Nýtt forvarnarátak | Öryggi barna í sundi
Rauði krossinn á Íslandi hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um öryggi barna í sundi.
Átakið er unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg og Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi (SFSÍ) og er því beint að öllu landinu.
Drukknun getur átt sér stað nánast hvar sem vatn er að finna: Í sundlaugum, náttúrulaugum, heitum pottum, í stöðuvötnum, ám og lækjum, fjörum, við bryggjur, í baðkörum eða jafnvel pollum.
Sumarið er sá árstími sem flestir njóta þess að fara í sund og baða sig í vatni. Svo allir geti notið þeirra stunda sem best ætti ávallt að hafa öryggismál í hávegum.
Foreldrar eru hvattir til að hafa þessi fimm ráð í huga:
- Hafðu augun ekki af barninu allan tímann
Foreldri eða forráðamaður ber ábyrgð á barni í vatni. Það þýðir að hann skal fylgjast stöðugt með því og sjá til þess að það noti viðeigandi öryggisbúnað (kúta) og að hann sé settur á barnið áður en farið er ofan í vatnið. - Gefðu barninu að borða og drekka
Passaðu að barnið sé vel nært og hafi fengið að drekka áður en það fer í vatnið. Að leika sér í vatni er orkufrek iðja. Þyrst og svangt barn getur misst orkuna hratt og þar með eykst hætta á drukknun. - Viðhaltu sundfærni barnsins yfir sumartímann
Þegar skólasundinu sleppir á vorin er komið að forráðamönnum að halda færninni við.
Tryggjum að allir í fjölskyldunni sem eru synd hafi hæfnina til að bjarga sér úr vandræðum í vatni. - Settu öryggisreglur í kringum vatn og fræddu barnið um öryggi í vatni
Settu einfaldar og skýrar reglur um öryggi í vatni og útskýrðu fyrir barninu. Til dæmis: „Farðu aldrei í vatn án eftirlits“. - Lærðu endurlífgun og skyndihjálp
Vertu viðbúin að bregðast við neyðartilfellum í og kringum vatn. Rauði krossinn býður upp á skyndihjálparnámskeið. Skráðu þig á skyndihjalp.is
Öryggi í sundi er á ábyrgð okkar allra – ertu ekki örugglega að fylgjast með?