9. fundur Hverfisráðs Eyrarbakka
9. fundur Hverfisráðs Eyrarbakka - Skoðunarferð í B.E.S, Eyrarbakka, þann 2. maí 2012 kl. 20:00.
Mættir: Þór Hagalín formaður, Gísli Gíslason, Arnar Freyr Ólafsson, Óðinn K Andersen ritari.
Ekki náðist í Örnu Ösp Magnúsdóttir.
Dagskrá:
1. Málefni skólahúsnæðisins á Eyrarbakka: Magnús J Magnússon skólastjóri B.E.S bauð hverfisráði til kynningar á aðstöðu nemenda, aðbúnaði innandyra, umhverfi og lóð skólahúsnæðisins sem verulega má bæta. Hverfisráði þykir aðkallandi að ákveðnar úrbætur verði gerðar innandyra strax fyrir næsta skólaár. Umhverfi lóðar er til lítillar prýði og vart sæmandi elsta barnaskóla Íslendinga.
Fundi frestað kl 22:00 til fimmtudagsins 10. maí n.k.
9. fundi Hverfisráðs Eyrarbakka fram haldið 10. maí 2012 að Stað kl.20:00.
1. Málefni skólahúsnæðisins á Eyrarbakka (framh.): Í skoðunarferð hverfisráðs í barnaskólahúsið á Eyrarbakka þann 2. maí sl. kynnti Magnús skólastjóri fyrir ráðinu þau atriði, sem hann leggur áherslu á að fái forgang af framkvæmdafjárveitingu þessa árs, a) breytingu á aðalinngangi skólans, svo hann megi nýtast í öllum veðrum, b) framtíðarfrágang að mötuneytisaðstöðu, þannig að sú stofa nýtist jafnframt fyrir nemendafundi og aðrar samkomur, og c) bætta aðstöðu fyrir nemendur í opnu rými skólans.
Jafnframt vakti hann athygli á öðrum atriðum, sem mætt hafa afgangi eða aflaga farið á umliðnum vanræksluárum.
2. Ályktun Hverfisráðs Eyrarbakka um barnaskólahúsið s.br. 1.lið:
Hverfisráð Eyrarbakka styður heilshugar afstöðu MJM, um að framkvæmdafé ársins verði beint að því að ljúka þessum verkefnum.
Það gleður hverfisráðið, sem aðra Eyrbekkinga, að sjá vilja til frekari framkvæmda í nýsamþykktri 3ja ára fjárhagsáætlun fjárfestinga í Árborg, og það hvetur af því tilefni til þess, að við fyrsta möguleika verði byrjað að setja upp verkáætlun sem miði að því, að á árunum 2013 og 2014 verði gengið frá aðkomu að skólanum, skólalóðin lagfærð og hafin viðbygging á skólastofum, eins og ráð var fyrir gert við hönnun skólans fyrir 35 árum.
3. Gámar og bílhræ: Gömul bílhræ og gámar hafa staðið árum saman sums staðar í þorpinu og þykir óprýði af. Hverfisráð vill því hvetja bæjaryfirvöld til að leita leiða, svo fækka megi bílhræjum og gámum innan þorpsins.
4. Fjörustígur að komast í framkvæmd: Umræða um væntanlegan fjörustíg milli Eyrarbakka og Stokkseyrar og stöðu þeirrar framkvæmdar í dag. Hverfisráð telur að tilkoma þessa stígs muni auka á félagsleg samskipti milli þorpanna þegar til kemur.
5. Grjótgarðar, viðhalds er þörf: Eitt af sérkennum Eyrarbakka eru hlaðnir grjótgarðar, sumir hverjir fornir en aðrir nýrri af nálinni. Við leikvöllinn vestan Sjóminjasafns er einn slíkur og verulega hrunið úr. Hverfisráð hvetur bæjaryfirvöld til að huga vel að þessum menningarlegu verðmætum sveitarfélagsins og láta lagfæra þar sem þess er þörf, svo komist verði hjá frekari eyðileggingu.
6. Gangstéttir: Á 7. fundi hvefisráðs 20. febrúar sl. var haldin kynning á áætluðum framkvæmdum við gangstéttir sumarið 2012, sem frestast höfðu frá fyrra ári. Hverfisráði er ókunnugt um hversu langt undirbúningur er kominn og hvenær framkvæmdir hefjist. Hverfisráð vonast til að upplýst verði um stöðu mála.
7. Strætisvagnasamgöngur- Samstarf við SASS um Árborgarstrætó: Strætisvagnasamgöngur á milli byggðakjarna Árborgar hafa haft verulega þýðingu fyrir íbúa sveitarfélagsins og ekki síst íbúa í strandbyggðum, sem þurfa að sækja atvinnu og obbann af þjónustu upp að Selfossi. Hverfisráð hvetur til að þess verði gætt við fyrirhugaðar breytingar, sbr. 92. fund bæjarráðs Árborgar um drög að samnýtingu almenningssamgangna og skólaaksturs, að þjónusta innanbæjarstrætó verði til staðar án gjaldtöku og að fjöldi ferða verði síst minni.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl.22
Fundarritun: Óðinn K Andersena