47. fundur bæjarstjórnar, kjörtímabilið 2022 - 26
Fundur bæjarstjórnar Árborgar verður haldinn miðvikudaginn 13. nóvember 2024 í Grænumörk 5, Selfossi, kl. 16:00.
https://www.youtube.com/watch?v=I5WIF5Bqxcw
Dagskrá:
Almenn erindi
- 2411087 - Tillaga frá UNGSÁ - Safnskóli fyrir elsta stig í Árborg
Ungmennaráð Árborgar leggur til að stofnaður verður starfshópur sem ætlað er að skoða möguleika á stofnun safnskóla á faglegum- og kostnaðar grundvelli. Við teljum að safnskóli sé betur settur í að bjóða upp á fjölbreytt námsframboð, öflugri faggreinakennslu sem og faggreinateymi. Safnskóli býður upp á hagkvæmari nýtingu á húsnæði og fjármagni, öflugra félagslíf, þar að auki væri þetta frábær undirbúningur fyrir ungmennin að breyta um umhverfi og kynnast nýju fólki. Við teljum að þetta sé mikilvægt verkefni því þróun og fjölgun íbúa er mikil í Árborg, með safnskóla væri hægt að efla áfram flottu skólastarfi fyrir alla aldurshópa.
Einnig höfum við fengið að heyra mikið af jákvæðum reynslusögum, frá bæði nemendum og starfsfólki, af safnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum að verkefni á borð við þetta tekur mikinn tíma og þarf að gera vel því er frábært að byrja sem fyrst.
En undir lokin langar okkur að biðja ykkur um að ungmenni frá öllum grunnskólum Árborgar og ungmenni úr ungmennaráðinu fái að sitja í tilteknum starfshóp. - 2411088 - Tillaga frá UNGSÁ - Heimavist fyrir FSu
Ungmennaráð Árborgar leggur til að heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands verði endurskoðuð. FSu er stærsti framhaldsskólinn á svæðinu og margir sem sækja hann af öllu Suðurlandinu. Það er synd að það séu einungis 15 herbergi fyrir 20 nemendur, af þeim nemendum utan Árborgar eru þetta um 4,4 prósent. Heimavistin er gríðarlega mikilvæg fyrir ungmenni á Suðurlandi, þá sérstaklega fyrir þá sem koma lengra að. Einnig er hún nauðsynleg fyrir þá sem eru skráðir í akademíur FSu og þá sem vilja stunda aðrar tómstundir. Samgöngur eru oft í samræði við skólatímann, en ekki aðrar tómstundir, og þurfa því nemendur að fórna tómstundum fyrir heimferð. Það er óboðlegt að nemendur geti ekki sótt skólann, eða aðrar tómstundir, vegna húsnæðisskorts. Ungmennaráðið skorar því á Árborg að hefja viðræður við FSu og nágranna sveitarfélög um stækkun á heimavistinni. - 2411089 - Tillaga frá UNGSÁ - Menningarsalur Suðurlands
Ungmennaráð Árborgar leggur til að Sveitarfélagið hefji uppbyggingu á Menningarsal Suðurlands sem fyrst og virki starfshóp salarins á ný. Ungmennaráðið telur það vera nauðsynlegt í menningarlegu tilliti að sveitarfélagið og Suðurland allt sameinist um uppbyggingu á Menningarsalnum fyrir Sunnlendinga. Salurinn hefur verið fokheldur og nánast ónotaður í áratugi, hann hefði getað boðið sig fram til forseta á þessu ári svo langt er um liðið frá byggingu hans. Við teljum því að kominn sé tími til þess að klára hann svo hægt sé að gera klassískri tónlist, leiklist og stærri viðburðum skil. Mikil not væru fyrir salinn til að bæta samfélagið okkar á marga vegu. Það komast um þrjú hundruð og áttatíu manns í sæti, í salnum er stórt svið og kjallari undir því öllu. Okkur í ungmennaráðinu finnst synd að hafa ekki menningarsal fyrir okkur íbúa Árborgar og Sunnlendinga. - 2411091 - Tillaga frá UNGSÁ - Skautasvell
Ungmennaráð Árborgar leggur til að komið verði upp tímabundnu skautasvelli á Selfossi yfir hátíðartímann.
Ungmennaráðið telur að það væri skemmtilegt að fá tímabundið skautasvell á Selfoss, þar sem margir bæir bjóða upp á slíkt að vetri til. Skautasvellið myndi nýtast vel og það myndi veita börnum, unglingum og fullorðnum tækifæri til skemmtunar ásamt samverustundar fyrir fjölskylduna.
Skautasvell á veturna myndi einnig auka hátíðarstemninguna í bænum og skapa einstakan jólaanda. Það gæti hjálpað fólki að komast í jólaskap og myndi bæta við gleðina á þessum tíma árs. Hægt væri að kanna möguleika á samstarfi við fyrirtæki varðandi uppsetningu og rekstur skautasvellsins. - 2411090 - Tillaga frá UNGSÁ - Ný staðsetning fyrir jólaljós
Löng hefð hefur verið fyrir því að kveikja á jólaljósum bæjarins við bókasafn Árborgar. Uppbygging á nýjum miðbæ hefur gert það að verkum að athöfnin á sér stað þar.
Ungmennaráðið leggur til að staðsetning á þessari athöfn verði færð á stærra svæði í náinni framtíð. Hægt væri að skoða staðsetningu eins og fyrir framan Selfosskirkju, það er svæði sem ræður vel við mikinn fjölda fólks og er aðstaða fyrir veitingarnar sem hafa verið veittar á sama tíma. Þegar kveikt var á jólaljósunum á síðasta ári var mikill mannfjöldi og fólk naut sín ekki í miklum troðningi og erfitt var að sjá þegar kveikt var á jólatrénu. Útisvæði Selfosskirkju er stórt og hefur ungmennaráðið trú á því að fólkið og ljósin myndu njóta sín betur þar. Einnig er greitt aðgengi að eldhúsi fyrir þau sem að hafa verið að gefa heitt kakó. Þessi athöfn hefur verið frábær viðburður sem hvetur til samveru fjölskyldunnar. Því telur ungmennaráðið mikilvægt að sveitarfélagið sé að hvetja til samverustundar með því að hafa viðburðinn aðlaðandi með góðu aðgengi. - 2411092 - Tillaga frá UNGSÁ - Skólalóð Vallaskóla
Ungmennaráð Árborgar leggur til að farið verði í uppbyggingu á leiksvæði skólalóðar Vallaskóla. Þegar bætt var við kennslustofur í Vallaskóla minnkaði í kjölfarið bæði leiksvæðið sem og úrval leiktækja. Ungmennaráðið telur mikilvægt að leiksvæði skólans sé fjölbreytt, skemmtilegt og hvetji til útiveru. Gott leiksvæði í hverfinu hvetur til útiveru bæði á skólatíma og eftir skóla. Útivera barna er mjög mikilvæg og hafa rannsóknir sýnt að útivera hefur jákvæð áhrif á einbeitingu, nám, félagsleg samskipti barna og að börn sem eru mikið úti verða sjaldnar veik. Einnig vill ungmennaráðið taka fram að ef ný sundlaug á að fara inn á malbikað leiksvæði við hlið Valhallar þá þarf allra helst að fara í uppbyggingu á skólalóðinni. - 2411093 - Tillaga frá UNGSÁ - Fræðsla í grunnskólum
Ungmennaráð Árborgar leggur til að auka hinsegin fræðslu í grunnskólum. Jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, og heilsa og velferð eru þrír af sex grunnþáttum menntunar. Samkvæmt Aðalnámskrá eiga grunnþættir menntunar að vera að leiðarljósi í gegnum allt nám á grunn- og framhaldsskólastigi. Hinsegin fræðsla styður við þessa þrjá grunnþætti og þar með þær kröfur sem aðalnámskrá gerir til skólanna. Hinsegin fræðsla fjallar um fjölbreytileikann, hugtakaskýringar, virðingu og mikilvægi þess að vinna gegn fordómum. Hún stuðlar að betri líðan hinsegin nemanda og bætir jafnframt samskipti og virðingu milli allra nemanda í skólum. Með því að auka hinsegin fræðslu í grunnskólum sköpum við heilbrigðari, fjölbreyttari og umburðarlyndari samfélag. - 2410114 - Breyting á reglum sveitarfélagsins Árborg um greiðslu
lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum
Tillaga frá 12. fundi velferðarnefndar frá 24. október, liður 1. Breyting á reglum sveitarfélagsins Árborg um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum.
Lagt er fyrir nefndina tillaga að uppfærslu á reglum sveitarfélagsins um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum. Gildandi reglur eru frá árinu 2013 og komin tíma á uppfærslu. Breytingarnar eru nauðsynlegar til að tryggja samræmi við nýlegar lagabreytingar og til að skýra innra verklag barnaverndarþjónustunnar. Með uppfærslunum er stefnt að bættri þjónustu og skilvirkni í afgreiðslu umsókna um fjárstyrk.
Velferðarnefnd samþykkir reglurnar og vísar þeim til bæjarstjórnar til samþykktar. - 2410137 - Breytingar á reglum um aksturþjónustu fyrir eldri borgara
Tillaga frá 12. fundi velferðarnefndar frá 24. október, liður 2. Breytingar á reglum um aksturþjónustu fyrir eldri borgara.
Lagt er fyrir nefndina tillögur að breytingu á reglum um aksturþjónustu fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu. Helstu breytingar snúa að breyttri aðkomu blinda og sjónskertra einstaklinga, auk skilyrða um ökuhæfni. Með þessum breytingum er stefnt að skýrari afmörkun þjónustunnar og betri nýtingu hennar.
Velferðarnefnd samþykkir reglurnar og felur deildarstjóra að yfirfara og gera smávægilegar breytingar á tillögu á uppfærðum reglum samkvæmt umræðu á fundinum.
Velferðarnefnd vísar reglunum til bæjarstjórnar til samþykktar. - 2409429 - Samþykktir Bergrisans bs 2024
Fyrri umræða.
Lagt er til að vísa samþykktum Bergrisans bs til síðari umræðu. - 2411026 - Samþykktir Brunavarna Árnessýslu 2024
Fyrri umræða.
Lagt er til að vísa samþykktum Brunavarna Árnessýslu til síðari umræðu. - 2411027 - Samþykktir Tónlistarskóla Árnesinga 2024
Fyrri umræða.
Lagt er til að vísa samþykktum Tónlistarskóla Árnessýslu til síðari umræðu.
Fundargerðir - 2410017F - Ungmennaráð - 7/2024
7. fundur haldinn 14. október. - 2410005F - Skipulagsnefnd - 35
35. fundur haldinn 16. október. - 2410016F - Eigna- og veitunefnd - 35
35. fundur haldinn 16. október. - 2410021F - Bæjarráð - 104
104. fundur haldinn 24. október. - 2410012F - Velferðarnefnd - 12
12. fundur haldinn 24. október. - 2410028F - Bæjarráð - 105
105. fundur haldinn 30. október. - 2410027F - Umhverfisnefnd - 19
19. fundur haldinn 29. október. - 2410029F - Eigna- og veitunefnd - 36
36. fundur haldinn 30. október. - 2410034F - Bæjarráð - 106
106. fundur haldinn 7. nóvember.