170 ára afmælishátíð Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri
Síðastliðinn laugardag var haldið upp á 170 ára afmæli Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri í tilefni af afmæli hans 25. október.
Hátíðin var vel sótt og dagskráin vegleg
Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, skólastjóri, flutti ávarp og börn frá leikskólanum Strandheimum voru með söngatriði. Edda Óskarsdóttir flutti erindi sem Óskar Magnússon, faðir hennar og fyrrverandi skólastjóri, samdi og eldri kór Barnaskólans tróð upp á undan ávarpi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar.
Þá var Fjóla S. Kristinsdóttir, bæjarstjóri, með ávarp og tónlistaratriði kom frá Tónlistarskóla Árnesinga. Magnús Karel Hannesson sagði reynslusögu úr skólastarfi fyrri tíma og nemendur 5. bekkjar fluttu atriði úr Bláa hnettinum undir leikstjórn Magnúsar J. Magnússonar, fyrrum skólastjóra.
Að lokum var boðið upp á veitingar og rölt um skólann. Mikil gleði sveif yfir vötnum Barnaskólans sem ber aldurinn vel.