Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


17.4.2008

88. fundur bæjarráðs

88. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2006-2010 haldinn fimmtudaginn 17. apríl 2008 í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

Mætt: 
Þorvaldur Guðmundsson, formaður, B-lista
Jón Hjartarson, bæjarfulltrúi, V-lista
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi, D-lista
Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri
Ásta Stefánsdóttir, bæjarritari

Formaður leitaði afbrigða til að taka á dagskrá ályktun kennara við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri, undir 9. lið. Var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá:

Fundargerðir til staðfestingar:

1. 0801040 - Fundargerð landbúnaðarnefndar
10.fundur haldinn 8.apríl 2008


Fundargerðin staðfest.

2. 0801021 - Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar
47.fundur haldinn 10.apríl 2008


-liður 10, 0710085, tillaga að deiliskipulagi Eystra-Stokkseyrarsels, bæjarráð samþykkir að tillagan verði auglýst.
Fundargerðin staðfest.

3. 0801026 - Fundargerð skólanefndar grunnskóla
21.fundur haldinn 2.apríl 2008 og
22.fundur haldinn 10. apríl 2008


-liður 2, 0804046, akstur milli skólavistar og íþróttamannvirkja - Bæjarráð felur Fjölskyldumiðstöð að skoða hvaða lausnir eru mögulegar í þessu máli. Samhliða verði skoðaðar mögulegar leiðir til þess að bæta aðgengi barna á Eyrarbakka og Stokkseyri að því íþrótta- og tómstundastarfi sem núna er einungis í boði á Selfossi. Tillögur verði lagðar fyrir bæjarráð fyrir 1. júní n.k..
Fundargerðin staðfest.

Fundargerðir til kynningar:

4. 0801088 - Fundargerð stjórnar SASS
413.fundur haldinn 2.apríl 2008

Fundargerðin lögð fram.

5. 0802048 - Fundargerð 22. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga
frá 4. apríl 2008

Fundargerðin lögð fram.

 

Almenn erindi

6. 0802041 - Svar við fyrirspurn bæjarfulltrúa D-lista frá 84. fundi, varðandi heilsueflingu starfsmanna Árborgar

Fyrirspurnin var svohljóðandi: Við hverja var haft samráð um að nýta fé til heilsueflingar starfsmanna sveitarfélagsins á þennan hátt?
Lagt var fram svohljóðandi svar:
Heilsuefling starfsmanna er liður í mannauðsstjórnun sveitarfélagsins. Skipulag heilsueflingar fyrir starfsmenn sveitarfélagsins er í höndum starfsmannastjóra í samráði við ýmsa stjórnendur sveitarfélagsins.

Í greinargerð með fjárhagsáætlun ársins 2008 og lögð var fram í bæjarstjórn þann 12. desember 2007 segir m.a.um starfsmannamál:
"Lagt verður upp með sérstaka heilsueflingu starfsfólks sveitarfélagsins. Starfsfólki verður boðin þátttaka á sérstöku námskeiði og síðar fái starfsfólk árlega styrki til að stunda líkamsrækt. Settar verða sérstakar reglur um fyrirkomulag þeirra mála."
Árið 2008 er fyrsta árið sem Árborg leggur sérstaka fjárhæð til heilsueflingar starfsfólks. Það er stefna núverandi meirihluta að standa vel að starfsmanna- og mannauðsmálum í sveitarfélaginu og eins og fram kemur í greinargerð fjárhagsáætlunar verða síðan greiddir almennir heilsuræktarstyrkir óháð því hvaða heilsurækt hver og einn kýs að stunda. Slíkir styrkir munu koma til framkvæmda á árinu 2009.


7. 0804062 - Beiðni 2B Company um styrk vegna sýningarinnar Árborg 2008 og endurgjaldslaus afnot íþróttahúss Vallaskóla

Bæjarráð sér sér ekki fært að styrkja sýninguna Árborg 2008 með sérstöku fjárframlagi, en tekur jákvætt í að afnot af íþróttahúsi Vallaskóla að undangengnu samráði við forsvarsmenn skóla og íþróttamannvirkja. Beiðni 2B Company um að fá íþróttahúsið við Vallaskóla endurgjaldslaust til afnota dagana 13.-15. júní er vísað til úrvinnslu í Fjölskyldumiðstöð sem vinni að afgreiðslu málsins í samráði við bæjarstjóra.

8. 0804048 - Beiðni Kjartans Björnssonar um afnot af íþróttahúsi Vallaskóla vegna Selfossþorrablóts 24. janúar 2009

Bæjarráð tekur jákvætt í beiðni um afnot af íþróttahúsi Vallaskóla að undangengnu samráði við forsvarsmenn skóla og íþróttamannvirkja. Bæjarráð vísar beiðninni til úrvinnslu í Fjölskyldumiðstöð sem vinni að afgreiðslu málsins í samráði við bæjarstjóra.

9. 0803048 - Ályktun kennarafunda grunnskóla sveitarfélagsins um ályktun bæjarráðs um álagsgreiðslur til kennara

Lagt fram.
Eyþór Arnalds, D-lista, óskaði eftir að bókað yrði:
Fulltrúi D-lista minnir á þverpólitíska bókun skólanefndar frá 14. mars sl. þar sem segir; "Skólanefnd tekur undir ályktun kennarafundar og telur laun kennara lág t.d. miðað við ábyrgð og menntun og biður bæjarráð að taka jákvætt í erindið." Kennarar eiga heimtingu á að fá bæjarstjóra til viðræðna um þetta mál, enda hafa fjölmörg sveitarfélög ákveðið að greiða álagsgreiðslur. Þessar greiðslur eru ekki hluti kjaraviðræðna. Mikilvægt er að ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar sé kynnt kennurum með tilheyrandi rökstuðningi.

10. 0804072 - Tillaga um kaup á reiðhjólum

Lögð var fram svohljóðandi tillaga frá B, S og V lista um kaup á reiðhjólum:

Tillaga um að veita kr. 140 þús. til kaupa á tveimur reiðhjólum og reiðhjólahjálmum, sem verði til afnota á vinnutíma fyrir starfsfólk Ráðhússins. Sveitarfélagið leggur áherslu á að hvetja og styðja starfsfólk sitt til aukinnar hreyfingar og heilbrigðra lífshátta. Þá er það í anda aukinnar umhverfisvitundar almennings og samræmist vel áherslum núverandi meirihluta um að bæta búsetuskilyrðin í Árborg. Starfsfólk Ráðhúss þarf oft að fara skemmri og lengri leiðir innanbæjar á Selfossi vegna verkefna sinna og með þessu fyrirkomulagi er leitast við að gefa kost á vistvænni, einfaldari og heilsusamlegri leið en þeirri að nota bifreiðar. Tilnefndur verður sérstakur umsjónarmaður "ráðhúshjólanna" og settar verða reglur og leiðbeiningar um umgengni og notkun hjólanna. Um er að ræða tilraunaverkefni til 6 mánaða og ef vel tekst til verður stigið skrefinu lengra og fleiri stofnunum gefinn kostur á að hafa "ráðhúshjól" til afnota fyrir sína starfsmenn. Kostnaðurinn verði færður á liðinn óráðstafað.

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum, bæjarfulltrúi D-lista situr hjá og óskar eftir að bókað verði:
Hvetja ber til vistvænna og heilsusamlegra ferðamáta. Sumir starfsmenn fara gangandi, aðrir akandi og svo eru þeir sem fara hjólandi. Það er þó hæpið að bæjarsjóður kaupi og reki "ráðhúshjól" fyrir starfsmenn, enda verður kostnaður mun meiri en ef einstaklingar kæmu með sín hjól.

11. 0803034 - Fundir bæjarráðs 2008
Tillaga um að fresta fundi bæjarráðs í viku 17 til föstudagsins 25.apríl kl. 10, þar sem að Sumardagurinn fyrsti er fimmtudaginn 24. apríl.


Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Erindi til kynningar

12. 0802048 - Stefnumörkun og aðgerðaráætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga á árunum 2008-2010

Lagt fram.

Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 08:35.

Þorvaldur Guðmundsson                                  
Jón Hjartarson
Eyþór Arnalds                                    
Ragnheiður Hergeirsdóttir
Ásta Stefánsdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica