27. fundur bæjarstjórnar, kjörtímabilið 2022 - 26
Fundur bæjarstjórnar Árborgar verður haldinn miðvikudaginn 1. nóvember 2023 í Grænumörk 5, Selfossi, kl.16:00. Athugið að fundurinn verður í nýja salnum.
https://www.youtube.com/watch?v=TlPVysOBBiY
Dagskrá:
Almenn erindi
- 2310412 - Tillaga frá UNGSÁ - ákvarðanataka um unglinga
Ungmennaráð Árborgar leggur til að ungmenni verði með í ákvarðanatökum þegar ákvarðanir sem varða unglinga eru teknar. Ungmenni eiga að fá að vera partur af þeim ákvörðunum sem teknar eru varðandi þau. Mikilvægt er að alltaf sé rætt við unglinga þegar ákvarðanir eru teknar í anda lýðræðis.
Sjónarmið unglinga eru mikilvæg í umræðu um breytingu á rútínu þeirra, lífi og umhverfi. Til dæmis má nefna ákvarðanatökuna um símalausan skóla. Hægt er að nota margar leiðir til þess að fá ungmenni í ákvarðanatöku. Þegar taka á ákvörðun í skólaumhverfinu er hægt að leggja kannanir fyrir nemendur, velja hóp nemenda úr skólanum til að fá sjónarmið þeirra eða nýta nemendaráð í skólum. Einnig viljum við benda á að alltaf er hægt að leita til okkar í ungmennaráðinu þegar kemur að málum ungmenna. - 2310414 - Tillaga frá UNGSÁ - stöðupróf í sundi
Ungmennaráð Árborgar leggur til að stöðupróf í sundi verði valmöguleiki fyrir alla nemendur í Árborg á unglingastigi.
Ungmennaráðinu finnst mikilvægt að öllum nemendum á unglingastigi í Árborg verði boðið að taka stöðupróf í skólasundi. Skólasund hefur valdið óþægindum og vanlíðan fyrir suma nemendur og vill ungmennaráðið að skólarnir komi til móts við þau með því að bjóða upp á stöðupróf. Önnur hreyfing myndi koma inn í staðinn að vali hvers og eins nemanda í samráði við skóla. - 2310415 - Tillaga frá UNGSÁ - flugeldasala í Árborg
Ungmennaráð Árborgar leggur til að björgunarsveitir og íþróttafélög verði einu sem fá heimild til að selja flugelda í Árborg. Ungmennaráðið vill að björgunarsveitir og íþróttafélög séu þau einu sem fá að selja flugelda í Árborg. Björgunarsveitir og íþróttafélög reiða mikið á flugeldasölu til fjármögnunar á óeigingjarna starfi sínu á hverju ári. Þetta væri skref sveitarfélagsins til að styðja við þeirra starf þar sem íbúum er beint að kaupa flugelda hjá björgunarsveitinni eða íþróttafélögunum í sveitarfélaginu.
Þar sem flugeldar eru stór hluti af okkar menningu ættu kaupendur að styðja gott málefni. - 2310416 - Tillaga frá UNGSÁ - gangbraut yfir Eyrarbakkaveg við Votmúlaveg
Ungmennaráð Árborgar leggur til að lögð verði gangbraut yfir Eyrarbakkaveg við Votmúlaveg.
Ungmennaráðið finnst mikilvægt að það verði lögð gangbraut yfir Eyrarbakkaveg við Votmúlaveg. Það hefur verið mikil íbúaaukning á Votmúlasvæðinu og sérstaklega mikið af fjölskyldufólki með börn. Þar af leiðandi hefur verið mikil umferð af hjólreiðafólki sem og hlaupandi og gangandi vegfarendum, á öllum aldri, á svæðinu. Börn eru ekki eins fær í að greina hættur og að fara yfir Eyrarbakkaveg getur verið hættulegt. Þau þurfa að fara yfir Eyrarbakkaveg, þar sem að göngustígurinn bæði á Selfoss og niður á strönd er hinum megin við veginn. - 2310417 - Tillaga frá UNGSÁ - safnskóli fyrir nemendur á unglingastigi i Árborg
Ungmennaráð Árborgar leggur til að stofnað verði safnskóla fyrir alla nemendur á unglingastigi í Árborg.
Ungmennaráðið leggur til að það verði komið á legg safnskóla fyrir alla nemendur á unglingastigi í Árborg. Aðrir skólar í sveitarfélaginu yrðu þá fyrir nemendur í 1.- 7. bekk. Með þessum breytingum væri hægt að losa annað útibú Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri sem sparar mikinn pening sem við þurfum að gera á þessum tímum. Fyrirmyndir af svona skólum eru í Reykjavík, þar má nefna Árbæjarskóla og Hagaskóla. Okkur í ungmennaráðinu finnst þetta spennandi hugmynd. Með safnskóla er hægt að efla tenginu ungmenna milli byggðarkjarna ásamt því samræmi yrði í kennslu fyrir unglinga í sveitarfélaginu. Þar með minnkar samanburður milli nemenda, sérstaklega þegar nemendur þurfa að huga að einkunnum fyrir inntöku í framhaldsskóla. Ungmennaráðið telur að með safnskóla verði aukin tækifæri fyrir fjölbreyttara, stærra og skemmtilegra félagslíf með auknum fjölda nemenda. - 2310418 - Tillaga frá UNGSÁ - úrbætur á strætó og strætóskýlum
Ungmennaráð Árborgar leggur til að úrbætur verði á strætó og strætóskýlum.
Ungmennaráðið leggur til að fjölgað verði ferðum á milli Selfoss og Reykjavíkur. Það er óásættanlegt að nemendur sem missa af strætó heim þurfi að bíða og hangsa hátt í tvo tíma eftir þeim næsta eða að þurfa vera mætt tímunum fyrir að fyrsti tími byrji hjá þeim af því að næsta ferð til Reykjavíkur er áætluð of seint fyrir skóla.
Ungmennaráðið vill einnig að sveitarfélagið bæti strætóskýli þar sem tekið er tillit til efniviðar, vindáttar og snjómoksturs. Góðar samgöngur eru mikilvægur þáttur í sveitarfélagi með fleiri en einn byggðarkjarna. - 2310419 - Tillaga frá UNGSÁ - ruslatunnur á almenningssvæðum í Árborg
Ungmennaráð Árborgar leggur til að bæta við ruslatunnum á almenningssvæðum í Árborg.
Ungmennaráðið óskar eftir fleiri ruslatunnum á almenningssvæðum í sveitarfélaginu. Í samfélagi þar sem mikil áhersla er á flokkun teljum við mikilvægt að ruslatunnur á almenningssvæðum séu í samræmi við síðustu breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs. Þar sem var komið á samræmdu flokkunarkerfi fyrir endurvinnslu og meðhöndlun sorps. Eins og stendur í handbók sveitarfélagsins um flokkun er þetta mikilvægt fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi og stórt framfaraskref þar sem sýnt hefur verið fram á að sérsöfnun á hráefni leiði til meiri og betri flokkunar. Ungmennaráðið vill því sjá ruslatunnur á almenningssvæðum sem eru hólfaskiptar eftir endurvinnslu flokkunum eins og er fyrir utan ráðhúsið. Þar eru hólf fyrir almennt rusl, plast, pappír og flöskur og dósir. Þetta myndi ýta undir að íbúar flokki meira. - 2307002 - Austurvegur 33-35 - Breyting á deiliskipulagi 2023
Tillaga frá 11. fundi skipulagsnefndar frá 16. ágúst, liður 2. Austurvegur 33 - 35 - Breyting á deiliskipulagi 2023.
Frestað mál frá bæjarráði Árborgar dags. 27.7.2023 þar sem óskað var eftir frekari rökstuðningi við gildandi aðalskipulag, vegna aukins nýtingarhlutfalls: "Tillaga frá 10. fundi skipulagsnefndar, frá 19. júlí, liður 4. Austurvegur 33-35 - Breyting á deiliskipulagi 2023. Larsen Hönnun og Ráðgjöf leggur fram tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi Grænuvellir og nágrenni þ.e. miðsvæðishluta skipulags, við Austurveg 33 - 35. Breyting felur í sér að heimilt verður að reisa allt að 4 hæða hús undir hótelstarfsemi. Þá er nýtingarhlutfalli breytt fer úr 2.0 í 3.0, sem mun fela í sér að heimilt verður að byggja allt að ríflega 5400m2, í stað um 2700m2 áður. Bílastæðaþörf mun verða fullnægt með 33 bílastæðum á lóðinni Grænuvellir 8a.
Skipulagsnefnd samþykkti breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 43. gr. og að tillagan yrði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og mæltist til að bæjarráð Árborgar samþykkti tillöguna, og feli skipulagsfulltrúa að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. sömu laga." Skipulagsnefnd telur að uppgefið nýtingarhlutfall í skipulagstillögunni uppfylli skilyrði um almenna skilmála miðsvæðis, í gildandi aðalskipulagi Árborgar 2020 - 2036. Í aðalskipulagi er nefnt að nýtingarhlutfall geti verið allt að 2.5, og ef bílastæðakjallarar eru teknir með geti hlutfallið farið í 3.0. Í núverandi byggingu er kjallari og er gert ráð fyrir kjallara í nýrri viðbyggingu. Nefndin telur að með teknu tilliti til þess, þá geti kjallarar átt við í þessu tilfelli og ættu ekki að einskorðast við skilgreininguna "bílakjallari".
Skipulagsnefnd samþykkti breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 43. gr. og að tillagan yrði auglýst í samræmi við 41. gr Skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu umsagna frá mannvirkja- og umhverfissviði, og mæltist til að bæjarstjórn Árborgar samþykkti tillöguna, að teknu tilliti til nýrrar samþykktar Sveitarfélagsins Árborgar um samningsákvæði vegna aukins byggingarmagns og nýtingarhlutfalls. Skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. sömu laga. - 2307001 - Austurvegur 65 - Breyting á deiliskipulagi 2023
Tillaga frá 13. fundi skipulagsnefndar, frá 13. september, liður 7. Austurvegur 65 - Breyting á deiliskipulagi 2023.
Efla Verkfræðistofa leggur fram tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123 / 2010, fyrir lóðina Austurveg 65 á Selfossi. Breyting felst í að byggingarreitur er stækkaður til suðurs. Breytingin er í samræmi við gildandi aðalskipulag Árborgar 2020 - 2036. Í gildi er deiliskipulag, samþykkt í bæjarstjórn Árborgar og staðfest í B-deild stjórnartíðinda 12 jan. 2005 ásamt síðari breytingum. Svæðið er skilgreint sem iðnaðarsvæði og áfram er gert ráð fyrir sambærilegri starfsemi sem áfram kann að valda hljóð-, lyktar og ásýndaráhrifum.
Forsendur breytingar: Með breytingunni er verið að stækka byggingarreit í suður vegna aukinnar þarfar á rýmum vegna skyrframleiðslu.
Skipulagsnefnd samþykkti tillögu að breyttu deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 43. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, og mæltist til að bæjarstjórn Árborgar samþykkti tillöguna, að teknu tilliti til nýrrar samþykktar Sveitarfélagsins Árborgar um samningsákvæði vegna aukins byggingarmagns og nýtingarhlutfalls. Skipulagsfulltrúa yrði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. sömu laga. - 2302244 - Eyravegur 42 - 44. - Deiliskipulag verslunar- og þjónustu auk íbúðabyggðar
Tillaga frá 14. fundi skipulagsnefndar, frá 27. september, liður 3. - Eyravegur 42 - 44. - Deiliskipulag verslunar- og þjónustu auk íbúðabyggðar. Mál áður á dagkrá 13.9.2023: Edda Kristín Einarsdóttir f.h. Eik fasteignafélags, leggur fram tillögu að nýju deiliskipulagi blandaðar byggðar á lóðunum Eyravegur 42 og 44 á Selfossi. Svæðið er skilgreint í aðalskipulagi Árborgar 2020 - 2036 sem miðsvæði, en er jafnframt skilgreint sem þróunarsvæði, þar sem skuli vera blanda af verslunar-, þjónustu- og íbúðarsvæði. Svæðið er ekki deiliskipulagt. Samkvæmt orðalagi tillögunnar eru helstu markmið hennar að þétta núverandi byggð með nýtingu á lóðum sem nýttar hafa verið sem verslunar- og lagersvæði. Tillagan tekur til breytinga á núverandi notkun lóðanna 42 og 44 við Eyraveg. Lóðirnar hafa í áranna rás verið nýttar undir starfsemi byggingarvöruverslunar. Í tillögunni er gert ráð fyrir að verslunarstarfsemi verði á lóð 42, og hluti núverandi bygginga verði rifinn og fjarlægður. Á lóð 44 er gert ráð fyrir að rísi á tveimur reitum F1 og F2 íbúðarhúsnæði á 3 - 5 hæðum. Gert er ráð fyrir að á lóðinni verði rými fyrir allt að 55 - 62 íbúðir, með nýtingarhlutfall upp á 1,1. Tillagan gerir ráð fyrir að heimilt verði að byggja bílakjallara. Tillagan gerir ráð fyrir að lóðirnar 44 og 44a á Eyravegi verði sameinaðar í eina lóð.
Skipulagsnefnd vísar tillögunni til umsagnar hjá mannvirkja- og umhverfissviði Árborgar. Jákvæð umsögn mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar liggur fyrir. Skipulagsnefnd samþykkir tillögu að deiliskipulagi í samræmi við 41. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, og mælist til að bæjarstjórn Árborgar samþykki tillöguna, að teknu tilliti til nýrrar samþykktar Sveitarfélagsins Árborgar um samningsákvæði vegna aukins byggingarmagns og nýtingarhlutfalls, auk þess að fyrir liggi samkomulag um kaup á viðbótarlandi sem deiliskipulagið nær yfir. Skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. sömu laga. Skipulagsnefnd tekur nú málið fyrir að nýju þar sem á fundi 13.9.2023, voru gögn ekki að fullu uppfærð. Breyting sem gerð hefur verið frá fyrri uppdrætti fellst í að búið er að bæta við stæðum/svæði fyrir rafhleðslustöðvar rafbíla, auk spennustöðvarskúrs í horni lóðar.
Skipulagsnefnd samþykkti tillögu að deiliskipulagi í samræmi við 41. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, og mæltist til að bæjarstjórn Árborgar samþykkti tillöguna, að teknu tilliti til nýrrar samþykktar Sveitarfélagsins Árborgar um samningsákvæði vegna aukins byggingarmagns og nýtingarhlutfalls, auk þess að fyrir lægi samkomulag um kaup á viðbótarlandi sem deiliskipulagið nær yfir. Skipulagsfulltrúa yrði falið að auglýsa tillöguna í samræmi við 41. gr. Skipulagslaga. - 2306308 - Viðauki við fjárhagsáætlun 2023
Viðauki nr. 2 Viðauki nr. 3 - 2310369 - Breyting á rekstri leikskóla
Samningur um breytingu á rekstri leikskólans Árbæjar. Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja samninginn. - 2309244 - Jafnréttisáætlun Sveitarfélagsins Árborgar 2023 - 2027
Lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja Jafnréttisáætlun Sveitarfélagsins Árborgar 2023 - 2027. - 2205259 - Kosning í embætti og nefndir 2022 - 2026
Ósk um tímabundið leyfi bæjarfulltrúa, D-lista, frá störfum sem bæjarfulltrúi.
Fundargerðir - 2309009F - Velferðarnefnd - 5
5. fundur haldinn 10. október. - 2310006F - Fræðslu- og frístundanefnd - 7
7. fundur haldinn 11. október. - 2309029F - Skipulagsnefnd - 15
15. fundur haldinn 11. október. - 2310010F - Bæjarráð - 58
58. fundur haldinn 19. október. - 2310014F - Eigna- og veitunefnd - 23
23. fundur haldinn 17. október. - 2310017F - Bæjarráð - 59
59. fundur haldinn 25. október.
Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri