8. fundur Hverfisráðs Selfossi.
Haldinn á Kaffi Krús, þriðjudaginn 4. september 2012.
Fundarboðari, Ingibjörg E.L Stefánsdóttir formaður ráðsins.
Fundurinn hófst kl. 17:30.
Mætt voru:
Magnús Vignir Árnason, Helga R. Einarsdóttir, Eiríkur Sigurjónsson og Ingibjörg E.L.Stefánsdóttir.
Boðuð forföll: S. Hafsteinn Jóhannesson og Guðmundur Sigurðsson.
Fundarritari Magnús Vignir Árnason.
Fundi lauk kl. 19:20.
Dagskrá:
1. Fundagerð fundar dags. 12. júní, samþykkt.
2. Ábendingar.
a. Gönguleið meðfram kirkjugarði
b. Göngustígur meðfram Ölfusá
3. Trjágróður.
4. Samþykkt um hundahald.
5. Hámarkshraðaáminningar.
6. Bæjargarðurinn.
7. Göngustígar.
a. Við gamla Glaðheima.
b. Við Grundarhverfi.
8. Lokun á afgreiðslu Þjóðskrár Íslands..
9. Áhorfendasvæði í bæjargarði.
10. Blindhorn, bæði vegna gróðurs og girðinga.
11. Kynning á starfsemi Hverfisráðanna.
12. Næsti fundur.
Eftirfarandi mál voru rædd á fundinum.
1. Fundargerð síðasta fundar samþykkt.
2.
a. Hverfaráði hefur borist ábending um að lokað hafi verið fyrir gönguleið með Ölfusá við N.A. horn nýja kirkjugarðsins eða hún þrengd svo mikið að hættulegt sé að fara þar um.
b. Hverfaráði hafa borist ábendingar um nýja göngustíginn með Ölfusá, neðan við verslun Krónunnar, og eru skiptar skoðanirum útlit og ágæti hans. Hverfaráð vill hvetja þann sem hefur með málið að gera að upplýsa bæjarbúa um hvenær þessi framkvæmd var ákveðin, hver er arkitektinn að stígnum og hvernig verður endanlegt útlit hans.
3. Brýn þörf er á að hvatt verði til hreinsunar trjágróðurs við gangstéttir í Selfossbæ. Nokkuð langt er síðan blað var sent í hvert hús og fólk skikkað til að gera göngufært vegna trjágreina sem slúta niður á gangstéttir og hylja skilti. Það er veruleg ástæða til að senda slíkt blað út aftur.
4. Hvar er endurskoðuð samþykkt um hundahald stödd í kerfinu?
5. Hverfaráð fagnar því að hafin er vinna við að mála hámarkshraðaáminningar á götur bæjarins.
6. Hverfaráð fagnar því að hafin sé gróðursetning í og við bæjargarðinn en ítrekar áðursenda fyrirspurn um akstur í bæjargarðinum. Er akstur leyfður á stéttum bæjargarðsins eða ekki? Ef ekki þá þarf að gera viðeigandi ráðstafanir til að stöðva hann.
7.
a.Göngustígurinn við gamla Glaðheima leikskólann er illfær vegna trjágróðurs.
b. Hvenær er á áætlun að leggja slitlag á gangstíginn milli tjaldsvæðisins og Grundarhverfisins?
8. Hverfaráði hefur borist ábending um að loka eigi afgreiðslu þjóðskrár á Selfossi, ekki seinna en um næstu áramót þar sem 2 stöðugildi hverfa eða flytjast til Reykjavíkur. Hefur bæjarstjórn Árborgar haft uppi einhverjar athugasemdir varðandi afnám þessarar þjónustu í bænum?
9. Hvers vegna er áhorfendasvæðið eða „skeifan" ekki notuð á 17. júní eins og gert er á „Sumar á Selfossi"?
10. Hverfaráð mælist til þess, til að minnka slysahættu, að betur verði staðið að eftirliti með blindhornum, bæði vegna gróðurs og girðinga. Vegna hornsins sem meðfylgjandi myndir sýna var byggingafulltrúa sendur póstur með ákveðnum athugasemdum sem hann sá ekki ástæðu til að svara
11. Hefur einhver kynning á starfsemi Hverfaráðanna farið fram opinberlega, eins og talað var um í upphafi starfsemi þeirra?
12. Næsti fundur, í október.
Magnús Vignir Árnason, ritari.