Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


8.4.2014

7. fundur hverfisráðs Stokkseyrar

7. fundur, miðvikudaginn 5. mars 2014 var haldinn fundur hverfisráðs Stokkseyrar.  

Lögð var fram ósk frá handverkshópnum sem starfar í Gallery Gimli um lækkun á leigu yfir vetrarmánuðina. Samþykkt var að lækka leigu vetrarmánaðaranna nóvember – maí (báðir mánuðir meðtaldir) um helming.  

Einnig var lögð fram ósk handverkshópsins um að fá að setja upp skilti á norðurveginn á kjallaranum á Samkomuhúsinu Gimli. Var það samþykkt. 

Ósk Huldu Gísladóttur um að verða varamaður hverfisráðs var rædd og samþykkt. 

Eftir að þessi mál voru afgreidd fóru 4 af 5 meðlimum hverfisráðsins rúnt um þorpið og reyndu að leggja mat á hvað þarf að gera til að bæta ásýnd þorpsins. 

Niðurstöður þess rúnts eru eftirfarandi: 

  • Ítrekuð er ósk um hreinsun í Löngudæl

  • Skiltamál í þorpinu eru í ólestri. Má þar nefna skiltin við Kaðlastaði og við krossgöturnar. Óskað er eftir að fá leiðbeiningar um hvernig á að hafa skiltin og hvort það sé yfirhöfuð leyfilegt að hafa þau þarna. Einnig er óskað eftir því að fá sér skilti fyrir Stokkseyri við Kaðlastaði, þar sem skilti Árborgar er. Á Stokkseyrarskiltinu gæti komið fram þær upplýsingar sem eru á skiltunum inni í miðju þorpi og vísað á þá staði.

  • Mikil pollamyndun er á Eyrarbrautinni, í öllum innkeyrslum, og stundum svo mikil að ómögulegt er að ganga eftir gangstéttinni. Skapar það hættu fyrir gangandi vegfarendur. Þessu vandamáli þarf að kippa í liðinn.

  • Það á eftir að malbika alla botnlanga á Eyrarbraut.

  • Hverfisráð veltir því fyrir sér hver sé staðan á málum tengdum Eymdinni?

  • Það mætti taka til og grynnka á rusli við iðnaðarsvæðið við Eyrarbraut. Þónokkur bílhræ standa þar og hafa gert lengi.

  • Það er einskær ósk hverfisráðs Stokkseyrar að gömlu innsiglingarmerkin fyrir vestan þorpið verði löguð. Þetta eru merki um gamlan tíma og mikilvæg fyrir sögu þorpsins og ákaflega leiðinlegt að sjá þau grotna niður.

  • Einnig er óskað eftir því að malbikað verði á þeim hluta göngustígsins milli Stokkseyrar og Eyrarbakka sem er tilbúinn. Það eru enn dæmi um að fólk nýti stíginn sem hestaveg og keyri þar einnig um á bílum og öðrum vélknúnum ökutækjum.

  • Við Pálmarshús eru heilmargir ruslapokar og við veltum því fyrir okkur hver ætti að taka þá. Það virðist vera sem enginn búi í húsinu lengur og ruslið hefur staðið þarna lengi.

  • Óskað er eftir að göngustígur bakvið kirkjugarð verði lýstur upp.

  • Óskað er eftir að þarinn sem safnast á “göngustíg” í fjörunni, austan megin við bryggjuna verði hreinsaður frá í maí.

  • Það vantar að klára gangstétt við Blómstursvelli.

  • Það þarf að huga að hestaskjóli milli Sólvalla og Blómstursvalla. Það er að hruni komið og getur skapast mikil hætta af því ef það kemur mikið rok.

  • Gangstéttarnar frá Barnaskólanum og austur allan Hásteinsveginn eru ónýtar. Þær eru meira og minna sprungnar og brotnar.

  • Óskað er eftir því að það verði sett upp gangbraut yfir Hásteinsveginn við beygjuna heim að Sólvöllum. Þar labba yfir götuna foreldrar með börn sín á leiðinni í leikskólann og engin gangbraut til staðar.

  • Númerslausir bílar eru víðsvegar um þorpið og spurning hvort sumir þeirra séu utan lóðamarka. Það þyrfti að athuga það.

  • Við Ólafsvelli 10 og við enda götunnar er gangstéttarkanntur brotinn eftir snjóruðningstæki og er búinn að vera svoleiðis í 4 ár. Óskað er eftir lagfæringu.

  • Óskað er eftir að spegill verði settur upp á ljósastaur fyrir framan Jaðar. Erfitt er að sjá til vinstri þegar keyrt er upp Ólafsvellina og getur hætta skapast.

  • Hverfisráð lýsir ánægju sinni að hreinsun skuli vera hafin við Töfragarðinn og vonar að hún haldi áfram.

  • Timbur er farið að fjúka af Bjargi og það þarf að athuga það þar sem enginn virðist búa í húsinu lengur. 

Mætti voru: Guðríður Ester Geirsdóttir, Hafdís Sigurjónsdóttir, Katrín Ósk Þorgeirsdóttir, Ólafur Auðunsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica