54. fundur bæjarstjórnar
54. fundur bæjarstjórnar Árborgar, kjörtímabilið 2010-2014, haldinn miðvikudaginn 14. maí 2014 kl. 17:00 í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.
Neðanskráðir bæjarfulltrúar eru mættir:
Ari Björn Thorarensen, D-lista, forseti bæjarstjórnar,
Eyþór Arnalds, D-lista,
Sandra Dís Hafþórsdóttir, D-lista,
Gunnar Egilsson, D-lista,
Kjartan Björnsson, D-lista,
Helgi Sigurður Haraldsson, B-lista,
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista,
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista,
Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista
Auk þess situr fundinn Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, og Rósa Sif Jónsdóttir sem ritar fundargerð.
Forseti bæjarstjórnar setti fundinn og leitaði afbrigða að taka á dagskrá samning um bankaviðskipti milli Sveitarfélagsins Árborgar og Íslandsbanka hf. og tillögu um breytingu á aðalskipulagi Árborgar 2010-2014 vegna 66 kv. jarðstrengs á milli Selfoss og Þorlákshafnar og hjólreiðastígs, ásamt umhverfisskýrslu.
Var það borið undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Dagskrá:
I. Fundargerðir til staðfestingar
1. a) 1401094
Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar 45. fundur frá 15. apríl
b) 180. fundur bæjarráðs ( 1401016 ) frá 30. apríl
2. a) 1401093
Fundargerð framkvæmda- og veitustjórnar 75. fundur frá 29. apríl
b) 181. fundur bæjarráðs ( 1401016 ) frá 8. maí
Úr fundargerð bæjarráðs til afgreiðslu:
liður 4, málsnr. 1403106- Samningur milli Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og Sveitarfélagsins Árborgar um kaup á landi úr landi Laugadæla. Bæjarráð staðfestir samninginn og leggur til við bæjarstjórn að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna kaupanna.
- liður 2 b) Fundargerð bæjarráðs frá 8. maí – liður 4, málsnr. 1403106 – Samningur milli Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga og Sveitarfélagsins Árborgar um kaup á landi úr landi Laugadæla. Bæjarráð staðfestir samninginn og leggur til við bæjarstjórn að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun kr. 288 m.kr. vegna kaupanna.
Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar, Eyþór Arnalds, D-lista, og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tóku til máls.
Viðaukinn var borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.
Fundargerðirnar voru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða að undanskildum þeim lið sem áður hafði verið samþykktur.
II. 1404386
Breyting á varamanni í undirkjörstjórn 1 ( Selfossi )
Breyting á aðalmanni í undirkjörstjórn 4 ( Stokkseyri )
Lagt er til að Ingveldur Guðjónsdóttir taki sæti sem varamaður í undirkjörstjórn 1 á Selfossi í stað Þorgríms Óla Sigurðssonar og að Einar Sveinbjörnsson taki sæti sem aðalmaður í undirkjörstjórn 4 á Stokkseyri í stað Björns Harðarsonar.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
III. 1405177
Tillaga um að bæjarráði verði falin fullnaðarafgreiðsla mála tengdum sveitarstjórnarkosningum
Lagt var til að bæjarráði verði falin fullnaðarafgreiðsla mála tengdum sveitarstjórnarkosningum.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
VI. 1404288
Ársreikningur 2013 – síðari umræða.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, tók til máls og gerði grein fyrir breytingum á ársreikningi milli fyrri og síðari umræðu.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, og Eyþór Arnalds, D-lista, tóku til máls.
Ársreikningur 2013 var borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.
Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Ársreikningur Svf. Árborgar fyrir árið 2013 liggur hér frammi til afgreiðslu. Tap var á rekstri bæjarsjóðs, A-hluta, sem nam tæpum 36 milljónum. Er það endanleg niðurstaða eftir afskriftir og fjármagnsliði, sem að sjálfsögðu eru hluti af rekstri sveitarfélagsins, þrátt fyrir að í annað hafi verið látið skína frá því að ársreikningurinn var lagður fram til fyrri umræðu. Aftur á móti var hagnaður af rekstri A- og B- hluta upp á rúmar 404 milljónir, einnig eftir afskriftir, fjármagnsliði og reiknaðan tekjuskatt. Í því sambandi ber að hafa í huga að B- hluta fyrirtæki sveitarfélagsins sem eru m.a fráveita, vatnsveita og Selfossveitur, skila samtals afgangi upp á tæpar 350 milljónir. En það eru þeir fjármunir sem þessi fyrirtæki hafa þá til að framkvæma fyrir eftir árið, enda er ekki reiknað með að fjármunir þeirra séu notaðir í annað en til framkvæmda og endurnýjunar þess sem þau sjá um að reka. Í árslok er staðan sú að fráveita og vatnsveita eiga kröfu á aðalsjóð upp á rúmar 700 milljónir sem ætlast er til að fari til framkvæmda í fráveitu og vatnsveitu en ekki til annars reksturs sveitarfélagsins. Mikilvægt er að halda þessu til haga í umræðu um afkomu sveitarfélagsins.
Ef við setjum þetta í samhengi við venjulegt heimilisbókhald er það A-hluti rekstrarins sem er heimilisbókhaldið. Þar eru tekjurnar, skatttekjur og framlögJjöfnunarsjóðs sveitarfélaganna, gjöldin eru daglegur rekstur, s.s félagsþjónusta, fræðslu- og uppeldismál, æskulýðs- og íþróttamál ofl. Útkoman úr þessum rekstri er því það sem eftir er til að lifa af, án lántöku eða annarra tekna. Því er mjög mikilvægt að ná þessum rekstri niður fyrir núllið. En rekstur A-hluta hefur verið rekinn með tapi allt kjörtímabilið, árin 2010, 2011,2012 og 2013.
Skuldir sveitarfélagsins hafa lítið sem ekkert lækkað frá árinu 2010 og eru í ársbyrjun þessa árs nánast þær sömu og í ársbyrjun ársins 2010, þrátt fyrir að í annað hafi verið látið skína í umræðu um fjármál sveitarfélagsins. Það skal tekið fram að þá tel ég ekki með þann gjörning síðasta árs að breyta Leigubústöðum Árborgar í sjálfseignarstofnun og færa þar með nokkur hundruð milljónir af skuldum úr bókum sveitarfélagsins, nánar tiltekið 675 milljónir, ásamt eignum, en sitja samt áfram með fulla ábyrgð á skuldunum, lögum samkvæmt. Einnig sölu Björgunarmiðstöðvarinnar við Árveg upp á tæpar 300 milljónir. Það að tala um ábyrga fjármálastjórnun og lækkun skulda á að koma fram í aðhaldi í rekstri og ráðdeild en ekki sölu eigna og bókhaldstrikki á ögurstundu til að sína fram á árangur.
Skuldir A- hluta bæjarsjóð, við lánastofnanir og leiguskuldir voru í upphafi árs 2010 tæpir 4,8 milljarðar og í ársbyrjun 2014 þær sömu tæpir 4,8 milljarðar. Skuldir A- og B- hluta bæjarsjóðs við lánastofnanir og leiguskuldir saman, voru í upphafi árs 2010 rúmir 6,3 milljarðar og í ársbyrjun 2014 þær sömu tæpir 6,3 milljarðar, með skuldum Leigubústaða Árborgar og söluandvirði Björgunarmiðstöðvarinnar. Ef við tökum sölu hennar frá er það andvirði hennar sem er öll lækkun heildarskulda sveitarfélagsins á kjörtímabilinu um tæpar 300 milljónir.
Rekstur er oft á tíðum erfiður eins og allir vita og gengur upp og niður, ekki hvað síst á undanförnum árum. En þá er bara betra að viðurkenna ef markmiðin nást ekki, frekar en að slá ryki í augun á fólki og viðurkenna ekki sannleikann.
Helgi Sigurður Haraldsson bæjarfulltrúi B-lista.
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Í ársreikningi sveitarfélagsins vegna ársins 2013 má sjá betri afkomu en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Helstu ástæður eru auknar útsvarstekjur miðað við það sem gert var ráð fyrir í áætlun er nemur um 100 millj. kr. og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru mun hærri en reiknað var með eða sem nemur 62 millj.kr. Tap er á bæjarsjóði (A-hluti) upp á 37 millj. kr. þrátt fyrir að afkoma A-hluta stofnana hafi skilað rúmlega 28 millj. hagstæðari niðurstöðu en áætlun gerði ráð fyrir. Fráveita og vatnsveita sem falla undir B-hluta stofnanir skila rekstrarafgangi upp á um 350 millj. kr. en fráveitu og vatnsgjöld eru ekki tekjustofn heldur á álagning þeirra gjalda að standa undir viðhaldi og endurnýjun í kerfinu, enda hluti af þeirri grunnþjónustu sem sveitarfélagið veitir íbúum sínum.
Sé litið til rekstrarniðurstöðu einstakra málaflokka sést að í meginatriðum hefur almennt tekist vel að fylgja fjárhagsáætlunum stofnana sveitarfélagsins. Ársreikningar sveitarfélaga sem birtir hafa verið að undanförnu sýna almennt betri afkomu sveitarfélaga og er rekstrarniðurstaða níu af tólf stærstu sveitarfélögum landsins jákvæð. Þetta sýnir að hagur sveitarfélaga á Íslandi fer batnandi. Við skoðun ársreikningsins kemur í ljós að skuldahlutfall sveitarfélagsins er komið undir þau viðmiðunarmörk sem sveitarfélögum eru sett af eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Þó að jákvæð þróun hafi verið í rekstrinum, eru skuldir enn miklar og þörf fyrir aðhald og ráðdeild við rekstur sveitarfélagsins á næstu árum. Sem dæmi má nefna að skuldir á íbúa í lok árs 2010 voru kr. 1.018,000 miðað við kr. 1.005,000 í lok árs 2013. Ein aðalástæða þess að skuldahlutfall sveitarfélagsins hefur lækkað eru auknar tekjur enda umsvif í samfélaginu stóraukist frá samdrættinum í kjölfar efnahagshrunsins. Hlutverk sveitarfélaga er ekki að skila sem mestum hagnaði, heldur er hlutverk þeirra og markmið að sjá íbúum sínum fyrir ákveðinni þjónustu hvort sem hún er bundin í lög eða ekki.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa á kjörtímabilinu lagt áherslu á ábyrga og málefnalega þátttöku við stjórn sveitarfélagsins og lagt sig fram um að skapa forsendur fyrir samstarfi og samstöðu við gerð fjárhagsáætlana og rekstur sveitarfélagsins. Í ljósi þess að þetta er síðasti fundur bæjarstjórnar á þessu kjörtímabili, þökkum við bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar starfsfólki sveitarfélagsins og kjörnum fulltrúum fyrir samstarfið á því kjörtímabili sem senn er á enda.
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi S- lista Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S- lista
Þórdís Eygló Sigurðardóttir tók til máls og tók undir bókun bæjarfulltrúa Eggerts Vals Guðmundssonar og Örnu Írar Gunnarsdóttur.
Eyþór Arnalds, D-lista, Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, tóku til máls.
V. 1309190
Samningur um bankaviðskipti milli Sveitarfélagsins Árborgar og Íslandsbanka hf.
Ásta Stefánsdóttir , framkvæmdastjóri, tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samning um bankaviðskipti við Íslandsbanka sem liggur fyrir fundinum og byggir á útboði á bankaþjónustu sem fram fór í apríl sl., en í samningnum felst heimild til að skuldbinda sveitarfélagið vegna yfirdráttarláns að fjárhæð allt að 200 m.kr. Bæjarstjórn felur framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, Ástu Stefánsdóttur, kt. 251070-3189, að undirrita samninginn.
Samningurinn var borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.
1302008
Tillaga um breytingu á aðalskipulagi Árborgar 2010-2014 vegna 66 kv. jarðstrengs á milli Selfoss og Þorlákshafnar og hjólreiðastígs, ásamt umhverfisskýrslu.
Eyþór Arnalds, D-lista tók til máls og gerði grein fyrir tillögunni.
Tillagan lá frammi til kynningar á skrifstofu skipulags- og byggingarfulltrúa, í Ráðhúsi Árborgar og á heimasíðu Sveitarfélagsins á kynningartíma á tímabilinu frá 27. mars til 12. maí. Óskað var eftir umsögnum frá Vegagerðinni, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Minjastofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun. Skipulagsstofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Vegagerðin gera ekki athugasemdir. Ekki bárust umsagnir frá Umhverfisstofnun og Minjastofnun Íslands. Athugasemd barst frá framkvæmda- og veitusviði Árborgar við tillöguna. Athugasemdirnar lutu að legu strengs um framtíðarveg við suðurmörk þéttbýlis á Selfossi, í landi Bjarkar, legu strengs við Hreppamarkaskurð, bent á að gæta þurfi að framkvæmdum við Einbúa og að Nesbrú sé forn leið og skoða þurfi legu strengs með tilliti til þess. Á auglýsingartímanum hefur verið haft samráð við Landsnet og framkvæmda- og veitusvið vegna þeirra atriða sem fram koma í athugasemdunum. Skipulags- og byggingarnefnd hefur farið yfir athugasemdirnar og leggur til að gerð verði breyting á legu strengsins frá auglýstri tillögu svo hann fylgi Suðurhólum og Eyravegi í stað framtíðarvegar samkvæmt aðalskipulagi. Ekki er um grundvallarbreytingu að ræða. Ný strengleið fylgir lagnabelti sem þegar er skilgreint í aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 og er innan eignarlands sveitarfélagsins og mun ekki hafa áhrif á aðra landnotkun. Breytingin mun ekki hafa áhrif á niðurstöðu umhverfisskýrslu. Ný strenglega fer ekki um deiliskipulögð svæði. Vísað er til frekari svara í greinargerð með endanlegri áætlun samkvæmt 9. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Aðrar athugasemdir bárust ekki. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að greinargerð með endanlegri áætlun, skv. 9. gr. laga um umhverfismat áætlana, verði samþykkt, einnig leggur nefndin til að skipulagstillagan með fyrrgreindum breytingum verði samþykkt og verði vísað til meðferðar skv.2.mgr.32. gr skipulagslaga nr.123/2010.
Gunnar Egilsson, D-lista, og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri, tóku til máls.
Helgi S. Haraldsson, B-lista, tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:
Ég tel að skynsamlegra sé að sá stígur sem lagður verður meðfram þessum jarðstreng verði gerður að reiðstíg í stað hjóla og göngustígs og þar með verður umferð ríðandi fólks niður til strandar færð frá Eyrarbakkavegi og þeirri umferð sem þar er. Í stað þess verði hægt að gera núverandi reiðstíg að malbikuðum göngu- og hjólreiðastíg niður á Stokkseyri og Eyrarbakka og tengja þannig saman bæjarkjarna í Árborg fyrir þá umferð. Með þessu er möguleiki að slá tvær flugur í einu höggi og gera skemmtilegar tengingar fyrir þessa notendur á milli byggða.
Helgi S. Haraldsson, B-lista
Aðalskipulag Árborgar 2010-2014 vegna 66 kv. jarðstrengs á milli Selfoss og Þorlákshafnar og hjólreiðastígs, ásamt umhverfisskýrslu, var borið undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert.
Fundargerðin lesin upp og fundi slitið kl. 18:15
Eyþór Arnalds
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Ari Björn Thorarensen
Gunnar Egilsson
Kjartan Björnsson
Helgi Sigurður Haraldsson
Eggert Valur Guðmundsson
Arna Ír Gunnarsdóttir
Þórdís Eygló Sigurðardóttir
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri
Rósa Sif Jónsdóttir, ritari