Veiðidagur í Óseyrarnesi 1993 | Ljósmyndasýning
Í tilefni af Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka laugardaginn 21. júní nk. verður opnuð ljósmyndasýning í Gömlu-Kartöflugeymslunni við Búðarstíg kl. 13:00.
Á sýningunni eru myndir sem Magnús Karel Hannesson tók af laxveiði í net fyrir landi Óseyrarness en jörðin liggur að Ölfusá neðanverðri
Jörðin komst í eigu Eyrarbakkahrepps árið 1906. Jörðin hét áður Nes eða Ferjunes og er sagt að bærinn hafi verið fluttur fimm sinnum til austurs undan ágangi árinnar og landbroti sem enn stendur. Ferjan var aflögð árið 1931.
Óseyrarnesi fylgdu mikil hlunnindi af lax- og silungsveiði í Ölfusá
Eftir að hreppurinn eignaðist jörðina var veiðirétturinn leigður út og stunduðu ýmsir veiðina sem leigutakar – einna lengst Magnús Magnússon í Laufási á Eyrarbakka.
Síðust leigutakarnir voru Bjarnfinnur Ragnar Jónsson og Guðmundur Sæmundsson frá 1984 til 1996 en þá var veiðunum hætt vegna minnkandi veiði og lækkandi fiskverðs. Síðustu árin annaðist Guðmundur veiðarnar með aðstoðarmönnum. Hann var öllum hnútum kunnugur, þekkti aðstæður og vissi hvernig standa ætti að framkvæmdinni – enda hafði hann starfað hjá Magnúsi í Laufási áður fyrr.
Ljósmyndirnar voru teknar á góðum sumardegi árið 1993 og endurspegla það verklag sem beita þurfti við veiðarnar og þann andblæ og eftirvæntingu sem ríkti á veiðistaðnum. Þær sýna hlunnindanýtingu sem nú er aflögð og verður væntanlega ekki tekin upp aftur í Óseyrarnesi.
Ljósmyndirnar hafa verið falinn fjársjóður sem nú er dreginn fram í dagsljósið og gerður almenningi sjáanlegur.
Sýningin er opin helgina 21.- 22. júní kl. 13:00 - 17:00 og helgina 28.- 29. júní kl. 13:00 - 16:00