VONARMJÓLK
Myndasöguhöfundurinn Bjarni Hinriksson mætir á Bókasafn Árborgar, Selfossi og kynnir nýja bók sína Vonarmjólk.
Bjarni Hinriksson hefur fengist við gerð myndasagna í rúm fjörutíu ár og verið leiðandi á því sviði, einn fárra á Íslandi til að einbeita sér að þessu tjáningarformi.
Með sögum, sýningahaldi, útgáfu, skrifum, þýðingum og kennslu hefur Bjarni unnið að því að skapa myndasögunni vettvang á Íslandi.
Í þessu riti, Vonarmjólk, er safnað saman flestum svarthvítum myndasögum sem hann hefur gert á ferlinum.
Margar hafa birst í tímaritum og blöðum á Íslandi eða erlendis, aðrar hvergi sést áður.
Sögurnar gefa góða mynd af fjölbreyttum og frumlegum efnistökum Bjarna þar sem skopleg alvara, fáránleiki og furður leiða lesandann á milli ævintýraheima, drauma og hversdagslífs. Þær eru í senn vitnisburður um fortíðina og vegvísir til framtíðar.
Bjarni á ættir að rekja á Stokkseyri svo það er aldrei að vita nema einhverjar myndir úr okkar samfélagi rati í sögurnar.
Verið öll hjartanlega velkomin!