Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


21.12.2007

73. fundur bæjarráðs

73. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 20. desember 2007 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

Mætt: 
Þorvaldur Guðmundsson, formaður, B-lista
Jón Hjartarson, bæjarfulltrúi, V-lista
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

Dagskrá:

Fundargerðir til staðfestingar:

1.  0701055 - Fundargerð skólanefndar grunnskóla
frá 13.12.07


-liður 1, 0710024, skólastefna, bæjarráð staðfestir skólastefnuna.
-liður 2, almenningssamgöngur, bæjarráð þakkar ábendinguna, málið er til skoðunar.

2. 0701118 - Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar 2007
frá 13.12.07


-liður 1, 0711169, auglýsingaskilti í Sunnulækjarskóla, bæjarráð staðfestir afgreiðslu skólanefndar.
-liður 3, ungmennaráð, bæjarráð tekur undir tillöguna enda er hún í samræmi við áform sem fram koma í fjárhagsáætlun ársins 2008. Nánari útfærsla verði í höndum starfsfólks Fjölskyldumiðstöðvar í samráði við bæjarstjóra og hlutaðeigandi nefndir.
-liður 4, 0709011, ungmennahús, bæjarráð tekur undir tillöguna enda er hún í samræmi við áform sem fram koma í fjárhagsáætlun ársins 2008. Nánari útfærsla verði í höndum starfsfólks Fjölskyldumiðstöðvar í samráði við bæjarstjóra og hlutaðeigandi nefndir.
-liður 15, frumvarp til laga um sölu áfengis og tóbaks, bæjarráð tekur undir bókun meirihluta B, S og V lista. Bæjarráð felur bæjarritara að afla nánari upplýsinga um frumvarpið og stöðu og ábyrgð sveitarfélaga skv. því.
Eyþór Arnalds, D-lista, tekur undir að málið verði skoðað með hliðsjón af skyldum sveitarfélagsins.

3. 0701012 - Fundargerð félagsmálanefndar
frá 11.12.07


-liður 2, 0712027, reglur um fjárhagsaðstoð, bæjarráð samþykkir reglurnar og vísar þeim til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
-liður 3, 0712028, bæjarráð fagnar reglum um daggæslu barna í heimahúsum. Þær eru samþykktar.
-liður 6, 0712029, bæjarráð lýsir ánægju sinni með framtak nefndarinnar um að bjóða upp á uppeldisnámskeið fyrir forráðamenn barna fædd 2006.


Fundargerðir til kynningar:

•4. 0702070 - Fundargerðir stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands
frá 30.11.07, 03.12.07 og 05.12.07


Bæjarráð Árborgar lýsir yfir vonbrigðum með að viðunandi úrræði við eyðingu á smituðum úrgangi í landinu skuli enn ekki vera orðin að veruleika og skorar á ríkið að ganga þegar í stað í það verk að kaupa fullbúinn færanlegan brennsluofn sem tekið geti við smituðum úrgangi sem alltaf má búast við að falli til.
Þá harmar bæjarráð Árborgar þá afstöðu Landbúnaðarstofnunar og Umhverfisstofnunar sem fram kemur í fundargerðum Sorpstöðvar Suðurlands og hvetur sveitarfélög á Suðurlandi, eigendur Sorpstöðvarinnar, til að standa þétt saman um hagsmuni og framtíð samlagsins.

Almenn erindi

5. 0712048 - Samningur um veghald þjóðvega í þéttbýli innan Árborgar 2007

Samningurinn var staðfestur.

6. 0712047 - Aðalskipulag Flóahrepps 2006-2018

Bæjarráð vísar erindinu til skipulags- og byggingarnefndar.

7. 0712030 - Endurskipulagning almannavarna í eystri uppsveitum

Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir fundi með forsvarsmönnum sveitarfélaga í Árnessýslu varðandi framtíðarskipan almannavarnanefnda.

8. 0504050 - Samningur um byggingu skólahúsnæðis á Stokkseyri

Samningurinn var staðfestur.

9. 0703153 - Tillaga að styrkjum úr Skólaþróunarsjóði Árborgar

Bæjarráð samþykkir tillögu um úthlutun úr sjóðnum. Bæjarráð fagnar því blómlega starfi sem er í sveitarfélaginu á sviði skólaþróunar og óskar styrkhöfum innilega til hamingju með úthlutunina.

10. 0705061 - Tillaga um að fella niður fund bæjarráðs í 52. viku

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

11. 0712072 - Tillaga um að fimleikadeild UMFS verði veitt viðurkenning að fjárhæð kr. 750.000 fyrir að hafa náð þeim áfanga að vera útnefnd fyrirmyndardeild af ÍSÍ

Bæjarráð óskar fimleikadeildinni til hamingju með tilnefninguna og samþykkir tillöguna.

Erindi til kynningar

12. 0712036 - Samþykktir af aðalfundi VG í Árborg 2007

Lagt fram til kynningar.
Eyþór Arnalds, V-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Sú nýbreytni að ályktanir aðalfunda stjórnmálaafls séu sendar inn til bæjarráðs vekur athygli. Óhætt er að segja að ályktun VG sé fróðleg lesning.

Athygli vekur sú stefnubreyting VG að vilja halda í eignarhald á veitum í eigu sveitarfélagsins en eins og kunnugt er stóð VG í Árborg að einu einkavæðingu orkufyrirtækis á Íslandi þegar hlutur Árborgar í Hitaveitu Suðurnesja var seldur til Geysir Green Energy ehf.
Þá vekur athygli að VG skuli fagna „endurteknum lækkunum á leikskólagjöldum í Árborg" eins og það er orðað. Gott væri að vita hvaða lækkanir er átt við. Há leikskólagjöld eru í Árborg miðað við önnur sveitarfélög og er óhætt að segja að þar sé langur vegur að gjaldfrjálsum leiksskóla, en það var eitt af stefnumálum VG í síðustu kosningum.

VG hafa nú verið eitt ár við völd í Árborg og hafa náð að ganga á svig við nær öll stefnumál sín á þessum stutta tíma. Nægir hér að nefna byggingu BES á einum stað, stöðvun háhýsa við Austurveg, gjaldfrjálsan leikskóla og staðsetningu brúar við þjóðveg 1. Það er því einkennilegt að VG skuli vilja vekja sérstaka athygli á málefnastöðu sinni nú í lok fyrsta árs þeirra í meirihluta í bæjarstjórn.

13. 0712039 - Námur, framkvæmdaleyfi og mat á umhverfisáhrifum - erindi frá Skipulagsstofnun

Lagt fram.

14. 0712031 - Staða mála varðandi kirkjugarð á Selfossi

Bæjarstjóri fór yfir málið.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 8:50

Þorvaldur Guðmundsson                                  
Jón Hjartarson
Eyþór Arnalds                                    
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica