Farsæld
Farsæld barna í Árborg með 8-vita æskunnar

Farsæld og velferð barna mótast af fjölmörgum þáttum – fjölskyldu, vinum, samfélagi, umhverfi og þeirri þjónustu sem þeim stendur til boða. Þarfir geta verið ólíkar milli barna og þarfir barna breytast eftir aldri, þroska og aðstæðum.
Í Árborg er lögð áhersla á að farsæld barna sé sýnileg og að til staðar sé sameiginlegur skilningur á því hvað felst í farsæld barns. Til þess notum við 8-vita æskunnar – aðferð sem byggir á átta mikilvægum þáttum sem lýsa velferð barna. Þessi þættir mynda sameiginlegan grunn fyrir samtal og samstarf milli barna, foreldra og fagfólks og eru skoðuð sem ein heild, þar sem allir þættirnir tengjast og styðja hver annan. 8-viti æskunnar mun á næstu mánuðum og ári halda áfram að stækka og eflast sem regnhlíf farsældar í sveitarfélaginu Árborg.
Farsæld barna er byggð á lögum nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Í lögunum er farsæld barns skilgreind sem þær aðstæður sem tryggja barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og viðhalda heilsu, á eigin forsendum og til framtíðar. Meginmarkmið laganna er að tryggja að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi greiðan aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana. Þjónustan sé veitt af þeim aðilum sem best eru til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni.
Í Árborg leggjum við áherslu á að farsæld barna sé sameiginlegt verkefni okkar allra – fjölskyldna, skóla, frístundastarfs, lögreglu, heilbrigðiskerfisins, þjónustuaðila og samfélagsins í heild. Með markvissri samvinnu tryggjum við að öll börn fái sem bestu mögulegu byrjun í lífinu.
Grunnþjónusta
Almenn þjónusta vísar til grunnþjónustu og forvarna sem er veitt öllum börnum og unglingum með það að markmiði að tryggja þeim jöfn tækifæri til náms, þroska og vellíðunar. Undir almenna þjónustu fellur daglegt starf skóla- og frístundastarfs og felur í sér kennslu samkvæmt menntastefnu sveitarfélagsins og aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Einnig annars konar þjónusta innan skóla- og frístundastarfs svo sem náms- og starfsráðgjöf og allur almennur stuðningur sem barn þarf í námi.
Snemmtæk þjónusta
Snemmtæk þjónusta (1. stig farsældar) er veitt eins fljótt og hægt er eftir að merki um vanlíðan, félagsvanda, þroska-, hegðunar- og/eða námsvanda koma fram. Þjónustunni er ætlað að koma í veg fyrir að vandinn þróist eða dýpki. Markmiðið er að bregðast við á fyrstu stigum vanda til að styrkja börn og fjölskyldur, áður en meiri íhlutun verður nauðsynleg.
Sértæk þjónusta
Sértæk þjónusta (2. stig farsældar) er markviss og einstaklingsmiðaður stuðningur sem veittur er þegar barn hefur þörf fyrir meiri þjónustu en almenna og snemmtæka þjónustan nær yfir. Markmið með sértækri þjónustu er að skapa barni skilyrði til að ná árangri í námi, efla félagsleg samskipti, jákvæða hegðun og líðan. Barn er að glíma við vanda sem krefst aðkomu fleiri aðila. Sértæk þjónusta er veitt áður en farið er í umfangsmeiri eða sérhæfðari þjónustu og getur falið í sér teymisvinnu innan eða utan skóla. Í sumum tilfellum er þörf á frekari greiningu til að skýra betur stuðningsþarfir barnsins til að veita viðeigandi þjónustu.
Sérhæfð þjónusta
Sérhæfð þjónusta (3. stig farsældar) er markviss og sérsniðin þjónusta sem gripið er til þegar önnur úrræði nægja ekki til að mæta þörfum barnsins. Börn sem þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda glíma jafnan við flókinn og fjölþættan vanda og hafa mikla umönnunar- og stuðningsþörf. Þverfaglegt teymi sérfræðinga kemur að málinu og vinnur saman að því að veita þjónustu sem er sniðin að einstaklingsbundnum þörfum barnsins hverju sinni. Slík þjónusta fellur oft undir ákvæði barnaverndarlaga eða laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, eftir því sem við á.
Foreldrar og börn í Árborg hafa aðgang að tengilið í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins.
Hlutverk tengiliða
Tengiliður hefur hagsmuni barns að leiðarljósi í samstarfi og samráði við foreldra og barn.
Hlutverk tengiliðar er að:
Veita upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns.
Aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns.
Skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.
Koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra í þágu farsældar barns.
Taka þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á.
Nánar um farsæld barna í leik- og grunnskólum | Tengiliðir
- Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri
- Stekkjaskóli
- Sunnulækjarskóli
- Vallaskóli
- Leikskólinn Álfheimar
- Leikskólinn Árbær
- Leikskólinn Goðheimar
- Leikskólinn Hulduheimar
- Leikskólinn Jötunheimar
- Leikskólinn Strandheimar | Brimver & Æskukot
Hlekkir: