Athugið

Bæjarstjórnarfundur í beinni útsendingu


Matstækjatafla og viðmið

Hér er að finna yfirlit yfir þau próf og skimanir sem nýta má í leik- og grunnskólum til að meta ákveðna þætti læsis.

Það er í höndum hvers skóla að nýta matstækin eftir þörfum og í samræmi við lög nr. 91/2008 um námsmat.

Ef niðurstöður prófa og skimana gefa til kynna að þörf sé á frekari íhlutun skal skóli gera áætlun þess efnis.  

Matstafla-og-vidmid-drog-1

*Lesferill 

Lesferill á yngsta stigi 

Allir nemendur á yngsta stigi (1.- 4. bekkur) fara í lesferil þrisvar sinnum á ári. Viðmið varðandi frávik skal ávallt hafa í huga. 

Lesferill á miðstigi 

Nemandi sem er að ljúka 5. bekk og hefur verið yfir viðmið 2 í þrjú skipti í röð þarf ekki að fara í lesferil fyrr en að vori í 6. bekk. Heimilt er þó að meta allan hópinn. Viðmið varðandi frávik skal ávallt hafa í huga. 

Nemendur sem eru undir viðmiði 2 í 5. bekk og uppúr fara í lesferil þrisvar sinnum á ári til að meta framfarir. 

Nemendur sem fara einungis í eitt próf að vori í 6. bekk halda því áfram að fara einungis í eitt próf á ári (að vori).

Lesferill á unglingastigi 

Nemendur á unglingastigi (8.-10. bekkur) fara að jafnaði í lesferil einu sinni á ári nema ef um sérstaka íhlutun er að ræða, þá eru framfarir metnar oftar. Viðmið varðandi frávik skal ávallt hafa í huga. 

Val er hvort nemendur fari í lesferil við lok 10. bekkjar. 

Viðmið varðandi frávik 

Nemendur með málþroskaröskun, skertan almennan þroska eða annað sem hefur umtalsverð áhrif á getu til lesturs á íslenskum texta skulu metnir sérstaklega. 

Meta skal hvort nemandinn hafi forsendur til að fara í lesferil eða hvort meta skuli framfarir út frá þeirri íhlutun sem eiga sér stað í lestrarkennslunni. 

Nemandi sem ekki fer í lesferil skal fá sérstaka íhlutun varðandi lestrarnám. 

**LOGOS greiningartækið 

LOGOS er greiningartæki til að greina lestrarerfiðleika hjá börnum, unglingum og fullorðnum. Í prófinu er metnir þættir eins og umskráning, leshraði, nefnuhraði, hlustunar- og lesskilningur. 

Nemendur sem koma undir viðmiði eitt í lesferli í 5. bekk fara í undirpróf lesferils. Ef vísbendingar um vanda koma þar fram fer nemandinn i LOGOS skimun (4 þættir) strax að hausti í 6. bekk, svo í lestrarátak og endurtekna skimun að því loknu. Ef niðurstöður skimunar eru enn undir viðmiðum fer nemandinn í fulla greiningu með LOGOS lestrargreiningartækinu. Nemendur fara ekki í LOGOS greiningu hafi þjálfun ekki verið sinnt. 

Börn yngri en 5. bekk fara ekki í LOGOS greiningu. Fram að því er unnið markvisst með íhlutun og þjálfun séu áhyggjur af lestrarvanda. Sérkennarar í hverjum skóla með LOGOS réttindi sjá um lestrargreiningar. 

Stöðumat fyrir nýkomna nemendur 

Markmiðið með stöðumatinu er að styðja við vinnu skólanna varðandi mat á þekkingu nemenda af erlendum uppruna þannig að skólinn geti undirbúið og aðlagað kennsluna að þörfum nemandans og þekkingargrunni hans. Skólastjóri ber ábyrgð á framkvæmd stöðumatsins og ákveður hver leggur matið fyrir. Mat á þekkingu nemandans þarf að fara fram fljótlega, í síðasta lagi tveimur mánuðum frá því tekið er á móti nemandanum í skólann. 

Það er á ábyrgð skólastjóra að kennarar og annað starfsfólk þekki og fylgi framkvæmd stöðumatsins. Skólastjóri þarf einnig að sjá til þess að nemendum bjóðist nám á meðan á stöðumatinu stendur. 

Stöðumatsviðtalið er áætlað að hámarki 70 mínútur með túlki. Viðtölin eru samtals þrjú og er áætlað að þau taki 3x70 mínútur. 

Stöðumatið er lagt fyrir á tungumáli sem nemandinn skilur, helst á því tungumáli sem nemandinn er sterkastur í.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica