Haustgildi - menning er matarkista
Fyrstu helgina í september 6. - 7. september á Stokkseyri verður haldin Haustgildi uppskeruhátíð í fimmta sinn. Haustgildi tvinnar saman menningarviðburðum og framleiðslu og leggur áherslu á að bæði sé menning og matarkista.
Bókabæirnar austanfjalls hafa komið að bókmenntaviðburðum á Haustgildi seinustu ár og verður svo einnig í ár.
Aðal viðburður Haustgildis í ár verður dagskrá sem haldin er í minningu Ísaks Harðarsonar. Þegar hann dvaldi á Stokkseyri skrifaði hann m.a. ljóðabókina Stokkseyri sem verður aðalumfjöllunarefni þessa viðburðar. Bókin er uppfull af fallegum náttúrustemningum og lýsingum á ströndinni við Stokkseyri og áhrif þess á ljóðmælanda. Íbúar þorpsins koma líka fyrir og hugleiðingar höfundarins og samanburður Stokkseyrar við stórborgir heimsins. Einstök ljóðabók og stefnt er á að bókin verði fáanleg á Haustgildi en hún hefur verið ófáanleg lengi.
Kristín Svava Tómasdóttir og Þórður Sævar Jónsson, ljóðskáld og félagar í Ísaksvinafélaginu,
fjalla um ljóð Ísaks og höfundaferil hans. Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson tónskáld samdi líka tónverk við ljóð bókarinnar og verður hluti þess tónverks flutt og Hróðmar mun fjalla um það hvernig það kom til að hann samdi tónverkið en hann hefur samið fleiri lög við ljóð Ísaks.
Fleiri bókmenntaviðburðir eru á Haustgildi og sjö höfundar koma til Stokkseyrar í ár.
Þetta eru þau Eiríkur Örn Norðdahl, Guðrún Hannesdóttir, Gunnar Randversson, Sandra B. Clausen,
Brynja Hjálmsdóttir, Maó Alheimsdóttir og Vala Hauksdóttir. Upplestrar þessara höfunda verður
á Brimrót sem er til húsa í gamla félagsheimilinu á Stokkseyri, Gimli, Hafnargötu 1.
Það hefur líka skapast hefð fyrir því að hafa tónleika í Stokkseyrarkirkju á laugardagskvöldi þessa fyrstu helgi september.
Það hefur alltaf verið gott að geta lokið deginum á innilegum tónleikum í hlýlegu andrúmslofti Stokkseyrarkirkju. Seinast spilaði Lay Low á þessum tónleikum og var það afar vel heppnaðir og skemmtilegir tónleikar. Þetta ár erum við heppin að geta boðið uppá framúrskarandi djass. Ingibjörg Elsa Turchi bassaleikari, Hróðmar Sigurðsson gítarleikari og trommuleikarinn Sólrún Mjöll Kjartansdóttir eru frábærir fulltrúar nýrra strauma í djass
heiminum á Íslandi. Ingibjörg og Hróðmar hafa fengið lofsamlega dóma um plötu sína +1 í
Morgunblaðinu og víðar.
Tónleikar verða einnig á Brimrót á laugardaginn og sunnudaginn.
Á laugardaginn spila Synthea Starlight sem er einstakur synthapopp dúett sem hefur verið að fá mikla spilun undanfarið. Á sunnudaginn kemur svo SiGRÚN og lokar dagskrá Haustgildis að þessu sinni en nýjasta plata hennar Monster Milk var m.a. valin ein af plötum ársins 2024.
Gallerí á Stokkseyri verða líka opin og bjóða gestum uppá að skoða það sem þau hafa uppá að bjóða.
Gallerý Svartiklettur, Gussi gallerý, Gimli gallerý og Heba keramík. Líka verður boðið
uppá framleiðslu úr nágrenninu, kartöflur, rófur og harðfisk og fleira á Draugabarnum í
menningarverstöðinni Hólmaröst.