Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðslu- og frístundanefnd - 25

Haldinn á 3. hæð Ráðhúss,
14.01.2026 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Brynhildur Jónsdóttir formaður, D-lista,
Gísli Rúnar Gíslason nefndarmaður, D-lista,
Ástrós Rut Sigurðardóttir nefndarmaður, Á-lista,
Guðrún Rakel Svandísardóttir nefndarmaður, B-lista,
Elísabet Davíðsdóttir nefndarmaður, S-lista,
Hilmar Björgvinsson fulltrúi skólastjóra,
Kristrún Hafliðadóttir fulltrúi leikskólastjóra,
Áslaug Halla Elvarsdóttir fulltrúi foreldra grunnskóla,
Rakel Pálmadóttir fulltrúi grunnskólakennara,
Birna Aðalh. Árdal Birgisdóttir fulltrúi foreldra leikskóla,
Oddný Guðríður Pálmadóttir fulltrúi leikskólakennara,
Erla Björk Tryggvadóttir fulltrúi frístundaþjónustu,
Margrét Björk Brynhildardóttir deildarstjóri, Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson deildarstjóri.
Fundargerð ritaði: Margrét Björk Brynhildardóttir, deildarstjóri skólaþjónustu


Dagskrá: 
Almenn afgreiðslumál
1. 2512025 - Lokun kennslurýma í Sunnulækjarskóla
Beiðni frá skólastjóra Sunnulækjarskóla um kostnaðargreiningu og framkvæmdaáætlun vegna lokunar á kennslurýmum í Sunnulækjarskóla.
Fræðslu- og frístundanefnd tekur jákvætt í erindi Sunnulækjarskóla og vísar erindinu áfram til bæjarráðs.
2. 2601098 - Endurskoðun rekstrarleyfa leikskólans Hulduheima
Erindi frá leikskólastjóra leikskólans Hulduheima um endurskoðun rekstarleyfa leikskólans.
Á undanförnum árum hefur verið talsverð fjölgun leikskólabarna í sveitarfélaginu og samhliða opnun nýrra deilda hefur verið horft til þess að nýta rekstrarleyfi leikskóla Árborgar að fullu. Frekari uppbygging leikskóla er forgangsverkefni sveitarfélagsins á næstu árum og því getur nefndin ekki samþykkt fækkun rekstrarleyfa í leikskólum að svo stöddu. Það er þó mikilvægt að endurmeta fjölda rekstrarleyfi út frá reynslunni og lagt til að beiðnin verði lögð aftur fyrir nefndina að tveimur árum liðnum verði þess þörf að mati leikskólastjóra. Starfsfólki fjölskyldusviðs er falið að hafa erindið til hliðsjónar við úthlutun leikskólaplássa í vor.
3. 2512130 - Starfsáætlun frístundaklúbbsins kotsins 2025-2026
Starfsáætlun frístundaklúbbsins kotsins skólaárið 2025-2026 lögð fram til staðfestingar.
Fræðslu- og frístundanefnd staðfestir starfsáætlunina.
4. 2601129 - Starfsáætlun frístundaklúbbsins Kópsins 2025-2026
Starfsáætlun fyrir frístundaklúbbinn Kópinn 2025-2026 lögð fram til staðfestingar.
Fræðslu- og frístundanefnd staðfestir starfsáætlunina.
5. 2601128 - Starfsáætlun frístundaklúbbsins Klettsins 2025-2026
Starfsáætlun fyrir frístundaklúbbinn Klettinn 2025-2026 lögð fram til staðfestingar.
Fræðslu- og frístundanefnd staðfestir starfsáætlunina.
6. 2508264 - Barnvæn sveitarfélög - boð um þátttöku - UNICEF
Minnisblað frá sviðsstjóra fjölskyldusviðs og séfræðingi á fjölskyldusviði vegna erindis frá UNICEF á Íslandi, dag. 14. ágúst 2025, þar sem Sveitarfélaginu Árborg er boðið að sækja um þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög.
Verkefnið er ekki á fjárhagsáætlun 2026 en Sveitarfélagið Árborg vinnur að mörgum verkefnum sem tengjast barnvænu sveitarfélagi og farsæld barna. Mikilvægt er að halda áfram þeirri góðu vinnu þar sem Árborg hefur verið leiðandi undanfarin ár í verkefnum tengdum farsæld barna og ungmenna. Nefndin felur sviðstjóra fjölskyldusviðs að leggja tillöguna fram að nýju fyrir nefndina í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2027.
7. 2511178 - Tillaga frá UNGSÁ - Árborg barnvænt sveitarfélag
Á 65. fundi bæjarstjórnar vísaði bæjastjórn eftirfarandi tillögu UNGSÁ til fræðslu- og frístundanefndar:

Ungmennaráð Árborgar leggur til að Sveitarfélagið Árborg verði barnvænt sveitarfélag. Barnvæn sveitarfélög er verkefni hjá Unicef sem styður sveitarfélög við að innleiða lög um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Það myndi hafa jákvæð áhrif á samfélagið og við teljum að barnvænt sveitarfélag gæti stuðlað að því að börn geti tekið virkan þátt í samfélaginu og starfsemi innan sveitarfélagsins. Verkefnið leggur mikla áherslu á að ungmenni sveitarfélagsins fái að taka þátt í ákvörðunum sem varða líf þeirra og samfélag sem styrkir lýðræðisvitund og þátttöku ungs fólks. Samstarf við UNICEF sýnir að sveitarfélagið tekur ábyrgð á stöðu barna og vill vera í fararbroddi í málefnum barna og mannréttinda sem styrkir og bætir jákvæða ímynd sveitarfélagsins út á við. Samstarf við UNICEF þýðir einnig að þau styðja við stefnumótun og aðgerðir sem byggja á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sveitarfélagið fær þannig tól og stuðning til að skapa öruggara, sanngjarna og barnvænna samfélag. UNICEF á Íslandi veitir fræðslu, ráðgjöf og verkfæri til að hjálpa sveitarfélögum að ná markmiðum sínum, bæði starfsfólki og kjörnum fulltrúum. Barnvænt sveitarfélag hjálpar sveitarfélaginu að greina veikleika og styrkleika í þjónustu við börn og leiðir til markvissara ákvarðanataka og betri nýtingar á fjármagni. Þegar sveitarfélög leggja áherslu á börn og ungmenni eykur á lífsgæði, félagslega samheldni og dregur úr félagslegum vandamálum til lengra tíma. Við í Ungmennaráðinu hvetjum bæjarstjórn eindregið til að samþykkja þessa tillögu og gera Árborg að fyrirmynd og leiðandi sveitarfélagi sem sýnir í verki framtakssemi, framsýni og metnað til jákvæðra breytinga.

Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til fræðslu- og frístundanefndar og velferðarnefndar.

Fræðslu- og frístundanefndar þakkar UNGSÁ fyrir tillöguna. Verkefnið er ekki á fjárhagsáætlun 2026 en Sveitarfélagið Árborg vinnur að mörgum verkefnum sem tengjast barnvænu sveitarfélagi og farsæld barna. Mikilvægt er að halda áfram þeirri góðu vinnu þar sem Árborg hefur verið leiðandi undanfarin ár í verkefnum tengdum farsæld barna og ungmenna. Nefndin felur sviðstjóra fjölskyldusviðs að leggja tillöguna fram að nýju fyrir nefndina í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2027.
Tillaga 6 - barnvænt sveitarfélag.pdf
8. 2511173 - Tillaga frá UNGSÁ - Heimavist FSu
Á 65. fundi bæjarstjórnar vísaði bæjastjórn eftirfarandi tillögu UNGSÁ til fræðslu- og frístundanefndar:

Ungmennaráð Árborgar leggur til að sveitarfélagið sýni frumkvæði og hefji viðræður við ríkið um uppbyggingu nýrrar heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Núverandi heimavist skólans er staðsett að Austurvegi 28 á Selfossi. Þar eru einungis 18 herbergi á efri hæð hússins fyrir nemendur, en á neðri hæðinni dvelja farandverkamenn. Takmarkað pláss veldur því að ekki allir nemendur, sem þurfa á heimavist að halda, fá þar inni. Þetta er óviðunandi staða fyrir jafn fjölmennan skóla og FSu. Margir nemendur þurfa að aka allt að klukkutíma á hverjum degi til að sækja skólann. Þrátt fyrir möguleikann á heimavist velja margir að keyra frekar, þar sem aðstæður á vistinni eru ófullnægjandi og plássið af skornum skammti. Þetta er miður, því Suðurland er víðfeðmt svæði og mikilvægt er að skólinn sé raunhæfur kostur fyrir nemendur hvaðanæva að af landinu. Með uppbyggingu nýrrar og stærri heimavistar myndi aðgengi að menntun aukast, skólasókn batna og fleiri nemendur gætu nýtt sér nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Á lóð skólans er nægilegt rými til að byggja slíka viðbót. Ungmennaráð Árborgar lagði fram þessa tillögu á bæjarstjórnarfundi á síðasta ári, en hingað til hefur ekkert gerst í málinu. Við hvetjum því sveitarfélagið eindregið til að beita sér fyrir málinu og hefja formlegar viðræður við ríkið um byggingu nýrrar, vandaðrar heimavistar á lóð skólans. Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til fræðslu- og frístundanefndar.

Fræðslu- og frístundanefnd tekur undir áhyggjur UNGSÁ og vísar erindinu áfram til bæjarráðs.
Tillaga 1 - Heimavist FSu.pdf
9. 2511174 - Tillaga frá UNGSÁ - samræmd einkunnagjöf í grunnskólum og Safnskóli
Á 65. fundi bæjarstjórnar vísaði bæjastjórn eftirfarandi tillögu UNGSÁ til fræðslu- og frístundanefndar:

Ungmennaráð Árborgar leggur til að samræma einkunnakerfi í grunnskólum sveitarfélagsins Einkunnagjöf er mat á þeirri hæfni og þekkingu sem nemandi hefur öðlast í námi. Mikilvægt er að samræma einkunnagjöf í grunnskólum sveitarfélagsins, þar sem hún getur verið mismunandi milli skóla. Slíkur munur getur leitt til þess að nemendur fá ólíkar einkunnir fyrir sama árangur, sem skapar ójafnræði og getur haft áhrif á framtíðarnám þeirra. Sem dæmi úr ungmennaráðinu þá gekk einn meðlimur í Vallaskóla á sama tíma á meðan annar var í Sunnulækjarskóla. Báðum aðilum gekk vel í námi og í einu prófi fengu báðir allt rétt. Þrátt fyrir það var einkunnin ekki sú sama ? einn fékk B og hinn A. Þessi litli munur hafði áhrif á útskriftareinkunnina og varð til þess að B nemandinn þurfti að taka einum fleiri áfanga en A nemandinn í framhaldsskóla. Til að tryggja jafnræði og áreiðanleika í námsmati er lagt til að bæjarstjórn Árborgar skoði það að samræma einkunnagjöf milli grunnskólanna. Eins og við höfum rætt áður á á bæjarstjórnarfundum er einn möguleiki að koma á fót Safnskóla. Safnskóli myndi koma í veg fyrir þetta ósamræmi og ójafnræði milli grunnskólanna í sveitarfélaginu. Á meðan á undirbúningi og framkvæmdum stendur væri jafnframt hægt að efla samstarf með því að halda fleiri fundi milli kennara og skólastjórnenda, þar sem bornar væru saman leiðir, verkefni og matsviðmið. Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til fræðslu- og frístundanefndar.

Fræðslu- og frístundanefnd þakkar UNGSÁ fyrir erindið og leggur áherslu á að mikið samstarf er á milli grunnskóla sveitarfélagsins sem og við FSU varðandi ýmis mál er varða málefni nemenda, nám og kennslu.

Allir grunnskólar vinna samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla en þar eru sett fram ákveðin matsviðmið sem kennurum ber að fara eftir við námsmat. Árið 2026 verður tekinn upp samræmdur matsferill, svokölluð stöðu- og framvindupróf, í öllum grunnskólum landsins á vegum Miðstöðvar menntunar- og skólaþjónustu. Tilgangur þessara prófa í lesskilningi og stærðfræði er að draga upp sem nákvæmasta mynd af stöðu nemanda og framvindu í námi.

Stöðu- og framvinduprófin eru stöðluð matspróf en það þýðir að form, efnisinnihald, matsreglur og reglur um fyrirlögn prófanna eru fyrir fram ákveðin. Þar sem hverju prófi fylgja aldursbundin viðmið um frammistöðu er mögulegt að bera niðurstöður hvers nemanda, bekkjar eða skóla saman við landsmeðaltal.

Ábendingum varðandi safnskóla er vísað áfram til fjölskyldusviðs til skoðunar.

Fulltrúi fræðslu- og frístundanefndar býðst til að funda með UNGSÁ varðandi þetta málefni og önnur.
Tillaga 2 - samræmd einkunnagjöf og safnskóli.pdf
10. 2511176 - Tillaga frá UNGSÁ - þjónusta á Eyrarbakka og Stokkseyri
Á 65. fundi bæjarstjórnar vísaði bæjastjórn eftirfarandi tillögu UNGSÁ til fræðslu- og frístundanefndar:

Ég stend hér í dag sem íbúi Stokkseyrar, sem hluti af þeirri samfélagsheild sem Árborg á að vera. En um leið er ég rödd ungmennanna og íbúanna sem búa á þeim stöðum sem oft gleymast þegar ákvarðanir eru teknar. Það er mikilvægt að tala hreint út: það er ójafnvægi innan sveitarfélagsins. Þjónustan er ekki jöfn. Tækifærin eru ekki jöfn. Og tilfinningin sem margir íbúar Stokkseyrar og Eyrarbakka hafa er sú að þeirra rödd skipti minna máli en annarra. Við sjáum það á mörgum sviðum. Sundlaugin á Stokkseyri hefur verið lokuð stóran hluta ársins og það hefur mikil áhrif á samfélagið, bæði börn, ungmenni og eldri íbúa sem hafa misst mikilvægan samkomustað og hreyfimöguleika. Við sjáum það líka í skólamálum: nemendur í Barnaskólanum Á Eyrarbakka og Stokkseyri þurfa oft að sætta sig við minna, t.d. var ekki gert ráð fyrir bókasafni í skólahúsnæðið á Eyrarbakka, BES var ekki veitt styrk fyrir nýjum ipödum sem nýttir hefðu verið í kennslu og svo margt meira. Við sjáum það einnig í samgöngum, Árborgarstrætó gengur sjaldan, oft á óþægilegum tímum, og það gerir ungu fólki erfitt fyrir að taka þátt í tómstundum eða félagslífi í öðrum hluta sveitarfélagsins. Í staðinn hefur áætlun Árborgarstrætó verið breytt svo hægt sé að nýta vagninn sem frístundabíl fyrir yngsta stig grunnskólanna á Selfossi og vil ég benda á að það er nú þegar frístundabíll sem gengur innanbæjar á Selfossi og áður innanbæjar Stokkseyrar og Eyrarbakka; þær ferðir voru lagðar niður. Þetta eru ekki smáatriði heldur eru þetta dæmi um hvernig mismunun í þjónustu hefur áhrif á daglegt líf fólks. Við trúum því ekki að þetta sé af illvilja, heldur af vana. Það hefur einfaldlega verið sjálfsagt að leggja mesta áherslu á stærsta byggðarkjarnann. En nú er kominn tími til að við breytum þeim vana. Við þurfum að tryggja að þjónusta, uppbygging og tækifæri dreifist jafnt. Að börn og ungmenni á Stokkseyri og Eyrarbakka hafi sömu aðstöðu, sömu möguleika og sömu framtíðarsýn og jafnaldrar þeirra annars staðar í Árborg. Þetta snýst ekki bara um sundlaugina og strætó, heldur virðingu. Við vitum að við getum gert betur. Við vitum að Árborg getur orðið sveitarfélag sem stendur saman, þar sem allir staðir eru jafnir, ekki bara á korti, heldur í verki. Við erum ekki að biðja um neitt óraunhæft. Við erum einfaldlega að biðja um sanngirni. Um að rödd Stokkseyrar og Eyrarbakka fái að heyrast og að hún sé tekin alvarlega. Að loknum umræðum samþykkir bæjarstjórn samhljóða að vísa tillögunni til bæjarráðs og fræðslu- og frístundanefndar.

Fræðslu- og frístundanefnd þakkar fyrir ábendinguna og tekur undir bókun bæjarráðs frá 27. nóvember 2025.
Tillaga 4 - áminning um ströndina.pdf
Erindi til kynningar
11. 2504343 - Samstarfsverkefni - Exið
Tómas Smári Guðmundsson kennari í Vallaskóla kemur inn á fundinn og kynnir samstarfsverkefnið Exið.
Fræðslu- og frístundanefnd þakkar Tómasi fyrir áhugaverða kynningu.
12. 2206083 - Skólaráð Stekkjaskóla 2022-2026
Fundargerð skólaráðs Stekkjaskóla frá 11.12.2025 lögð fram til kynningar.
Erindi til kynningar.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:30 

Til baka Prenta

Eldri fundargerðir

Einnig er hægt að nálgast eldri fundargerðir.

Sjá eldri fundargerðir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica