Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Læsi til lífs og leiks

Læsisstefna Sveitarfélagsins Árborgar til 2030

Laesisstefna-forsidumynd-uppfaerd

Læsisstefna Árborgar til ársins 2030 ber heitið Læsi til lífs og leiks og er ein af undirstefnum Menntastefnu Árborgar. Stefnan byggir á gildandi aðalnámskrám leik- og grunnskóla, þemahefti frístundaheimila auk Barnasáttmála og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Læsisstefnan er afrakstur þverfaglegrar vinnu fulltrúa leik- og grunnskóla, frístundastofnana og skólaþjónustu. Leitað var til foreldra þar sem óskað var eftir ábendingum varðandi stefnuna.

Með stefnunni er lögð áhersla á að öll börn og unglingar í skóla- og frístundastarfi Árborgar geti nýtt sér læsi til lífs og leiks og er markmiðið að börn, unglingar, foreldrar, kennarar og aðrir sem koma að uppeldi með einhverjum hætti geti nýtt sér stefnuna.

Læsisstefnan skiptist í tvo meginkafla, annars vegar málþroska, lestur og ritun og hins vegar læsi í víðum skilningi.

Læsisstefna Árborgar var samþykkt af bæjarstjórn 20. ágúst 2025 og gefin út 21. ágúst 2025. Innleiðing stefnunnar hefst skólaárið 2025-2026 og helst í hendur við innleiðingu Menntastefnu Árborgar. Áherslur læsisstefnunnar munu speglast í skólanámskrám, starfsáætlunum og aðgerðaáætlunum í öllu skóla- og frístundastarfi sveitarfélagsins. 

Banner-laesisstefna

Meginmarkmið læsisstefnu Árborgar

Meginmarkmið læsisstefnunnar er að börn og unglingar geti lesið, skilið, túlkað og unnið á gagnrýninn hátt með ritað mál, tölur, myndir og tákn og skapað þannig merkingu sem nýtist þeim til gagns og ánægju í námi og leik.

Læsisstefnunni er ætlað að stuðla að því að börn og unglingar verði virkir þátttakendur í samfélaginu og fái jöfn tækifæri til að þroska með sér læsi í víðum skilningi. Gott samstarf heimila, skóla- og frístundastarfs gegnir veigamiklu hlutverki til að börn og unglingar njóti farsældar í daglegu lífi og öðlist hæfni sem nýtist þeim til framtíðar. 

Hlutverk heimila og samstarf við skóla- og frístundastarf

Frá fæðingu gegna foreldrar lykilhlutverki með því að hlúa að málþroska á markvissan hátt með samskiptum og samræðum við barnið. Leggja þarf áherslu á að tala við barnið, nota fjölbreyttan raddblæ og hrynjanda og í því samhengi skipta endurtekningar miklu máli. Máltakan þróast í nokkrum þrepum á misjöfnum hraða eftir einstaklingum.

Samstarf heimila, skóla- og frístundastarfs er mikilvægur þáttur í læsi barna og unglinga. Þegar barn hefur skólagöngu gegna foreldrar áfram lykilhlutverki í læsisnáminu í samstarfi við skóla- og frístundastarf. 

Mikilvægt er að skapa læsishvetjandi umhverfi á heimilum og í öllu skóla- og frístundastarfi með það að markmiði að stuðla að jákvæðri upplifun á læsi, vekja áhuga á námi og styrkja sjálfsmynd barna og unglinga til framtíðar.

Áhersla er lögð á að styðja við fjölskyldur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn til að hlúa að bæði íslensku og móðurmáli barnsins. Rík samskipti á sterkasta máli fjölskyldunnar heima styrkir bæði málþroska og nám barna og unglinga og eru foreldrar hvattir til að leggja mikla áherslu á að styðja við lestur og samtal á sínu sterkasta máli auk íslenskunnar.    

Málþroski, lestur og ritun

Málþroski

ARB_1_Malthroski-v1Málþroski og læsi eru hvoru tveggja langtímaferli sem er í stöðugri þróun út lífið. Um er að ræða samtvinnaða þætti sem mikilvægt er að vinna markvisst með á öllum aldri. Þeir þrír þættir málþroskans sem tengjast hvað mest læsi og þar af leiðandi framvindu í námi eru:

  • Hljóðavitund (næmi fyrir hljóðum tungumálsins)
  • Orðaforði (undirstaða lesskilnings)
  • Málskilningur og máltjáning (undirstaða lesskilnings og ritunar)

Í leikskólum í Árborg er lögð mikil áhersla á málörvun með margvíslegum hætti í gegnum leik, starf og daglegar athafnir. Markviss málörvun felst í því að bæta orðaforða og hugtakaskilning barna og leggja þar með góðan grunn að læsi og framtíðarnámi. Öll tækifæri hversdagsleikans eru nýtt til samræðna eða leikja sem reyna á málfærni, efla gagnrýna hugsun og rökfærslu.

Með hækkandi aldri er mikilvægt að styðja áfram við málþroska barna en góður orðaforði er undirstaða góðs lesskilnings. Í grunnskólum Árborgar er unnið markvisst með sértækan námsorðaforða til að auðvelda notkun orðanna við skilning og úrvinnslu kennsluefnisins, meðal annars í umræðum, svörum og endursögnum.

Daglegur lestur bóka í öllu skóla- og frístundastarfi er ein áhrifaríkasta leiðin til að efla orðaforða. Bókalestur er auk þess kjörið tækifæri til að efla hlustun, athygli, rökhugsun og minni.

Lestur

ARB_2_Lestur-v1Á leikskólaaldri er lagður grunnur að læsi barna en þau byggja upp þekkingu sína í gegnum uppgötvanir um ritmálið í umhverfi sínu, með bóklestri og málhvetjandi samskiptum. Áhugi barna, frjáls leikur og örvun hinna fullorðnu gegnir hér lykilhlutverki. Leggja skal meiri áherslu á tengingu milli bókstafs og hljóðs heldur en markvissa stafainnlögn. Bóklestur frá unga aldri er mjög mikilvægur til að auka orðaforða og ýta undir góða máltilfinningu sem er mikill styrkur þegar hefðbundið lestrarnám hefst. Börn verða frekar tilbúin til þess að tileinka sér lestur og ritun ef þau hafa átt í innihaldsríkum samskiptum frá fyrstu tíð, hafa gott vald á máltjáningu og málskilningi og búa yfir ríkulegum orðaforða. Það er mikilvægt að börn læri einnig að lesa í myndir og tákn og geti nýtt sér þann tjáningarmáta sjálf ef þurfa þykir.

Þegar barn nær grunnskólaaldri er markmið lestrarnámsins að uppskera góðan lesskilning. Til að öðlast góðan lesskilning þurfa börn og unglingar að búa yfir bæði umskráningarfærni og góðum málskilningi. Umskráning tengist tæknilegri hlið lestrar og gengur út á að tengja saman bókstafi og hljóð. Málskilningur beinist að færni í tungumálinu eins og uppbyggingu þess, orðaforða, orðræðufærni, málfræði og framburði. Þegar tæknileg hlið lestrar og færni í tungumálinu byggja á traustum grunni eru auknar líkur á góðum lesskilningi. Til að tryggja að öll nái góðum tökum á lestri er hann metinn reglulega og gripið til íhlutunar þegar þess gerist þörf.

Í Árborg er lögð áhersla á að styðja sem best við lestrarnám barna og unglinga með því að fylgjast vel með framvindu færniþátta, svo sem hljóðkerfisvitundar, orðaforða og leshraða. Það er gert með því að greina hvar börn og unglingar eru staddir í þróuninni hverju sinni og fylgst er með lestrarfærni þeirra bæði hvað varðar leshraða og lesskilning. Til að greina og meta færni eru nýtt margvísleg mælitæki sem kennurum standa til boða hverju sinni. Á heimasíðu læsisstefnu Árborgar má finna matstækjatöflu og þau viðmið sem stuðst er við. Áhersla er lögð á að kennarar búi yfir þekkingu á þróun lestrar og kennsluaðferðum til að geta veitt leiðsögn við hæfi. 

Ritun

ARB_3_Ritun-v1Ritun er einn af þeim þáttum sem gegnir veigamiklu hlutverki í námi barna og unglinga. Frá unga aldri þurfa börn að fá tækifæri til að tjá sig með ritmáli, bæði í námi og leik. Krot og myndræn tjáning eru fyrstu skrefin í þróun ritunar og mynda mikilvægan grunn að ritmálsfærni. Í leikskólum Árborgar er stutt við þessa þróun með því að skapa umhverfi þar sem bókstafir og ritmál er sýnilegt, aðgengi að efniviði er tryggt og börn eru hvött til að skrifa, teikna og skapa eigin merkingu í leik.

Ritun hefur sterk tengsl við þróun lestrar en auk skilnings á sambandi stafs og hljóðs hefur þekking á því tungumáli sem ritað er á mikil áhrif. Ritun er lykillinn að því að börn og unglingar læri að móta og miðla eigin hugsunum, hugmyndum, þekkingu og reynslu. Í gegnum lestur kynnast börn ólíkum textategundum og fá fyrirmyndir að eigin ritun þar sem ritaðir textar geta verið margvíslegir að lengd, formi og framsetningu. Barn sem les mikið eða hefur hlustað á lestur hefur forskot þegar kemur að því að semja eigin texta.

Í grunnskólum Árborgar er lögð áhersla á að ritunarkennsla nái til allra undirþátta ritunar, bæði tæknilegra og huglægra. Þróun ritunar er háð mörgum þáttum í þroska barna og því skiptir kennsla og leiðsögn miklu máli. Ritunarverkefni sem hafa augljósan tilgang og tengjast daglegu lífi barna og unglinga hafa mikið að segja. Tilgangur ritunar er að miðla efni til annarra og halda utan um eigin hugsanir, þekkingu og hugmyndir.

Í öllu skóla- og frístundastarfi skal stuðla að því að ritun verði sjálfsagður þáttur í námi, samskiptum og skapandi vinnu barna og unglinga.

Fjölmenning

ARB_4_Fjoltyngi-v1Árborg er fjölmenningarsamfélag þar sem litið er á ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn sem auðlind og endurspeglar sú sýn alla starfshætti skóla- og frístundastarfs sveitarfélagsins. Börn og unglingar sem alast upp við fleiri en eitt tungumál þurfa á ríkulegu málumhverfi að halda, bæði heima og í skóla- og frístundastarfi. Mikilvægt er að málörvun heima fyrir fari fram á móðurmáli eða sterkasta tungumáli barns og leggi þannig traustan grunn að íslenskunámi og almennri málfærni.

Í skóla- og frístundastarfi er lögð áhersla á að skapa börnum og unglingum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn tækifæri til að efla bæði móðurmál sitt og íslensku. Mikilvægt er að tryggja að börn og unglingar séu í gagnvirkum samskiptum við bæði fullorðna og jafnaldra sem stutt geta við íslenskukunnáttu þeirra. Ríkulegur orðaforði og gott íslenskt málumhverfi í skóla- og frístundastarfi hefur jákvæð áhrif á lestrarnám og eykur möguleika fjöltyngdra barna og unglinga á virkri þátttöku. Íslenskt málumhverfi þarf að vera aðgengilegt, hlýlegt og styðjandi með áherslu á orðaforða, samræðu og fjölbreytta málnotkun.

Í handbókinni Fjölmenningarleg menntun í Sveitarfélaginu Árborg, sem nálgast má á heimasíðu sveitarfélagsins, eru hagnýtar upplýsingar fyrir starfsfólk um móttökuferlið þegar tekið er á móti börnum og unglingum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Þar eru einnig hugmyndir að kennsluaðferðum auk ýmiss konar fræðslu, meðal annars um málþroska og orðaforða fjöltyngdra barna og unglinga. Lögð er áhersla á að allt starfsfólk skóla- og frístundastarfs þekki handbókina og nýti hana í sínu starfi.


Banner-laesisstefna

Læsi í víðum skilningi

Læsi er víðtæk hæfni sem tengist fleiri þáttum en málþroska, lestri og ritun. Læsi í víðum skilningi felur í sér hæfni til að skilja, túlka, miðla og nýta sér þekkingu og upplýsingar á fjölbreyttan hátt. Meginmarkmiðið er að börn og unglingar verði virkir þátttakendur í samfélaginu, móti eigin skoðanir, þrói með sér gagnrýna hugsun og átti sig á tilfinningum og líðan.

Læsisstefna Árborgar byggir á því að læsi styrki sjálfsmynd, málfærni og félagslega þátttöku barna og unglinga. Læsi er jafnframt lykilþáttur í að tryggja aukinn námsárangur og menningarlegan skilning. Í því skyni mótar skóla- og frístundastarf fjölbreytt læsishvetjandi umhverfi þar sem:

  • Félags- og samfélagslæsi eflir félagsfærni, ábyrgð og virka þátttöku í fjölmenningarlegu lýðræðissamfélagi
  • Heilsulæsi styður við andlega og líkamlega vellíðan og heilbrigði
  • Umhverfislæsi og sjálfbærni styrkja ábyrgðartilfinningu gagnvart náttúru og umhverfi
  • Vísinda- og talnalæsi eykur vísindalegan skilning og gagnrýna hugsun
  • Lista- og menningarlæsi eflir sköpun, tjáningu og skilning á menningu og listum
  • Upplýsinga- og miðlalæsi tryggir ábyrga og gagnrýna nýtingu stafrænnar tækni, miðla og upplýsinga

Félags- og samfélagslæsi

ARB_5_Felags-ogSamfelagslaesi-v1Félags- og samfélagslæsi barna og unglinga felst í hæfni til að eiga uppbyggileg samskipti, sýna umburðarlyndi og takast á við tilfinningar á ábyrgan hátt. Félagslæsi eflir sjálfsvitund, samskipti og gagnrýna hugsun. Samfélagslæsi felur í sér virka þátttöku í samfélaginu og skilning á lýðræði, fjölbreyttum gildum og menningarlegum bakgrunni fólks.

Skóla- og frístundastarf Árborgar leggur áherslu á samvinnu, virka tjáningu, ágreiningslausnir og virðingu fyrir fjölbreytileika. Börnum og unglingum eru gefin tækifæri til að móta skoðanir sínar, taka þátt í lýðræðislegu starfi og ákvörðunum varðandi eigið líf og samfélag. Öll eiga að upplifa að sjónarmið þeirra skiptir máli.

Markmið með félags- og samfélagslæsi er að börn og unglingar verði ábyrgir, gagnrýnir og virkir þátttakendur í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi.

Heilsulæsi

ARB_6_Heilsulaesi-v1Heilsulæsi barna og unglinga felst í hæfni til að nálgast, skilja og nýta heilsutengdar upplýsingar til að auka líkamlega og andlega vellíðan. Það styður við vitund um næringu, svefn, hreyfingu, forvarnir og andlega heilsu.

Skóla- og frístundastarf Árborgar skapar vettvang sem hvetur til heilbrigðra lífshátta, virkrar þátttöku og hreyfingar. Áhersla er lögð á að draga úr heilsutengdum ójöfnuði og gefa rými til að hafa áhrif á eigin heilsu og vellíðan.

Markmið heilsulæsis er að börn og unglingar læri að sinna heilsu sinni á meðvitaðan hátt, tileinki sér heilbrigðan lífsstíl og móti með sér jákvæð viðhorf sem nýtast þeim til framtíðar.

Umhverfislæsi og sjálfbærni

ARB_7_UmhverfisogSjalfbaerni-v1Umhverfislæsi og sjálfbærni barna og unglinga felst í hæfni til að skilja tengsl manns og náttúru, meta áhrif eigin athafna og axla ábyrgð í þágu sjálfbærrar þróunar með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.

Skóla- og frístundastarf Árborgar veitir börnum og unglingum tækifæri til að rannsaka og lesa í umhverfi sitt, taka þátt í lausnamiðuðum verkefnum og þróa með sér virðingu og ábyrgð gagnvart náttúru og umhverfi. Lögð er áhersla á gagnrýna hugsun, þátttöku og samfélagslega ábyrgð einkum varðandi menntun til sjálfbærni og loftslagsvitundar.

Markmið umhverfislæsis og sjálfbærni er að börn og unglingar læri að njóta náttúrunnar og verði meðvituð um sjálfbæra þróun, áskoranir umhverfisins og siðferðislega ábyrgð sem nýtist þeim til framtíðar.

Vísinda- og talnalæsi

ARB_8_VisindaogTalnalaesi-v1Vísinda- og talnalæsi barna og unglinga felst í hæfni til að skilja og nýta vísindalegar aðferðir og töluleg viðmið í daglegu lífi. Vísindalæsi eykur forvitni, gagnrýna hugsun og getu til að spyrja spurninga, afla gagna og draga ályktanir. Talnalæsi felur í sér skilning á tölum, mælingum og mynstrum sem nýtist í fjölbreyttum aðstæðum.

Skóla- og frístundastarf Árborgar veitir börnum og unglingum tækifæri til að takast á við raunveruleg viðfangsefni með rannsóknarvinnu og tilraunum. Áhersla er lögð á lausnaleit, rökvísi og tækniþekkingu.

Markmið með vísinda- og talnalæsi er að börn og unglingar verði meðvituð um gögn og upplýsingar, geti tekið upplýstar ákvarðanir og tileinkað sér færni sem nýtist í síbreytilegu umhverfi.

Lista- og menningarlæsi

ARB_9_Listalaesi-v1Lista- og menningarlæsi barna og unglinga felst í hæfni til að skilja, meta, tjá sig og skapa í gegnum listir. Það styður meðal annars við þróun sjálfsmyndar og sköpunarhæfni.

Skóla- og frístundastarf Árborgar veitir börnum og unglingum tækifæri til að kynnast fjölbreyttri list- og verkmenningu, tjá sig í gegnum listir, taka þátt í listviðburðum og skapandi verkefnum. Lögð er áhersla á tjáningarfrelsi, frumkvæði og þátttöku í menningarlífi samfélagsins.

Markmið lista- og menningarlæsis er að börn og unglingar verði meðvituð um gildi lista og menningar, þrói með sér listræna færni og öðlist trú á eigin sköpunarkrafti. Jafnframt að þau fái tækifæri til að njóta og skilja fjölbreytta listmenningu og taki þátt í menningarviðburðum sem styrkja tengsl þeirra við samfélagið.

Upplýsinga- og miðlalæsi

ARB_10_UpplysingaogMidlalaesi-v1Upplýsinga- og miðlalæsi barna og unglinga felst í hæfni til að afla, greina og nýta upplýsingar á gagnrýninn og ábyrgan hátt úr fjölbreyttum miðlum. Stuðla skal að sterkri siðferðisvitund, þróun gagnrýninnar hugsunar og virkri þátttöku.

Skóla- og frístundastarf Árborgar leggur áherslu á að börn og unglingar læri að meta áreiðanleika upplýsinga og virða höfundarétt ásamt því að miðla og nýta efni á ábyrgan hátt. Áhersla er lögð á öryggi, siðferði og réttindi á stafrænum vettvangi.

Markmið upplýsinga- og miðlalæsis er að börn og unglingar verði sjálfstæðir, upplýstir og ábyrgir notendur miðla.


Banner_1723807453740_1755249592699


Þetta vefsvæði byggir á Eplica