Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn - 48

Haldinn í Grænumörk 5, Selfossi,
11.05.2022 og hófst hann kl. 17:00
Fundinn sátu: Guðbjörg Jónsdóttir varamaður, B-lista,
Klara Öfjörð Sigfúsdóttir bæjarfulltrúi, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi, S-lista,
Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi, M-lista,
Sigurjón Vídalín Guðmundsson bæjarfulltrúi, Á-lista,
Gunnar Egilsson bæjarfulltrúi, D-lista,
Brynhildur Jónsdóttir bæjarfulltrúi, D-lista,
Kjartan Björnsson bæjarfulltrúi, D-lista,
Ari B. Thorarensen bæjarfulltrúi, D-lista,
Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri, Rósa Sif Jónsdóttir ritari, Sigríður Vilhjálmsdóttir starfsmaður.
Fundargerð ritaði: Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri
Í upphafi fundar upplýsir forseti að Guðbjörg Jónsdóttir, B-lista, hafi tafist en sé væntanleg inn á fundinn fljótlega.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2203119 - Landamerki - Kaldaðarnes - Flóagaflstorfa
Beiðni eiganda Kaldaðarness, dags. 28. febrúar 2022, um breytingu á skráningu landamerkja milli Kaldaðarness og Flóagaflstorfunnar við endurskoðun aðalskipulags Árborgar.

Lagt er til að bæjarstjórn samþykki yfirlýsingu um landamerki Flóagaflstorfunnar og Kaldaðarness í samræmi við þær lýsingar sem fram koma í landamerkjabréfum jarðanna:

Landamerkjabréf Kaldaðarness nr. 127, dags. 26. maí 1886:
,, ... en frá Markhólnum ræður bein stefna Vestur í ,,Kálfhagaútgarð", frá honum aptur sjónhending útyfir ?Kálfhagaopnu? þar sem skurðurinn skerst úr henni og allt vestur í miðja Ölvesá; þar sem téð sjónhending fellur yfir eyjuna er nú hlaðin ,,Markavarða".
Frá ofangreindri Hábeinsstaðaborg ræður að Ölvesá sjónhending í bæinn Gljúfur í Ölveshreppi; síðan ræður Ölvesá allt fram að Flóagaflsmörkum. Í Ölvesá liggja nokkrir hólmar og eyjar sem tilheyra Kaldaðarnesi, skv. framanrituðum landamerkjum. ..."

Landamerkjabréf Flóagaflstorfunnar, dags. 3. júní 1886:
,, ... Úr Markhólnum ræður sjónhending út í ,,Kálfhagaútgarð" og er þá stefnan frá téðum Markhól í Norðanverðan Meitil. Frá Kálfhaga-Útgarði ræður sjónhending yfir ,,Kálfhagaopnu" þar sem skurðurinn skerst úr henni og ræður sama stefna fram í miðja Ölvesá. Frá greindri stefnu ræður Ölvesá fram að ,,Vörðu" sem stendur við ána, þar sem Hallskostsengjar (í Flóagaflstorfunnar landi) mæta Einarshafnar-ítakinu(í Óserjarneslandi)."

Forseti lagði til að málinu verði frestað á 47. fundi bæjarstjórnar og var sú tillaga borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.

Ari B. Thorarensen, D-lista og Gunnar Egilsson, D-lista, tóku til máls.

Hlé gert á fundinum kl. 17.07 vegna tæknilegra örðugleika. Fundi framhaldið kl. 17.09

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 8 atkvæðum.
merkjauppdráttur.pdf
2. 2202076 - Aðalskipulagsbreyting - Hreinsistöð
Tillaga frá 94. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 4. maí sl. liður 2. Aðalskipulagsbreyting - Hreinsistöð
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum þann 16.2.2022, að
auglýsa tillögu að breytingu á gildandi aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 í samræmi við 36. gr. og 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingin felur í sér að iðnaðarsvæðið (s30 ) við Geitanes færist lítillega til vesturs, en heildar stærð svæðisins verður óbreytt. Samhliða tillögu að aðalskipulagsbreytingu var auglýst tillaga að deiliskipulagi þar sem nánari ákvæði eru m.a. sett um framkvæmdir, ásýnd og frágang.
Ofangreind tillaga að breytingu á gildandi aðalskipulagi var auglýst , í Lögbirtingablaði, Fréttablaðinu og Dagskránni miðvikudaginn 16.3.2022 og var veittur frestur til athugasemda til og með 27.4.2022. Tillagan var einnig aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins Árborgar. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun, Landsneti, Fiskistofu, Veiðifélagi Árnesinga, Vegagerðinni, Isavia og Mannvirkja- Umhverfissviðs Árborgar.
Í umsögn Veðurstofu Íslands er bent á að í ríkjandi suðlægum og
suðvestlægum áttum yfir sumarið geti loftmengunar orðið vart við norðurbyggð Selfoss og Árbæjarhverfi.
Í umsögn Isavia( með tilvísun í reglugerð 464-2007 um öryggissvæði) er tekið fram að til að tryggja að byggingar hreinsistöðvar og tengdra mannvirkja sem og vegna gróðurs, gangi ekki upp fyrir hindrunarfleti flugvallarins á Selfossi. Slíkar hindranir geti skert öryggi loftfara og séu líklegar til að draga úr öryggi flugvallarins. Isavia mælist til að unnið verð kort með hindranaflötum skv. nýju deiliskipulagi, og þá í samráði við Isavia og Samgöngustofu. Einnig er vakin athygli á, að á byggingartíma gilda kröfur um hæðarhindranir svo sem vegna byggingarkrana og viðlíka búnaðar, og er óskað eftir samráði við Isavia og Samgöngustofu um þau mál.
Allir umsagnaraðilar gáfu jákvæða umsögn fyrir utan ofangreindar ábendingar Veðurstofu Íslands og Isavia.
Skipulags- og byggingarnefnd telur rétt að tekið verði tillit til ábendinga Veðurstofu Ísland og Isavia.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti tillöguna og lagði til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt í samræmi við 32.gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og feli skipilagsfulltrúa að senda Skipulagsstofnun tillöguna til afgreiðslu í samræmi við sömu grein laga.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, og Kjartan Björnsson, D-lista, taka til máls.

Guðbjörg Jónsdóttir, B-lista, kemur inn á fundinn kl. 17.15.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
ASK br. Geitanesi hreinsistöð.- Greinargerð dags. 4.2.2022.pdf
ASK br. Geitanesi hreinsistöð.- Uppdráttur dags. 4.2.2022.pdf
3. 2202077 - Deiliskipulag - Hreinsistöð við Geitanes
Tillaga af 94. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 4. maí sl., liður 3. Deiliskipulag - Hreinsistöð við Geitanes
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum þann 16.2.2022, að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir hreinsistöð í Geitanesi, í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Deiliskipulagið tekur til uppbyggingar á tveggja þrepa hreinsistöðvar fyrir fráveitu við Geitanes norðan við flugvöllinn á Selfossi. Markmið framkvæmdarinnar er að koma á hreinsun skólps frá Selfossi sem uppfyllir skilyrði laga og reglugerða, en í dag er skólp að mestu losað óhreinsað í Ölfusá. Deiliskipulagið tekur einnig til aðkomu að lóð hreinsistöðvarinnar, lóðarinnar sjálfrar og nærumhverfi eftir því sem þörf krefur m.a. vegna útrásar í Ölfusá. Í deiliskipulaginu er gerð grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og settir fram skilmálar um landnotkun, mannvirki, útrás, vernd náttúru og frágang.
Deiliskipulagstillagan var auglýst í Lögbirtingablaði, Fréttablaðinu og Dagskránni miðvikudaginn 16.3.2022 og var veittur frestur til athugasemda til og með 27.4.2022. Tillagan var einnig aðgengileg á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun, Landsneti, Fiskistofu, Veiðifélagi Árnesinga, Vegagerðinni, Isavia og Mannvirkja- Umhverfissviðs Árborgar.
Í umsögn Veðurstofu Íslands er bent á að í ríkjandi suðlægum og suðvestlægum áttum yfir sumarið geti loftmengun að norðurbyggð Selfoss og Árbæjarhverfi.
Í umsögn Isavia( með tilvísun í reglugerð 464-2007 um öryggissvæði) er tekið fram að til að tryggja að byggingar hreinsistöðvar og tengdra mannvirkja sem og vegna gróðurs, gangi ekki upp fyrir hindrunarfleti flugvallarins á Selfossi. Slíkar hindranir geti skert öryggi loftfara og séu líklegar til að draga úr öryggi flugvallarins. Isavia mælist til að unnið verð kort með hindranaflötum skv. nýju deiliskipulagi, og þá í samráði við Isavia og Samgöngustofu. Einnig er vakin athygli á, að á byggingartíma gilda kröfur um hæðarhindranir svo sem vegna byggingarkrana og viðlíka búnaðar, og er óskað eftir samráði við Isavia og Samgöngustofu um þau mál.
Allir umsagnaraðilar gáfu jákvæða umsögn fyrir utan ofangreindar ábendingar Veðurstofu Íslands og Isavia.
Skipulags- og byggingarnefnd telur rétt að tekið verði tillit til ábendinga Veðurstofu Ísland og að unnið verði kort af hindrunarflötum skv. ábendingu Isavia.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti tillöguna og lagðir til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt í samræmi við 42.gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og feli skipilagsfulltrúa að senda Skipulagsstofnun tillöguna til afgreiðslu í samræmi við sömu grein laga.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
DSK - Hreinsistöð greinargerð dags. 4.2.2022.pdf
DSK - Uppdráttur dags. 4.2.2022.pdf
4. 2202256 - Larsenstræti 2 - Deiliskipulagsbreyting
Tillaga frá 94. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 4. maí sl. liður 4. - Larsenstræti 2 - Deiliskipulagsbreyting
Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti á fundi 23.2.2022, í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi vegna lóðarinnar Larsenstræti 2, á Selfossi.
Tillagan hefur verið grenndarkynnt fyrir eigendum i fasteignanna Larsenstræti 4 og 6, Langholti 1 og var gefinn frestur til og með 22.3.2022. Ein athugasemd barst frá Páli Gunnlaugssyni f.h. Smáragarðs ehf, eiganda fasteignarinnar Langholt 1. Gerð var athugasemd við að byggingarreitur á lóðinni Larsenstræti 2 nái að lóðarmörkum Langholts 1.
Gerð hefur verið breyting á uppdrætti og byggingareitur færður í 3m fjarlægð frá lóðarmörkum.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti tillöguna og lagði til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt í samræmi við 2. mgr. 43. gr., og feli skipulagsfulltrúa að senda Skipulagsstofnun tillöguna til varðveislu og auglýsi um gildistöku í B-deild Stjórnartíðinda.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
Larsenstræti 2. DSK.br. Uppdráttur dags.28.4.2022.pdf
5. 2203261 - Umsókn um stofnframlög - íbúðir fyrir öryrkja í Árborg 2022
Umsókn frá Brynju, Hússjóði Öryrkjabandalagsins um stofnframlög vegna byggingar eða kaupa á 7 íbúðum í Árborg.

Bókun frá 145. fundi bæjarráðs:
Bæjarráð tók jákvætt í erindið en óskaði eftir að framkvæmdastjóri Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins kæmi á fund bæjarráðs til að ræða erindið ásamt öðrum sameiginlegum hagsmunamálum Brynju og Sveitarfélagsins Árborgar.

Bæjarráð samþykkir beiðni Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins um stofnframlög vegna 7 íbúða.
Viðræðum við Guðbrand Sigurðsson var frestað að sinni.

Óskað var eftir staðfestingu bæjarstjórnar um stofnframlög vegna 7 íbúða.

Ari B. Thorarensen, D-lista og Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri taka til máls.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
HMS bréf vegna Brynja - Árborg 2022 - 7 íbúðir.pdf
Stofnframlag sveitarfélags skv. lögum um almennar íbúðir - Brynja hússjóður ÖBÍ.pdf
6. 2204324 - Framkvæmdaleyfi - Suðurhólar - Háspennustrengur í jörð. Rarik
Tillaga frá 94. fundi skipulags- og byggingarnefndar frá 4. maí sl. liður 7. Framkvæmdaleyfi - Suðurhólar - Háspennustrengur í jörð. Rarik

Lárus Einarsson f.h. RARIK óskar eftir samþykki sf/Árborgar fyrir lögn á 11kV háspennustrengs, með Suðurhólum frá spennistöð RARIK við hundasleppisvæði að spennistöð RARIK við afleggjara að Jórvík.
Töluvert af lögnum er á þessar leið og eftir að stika nákvæmlega út hentugustu leiðin.
Eftir að leið hefur verið stikuð út og GPS mæld, verður hún senda sf/Árborg til umsagnar.
Haft verður samband við aðliggjandi landeigendur, þeim kynnt
framkvæmdin og óskað samþykkis.
Sérstök gát verður höfð vegna lagnarinnar m.t.t umferðar og reiðstígs.
Strax verður gengið frá skurðstæði með fullnægjandi hætti. Framkvæmd er áætluð í maí 2022.

Skipulags- og byggingarnefnd lagði til við bæjarráð Árborgar að umsókn yrði samþykkt og að skipulagsfulltrúa yrði falið að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Lagt er til við bæjarstjórn að umsókn verði samþykkt og að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
29-4-2022 13-36-33.pdf
7. 2204325 - Framkvæmdaleyfi - Rannsóknarborholur. Heitt vatn. Selfossveitur
Umsókn um framkvæmdaleyfi.

Vilhjálmur Kristjánsson f.h. Selfossveitna, kt: 630992-2069, óskar eftir framkvæmdarleyfi fyrir rannsóknarborunum á Selfossi, landr. 186665. Sótt er um framkvæmdarleyfi fyrir borun á tveimur rannsóknarholum, holu 1 og holu 2, samkvæmt tillögu ISOR í meðfylgjandi minnisblaði, dags. 12.4.2022.

Útbúa þarf vegslóða að staðsetningum holanna og aðkoma verður skoðuð í samráði vð þá sem málið varðar sem og borverktaka. Á borstað þarf að jafna jörð og útbúa malarplan fyrir bor að standa á.

Ráðist yrði í boranir á tímabilinu maí - sept. 2022 og verktími fyrir hvora holu er ca. 1 mánuður.

Að höfðu samráði við skipulagsfulltrúa leggur bæjarstjóri til að við bæjarstjórn að samþykkja framkvæmdaleyfið.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista tekur til máls.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
Næstu_skref_innanbæjar-minnisblað.pdf
8. 2205116 - Árangursstjórnun í fjármálum með KPMG
Sveitarfélagið Árborg hefur vaxið mikið á undanförnum árum og stefnir í áframhaldandi vöxt vegna eftirspurnar frá nýjum íbúum og m.a. áforma landeigenda um uppbyggingu. Metnaður sveitarfélagsins er að vera áfram áhugaverður búsetukostur. Miklum vexti fylgja ýmsar áskoranir fyrir sveitarfélagið í fjármálum. Víðtæk uppbyggingu á nauðsynlegum fjárfrekum innviðum og margvísleg þjónusta og misræmi í tíma varðandi fjárfestingar, tekjur, útgjöld auk skuldsetningar og vaxandi umsvif er allt hluti af þeim áskorunum sem takast þarf á við stjórn fjármála hjá sveitarfélaginu.

Núverandi efnahagsástand með mikilli og vaxandi verðbólgu gerir enn flóknari þá áskorun að stýra fjármálum sveitarfélags á borð við Árborg með sem farsælustum hætti.

Sveitarfélagið Árborg vill vera með trausta fjárhagsstöðu þrátt fyrir ofangreindar áskoranir og því leggur forseti til við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við KPMG á þeim grunni sem lýst er í framlögðum gögnum. Bæjarstjóra verði falið að undirrita framlagðan samning fyrir hönd sveitarfélagsins.

Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri, Gunnar Egilsson, D-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista, Kjartan Björnsson, D-lista og Tómas Ellert Tómasson, M-lista taka til máls.

Gunnar Egilsson, D-lista leggur til að tillögunni verði frestað.

Tillaga um frestun borin undir atkvæði, 4 bæjarfulltrúar D-lista greiða atkvæði með frestunartillögu en 5 bæjarfulltrúar S-, B-, Á- og M-lista greiða atkvæði á móti og er tillagan því felld.

Upphafleg tillaga er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 5 atkvæðum fulltrúa S-, B-, Á-, og M-lista. 3 fulltrúar D-lista greiða atkvæði gegn tillögunni. Kjartan Björnsson, D-lista, situr hjá.
9. 2205118 - Tilboð í jörðina Litlu-Sandvík land 4
Gagntilboð í jörðina Litla-Sandvík land 4. Tilboðið er gert í tengslum við fyrirhugaða færslu flugbrautar til suðurs, sem kveðið er á um í gildandi aðalskipulagi. Með kaupunum munu opnast möguleikar til að stórbæta aðstöðu til einkaflugs og kennslu. Færsla flugbrautarinnari rýmir svæði norðan hennar til mögulegra framtíðarnota.

Tilboð sveitarfélagsins var gert að beiðni forseta bæjarstjórnar með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri taka til máls.

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 9 atkvæðum.
10. 2201175 - Viðauki við fjárhagsáætlun 2022
Viðauki nr. 4


Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri, Ari B. Thorarensen D-lista, varaforseti, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista og Gunnar Egilsson, D-lista taka til máls.

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða með 5 atkvæðum. 4 fulltrúar D-lista sitja hjá.
Sveitarfélagið árborg - viðauki nr. 4.pdf
11. 2204214 - Ársreikningur 2021
Síðari umræða.
Gunnar Egilsson, D-lista, Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, Ari B. Thorarensen, D-lista, Gísli H. Halldórsson bæjarstjóri, Tómas Ellert Tómasson, M-lista, Kjartan Björnsson, D-lista, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista, Guðbjörg Jónsdóttir, B-lista, og Klara Öfjörð, S-lista, taka til máls.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, tekur til máls og þakkar fyrir spennandi og skemmtilegt samstarf á kjörtímabilinu.

Ársreikningur 2021 er borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða með 9 atkvæðum.

Brynhildur Jónsdóttir, D-lista, gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram eftirfarandi bókun f.h. bæjarfulltrúa D-lista:

Bæjarfulltrúar D-lista þakka starfsfólki Sveitarfélagsins Árborgar fyrir vel unnin störf á árinu 2021.

Það verður að segjast að niðurstöður ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2021 valda miklum vonbrigðum. Gríðarlegt tap er á rekstri sveitarfélagsins og skuldahlutfall þess eitt það hæsta á landinu.

Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er grafalvarleg. Það er því dapurlegt að upplifa þá stöðu að Sveitarfélagið Árborg sé rekið með 2.480 millj.kr. tapi árið 2021 á A hluta , sem gerir 6,7 millj.kr. tap á dag.

Rekstrarniðurstaða A sjóðs sem hlutfall af tekjum nemur -19,4% sem er ein alversta rekstrarniðurstaða sveitarfélags á Íslandi. Meirihlutinn hefur í umræðunni bent á að það sé sambærilegt og þau sveitarfélög sem eru í svipuðum vexti. Því fer fjarri. Til samanburðar má nefna að rekstrarniðurstaða Mosfellsbæjar er -4,6%, Hveragerðisbæjar -9,4%, Garðabæjar -1,8% og Akureyrar 1,4%.

Ársreikningurinn endurspeglar þann alvarleika sem bæjarfulltrúar D-lista hafa bent á, sem felst í því að aðhalds er ekki gætt í rekstri og forgangsröðun er ekki í samræmi við skyldur sveitarfélagsins. Hafa því skuldir aukist umtalsvert á sama tíma og illa gengur að byggja nauðsynlega innviði fyrir lögbundna starfsemi.

Í framlögðum ársreikningi eru skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins orðnar 21 milljarður og hafa tvöfaldast á kjörtímabilinu og samkvæmt áætlun munu þær enda í 25 milljörðum á þessu ári a.m.k.

Skuldahlutfall A sjóðs er komin í 181% og mun hækka á næsta ári.

Frá því þegar núverandi meirihluti tók við stjórn sveitarfélagsins hafa rekstrartekjur A-hluta bæjarsjóðs aukist um 50% á meðan rekstrargjöld hafa vaxið um 70% og undirstrikar þá grafalvarlegu stöðu sem Sveitarfélagið Árborg er komin í undir stjórn Framsóknarflokks, Miðflokks, Samfylkingarinn og Áfram Árborg. Þessi aukning gjalda umfram tekjur nemur 3.3 milljarða króna á aðeins þremur árum. Sveitarfélagið getur ekki talist rekstrarhæft þar sem það þarf að taka lán fyrir rekstrinum. Sú staða er dapurleg svo ekki sé meira sagt. Núverandi meirihluti er löngu búinn að missa öll tök á rekstrinum og ef fram heldur sem horfir þá mun Árborg lenda í greiðslufalli innan örfárra mánaða.

Yfirlýst markmið nýs meirihluta sem tók við rekstri Sveitarfélagsins Árborg vorið 2018 var að taka til í rekstrinum og stoppa útgjaldalekann. Niðurstaða stóra lekamálinu er stjórnlaust rekstrartap A sjóðs sem jafnast á við byggingu 3ja leikskóla og skuldir og skuldbindingar úr 11 - 21 milljarð króna.

Bæjarfulltrúar D-listans,
Gunnar Egilsson,
Brynhildur Jónsdóttir,
Kjartan Björnsson,
Ari Björn Thorarensen.

Tómas Ellert Tómasson leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd fulltrúa meirihluta bæjarstjórnar:

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 1790 m.kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu að fjárhæð kr. 1184 m.kr.

Heildartekjur A og B hluta eru 12.640 m.kr. og heildarútgjöld án fjármagnsliða og afskrifta 12.582 m.kr.

Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs (A-hluta) er neikvæð um 2.145 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu upp á 1.446 m.kr.

Helstu ástæður þessa munar er að hækkun vísitölu var mun meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en slíkar hækkanir á vísitölu hafa gríðarleg áhrif á rekstrarniðurstöðu allra sem skulda. Þrátt fyrir áhrif hækkunar vísitölu þá hefur þó enn meiri áhrif á rekstrarniðurstöðuna sú ákvörðun tryggingastærðfræðinga og fjármálaráðuneytis að nú skuli með einskiptisfærslu færð til bókar breyting á lífeyrisskuldbindingu. Áhrif þeirrar aðgerðar hefur mikil áhrif á rekstrarniðurstöðu sveitarfélaga almennt og hér nemur sú breyting 583 m.kr. Það jákvæða er þó að hér er um einskiptis aðgerð að ræða sem ekki mun falla til á næstu árum.

Einnig má nefna að tekjur sveitarfélagsins úr jöfnunarsjóð sem hlutfall af heildartekjum hefur lækkað töluvert á milli ára á undanförnum árum. Ríkissjóður er ábyrgur fyrir því. Ýmsar lagasetningar Alþingis s.s. málefni fatlaðra og farsældarlögin valda nú sveitarfélögunum töluverðum kostnaðarauka sem allt stefnir í að þau muni ekki fá bætt nema að litlu leyti.

Ljóst er að kjarasamningar og ýmsar breytingar sem í þeim eru hafa haft mikil áhrif á rekstur sveitarfélaga sem erfitt var að sjá fyrir í aðdraganda gerðar fjárhagsáætlunar.

Fjárfestingar á árinu 2021 voru miklar. Stekkjaskóli fór í byggingu, lokið var við Selfosshöllina og leikskólann Goðheima auk þess sem að gatnagerð er í gangi í Björkustykki svo nefndar séu nokkrar af helstu fjárfestingum.

Í árslok er hlutfall skulda af tekjum að frádregnum lífeyrisskuldbindingum sem falla til eftir 15 ár eða síðar, eða hið svokallaða skuldaviðmiðið 138,4%. Samkvæmt fjármálareglum sveitarfélaga má það ekki fara yfir 150%.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Klara Öfjörð, S-lista
Helgi S. Haraldsson, B-lista og
Sigurjón V. Guðmundsson, Á-lista


Sveitarfélagið Árborg_Samantekinn ársreikningur 2021_seinni umræða.pdf
Greinargerð með ársreikningi 2021.pdf
Fundargerðir
12. 2204029F - Bæjarráð - 147
147. fundur haldinn 28. apríl
13. 2204026F - Eigna- og veitunefnd - 63
63. fundur haldinn 27. apríl
Tómas Ellert Tómasson, M-lista tekur til máls undir lið nr. 2 útboð á húsnæðislausn BES á Eyrarbakka og lið nr. 3 - Frístundamiðstöð- hönnun og framkvæmdir. Guðbjörg Jónsdóttir, B-lista tekur til máls undir lið nr. 3 - Frístundamiðstöð - hönnun og framkvæmdir.
14. 2205002F - Bæjarráð - 148
148. fundur haldinn 5. maí
15. 2204025F - Skipulags og byggingarnefnd - 94
94. fundur haldinn 4. maí
Sigurjón Vídalín Guðmundsson S- lista tekur til máls og ræðir fundargerðina í heild, þakkaði hann nefndarmönnum og starfsmönnum og öðru samstarfsfólki fyrir gott samstarf.
16. 2205003F - Eigna- og veitunefnd - 64
64. fundur haldinn 4. maí
Ari B. Thorarenson, D-lista og Tómas Ellert Tómasson, M-lista, taka til máls undir 3. lið - fjárfestingaáætlun 2021-2024.
Kjartan Björnsson, D-lista, tekur til máls og þakkar kjörnum fulltrúum, starfsmönnum og öðrum gott samstarf á kjörtímabilinu.

Gunnar Egilsson, D-lista, tekur til máls og þakkar fyrir sig, og óskar þeim sem munu halda áfram velfarnaðar. Þakkar jafnframt starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir samstarfið.

Ari Björn Thorarensen, D-lista, tekur til máls og þakkar fyrir sig, þakkar starfsmönnum bæjarins og þeim bæjarfulltrúum sem hann hefur starfað með á þessum tíma.

Tómas Ellert Tómasson, M-lista, tekur til máls og þakkar bæjarfulltrúum og starfsmönnum fyrir samstarfið á kjörtímabilinu.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tekur til máls og þakkar fyrir samstarfið og þakkar jafnframt starfsmönnum sín störf.



Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:12 

Til baka Prenta

Eldri fundargerðir

Einnig er hægt að nálgast eldri fundargerðir.

Sjá eldri fundargerðir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica