Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn - 58

Haldinn í Grænumörk 5, Selfossi,
14.05.2025 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Kjartan Björnsson forseti bæjarstjórnar,
Bragi Bjarnason bæjarfulltrúi, D-lista,
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir bæjarfulltrúi, D-lista,
Sveinn Ægir Birgisson bæjarfulltrúi, D-lista,
Brynhildur Jónsdóttir bæjarfulltrúi, D-lista,
Helga Lind Pálsdóttir bæjarfulltrúi, D-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi, S-lista,
Sigurjón Vídalín Guðmundsson bæjarfulltrúi, S-lista,
Arnar Freyr Ólafsson bæjarfulltrúi, B-lista,
Ellý Tómasdóttir bæjarfulltrúi, B-lista,
Álfheiður Eymarsdóttir bæjarfulltrúi, Á-lista,
Ari B. Thorarensen varamaður, D-lista,
Rósa Sif Jónsdóttir ritari.
Fundargerð ritaði: Rósa Sif Jónsdóttir, ritari
Í upphafi fundar kallar forseti eftir athugasemdum við útsent fundarboð. Engar athugasemdir eru gerðar.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2504170 - Ársreikningur Árborgar 2024
Ársreikningur Árborgar 2024 lagður fram til síðari umræðu.
Til máls taka Bragi Bjarnason, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, S-lista, Fjóla St. Kristinsdóttir, D-lista, Arnar Freyr Ólafsson, B-lista, Sveinn Ægir Birgisson, D-lista, Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista, Ellý Tómasdóttir, B-lista og Helga Lind Pálsdóttir, D-lista.

Ársreikningur 2024 er borinn undir atkvæði og samþykktur með 10 atkvæðum. 6 atkvæðum bæjarfulltrúa D-lista, 1 atkvæði bæjarfulltrúa Á-lista, 2 atkvæðum bæjarfulltrúa B-lista og 1 atkvæði Örnu Írar Gunnarsdóttur S-lista. Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarfulltrúi S-lista situr hjá.

Hlé gert á fundi kl. 17:35.

Fundi fram haldið kl. 17:44.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa B- og S-lista:

Bókun með ársreikningi:
Bæjarfulltrúar minnihlutans hafa marg bent á skynsemina í því að fara ætti hægar í sakirnar þegar gerð var áætlun um að bæta rekstur sveitarfélagsins. Þegar horft er á niðurstöðu rekstrar ársins 2024 þá er alveg ljóst að farið var í mjög íþyngjandi aðgerðir á of skömmum tíma í stað þess að horfa til þess að ná rekstrarbata yfir lengri tíma sem að ekki biti jafn illilega í hjá íbúum sveitarfélagsins. Að auki er það miður að ekki skuli hafa verið endurskoðuð ákvörðun um aukaálag á útsvar við 6 mánaða uppgjör sl. árs. Þá þegar sáust nægileg batamerki í rekstrinum þannig að meirihlutanum hefði verið í lófa lagið að láta staðar numið með innheimtu álags á útsvar. Þrátt fyrir að ánægjulegt sé að rekstrarbati hafi orðið óttumst við að hann hafi verið of dýru verði keyptur fyrir íbúa sveitarfélagsins. Undirrituð þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir þeirra mikilsverða framlag til bætts reksturs með störfum sínum.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, S-lista
Arnar Freyr Ólafsson, B-lista
Ellý Tómasdóttir, B-lista


Hlé gert á fundi kl. 17:47.

Fundi fram haldið kl. 17:49.

Bragi Bjarnason, D-lista, leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Á- og D-lista:

Bókun bæjarfulltrúa D- og Á-lista með ársreikningi 2024:
Niðurstaða ársreiknings sveitarfélagsins er mjög ánægjuleg og vilja bæjarfulltrúar D- og Á-lista þakka bæjarfulltrúum, starfsmönnum, ráðgjöfum og íbúum sem hafa gert það mögulegt að skila ársreikningi með rúmlega 3 milljarða rekstrarafgangi.

Niðurstaðan staðfestir að aðgerðir til hagræðinga, sala eigna og byggingaréttar ásamt öðrum tekjuaukandi aðgerðum, m.a. álagi á útsvar eru að skila viðsnúningi í rekstri sveitarfélagsins. Umrætt álag tryggði greiðsluhæfi sveitarfélagsins og styrkti lausafjárstöðuna en sameiginlega hafa alla aðgerðir einnig lækkað skuldaviðmiðið verulega milli ára þrátt fyrir umfangsmiklar fjárfestingar og viðhald innviða.

Meirihluti bæjarstjórnar fagnar þeim mikilvæga áfanga að samkomulagi sveitarfélagsins við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sem gert var 27. mars 2023 vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu, hafi lokið formlega 1. maí sl. Niðurstaða ársreikningsins er til marks um að samstarfið hafi skilað góðum árangri og Sveitarfélagið Árborg sé á réttri leið.

Nú reynir á að sýna áframhaldandi ábyrgð í rekstri, standast áætlanir og gera A-hluta sveitarfélagsins sjálfbæran á næstu árum. Með þeirri vinnu tryggjum við að sveitarfélagið lendi aldrei aftur í þeirri erfiðu stöðu sem blasti við okkur árið 2022.

