86. fundur bæjarráðs
86. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 3. apríl 2008 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10
Mætt:
Þorvaldur Guðmundsson, formaður, B-lista
Jón Hjartarson, bæjarfulltrúi, V-lista
Þórunn Jóna Hauksdóttir, varamaður, D-lista
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari
Dagskrá:
Fundargerðir til staðfestingar:
1. 0801042 - Fundargerð leikskólanefndar Árborgar
25. fundur haldinn 19. mars 2008
-liður 2, 0803064, bæjarráð samþykkir að leikskólar verði lokaðir 19. september 2008 vegna haustþings starfsmanna.
Fundargerðin staðfest.
2. 0801039 - Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar
14. fundur haldinn 19. mars 2008
Fundargerðin staðfest.
3. 0801047 - Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar
147. fundur haldinn 27.mars 2008
-liður 1, 0803007, skilrúm milli salerna í Vallaskóla, lagt var til að bæjarráð feli Fjölskyldumiðstöð að taka málið til umræðu innan skólanna.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Þórunnar Jónu Hauksdóttur, D-lista. Gerði hún grein fyrir atkvæði sínu:
Margþættar athugasemdir berast jafnt og þétt varðandi aðstöðu í Vallaskóla. Þann 17. janúar tók bæjarráð t.d. fyrir erindi um þörf fyrir aukna gæslu í búningsklefum, því var vísað til Fjölskyldumiðstöðvar og hefur ekki frést af því síðan. Þessi erindi eru afar brýn og varða heilsu og líðan nemenda innan skólans. Erindin bera með sér að hafa verið rædd innan skólans og því óþarft að vísa þeim til Fjölskyldumiðstöðvar sem á að taka þau til umræðu innan skólans - aftur - eins og hér er samþykkt.
Vakin er athygli á því að erindið er dagsett 4. janúar en ekki tekið til afgreiðslu fyrr en 27. mars.
Fundargerðin staðfest.
4. 0801021 - Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar
46. fundur haldinn 27.mars 2008
-liður 4, 0802157, beiðni um umsögn um frumvarp til skipulagslaga, bæjarráð felur bæjarritara að koma á framfæri athugasemdum vegna þeirra greina frumvarpsins sem fela í sér skerðingu á sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga.
-liður 5, 0802158, beiðni um umsögn um frumvarp til laga um mannvirki, bæjarráð felur bæjarritara að gera athugasemdir við heimild Byggingastofnunar til að grípa inn í stjórnsýslu sveitarfélaga.
-liður 9, 0801074, tillaga að deiliskipulagi Eyrarbrautar 2, bæjarráð samþykkir tillöguna.
-liður 10, 0801011, tillaga að deiliskipulagi Sigtúns 1, bæjarráð samþykkir tillöguna.
Fundargerðin staðfest.
Almenn erindi
5. 0802041 - Fyrirspurn starfsmanna Vallaskóla varðandi það hvort sveitarfélagið sé tilbúið til að greiða styrk í stað heilsueflingarnámskeiðs
Lögð var fram svohljóðandi tillaga að svari við erindi frá starfsmönnum Vallaskóla:
Bæjarráð tekur undir þau orð starfsmanna Vallaskóla að mismunandi sé hvers konar heilsuefling henti hverjum og einum. Bæjarráð bendir á að mikilvægt er að hver og einn finni sína leið til að leggja rækt við heilsu sína. Góð heilsa starfsmanna er mikilvæg fyrir starfsemi allra fyrirtækja og stofnana. Það markmið að efla heilsu starfsmannanna er göfugt fyrir báða aðila, stofnun sem starfsmennina sjálfa. Við þá ákvörðun að bjóða starfsfólki sveitarfélagsins upp á tiltekið námskeið var sú hugsun einmitt lögð til grundvallar.
Til þess að heilsueflingarátak sem sveitarfélagið hefur nú ákveðið að bjóða starfsfólki sínu þátttöku í skili sem bestum og mestum árangri er lykilatriði að þátttakendum séu kenndar réttu aðferðirnar og handtökin, fylgst sé með þeim á meðan á námskeiðum stendur, þeir leiðréttir, hvattir og studdir í viðleitni sinni til að breyta um lífstíl, sé þess þörf, eða styrkja sig enn frekar í þeim efnum. Þá skiptir ekki síst máli að kennslu og þjálfun sé fylgt eftir. Uppbyggingu námskeiðsins er þannig háttað að ráðgjöf um leiðir til betri heilsu og heilsusamlegs lífernis eru mótaðar með þarfir og getu hvers og eins í huga, hvort sem er fyrir byrjendur og lengra komna. „Átak" er tilgangslaust ef það varir bara meðan það stendur yfir og það er einlæg skoðun bæjaryfirvalda að námskeið af þessu tagi sé vel til þess fallið að móta fyrstu skrefin í stuðningi sveitarfélagsins við heilsueflingu starfsmanna sinna. Fagleg vinnubrögð eru nauðsynleg til að hvetja til lífsstíls sem leiðir til efldrar og betri heilsu.
Sveitarfélagið er tilbúið að greiða niður heilsueflingu þeirra starfsmanna sem leggja áherslu á að bæta heilsu sína. Mikilvægast er í upphafi að ná til þess hóps sem ekki hefur stundað markvissa heilsurækt, koma þeim vel af stað og hjálpa þeim að stíga yfir erfiðasta þröskuldinn. Það er markmiðið með þessum samningi og því var sú ákvörðun tekin að byrja stuðninginn með þessum hætti. Áætlað er að í fjárhagsáætlun vegna ársins 2009 verði næsta skref stigið með heilsueflingarstyrkjum af öðru tagi í samræmi við reglur sem liggja munu þeirri ákvörðun til grundvallar.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Þórunnar Jónu Hauksdóttur, D-lista, sem bókaði:
Bæjarráð hafnar erindi starfsmanna Vallaskóla. Gott er að hvetja kyrrsetufólk til dáða, en einnig mikilvægt að styðja við þá sem nú þegar stunda heilsurækt.
Þórunn Jóna Hauksdóttir, D-lista, lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Við hverja var haft samráð um að nýta fé til heilsueflingar starfsmanna sveitarfélagsins á þennan hátt?
6. 0802028 - Erindi Landgræðslunnar um kynningu á héraðsáætlunum og beiðni um tilnefningu tengiliðar
Bæjarráð vísar erindinu til landbúnaðarnefndar og umhverfisnefndar, bæjarráð tilnefnir Katrínu Georgsdóttur, sérfræðing umhverfismála, sem tengilið og leggur til að landbúnaðarnefnd og umhverfisnefnd fái þá kynningu sem í boði er af hálfu Landgræðslunnar.
7. 0702048 - Samningur við Ríkissjóða Íslands um landsskipti og kaup vegna lands við Eyrarbakka
Til staðfestingar
Bæjarráð staðfestir samninginn og felur bæjarritara að afla samþykkis sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis fyrir þeim landskiptum sem felast í samningnum.
8. 0709044 - Beiðni Fjölskyldumiðstöðvar um að komið verði fyrir viðbótarhúsnæði við Sunnulækjarskóla fyrir heimasvæði skólavistunar
Lögð var fram svohljóðandi tillaga:
Bæjarráð samþykkir erindið og felur framkvæmda- og veitusviði að gera þær ráðstafanir sem til þarf til að koma kennslustofunni fyrir við Sunnulækjarskóla.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum gegn atkvæði Þórunnar Jónu Hauksdóttir, D-lista, sem óskaði eftir að bókað yrði:
B-, S- og V-listi samþykkja hér bráðabirgðalausn á húsnæðisvanda skólavistunar Sunnulækjarskóla. Slíkt þykir sumum afsakanlegt - í undantekningartilvikum - þegar unnið er að framtíðarlausnum en tillögur að þeim hafa ekki komið frá B-, S- eða V-lista og tillögum D-lista þar að lútandi verið hafnað. Ég get ekki samþykkt bráðabirgðalausn þegar tillögur að varanlegum lausnum liggja ekki fyrir.
Erindi til kynningar
9. 0803116 - Aðalfundur Félags leikskólakennara 2008- ályktanir
Lagt fram.
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 9:00.
Þorvaldur Guðmundsson
Jón Hjartarson
Þórunn Jóna Hauksdóttir
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir