á sama verðlagi, þ.e. uppreiknað til verðlags 2015, en ekki á verðlagi hvors árs fyrir sig, má sjá að munur á kostnaði er einungis 11 mkr, eða um 12% (87 mkr árið 2012 og 98 mkr árið 2015). Áhersla hefur verið lögð á gæði faglegs starfs og að unnt sé að veita mjög góða þjónustu. Í rýnihópaviðtölum og á fundum með skólastjórnendum hefur komið fram að almenn ánægja er með þessar skipulagsbreytingar. Þannig hefur skólaþjónusta Árborgar nú á að skipa talmeinafræðingi í 100% stöðu fyrir sveitarfélagið, en áður sinnti einn talmeinafræðingur öllu Suðurlandi. Þá hefur skólaþjónustan á að skipa tveimur sálfræðingum og er þar um mun meiri þjónustu að ræða en Skólaskrifstofa Suðurlands hafði fyrir skólana í Árborg. Þá nýtast þeir fjármunir sem áður fóru í stjórnun hjá Skólaskrifstofu Suðurlands beint í sjálfa þjónustuna þar sem stjórnunarkostnaður á fræðslusviði jókst ekki við breytinguna. Ljóst er að fjármunir þeir sem Sveitarfélagið Árborg leggur til skólaþjónustunnar nýtast nú mun betur til hagsbóta fyrir börnin og allt skólasamfélagið í Árborg en áður var. Bæjarfulltrúar D-lista. Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, lagði fram eftirfarandi bókun: Það er mikilvægt að við gerum okkur vel grein fyrir og fylgjumst með þróun kostnaðar við þessa mikilvægu þjónusta í kjölfar þeirra umfangsmiklu breytinga sem gerðar voru á þjónustunni þegar Svf. Árborg sagði sig úr samstarfi um Skólaskrifstofu Suðurlands. Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista Fundargerðin staðfest.
     
Fundargerðir til kynningar
2. 1602004 - Fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands
  170. fundur haldinn 4. mars
  Lagt fram.
     
Almenn afgreiðslumál
3. 1603095 - Áskorun Félags eldri borgara á Selfossi, dags. 25. febrúar 2016, varðandi húsnæðisvanda félagsins og bílastæðamál við Grænumörk
  Á fundi bæjarstjórnar Árborgar í gær var samþykkt að auglýsa nýja tillögu að deiliskipulagi Mjólkurbúshverfis á Selfossi sem tekur til svæðisins við Grænumörk og hefur áhrif á bílastæðamál til batnaðar. Tillagan verður auglýst og verður aðgengileg til skoðunar fyrir alla, auk þess sem hún verður kynnt Félagi eldri borgara og íbúum í Grænumörk sérstaklega á fundi sem haldinn verður í byrjun apríl nk. Þá samþykkti bæjarráð Árborgar í desember 2014 viljayfirlýsingu um viðbyggingu við Grænumörk, þar sem kemur fram að sveitarfélagið hafi í hyggju að stækka og bæta félagsaðstöðu fyrir eldri borgara í Grænumörk 5 og er í yfirlýsingunni getið um þarfagreiningu vegna verkefnisins sem unnin var m.a. með félaginu. Viljayfirlýsingin var gerð með fyrirvara um að samningar náist um kaupverð og að deiliskipulag liggi fyrir og er framangreind deiliskipulagstillaga Mjólkurbúshverfis unnin vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar á lóðum Austurvegar 51-59 sem tengist Grænumörk og hýsi félagsaðstöðu og dagdvöl aldraðra. Í framhaldi af því að deiliskipulagstillagan fer til auglýsingar og kynningar verður haldið áfram frumhönnun byggingarinnar, m.a. þeirra rýma sem sveitarfélagið hefur hug á að nýta og verður haft samráð við Félag eldri borgara varðandi félagsaðstöðu.
     
4. 1603087 - Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 3. mars 2016, um umsögn um umsókn um rekstrarleyfi, gististaður í flokki I, heimagisting, Mýri Guesthouse að Ásamýri 2.
  Bæjarráð veitir jákvæða umsögn.
     
5. 1603156 - Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 9. mars 2016, um umsögn um rekstrarleyfisumsókn, gististaður í flokki II - íbúðagisting að Eyrargötu 16d, Eyrarbakka
  Bæjarráð veitir jákvæða umsögn.
     
6. 1603126 - Beiðni Velferðarnefndar Alþingis, dags. 7. mars 2016, um umsögn um frumvarp til laga um málefni aldraðra, rétt til sambúðar á stofnunum
  Lagt fram.
     
7. 1603136 - Beiðni Velferðarnefndar Alþingis, dags. 8. mars 2016, um umsögn um umsókn um tillögu til þingsályktunar um skilyrðislausa grunnframfærslu, borgaralaun
  Lagt fram.
     
8. 1602066 - Fyrirspurn Örnu Írar Gunnarsdóttur, S-lista, um styrk frá Sorpstöð Suðurlands vegna kynningarefnis
  Lögð var fram eftirfarandi fyrirspurn Örnu Írar Gunnarsdóttur, S-lista: Á síðasta fundi bæjarráðs kom fram að þeir fjármunir sem Sorpstöð Suðurlands úthlutaði til aðildarsveitarfélaganna í lok árs 2014 til kynningar á endurvinnslu- og flokkunarmöguleikum hefðu ekki enn verið nýttir eins og til var ætlast. Hvernig hyggjast bæjaryfirvöld í Árborg nýta þetta fé? Svar: Í tengslum við ákvörðun framkvæmda- og veitustjórnar sem tekin var á fundi í gær verður dreift sk. frímiðum á heimili í Árborg til nota á gámasvæðinu. Miðunum munu fylgja leiðbeiningar um þá flokka úrgangs sem unnt er að skila í þar til gerða flokkunargáma á gámasvæði Árborgar. Einnig verða leiðbeiningar um hvaða úrgangsflokkar skulu fara í grátunnu og blátunnu við heimili. Jafnframt verður upplýsingum um árlegt hreinsunarátak sveitarfélagsins komið á framfæri við íbúa og leiðbeint um flokkun úrgangs í gáma sem staðsettir verða á Eyrarbakka og Stokkseyri á meðan á átakinu stendur, svo og upplýsingum um opnunartíma gámasvæðisins þá daga sem átakið stendur. Hluti þess fjár sem Sorpstöð Suðurlands greiddi út til kynningarmála mun nýtast í framangreindum tilgangi, en að auki munu bæjaryfirvöld í Árborg nýta féð til kynningar á fyrirkomulagi endurvinnslu og flokkunar þegar ákvörðun hefur verið tekin um næstu skref í þeim málum. Líkt og bæjarfulltrúanum Örnu Ír er kunnugt um er rúmlega eitt ár eftir af núgildandi samningi um sorphirðu í sveitarfélaginu og fer undirbúningur að nýju útboði af stað á næstu vikum. Á þeim vettvangi er tekin ákvörðun um fyrirkomulag flokkunar sorps á heimilum. Þá er Örnu Ír einnig kunnugt um að stjórn Sorpstöðvar Suðurlands vinnur að því að fundinn verði farvegur fyrir úrgang af starfssvæði Sorpstöðvarinnar og er þar horft til þess að flokkunarkerfi verði í meira mæli samræmd á starfssvæðinu. Niðurstaða þeirrar vinnu ræður miklu um það hvaða leiðir sveitarfélaginu verður fært að fara í sambandi við flokkun og endurvinnslu. Bæjarfulltrúar D-lista. Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, lagði fram eftirfarandi bókun: Undirrituð þakkar framkomin svör við fyrirspurninni og fagnar því að loksins eigi að nýta fjármunina eins og til var ætlast. Að sjálfsögðu er undirrituð vel meðvituð um að einungis eitt ár er eftir að núgildandi samningi um sorphirðu og því löngu tímabært að Gunnar Egilsson, formaður vinnuhóps um sorpmál boði fund í þeim hópi þar sem hann hefur ekki fundað svo mánuðum skiptir. Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista.
     
9. 1603176 - Yfirlit yfir útsvarstekjur og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga
  Lagt fram.
     
10. 1603158 - Styrkbeiðni Félags búfjáreigenda á Eyrarbakka, dags. 10. mars 2016, vegna hringvallar í hesthúsahverfi Eyrarbakka
  Bæjarráð óskar eftir kostnaðaráætlun frá umsækjanda og upplýsingum um áætlað eigin framlag félagsins, svo og um tekjur félagsins á árinu 2015.
     
11. 1603154 - Fyrirspurn Herdísar Sifjar Ásmundsdóttur um leiðir til að koma á póstboxaþjónustu á Stokkseyri
  Bæjarráð Árborgar beinir því til Póstsins að sett verði upp póstboxaþjónusta á Eyrarbakka og Stokkseyri líkt og gert hefur verið á átta stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Póstþjónusta á Eyrarbakka og Stokkseyri hefur dregist mjög saman á síðustu árum og nauðsynlegt að þeir staðir á landinu þar sem þjónusta er takmörkuð fái að njóta nýjunga á borð við póstboxaþjónustuna til hagræðis bæði fyrir íbúa og póstdreifingaraðila.
     
12. 1603188 - Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi um umsögn um umsókn um tækifærisleyfi - árshátíð í íþróttahúsi Stokkseyrar
  Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um erindið.
     
13. 1603189 - Áskorun sex starfsmanna og Bárunnar stéttarfélags vegna uppsagnar á kjörum í ræstingum
  Lögð var fram áskorun um að endurskoða þá ákvörðun að segja upp núgildandi greiðslufyrirkomulagi við ræstingar. Bæjarráð samþykkir að halda því greiðslufyrirkomulagi sem tilkynnt hefur verið og greiða skal eftir skv. gildandi kjarasamningi. Bæjarráð samþykkir þó að lengja aðlögunartíma að nýju kerfi og bjóða viðkomandi starfsmönnum að lengja uppsagnarfrest á greiðslufyrirkomulaginu um einn mánuð.
     
14. 1603097 - Fundartími bæjarráðs í dymbilviku
  Bæjarráð samþykkir að fella niður fund í dymbilviku þar sem reglulegan fundartíma ber upp á skírdag.Kjartan Björnsson bæjarfulltrúi D-lista vék af fundi við afgreiðslu tækifærisleyfis –Hvítahúsið um páskana.
     
15. 1603197 - Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi um umsögn um umsókn um tækifærisleyfi - Hvítahúsið um páskana (24. mars og 28. mars til kl. 04)
  Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um erindið.
     
Erindi til kynningar
16. 1603032 - Auglýsing Lánasjóðs sveitarfélaga, dags. 22. febrúar 2016, eftir tilnefningum eða framboðum í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.
  Lagt fram til kynningar.
     
17. 1503063 - Ályktun Félags eldri borgara á Selfossi til heilbrigðisráðherra varðandi fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða í Árborg
  Lagt fram.
     

          Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 9:30

Gunnar Egilsson   Kjartan Björnsson
Íris Böðvarsdóttir   Arna Ír Gunnarsdóttir
Viðar Helgason   Ásta Stefánsdóttir

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica