Álkerfi ehf. veitt vilyrði fyrir atvinnulóð á Eyrarbakka
Bæjarráð Árborgar hefur veitt fyrirtækinu Álkerfi ehf. vilyrði fyrir atvinnulóð á Eyrarbakka. Fyrirtækið stefnir á uppbyggingu á næstu mánuðum þegar formlegri úthlutun er lokið.
Vilyrðið nær til atvinnulóðarinnar, Hafnarbrún 1 á Eyrarbakka en lóðin stendur vestast í bænum líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Fyrirtækið Álkerfi sérhæfir sig í ál- og glerlausnum fyrir stærri byggingarverktaka og einstaklinga. Má þar m.a. nefna svalalokanir og fleira.
Formlegri úthlutun fer fram á næstu vikum og í framhaldinu geta framkvæmdir hafist þegar hönnun og teikningar liggja fyrir.
„Það er ánægjulegt að uppbygging atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu haldi áfram af krafti. Fjöldi verkefna er í farvegi og virkilega spennandi að atvinnulóðir á Eyrarbakka séu að komast í uppbyggingu á næstu mánuðum.“ sagði Bragi Bjarnason, bæjarstjóri af þessu tilefni.
