Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


18.4.2012

90. fundur bæjarráðs

90. fundur bæjarráðs Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn miðvikudaginn 18. apríl 2012  í Setri Egils, Ráðhúsi Árborgar, Austurvegi 2, Selfossi, kl. 08:10

Mætt:
Eyþór Arnalds, formaður, D-lista, 
Elfa Dögg Þórðardóttir, bæjarfulltrúi, D-lista, 
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi, S-lista, 
Helgi Sigurður Haraldsson, áheyrnarfulltrúi, B-lista, 
Andrés Rúnar Ingason, varamaður, áheyrnarfulltrúi V-lista, 
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, sem ritaði fundargerð,

Dagskrá:

1.  1001181 - Unglingalandsmót UMFÍ sumarið 2012
 Fundur samráðshóps um íþróttasvæði haldinn 10. apríl
 Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
   
2.  1203050 - Þjónustuhópur vegna landsmóta
 1. fundur haldinn 11. apríl
 Fundargerðin staðfest.
   
3.  1204105 - Málefni Leigubústaða, kauptilboð í Baugstjörn 13
 Bæjarráð samþykkir kauptilboð í Baugstjörn 13, Selfossi, þó með þeirri breytingu að fyrirvari vegna fjármögnunar gildi til 23. júní 2012.
   
4.  1204104 - Málefni félagsþjónustu
 Bæjarráð samþykkir að ráðið verði í starf verkefnisstjóra félagslegrar ráðgjafar, tímabundið til 1. október 2013, vegna tímabundins leyfis starfsmanns. 
   
5.  1203221 - Ályktun um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða
 Lögð var fram ályktun sem barst frá sveitarstjórnarmanni í Sveitarfélaginu Skagafirði, sem samþykkt hefur verið víða um land.
Bæjarfulltrúar B- og D-lista taka undir ályktunina:

Við undirrituð vörum Alþingi sterklega við því að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. 
 
Greinargerð óháðra sérfræðinga, sem fylgir frumvörpunum og sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðuneytisins, ætti að hvetja löggjafann að staldra við og ígrunda gaumgæfilega áhrif lagasetningarinnar á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og á sjávarbyggðir landsins. 
 
Sérfræðingarnir búast við ”umhleypingum á næstu árum meðan útgerðin lagar sig að breyttum aðstæðum“ og segja að áformuð lagasetning muni verða ”mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja“. Enn fremur að hækkun veiðigjalds muni án efa ”kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum.“
 
Þá benda sérfræðingarnir á að byggðaaðgerðir frumvarpsins séu ”ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að“, enda skorti enn þann ”langtímastöðugleika sem getur skapað grundvöll fyrir uppbyggingu atvinnulífs í sjávarbyggðum“.

Undirritaðir telja að þessi varnaðarorð, sem fylgja frumvörpunum, séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að ”umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingagetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með en minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er.

Við slíkt verður ekki unað.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, bókaði:
Fulltrúi S-lista tekur ekki undir framlagaða ályktun og leggur fram eftirfarandi bókun:
Bókun vegna ályktunar um frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.
Frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld er langþráður áfangi í kerfisbreytingu í sjávarútvegi. Þær breytingar sem lagðar eru til tryggja auðlindina sem sameign þjóðarinnar. Gert er ráð fyrir að aukinn arður þjóðarinnar af auðlindinni verði nýttur til fjárfestingar í innviðum samfélagsins, menntun, nýsköpun, og við sóknaráætlanir í atvinnulífi um allt land. Mikilvægt er að kerfisbreyting sem þessi valdi ekki miklum deilum um stöðu þessarar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar og tryggi rekstrarskilyrði hennar til langframa.
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi S-lista.
Andrés Rúnar Ingason, V-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég undirritaður, áheyrnarfulltrúi V-lista Vintri grænna í bæjarráði Árborgar, mótmæli harðlega framkominni tillögu að ályktun um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, bæði ýmsum fullyrðingum í henni og niðurstöðu hennar. Ég tek undir bókun Eggerts Vals hér að framan.

Andrés Rúnar Ingason, áheyrnarfulltrúi V-lista í bæjarráði Árborgar.
   
6.  1112102 - Menningarsalurinn í Hótel Selfoss
 Bæjarráð felur framkvæmdastjóra að ganga frá skjölum um yfirtöku á salnum og leigu á honum. 
   
7.  1202319 - Rekstrarsamningur við UMF Selfoss um rekstur á mótorcrossbraut í Hrísmýri 2012-2015
 Bæjarráð samþykkir samninginn.
   
8.  1202385 - Þjónustusamningur við Golfklúbb Selfoss 2012 - 2022
 Bæjarráð samþykkir samninginn. 
   
9.  1204057 - Tilkynning Fjármálaráðuneytisins um fyrirhugaða sölu á eignarhluta ríkissjóðs í Fossheiði 54
 Bæjarráð samþykkir að 15% eignarhluti sveitarfélagsins í íbúðinni verði seldur. 
   
10.  1204121 - Styrkbeiðni - endurvakning Óháðrar listahátíðar á Selfossi sumar 2012
 Bæjarráð þakkar áhugavert erindi, tekur jákvætt í það og vísar því til menningarnefndar til umsagnar. 
   
11.  1204098 - Arðgreiðsla Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. vegna ársins 2011
 Lögð var fram tilkynning um arðgreiðslu sjóðsins, hlutur Árborgar er 11,6 mkr. 
   
12.  1204109 - Fundarboð og árlegar upplýsingar frá Veiðifélagi Árnesinga 2012
 Bæjarráð felur Ara B. Thorarensen, forseta bæjarstjórnar, að fara með atkvæði sveitarfélagsins á fundinum. 
  
Fundargerð lesin upp og fundi slitið kl: 10:05

Eyþór Arnalds  
Elfa Dögg Þórðardóttir
Eggert V. Guðmundsson  
Helgi Sigurður Haraldsson
Ásta Stefánsdóttir 
 Andrés Rúnar Ingason


Þetta vefsvæði byggir á Eplica