Árangursrík jarðhitaleit á Selfossi
Enn ber vel í veiði í jarðhitaleit á Selfossi. Í lok ágúst var staðfest að holan við Sóltun á Selfossi væri með vatn í vinnanlegu magni.
Holan sem er um 900m djúp var afkasta- og hitamæld og benda fyrstu tölur til að hún skili um 8 l/s af yfir 80°C heitu vatni.
Heitavatnsleit innan Árborgar hefur gengið vel undanfarin misseri en þetta er þriðja holan á stuttum tíma sem hefur skilað góðum árangri.
Holan við Sóltun ber vinnuheitið SE-46 (Selfoss 46) en hinar tvær sem einnig heppnuðust eru SE-45 og SE-40 en sú síðastnefnda kemst í nýtingu á næstu vikum.
Holan var boruð með jarðbornum Freyju frá Ræktunasambandi Flóa og Skeiða en ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) sáu um rannsóknir og ráðgjöf.