7. fundur fræðslunefndar
7. fundur fræðslunefndar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn fimmtudaginn 24. febrúar 2011 í Norðursal, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 17:15
Mætt:
Sandra Dís Hafþórsdóttir, formaður, D-lista,
Grímur Arnarson, nefndarmaður, D-lista,
Ragnheiður Guðmundsdóttir, nefndarmaður, D-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, nefndarmaður, S-lista,
Andrés Rúnar Ingason, nefndarmaður, V-lista,
Birgir Edwald, fulltrúi skólastjóra,
Helga Geirmundsdóttir, fulltrúi leikskólastjóra,
Málfríður Garðarsdóttir, fulltrúi foreldra,
Hanna Rut Samúelsdóttir, fulltrúi starfsmanna,
Linda Rut Ragnarsdóttir, fulltrúi foreldra,
Guðbjörg Helga Guðmundsdóttir, fulltrúi kennara,
Stefanía Geirsdóttir, fulltrúi Flóahrepps.
Ásta Stefánsdóttir, sem ritaði fundargerð.
Formaður leitaði afbrigða til að taka á dagskrá fundargerð skólaráðs BES frá 18.02.11. Var það samþykkt samhljóða.
Dagskrá:
1. 1101153 - Svar við fyrirspurnum fulltrúa S-lista til fræðslunefndar frá 6. fundi
Lagt var fram svar við eftirfarandi fyrirspurnum fulltrúa S-lista í fræðslunefnd, sem lögð var fram á 6. fundi:
Fyrirspurnir frá fulltrúa S-lista í fræðslunefnd:
Á fundi íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar þann 7.apríl sl. var samþykkt tillaga um að hefja undirbúning að gerð sameiginlegrar skóla- og frístundastefnu fyrir Sveitarfélagið með það að markmiði að samhæfa áherslur og leiðir í skólagöngu og frístundum barna og skapa samfellu í daglegu starfi þeirra. Fræðslunefnd tók undir tillögu ÍTÁ á fundi sínum þann 20.apríl sl. og mælti með því við bæjarráð að hafist yrði handa við undirbúning málsins. Á fundi bæjarráðs þann 29.apríl sl. fól bæjarráð verkefnisstjórum íþrótta-, tómstunda- og menningarmála og verkefnisstjóra fræðslumála að hefja undirbúning að vinnslu málsins. Vegna þessa er óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
1. Er vinna hafin við gerð sameiginlegrar skóla- og frístundastefnu fyrir Sveitarfélagið Árborg?
Svar:
Vinna við gerð sameiginlegrar skóla- og frístundastefnu er hafin. Slík samþætting er mjög flókin og kostnaðarsöm og því var niðurstaðan sú að byrja á atriðum sem kosta lítið í framkvæmd eins og að samræma upphaf og lok skólatíma allra skóla í sveitarfélaginu og er sú vinna í gangi. Næsta skref er svo að ræða við íþróttafélögin og er það í höndum íþrótta- og tómstundafulltrúa. Vonast er til að hægt verði að halda þessu vinnuferli gangandi og að hægt verði að veita auknum fjármunum til verkefnisins þegar fram líða stundir. Það er ljóst að innleiðing á sameiginlegri skóla- og frístundastefnu mun taka langan tíma, það er í mörg horn að líta og vanda verður til verka enda er hér um framtíðarverkefni að ræða.
2. Ef að svo er ekki, hefur núverandi meirihluti í hyggju að vinna að slíkri stefnu?
Eins og fram kemur í svari við spurningu 1 er vinna við verkefnið hafin.
Fyrirspurn vegna frétta í fjölmiðlum um fund bæjaryfirvalda með forsvarsmönnum Hjallastefnunnar:
1. Hver var niðurstaða fundar bæjaryfirvalda með fulltrúum Hjallastefnunnar?
Svar:
Tveir fulltrúar Hjallastefnunnar sóttu sveitarfélagið heim 7.febrúar sl. Þeir höfðu lýst áhuga á að kynna sér skólastarf í Árborg og voru þeim sýndar nokkrar skólastofnanir í sveitarfélaginu og kynnt sú starfsemi sem þar er í gangi. Móttökur voru alls staðar til fyrirmyndar og lýstu þeir ánægju sinni með heimsóknina. Engin eiginleg niðurstaða varð af þessum fundi.
2. Eru frekari fundir fyrirhugaðir á næstunni með fulltrúum Hjallastefnunnar?
Svar:
Nei, ekki eru fyrirhugaðir frekari fundir.
2. 1101181 - Svör við fyrirspurnum kennara til fræðslunefndar frá 6. fundi
Lagt var fram svar við eftirfarandi fyrirspurnum kennara sem lagða
voru fram á 6. fundi:
Fulltrúi kennara lagði fram eftirfarandi erindi:
1. Úrræði fyrir nemendur með geðraskanir og/eða hegðunarerfiðleika.
Kennarar hafa það stundum á tilfinningunni að fjöldi nemenda með geðræna-, hegðunar- og tilfinningalega erfiðleika sé hærra hlutfall hér á svæðinu en landsmeðaltal. Einnig er það tilfinning margra kennara að úrræði hér séu af skornari skammti en annars staðar. Nú eru þetta óstaðfestar hugleiðingar, þess vegna förum við þess á leit að kannað verði hvort fjöldi tilfella (greininga) hér sé meiri en annars staðar og hvort fjöldi úrræða sé í stíl. Við höfum einnig áhyggjur af því að ef umsvifin eru mikil og úrræðin fá þá séu það sumir nemendur sem sleppa í gegnum grunnskólann án þess að fá þá hjálp sem þeir svo nauðsynlega þurfa. Eins mætti skoða tölurnar í samanburði við niðurstöður úr fíkni- og vímuefnarannsóknum. Mikilvægast er þó að sveitarfélagið hafi yfir úrræðum að ráða sem virka bæði fyrir nemandann sjálfan og bekkjarfélaga viðkomandi nemanda.
Svar:
Samkvæmt upplýsingum frá Skólaskrifstofu Suðurlands er ekkert í þeirra tölfræði sem bendir til að hlutfall hegðunar- og geðraskana sé hærra í Árborg en annars staðar. Hvað úrræði varðar er Sveitarfélagið Árborg betur sett en margir aðrir að þeirra mati. Hér er ART notað bæði sem forvarnarúrræði/skólaúrræði og meðferðarúrræði og að auki er hér sálfræðiþjónusta fyrir börn upp að 18 ára aldri á heilsugæslunni. Þá hefur félagsþjónustan ýmis úrræði á sínum snærum, eins og t.d. persónulega liðveislu.
Í skýrslu sem var gefin út á vegum Rannsókna og greiningar koma fram ýmsar upplýsingar varðandi líðan og hegðan ungs fólks í Árborg. Þar kemur meðal annars fram að munn- og neftóbaksnotkun er marktækt hærri í Árborg en landsmeðaltal en tölur um ölvun sýna að hún er svipuð og á höfuðborgarsvæðinu og landsmeðaltal. Hassnotkun var meiri hér hjá 10. bekk en landsmeðaltal en svipað og landsmeðaltal og höfuðborgarsvæðið hjá 9. bekk. Þessar tölur eru allar á niðurleið hjá unglingum í Árborg milli ára en eru það jafnframt annars staðar á landinu. Líðan í skóla er misjöfn eftir árum, stelpurnar eru almennt við landsmeðaltal, en líðanin er örlítið verri hjá strákum miðað við höfuðborgarsvæðið og landsmeðaltal. Ekkert af þessu styður þó þær tilgátur að hér sé fjöldi nemenda með geðræna-, hegðunar- eða tilfinningalega erfiðleika meira en annars staðar. Sveitarfélagið Árborg, í samvinnu við skólayfirvöld og aðra þá sem hlut eiga að máli, mun að sjálfsögðu leggja áherslu á að hér séu næg úrræði í boði fyrir börn og unglinga í sveitarfélaginu.
2. Tölvukostur skólanna.
Kennarar, nemendur og annað starfsfólk í Sunnulækjarskóla eru langþreytt á hægvirkum tölvum og fátæklegum tölvubúnaði. Fartölvurnar eru allt upp í tvær kennslustundir að ræsa sig upp fyrir einstaka notendur. Sunnulækjarskóli hefur ekki yfir neinum gagnvirkum töflum að ráða eins og t.d. Vallaskóli. Sunnulækjarskóli hefur heldur ekki tölvuver. Það er ósk kennara að sett verði eitthvað fé í að bæta tækniaðstöðu við skólann.
Svar:
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 var samþykkt að veita 22 milljónum í tölvumál og uppi eru áform um frekari fjárveitingar til málaflokksins í þriggja ára áætlun sem nú er verið að vinna. Það er svo í höndum yfirmanns tölvumála sveitarfélagsins að forgangsraða í þessum málaflokki og ráðstafa fjármunum á þann hátt að þeir nýtist sem best.
3. 1002091 - Fundargerð skólaráðs BES frá 18. febrúar 2011
Fundargerðin var lögð fram. Fræðslunefnd tekur undir bókun skólaráðs um göngustíg á milli Eyrarbakka og Stokkseyrar.
4. 1005203 - Umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins um fyrirhugaðar breytingar á barnaverndarlögum vegna skólagöngu barna sem eru í tímabundnu fóstri utan lögheimilissveitarfélags
Lögð var fram umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
5. 1102037 - Námskeið fyrir skólanefndarmenn
Lagðar voru fram upplýsingar um námskeið sem Samband íslenskra sveitarfélaga heldur í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Heimili og skóla fyrir skólanefndir mánudaginn 18. apríl nk. kl. 13-17:30. Fræðslunefndarfólk er hvatt til að sækja námskeiðið.
6. 1102074 - Skólavogin - lykiltölur um skólahald
Lagt var fram kynningarbréf Sambands íslenskra sveitarfélaga um Skólavogina, sem er tilraunaverkefni sem unnið hefur verið að á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við valin sveitarfélög frá árinu 2007. Fræðslunefnd leggur til að sveitarfélagið þiggi kynningu á eiginleikum og gagnsemi Skólavogarinnar.
7. 1008823 - Úttekt á starfsemi leik- og grunnskóla, tilkynning Menntamálaráðuneytisins um að ráðist verði í úttekt á Sunnulækjarskóla í samræmi við umsókn sveitarfélagsins
Birgir greindi frá fyrirkomulagi úttektarinnar.
8. 1102083 - Menntaþing SASS í Gunnarsholti - menntamál á Suðurlandi ,tækifæri í kreppunni
Kynnt var menntaþing sem SASS stendur fyrir 4. mars. Fræðslunefndarfólk er hvatt til að sækja þingið.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 18:10.
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Grímur Arnarson
Ragnheiður Guðmundsdóttir
Arna Ír Gunnarsdóttir
Andrés Rúnar Ingason
Birgir Edwald
Helga Geirmundsdóttir
Málfríður Garðarsdóttir
Hanna Rut Samúelsdóttir
Linda Rut Ragnarsdóttir
Guðbjörg H. Guðmundsdóttir
Stefanía Geirsdóttir