Áframhaldandi styrkur til Elju virkniráðgjafar
Sveitarfélagið Árborg hefur hlotið áframhaldandi styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu til verkefnisins Elja virkniráðgjöf.
Verkefnið, sem hófst árið 2024, miðar að því að styðja við ungmenni á aldrinum 16–29 ára sem standa utan vinnu, skóla eða virks félagslegs stuðnings. Sérstök áhersla er lögð á aldurshópinn 16–17 ára sem er í mestri áhættu á félagslegri einangrun, brotthvarfi úr skóla og vanlíðan.
Samkvæmt nýjum samningi, sem undirritaður var í október 2025, fær Árborg styrk að fjárhæð 19 milljónir króna til áframhaldandi þróunar og reksturs Elju til lok árs 2027. Verkefnið styður við aðgerðaáætlun gegn ofbeldi meðal barna, nánar tiltekið aðgerð 3.2.10 um úrræði fyrir svokallaðan NEET-hóp (ungmenni sem eru hvorki í vinnu né námi).
Samfélagslegt úrræði sem brú á milli kerfa
Elja virkniráðgjöf hefur það markmið að mæta ungu fólki þar sem það er statt í lífinu og byggja upp tengsl, traust og sjálfstraust með einstaklingsmiðaðri og sveigjanlegri nálgun. Verkefnið nýtir styrkleika frístundageirans – aðgengi, sveigjanleika og tengslamyndun til að brúa bilið milli kerfa og skapa samfellda þjónustu.
Elja byggir á þverfaglegu samstarfi fjölbreyttra aðila innan og utan fjölskyldusviðs Sveitarfélagsins Árborgar. Samstarf við stofnanir, skóla, félagasamtök og fagaðila skiptir lykilmáli til að tryggja að þjónustan sé samþætt, aðgengileg og miðuð að þörfum hvers og eins ungmennis.
„Hjá Elju er ungmennunum mætt þar sem þau eru, á þeirra forsendum,“ segir Ellý Tómasdóttir, verkefnastjóri Elju virkniráðgjafar hjá Sveitarfélaginu Árborg. „Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að halda áfram þessu mikilvæga starfi og þróa verkefnið áfram.“
Áframhald, samfélag og framtíðarsýn
Verkefnið hefur þegar fest sig í sessi sem hluti af samþættri þjónustu Árborgar og hefur vakið athygli annarra sveitarfélaga og stofnana fyrir árangursríka nálgun sína. Styrkurinn frá ráðuneytinu gerir okkur kleift að halda áfram að þróa Elju virkniráðgjöf sem varanlegt úrræði innan sveitarfélagsins og sem fyrirmynd að samþættri þjónustu við ungmenni í viðkvæmri stöðu um allt land.
Samfélagið í heild gegnir lykilhlutverki í árangri verkefnisins. Árangurinn byggir ekki aðeins á faglegu starfi ráðgjafa Elju heldur líka á samstöðu og stuðningi fólksins í kringum þau – vinnustaða, félagasamtaka og íbúa. Ráðgjafar Elju hvetja því fyrirtæki, stofnanir og aðra í samfélaginu til að taka vel á móti ráðgjöfum Elju og þeim ungmennum sem taka þátt í verkefninu – hvort sem það er með því að bjóða þau velkomin í félagsstarf, gefa þeim tækifæri til starfa eða annarrar þátttöku sem styrkir tengsl þeirra við samfélagið.
Að loknu verkefnistímanum verður til handbók og verkfærakista byggð á reynslu Elju, sem önnur sveitarfélög og þjónustusvæði geta nýtt sér við uppbyggingu sambærilegra úrræða fyrir ungt fólk.
