Fræðsluefni
Á þessari síðu má finna áhugavert fræðsluefni frá skólaþjónustu Árborgar.
Málþroskaröskun (DLD) og ADHD
Börn og ungmenni með frávik í málþroska (DLD) sýna oft sömu einkenni og börn með athyglis- og einbeitingarerfiðleika. Þessi einkenni geta haft áhrif á allt nám og hegðun en eru tilkomin vegna skertrar málfærni og uppfylla þar af leiðandi ekki greiningarskilmerki fyrir ADHD.
Einkenni DLD sem líkjast ADHD geta verið:
- Erfiðleikar með að fylgja fyrirmælum og endurtaka það sem sagt var
- Erfiðleikar með að svara spurningum
- Slök hlustun og virðast utan við sig
- Slakur skilningur
- Vera úti á þekju í umræðum
- Þreytast fljótt og stutt úthald í aðstæðum sem reyna á mállega færni
- Erfiðleikar í samskiptum og skert félagsfærni
- Truflast auðveldlega
- Einfaldur orðaforði
- Samhengislaus og ruglingsleg frásögn
- Mikið af hikorðum í samræðum
- Langar þagnir áður en svarað er
- Skipt um umræðuefni á óviðeigandi hátt
Gagnleg ráð sem gagnast börnum og ungmennum með DLD og/eða ADHD
- Ávallt að ná athygli barnsins áður en því er gefið fyrirmæli
Með því að segja nafn barnsins, ná augnsambandi, setja sig í þeirra hæð eða snerta handlegg þess blíðlega hjálparðu barninu að beina athyglinni að þér og fyrirmælunum. - Draga úr truflunum líkt og auðið er
Til að draga úr áreiti heima er gott að gæta þess að það sé slökkt á sjónvarpinu og öðrum tækjum á meðan rætt er við barnið. Til að draga úr áreiti í kennslustofunni er hægt að gæta þess að námsumhverfi barnsins sé snyrtilegt, vel skipulagt og að barnið sitji framarlega nálægt kennaranum. - Gefið einföld fyrirmæli og leiðbeiningar
Gætið þess að fyrirmæli séu eingöngu eins til tveggja þrepa. Börn með frávik í málþroska og/eða ADHD eru oft með veikleika í vinnsluminni sem gerir þeim erfiðara fyrir að halda upplýsingum í huga sér og vinna með þær. Að endurtaka, umorða og búta upplýsingar niður styður við barnið og hjálpar því að ná árangri. - Leiðið barnið að viðfangsefninu á jákvæðan hátt
Þegar barnið ráfar af réttri leið, minnið það blíðlega á að halda sig við gefið efni. Bendið barninu á hvað það er búið að gera, hrósið því og hvetjið það til að halda áfram með það sem er eftir. - Notið sjónrænt skipulagt eins oft og mögulegt er
Veitið sjónrænan stuðning bæði heima og í skóla. Stuðningurinn getur verið í formi gátlista yfir þau atriði sem þarf að klára á hverjum morgni fyrir skóla, að undirstrika dæmi í stærðfræði, búta lengri texta niður í smærri einingar, nota hugarkort til að veita heildarsýn á myndrænan hátt eða útbúa stundaskrá sem veitir yfirsýn yfir allan daginn frá því að barnið vaknar þangað til það fer að sofa.
Nýtið styrkleika barnsins í allri vinnu, vinnið út frá áhugasviði, hvetjið það áfram og hrósið óspart
Berglind Jónsdóttir, talmeinafræðingur
Skólaþjónusta Árborgar
Hvað er málþroskaröskun?
Dagur málþroskaröskunar (e. Developmental Language Disorder) er haldinn hátíðlegur 14. október á ári hverju og er mikilvægur vitundarvakningu málþroskaröskunar (DLD). Því þrátt fyrir að vera algeng röskun sem hefur áhrif á nær allt daglegt líf eru enn margir sem hafa ekki heyrt hennar getið og spyrja sig, hvað er málþroskaröskun?
Málþroskaröskun er meðfædd röskun af líffræðilegum toga en einkenni hennar birtast strax á máltökuskeiði og fylgja einstaklingum ævilangt. Röskunin snertir allt sem viðkemur tungumálinu hvort sem það er í tali, riti eða táknum. Erfiðleikarnir birtast þegar einstaklingur reynir að tjá hugsanir sínar og/eða skilja það sem aðrir tjá. Birtingarmyndir málþroskaröskunar eru einstaklingsbundnar en oft einkennast þær af rýrum orðaforða, erfiðleikum við að fylgja fyrirmælum, rangri setningaskipan, málfræðivillum, ruglingslegri frásögn og erfiðleikum við að muna nöfn og ný orð. Barn með málþroskaröskun fylgir ekki aldursbundnum viðmiðum um málkunnáttu og með hækkandi aldri og auknum mállegum kröfum dregst það óhjákvæmilega meira aftur úr ef ekkert er aðhafst.
Málþroskaröskun er vandi sem engin skyndilausn dugar við en með því að greina vandann og vinna markvisst með hann er hægt að hjálpa börnum að halda í við jafningja sína og auðvelda þeim að tjá sig í leik og starfi. Í því skyni hafa rannsóknir ítrekað sýnt fram á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar, því fyrr sem er gripið inn í því meiri árangur næst. Því er mikilvægt að börn sem glíma við málþroskaröskun fái viðeigandi aðstoð svo talmeinafræðingar geti kortlagt bæði veik- og styrkleika barnsins, útbúið úrræðalista fyrir heimili og skóla og veitt barninu markvissa einstaklingsmiðaða talþjálfun til að hjálpa því að fást við þær mállegu kröfur sem fylgja hversdagslegu lífi. Þegar kemur að því að styðja við börn með vanda þarf allt umhverfi barnsins að leggjast á eitt til að hámarka árangur.
Málþroskaröskun er ekki tilkomin af ónægri málörvun í frumbernsku en foreldrar og starfsfólk leik- og grunnskóla eru þó í lykillhlutverki þegar kemur að því að örva málþroska barna með málþroskaröskun. Fyrir barn með málþroskaröskun hjálpar að endurtaka leiðrétt það sem barnið segir rangt, einfalda mál og útskýra flókin orð, spyrja hvort barnið skilji og kenna því að láta í ljós þegar það skilur ekki, hafa sem flest myndrænt og/eða sjónrænt, veita endurtekningar og ávallt að ná athygli barnsins áður en talað er við það. Með því að baða börn í tungumálinu, nýta allar dauðar stundir til samskipta, nota fjölbreyttan orðaforða, útskýra merkingu orða, nota orð í mismunandi samhengi, spyrja út í orð og fá börn til að æfa sig að tjá sig erum við að styðja við málþroska. Til er aragrúi af skemmtilegum spilum, leikjum, verkefnum og bókum á íslensku sem þjálfa alla þessa þætti og yfirleitt leynast þessi verkfæri í einhverri mynd á flestum heimilum. Að spila dæmigert samstæðuspil getur kennt börnum grunnboðskipti, að bíða og gera til skiptis, auk þess sem það eflir orðaforða, rökhugsun og minni.
Málþroskaröskun er dulin, hún sést ekki utan á fólki og því þarf að vera á varðbergi fyrir einkennum hennar. Rannsóknir sýna að einn af hverjum 14 glímir við málþroskaröskun og er hún því algengari en einhverfa og svipað algeng og ADHD en er þó mun minna þekkt. Með aukinni fræðslu og vitundarvakningu öðlumst við meiri skilning og þekkingu á þeim takmörkunum sem fylgja málþroskaröskun og jafnframt hvað við getum gert í daglegu lífi til að draga úr áhrifum hennar.
Berglind Jónsdóttir, talmeinafræðingur
Skólaþjónusta Árborgar
Málörvun ungra barna (0-3 ára). Góð ráð til foreldra
Börn eru félagsverur sem hafa þörf fyrir að mynda tengsl og eiga í samskiptum við aðra.
Upplifun barnsins hefur áhrif á mótun taugatenginga í heila og gífurlegu máli skiptir hvernig brugðist er við tjáningu barnsins
Það er því mikilvægt að vera til staðar fyrir barnið og sýna því ást og umhyggju í gegnum snertingu og tal frá upphafi. Það er gert með því að hjala við og með barninu, bregðast við hljóðamyndun þess, ná augnsambandi og herma eftir hljóðum og hreyfingum. Þetta styður við málþroska og er undirstaða að samskiptum og tjáningu.
Hafið í huga að málörvun er að auka það mál sem barnið heyrir og það er gert með því að tala meira, bæði við barnið og um það sem verið er að gera
Í gegnum þessi hvetjandi samskipti heyrir barnið orð og setningar, það lærir rétt mál og fær hvatningu til að æfa sig í tungumálinu. Mikilvægt er að gefa sér tíma til að tala við barnið um allt mögulegt, nota rétt orð yfir hluti, hafa gott jafnvægi á milli samræðna og spurninga og síðast en ekki síst að hvetja barnið til að tjá sig sjálft með því að skapa þörf fyrir samskipti og gefa því tíma til að tjá sig.
Góðar aðferðir sem styðja við málþroska ungra barna eru:
Eftirherma - Búnar eru til aðstæður sem hvetja barnið til eftirhermu
Reynt er að fá barnið til að herma eftir táknum, málhljóðum, orðum, dýrahljóðum o.fl. með því að vekja athygli á þeim. Dæmi um það gæti verið í leikaðstæðum þar sem bíllinn keyrir og flautar „bíbb, bíbb“. Þá er þetta orð/hljóð endurtekið í leik með barninu og það hvatt til að herma eftir því. Einnig er hægt að nota glaðlegan eða syngjandi raddblæ til að hvetja til eftirhermu.
Sjálftal - Talað er um allt sem fyrir augu ber með því að hinn fullorðni setur orð á allar hversdagslegar athafnir, eins og því sem gerist eða það sem heyrist. Dæmi um þetta gæti verið „Núna set ég húfu á höfuðið þitt“ eða „Nú ætla ég að fara í jakkann minn áður en við förum út“.
Samhliðatal - Hinn fullorðni talar um það sem barnið gerir, nefnir leikföng þess, nefnir það sem barnið gerir í leiknum sínum, hvernig því líður, hvað það heyrir o.s.frv. td. „Ég sé að þú kastar boltanum hátt upp í loftið“.
Lýsingar - Hinn fullorðni lýsir því sem hann og barnið sjá, eins og „Sjáðu þarna er hundur. Hann er svartur“. Þetta hvetur til sameiginlegrar athygli þar sem barnið og hinn fullorðni deila saman reynslu, horfa á sameiginlegan hlut og hafa áhuga á viðbrögðum hvors annars.
Endurtekning - Þegar barnið sýnir frumkvæði að samskiptum (td. með bendingum) eða segir orð er mikilvægt að endurtaka þau og bæta við upplýsingum. Ný orð eru endurtekin til að festa þau í minni barnsins, gott að segja sömu setningar aftur og aftur „Nú förum við út… út, út, út… förum út að leika“.
Útvíkkun - Hinn fullorðni bætir viðbótarupplýsingum við það sem barnið segir. Ef barnið segir „epli“ þá er hægt að bæta við “já, þetta er epli, þetta er rautt epli, við ætlum að borða epli“.
Rétt mál - Orð og setningar barnsins eru endurtekin rétt, án þess að vekja sérstaka athygli á þeirri villu sem barnið gerir. Barnið segir td. „voffi hlaupaði“ og hinn fullorðni endurtekur „já hundurinn hljóp hratt“.
Spurningar - Mikilvægt er að spyrja áhugavekjandi spurninga en ekki yfirheyra barnið. Yngri börn ráða frekar við já/nei spurningar en slíkar spurningar takmarkast þó aðeins við já/nei svör. Hægt er að bjóða barni valmöguleika „viltu leika með bolta eða bangsa?“ en þá bendir barnið á það sem það velur og hinn fullorðni nefnir svar barnsins ef barnið er ekki farið að segja orðið sjálft. Einnig er hægt að spyrja spurninga án þess að ætlast til þess að fá svar td. „hvað segir hundurinn? … Hundurinn segir voff, voff“.
Þegar barn eldist fer það að ráða við opnari spurningar eins og „Hvað er…, Hvers vegna…, Hvernig…, Af hverju…?“.
Bókalestur - Lestur bóka er mikilvæg leið til að styrkja tengsl barns og fullorðins en að auki eflir bókalestur orðaforða og málskilning barns ásamt því að vera áhrifarík leið til að auka úthald og athygli sem og að efla rökhugsun og minni.
Skynsamlegt er að hafa reglu á daglegri lestrarstund með barninu og virkja það með samræðu um efni bókarinnar. Lesa má sömu bækurnar aftur og aftur til að fá góða endurtekningu og nefna það sem er á myndunum. Miklu máli skiptir hvernig bókin er notuð.
Gefa þarf góðan tíma fyrir samræður á meðan lestri stendur en þá þarf að staldra við, spyrja, hlusta, svara, útskýra og tryggja að barnið fái tækifæri til að tjá sína upplifun af bókinni. Bókalestur styður einnig við málskilning barnsins.
Málskilningur eru þau orð sem barnið skilur en er kannski ekki farið að nota sjálft. Hægt er að biðja barnið að benda á tiltekna hluti „Hvar er…? Sýndu mér... Bentu á...“. Hér er ekki verið að krefja barnið um tal heldur að það skilji fyrirmæli og orð.
Mikilvægt er að velja bækur við hæfi og sem vekja áhuga barnsins
Þegar lesið er fyrir mjög ung börn er hægt að lesa söguna út frá myndum bókarinnar en einnig hafa þau gaman af taktföstum hrynjanda í texta, vísum og þulum.
Bækur sem innihalda ákveðin þemu, eins og um dýr eða mat, höfða einnig til ungra barna. Þegar barn byrjar að tala er hægt að velja bækur sem innihalda mikið af endurtekningu á einföldum orðum og stuttum setningum. Þegar leggja þarf áherslu á sérstakan málþátt eins og til dæmis eftirhermu er mikilvægt að velja bók sem styður við eftirhermu.
Hægt er að fá ráðleggingar á bókasafni varðandi val á barnabókum
Oft vilja börn láta lesa sömu bækurnar aftur og aftur en þá er mikilvægt fyrir þann fullorðna að styðja við þann áhuga. Einnig er hægt að skiptast á að velja bók til að lesa og kynna barninu þannig fyrir öðrum bókum.
Foreldrar eru besta málfyrirmynd barnsins og gegna lykilhlutverki þegar kemur að málörvun
Barn sýnir miklar framfarir í málþroska en þetta er ferli sem krefst hæfileika til að eiga í flóknum samskiptum við aðra þar sem það tjáir hugsanir, tilfinningar og hugmyndir sínar, meðtekur upplýsingar og nýtir í samræðum við aðra. Barnið lærir grundvallaratriði tungumálsins í samskiptum við aðra og því er mikilvægt að það fái örvun og mörg tækifæri til þess.
Margrét Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur
Skólaþjónusta Árborgar
Fræðslumyndbönd talmeinafræðinga með áherslu á leikskólaaldur
Hnitmiðaðir stuttir fyrirlestrar um helstu þætti sem tengjast máli, tali og rödd leikskólabarna. Eftir áhorf ætti áhorfandi að hafa betri tilfinningu fyrir því hvað er dæmigert þegar kemur að tali og máli leikskólabarna, hvað er ódæmigert, hvað er hægt að gera og hvenær þarf að kalla til talmeinafræðing.
Fræðslumyndböndin eru samstarfsverkefni talmeinafræðinga Skólaþjónustu Árborgar, Skólaþjónustu Árnesþings og Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.
Þessir þættir eru:
- Framburður leikskólabarna (09:27 mín)
- Málörvun leikskólabarna (18:57 mín)
- Raddheilsa leikskólabarna (07:05 mín)
- Fjöl- og tvítyngi leikskólabarna (22:05 mín)
- Hljóðkerfisvitund leikskólabarna (07:32 mín)
- Stam leikskólabarna (05:25 mín)
Eftir áhorf ætti áhorfandi að hafa betri tilfinningu fyrir því hvað er dæmigert þegar kemur að tali og máli leikskólabarna, hvað er ódæmigert, hvað er hægt að gera og hvenær þarf að kalla til talmeinafræðing.
Gangi ykkur vel,
Anna Stefanía Vignisdóttir, talmeinafræðingur | Skólaþjónusta Árnesþings
Álfhildur Þorsteinsdóttir, talmeinafræðingur | Hveragerðisbær
Berglind Jónsdóttir, talmeinafræðingur | Skólaþjónusta Árborgar
Halla Marinósdóttir, talmeinafræðingur | Skólaþjónusta Árborgar
Sigríður Arndís Þórðardóttir, talmeinafræðingur | Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu
- Hvernig er best að tala við börn og unglinga um málþroskaröskun DLD?
Grein á www.arborg.is frá 19. október 2023