8. fundur bæjarráðs
8. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn 24.08.2006 í Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10
Mætt:
Þórunn J Hauksdóttir, formaður
Þorvaldur Guðmundsson, varaformaður
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarfulltrúi
Jón Hjartarson, áheyrnarfulltrúi
Stefanía Katrín Karlsdóttir, bæjarstjóri
1. Fundargerðir til staðfestingar:
|
0606088 |
frá 14.08.06 |
|
|
b. |
0607075 |
frá 09.08.06 |
1 a) Fyrirspurn frá Ragnheiði Hergeirsdóttur fulltrúa S-lista
Hvernig hyggst meirihlutinn bregðast við vaxandi þörf fyrir félagslegt húsnæði í sveitarfélaginu ?
1 b) Bókun frá Ragnheiði Hergeirsdóttur, fulltrúa S- lista:
Undirrituð óskar eigendum verðlaunagarða og íbúum fallegustu götunnar til hamingju með tilnefningarnar.
Fundargerðirnar staðfestar.
2. Fundargerðir til kynningar:
|
0601064 |
frá 10.08.06 |
3. 0608118
Endurskoðun aðalskipulags Árborgar
Bæjarráð samþykkir að opna aðalskipulag Árborgar og stofna þriggja manna starfshóp til þess að vinna að breytingum á því. Meirihlutinn tilnefnir Grím Arnarsson og Þorvald Guðmundsson. Minnihlutinn tilnefnir einn fulltrúa.
Bókun: Opnun aðalskipulags er mikil ákvörðun sem hlýtur að byggjast á einhverjum fyrirfram gefnum forsendum og ástæðum. Það er í fyllsta máta óeðlilegt að svona stór ákvörðun skuli tekin án þess að minnihlutanum hafi verið kynntar ástæður meirihlutans fyrir þessari ákvörðun og honum gefinn tími til að kynna sér þær og bregðast við þeim. Undirritaður mótmælir harðlega vinnubrögðum af þessu tagi og krefst þess að meirihlutinn leggi fram rökstudda greinargerð fyrir þessari ákvörðun og fresti því afgreiðslu málsins þangað til viðeigandi gögn hafa verið kynnt bæjarfulltrúum minnihlutans og honum gefist tækifæri á að kynna sér þau. Rétt er að taka fram að unnt er að taka upp einstaka þætti aðalskipulags ef nauðsyn krefur, en veigamikil hljóta þau rök að vera sem réttlæta upptöku aðalskipulagsins í heild sinni. Jón Hjartarson V lista.
Bókun: Hvergi kemur fram í afgreiðslu bæjarráðs að taka eigi upp aðalskipulag til heildarendurskoðunar. Vinna á að breytingum sem beðið hefur verið um og nauðsynlegar eru í ört vaxandi sveitarfélagi. Í afgreiðslu bæjarráðs kemur líka fram að minnihluta er gefinn kostur á að taka þátt í þessari vinnu. Fulltrúar B og D lista.
4. 0502045
Lóðaumsókn Íslenska Gámafélagsins
Bæjarstjóra, Þorvaldi Guðmundssyni og Snorra Finnlaugssyni falið að ræða við fulltrúa Íslenska Gámafélagsins.
Bókun: Umsóknin felur í sér mjög umfangsmikla starfsemi og vaxandi þegar til lengri framtíðar er litið, sbr. athugasemd í bréfi frá umsækjendum 11. ágúst 2006 þar sem fram kemur að starfsemin þyrfti líklega þrefalt stærri lóð.
Starfsemi sem þessari fylgir bæði mikil umferð, umhverfismengun af ýmsu tagi og því nauðsynlegt að skoða vel hvar henni er valinn staður.
Vegna eðlis og umfangs starfseminnar telur undirritaður eðlilegt að umsóknin verði send til umfjöllunar hjá umhverfisnefnd og henni falið að athuga málið frá öllum hliðum með það í huga að væntanlegt staðarval sé fullnægjandi framtíðarlausn og verði á engan hátt ögrandi gagnvart íbúðabyggð, útivistarsvæðum og annarri starfsemi í grenndinni. Verði umrædd lóð ekki talin fullnægja kröfum um starfsemi Gámafélagsins er nauðsynlegt að leita annarra lausna sem eru ásættanlegar fyrir alla aðila. Jón Hjartason, fulltrúi V lista.
Undirrituð tekur undir bókun fulltrúa V-lista og leggur auk þess til að skoðuð verði ný staðsetning í sveitarfélaginu fyrir starfsemina, utan þéttbýlis. Nýtt svæði verði staðsett með tilliti til þess að aðgangur allra íbúa verði sem greiðastur. Ragnheiður Hergeirsdóttir S lista.
5. 0608112
Lóðarumsókn Atlantsolíu við Fossnes 2
Bæjarráð samþykkir að veita vilyrði fyrir lóðinni og felur skipulags- og byggingarnefnd að úthluta henni.
Bókun: Fulltrúi V lista telur óeðlilegt að bæjarráð veiti vilyrði fyrir lóð til Atlantsolíu án þess að leitað hafi verið umsagnar umhverfisnefndar. Bensín- og olíuafgreiðslustöðvar er atvinnustarfsemi sem þurfa sérstaka umfjöllun eðli málsins samkvæmt og því eðlilegt að viðkomandi fagnefndir fjalli um beiðni af þessu tagi. Það eru því eindregin tilmæli undirritaðs að bæjarráð vísi þessari umsókn til umsagnar Umhverfisnefndar og svo verði skipulagsnefnd falið að ljúka málinu með eðlilegum hætti.
Að mati undirritaðs er mjög nauðsynlegt að bæjarstjórn tileinki sér fagleg og vönduð vinnubrögð sem m.a. felast í því að fagnefndir fjalli um mál áður en til afgreiðslu kemur. Jón Hjartarson, fulltrúi V lista.
Afgreiðsla samþykkt en fulltrúi S lista situr hjá.
6. 0608116
Lóðarumsókn - Breiðumýri 1
Bæjarráð samþykkir að veita vilyrði fyrir lóðinni og felur skipulags- og byggingarnefnd að úthluta henni.
Fyrirspurn frá Jóni Hjartarsyni V lista: Umsókn um lóðina Breiðumýri 1 skv. bréfi til bæjarstjóra dagsettu 17. ágúst 2006.
Spurningin er hvort umrædd lóðaumsókn hafi komið til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingarnefnd? Ef ekki hvort það séu þá ekki eðlilegri vinnubrögð að skipulags- og byggingarnefnd taki umsóknina til afgreiðslu áður en kemur til kasta pólitískra fulltrúa að taka á málinu?
Bókun: Undirrituð telur ekki sýnilegt tilefni til úthlutunar skv. 8. gr. reglna um úthlutun lóða. Eðlilegt væri að vísa lóðarumsókn hefðbundna leið, þ.e. til umfjöllunar og afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd í stað ófaglegrar, pólitískrar úthlutunar í gegnum bæjarráð. Undirrituð varar við áhrifum þessarar stefnu á þróun og uppbyggingu í sveitarfélaginu og þeirri hættu sem hún skapar á ójafnræði og jafnvel óeðlilegri fyrirgreiðslu í einstökum málum. Ragnheiður Hergeirsdóttir S lista.
Afgreiðsla samþykkt en fulltrúi S lista situr hjá og vísar til fyrri bókunar í bæjarstjórn um notkun 8. gr.
7. 0608097
Skipulag á eldri hluta Hjalladælar á Eyrarbakka
Afgreiðslu frestað og bæjarstjóra falið að afla frekari gagna.
8. 0605029
Lista og menningarverstöðin Hólmaröst
Bæjarstjóra er falið að ræða við forsvarsmenn lista- og menningarverstöðvarinnar Hólmarastar varðandi endurskoðun samnings.
Fyrirspurn frá Ragnheiði Hergeirsdóttur fulltrúa S-lista.
Á fundi bæjarráðs þann 13. júlí s.l. var bæjarstjóra falið að ræða við forsvarsmenn Hólmarastar. Á bæjarstjórnarfundi þann 16. ágúst s.l. spurðist undirrituð fyrir um stöðu máls og fékk þau svör að gerð yrði grein fyrir málinu í bæjarráði nú. Engar upplýsingar komu hins vegar fram um málið í fundargögnum þessa fundar. Hver var niðurstaða þessara viðræðna og hverjar eru áætlanir meirihlutans varðandi endurskoðun samningsins?
9. 0506052
Selfossþorrablót 2006
Bæjarráð hafnar erindinu.
Bókun: Undirritaður telur að útlán á íþróttahúsi Vallaskóla fyrir Selfossþorrablót orki mjög tvímælis. Um húsnæði grunnskóla gilda sérstök lög og reglur sem m.a. banna alla notkun áfengis, tóbaks og annarra vímuefna í og við húsnæðið. Íþróttahús og sú starfsemi sem þar fer fram á, að vera einn af hornsteinum félagsstarfsemi og forvarna. Því orkar það mjög tvímælis þegar það er lánað út til samkomu þar sem notkun áfengis er viðtekin venja og þykir eðlilegur þáttur í skemmtanahaldinu. Það er ákaflega mikilvægt að öll notkun og starfsemi í skólahúsnæði styðji við þá ímynd, uppeldis- og menningarmarkmiða sem skóli og aðrir aðilar sem vinna að forvarnarmálum hafa að leiðarljósi. Því telur undirritaður að það sé andstætt þessari ímynd að lána íþróttahúsið út til samkomuhalds af þessu tagi. Jón Hjartarson fulltrúi V lista.
Ragnheiður Hergeirsdóttir S lista tekur undir bókun Jóns Hjartarsonar.
10. 0605107
Tjarnalækur og Birkilækur beiðni um breytingu á aðalskipulagi Árborgar 2005-2025
Bæjarráð vísar erindinu til starfshóps um breytingar aðalskipulags.
11. 2003020039
Svar við fyrirspurn vegna afreksmannasjóðs íþróttamanna
Svar við fyrirspurn Ragnheiðar Hergeirsdóttur S lista um stefnu og áætlanir meirihlutans varðandi afreksmannasjóð íþróttamanna
1. Hvað á meirihlutinn við með "að styrkja afreksmannasjóðinn" ?
Meirihluti bæjarstjórnar Árborgar hefur tekið ákvörðun um að tvöfalda framlög til afreksmannasjóðs. Ástæðan fyrir því sú að meirihlutinn vill auka styrki til afreksmanna sveitarfélagsins, bæði til hópíþrótta og einstaklinga. Fjölgun styrkja og stuðningur sveitarfélagsins við afreksmenn virkar hvetjandi til annarra íþróttamanna að setja sér háleit markmið í íþrótt sinni.
2. Ætlar meirihlutinn að auka nú og til frambúðar fjárframlög í sjóðinn eins og kosningaloforð sjálfstæðisflokksins hljóðuðu upp á ?
Tekin hefur verið ákvörðun um að tvöfalda framlög til sjóðsins á næsta fjárhagsári. Fjárveiting í afreksmannasjóð er ákveðin við fjárhagsgerð ár hvert eins og aðrar fjárveitingar sveitarfélagsins. Sveitarfélagið Árborg er ört vaxandi sveitarfélag og með tilkomu nýrra íþróttamannvirkja sem eru í undirbúningi mun afreksmönnum fjölga og þá eru miklar líkur á að þörf verði á að hækka enn meira framlög til sjóðsins.
3. Hverjar eru áherslur meirihlutans gagnvart stuðningi við
a) kvennaíþróttir í sveitarfélaginu ?
Í Sveitarfélaginu Árborg er sterk íþrótta hefð í fjölmörgum íþróttagreinum. Kvennaíþróttir hafa ekki verið áberandi nema í einstaka greinum, en því miður er brottfall kvenna í íþróttum vandamál sem glímt er við um allt land. Sveitarfélagið Árborg er með samstarfssamning við Umf. Selfoss vegna styrkja til íþóttadeilda og hefur það verið í höndum félagsins að sjá til þess að stuðningur við kynin sé jafn og öðru kyninu ekki gert hærra undir höfði en hinu. Meirihluti bæjarstjórnar Árborgar ætlar á kjörtímabilinu að stórbæta aðstöðu til íþróttaiðkunar og auka framlög til íþróttamála. Með bættri aðstöðu minnkar vonandi brottfall kvenna úr íþróttum, meirihluti bæjarstjórnar mun beita sér fyrir því að framlög til kvenna og karla íþrótta séu sambærileg miðað við fjölda iðkenda og að stuðlað sé á jafnrétti kynjanna til íþróttaiðkunar.
b) afreksíþróttir í sveitarfélaginu ?
Meirihluti bæjarstjórnar Árborgar ætlar á kjörtímabilinu að stórbæta aðstöðu til íþróttaiðkunar og auka framlög til íþróttamála. Með bættri aðstöðu og auknu fjármagni til íþróttamála fjölgar afreksmönnum bæði í hóp- og einstaklingsíþróttum. Þess vegna er mjög mikilvægt að hafa sterkan afreksmannasjóð.
Meirihluti bæjarstjórnar Árborgar hefur tekið ákvörðun um að tvöfalda framlög til afreksmannasjóðs. Meirihluti bæjarstjórnar ætlar að auka styrki til afreksmanna sveitarfélagsins, bæði til hópíþrótta og einstaklinga. Fjölgun styrkja og stuðningur sveitarfélagsins við afreksmenn virkar hvetjandi til annarra íþróttamanna að setja sér háleit markmið í íþrótt sinni.
Fjárveiting í afreksmannasjóð er ákveðin við fjárhagsgerð ár hvert eins og aðrar fjárveitingar sveitarfélagsins. Sveitarfélagið Árborg er ört vaxandi sveitarfélag og með tilkomu nýrra íþróttamannvirkja sem eru í undirbúningi mun afreksmönnum fjölga og þá eru miklar líkur á að þörf verði á að hækka enn meira framlög til sjóðsins.
Meirihluti B og D lista í bæjarstjórn Árborgar.
12. 0607067
Boðun fundar í Héraðsnefnd - svar við erindi
Svar við erindi Ragnheiðar Hergeirsdóttur S lista og Hilmars Björgvinssonar V lista vegna boðunar fundar í Héraðsnefnd.
Frá Félagsmálaráðuneytinu komu þær upplýsingar að þeir hafa ekki lögsögu í máli minnihluta bæjarstjórnar Árborgar um lögmæti boðunar á fund Héraðsnefndar Árnesinga. Leitað var álits lögmanns bæjarins og niðurstaða hans er sú að ekki sé ástæða til að boða til nýs fundar þar sem boðun á fyrsta fund héraðsnefndar eftir sveitarstjórnarkosningar, fundinn 19. júlí, hafi verið lögmæt. Allir fulltrúar frá öllum aðildarsveitarfélögum, nema minnihluti Árborgar, mættu til fundarins og gerðu ekki athugasemdir við fundarboðun og með því samþykkja þeir tilhögun fundarboðsins. Vegna fjölda fulltrúa er fundurinn ályktunarhæfur skv. 6. grein í samningi um héraðsnefnd frá 15. maí 2006.
Í samþykktum héraðsnefndar er ekki berum orðum tekið fram að fundarboð megi senda út með tölvupósti. Hins vegar er sú aðferð viðurkennd og þekkt enda notuð hjá sveitarfélögum er aðild eiga að héraðsnefndinni þ.m.t. Sveitarfélaginu Árborg. Þá býður tölvutæknin uppá þann möguleika að sendanda sé með svarpósti gert viðvart ef viðkomandi fær ekki póstinn eða er utan skrifstofu sinnar. Þeim möguleika er ekki til að dreifa varðandi almennar póstsendingar. Þess vegna má færa rök fyrir því að tölvupóstsendingar séu a.m.k. ekki ótryggari samskiptaaðferð en almennar póstsendingar.
Bent er á að erindi er varða Héraðsnefnd Árnesinga skal framvegis reka á réttum vettvangi, þ.e. á vegum héraðsnefndar eða héraðsráðs.
Meirihluti B og D lista í bæjarstjórn Árborgar
13. Fyrirspurn frá Jóni Hjartarsyni, fulltrúa V lista.
Úr fundargerð 175. fundar bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2002-2006.
23. liður Flýting á framkvæmdum við göngustíg milli Eyrarbakka og Stokkseyrar - tillaga Einars Pálssonar vísað til bæjarráðs á fundi bæjarstjórnar 10.05.06
Bæjarráð samþykkir að fela framkvæmda- og veitustjórn að fjalla um málið.
Spurningin er: Hvað líður framkvæmd þessarar samþykktar, og hvenær er áætlað að verkið hefjist/ljúki?
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 09:15
Þórunn J Hauksdóttir
Þorvaldur Guðmundsson
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Jón Hjartarson
Stefanía Katrín Karlsdóttir