Stefna og markmið bæjarstjórnar Árborgar var og er að takast á við rekstur sveitarfélagsins með ábyrgum hætti. Við vitum að margar ákvarðanir hafa verið erfiðar og sársaukafullar íbúum og starfsfólki sveitarfélagsins en trúum því að þær séu að skila árangri, og skapi aðstæður til lækkunar annarra álaga til framtíðar, líkt og fasteignagjalda. Því íbúar eiga alltaf að njóta ávinningsins. Við í meirihluta bæjarstjórnar erum staðráðin í að halda áfram á þessari braut ábyrgðar og árangurs í þágu íbúa sveitarfélagsins.

Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista
Bragi Bjarnason, D-lista
Brynhildur Jónsdóttir, D-lista
Helga Lind Pálsdóttir, D-lista
Kjartan Björnsson, D-lista
Sveinn Ægir Birgisson, D-lista
Ársreikningur 2024 Árborg seinni umræða.pdf
Fjóla St. Kristinsdóttir, D-lista víkur af fundi kl. 17:52 undir lið 2 og Ari Björn Thorarensen, varamaður D-lista kemur inn í hennar stað.

2. 2411160 - Deiliskipulag Jórvík 1, áfangi 2 og Björkurstykki 3
Tillaga að deiliskipulagi fyrir Jórvík 1, 2. áfanga (28,9 ha) og Björkurstykki III (17,5 ha). Svæði 2. áfanga Jórvíkur liggur til suðurs í framhaldi af núverandi skipulagi í Jórvík I, og Björkurstykki III liggur milli nýrrar byggðar í Jórvík 1, og Björkurstykkis. Samanlagt er skipulagssvæðið um 46,4 ha. Með deiliskipulaginu er verið að skapa svæði til frekari uppbyggingar blandaðrar íbúðabyggðar og þjónustu í Árborg. Megin áhersla deiliskipulagsins er að afmarka lóðir og skilgreina byggingarreiti fyrir íbúðarbyggð ásamt því að setja skilmála fyrir uppbyggingu innan fyrirhugaðs íbúðarsvæðis í samræmi við lög og reglur. Á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir hæfilega þéttri byggð og hagkvæmri nýtingu lands. Íbúðarbyggðin er í meginatriðum lágreist með einnar hæðar sérbýlishúsum, tveggja hæða tví- og fjórbýlishúsum og allt að 6 hæða fjölbýlishúsum ásamt þjónustulóðum. Á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir allt að 1200 íbúðum. Gera má ráð fyrir að uppbygging svæðis muni taka 10 - 15 ár. Gert er ráð fyrir að áhersla verði á uppbyggingu í Björkurstykki III, í fyrri áfanga og Jórvík 1. áfanga 2, í þeim síðari. Aðkoma fyrir akandi umferð verður frá Suðurhólum, Hólastekk og að Jórvík 1, 2. áfanga í gegnum núverandi byggð í Jórvík I.

Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja að auglýsa deiliskipulagið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um að það verði samþykkt á fundi skipulagsnefndar 14. maí, og feli skipulagsfulltrúa að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga.

Til máls taka Ari Björn Thorarensen, D-lista, Sveinn Ægir Birgisson, D-lista, Arnar Freyr Ólafsson, B-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista og Álfheiður Eymarsdóttir, Á-lista.


Bæjarstjórn að samþykkir samhljóða með 11 atkvæðum að auglýsa deiliskipulagið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. skipulagslaga.
DSK Jórvík 1, 2 áfangi og Björkurstykki III.Greinargerð. Dags. 11.5.2025.pdf
DSK Jórvík 1, 2 áfangi og Björkurstykki III. Uppdráttur-dags. 9.5.2025.pdf
Ari Björn Thorarensen, varamaður D-lista víkur af fundi kl.18:06 og Fjóla St. Kristinsdóttir D-lista kemur aftur inn á fund.
3. 2310498 - Atvinnustefna - Árborg - Hveragerði - Flóahreppur
Bæjarráð samþykkti á 127. fundi lokadrög að sameiginlegri atvinnustefnu Árborgar, Hveragerðis og Flóahrepps.

Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja atvinnustefnuna.

Til máls taka Sveinn Ægir Birgisson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista og Bragi Bjarnason, D-lista.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
4. 2206157 - Fundartími bæjarstjórnar kjörtímabilið 2022-2026
Lagt er til að næsti fundur bæjarstjórnar verði 4. júní nk.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum.
Fundargerðir
5. 2504018F - Bæjarráð - 126
126. fundur haldinn 28. apríl.
6. 2503022F - Skipulagsnefnd - 43
43. fundur haldinn 23. apríl.
7. 2504023F - Bæjarráð - 127
127. fundur haldinn 2. maí.
Sveinn Ægir Birgisson, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, taka til máls undir lið 3, samstarfsverkefnið - Exið.
8. 2505001F - Bæjarráð - 128
128. fundur haldinn 8. maí.
Bragi Bjarnason, D-lista, tekur til máls nr. 4 - Umsögn - frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga 270. mál.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:19 

Til baka Prenta

Eldri fundargerðir

Einnig er hægt að nálgast eldri fundargerðir.

Sjá eldri fundargerðir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica