Árborg óskar eftir samtali við Flóahrepp
Bæjarráð Árborgar samþykkti samhljóða á fundi, fimmtudaginn 4. september, að senda erindi á sveitarstjórn Flóahrepps varðandi ósk Árborgar um mögulega tilfærslu á sveitarfélagamörkum og samtal um ávinning sameiningar sveitarfélaganna tveggja.
Sveitarfélagið Árborg óskar með þessu erindi eftir samtali um mögulega tilfærslu á sveitarfélagamörkum Árborgar og Flóahrepps fyrir austan Selfoss. Um er að ræða landsvæði í Flóahreppi sem liggur í beinu framhaldi af núverandi sveitarfélagamörkum og Sveitarfélagið Árborg keypti árið 2014. Golfvöllur Golfklúbbs Selfoss er m.a. í umræddu landi sem og nýr Suðurlandsvegur.
Á meðfylgjandi mynd sést nánar um hvaða landssvæði er að ræða en núverandi sveitarfélagamörk eru merkt með rauðri línu og blá lína sem sýnir mögulega tilfærslu.
Kanna ávinning sameiningar fyrir sveitarfélögin
Í erindinu lýsir Sveitarfélagið Árborg því einnig yfir að vera tilbúið til samtals um að skoða ávinning sveitarfélaganna beggja ef þau sameinast.
Mikil tækifæri eru til uppbyggingar í báðum sveitarfélögunum til framtíðar. Selfoss hefur þróast í að vera sameiginlegt þjónustusvæði íbúa sveitarfélaganna þegar horft er til almennrar þjónustu, hluta íþrótta- og frístundastarfs, velferðarþjónustu og fleiri þátta sem sveitarfélögin eru m.a. með í samstarfssamningum.
Mögulegt væri í framhaldinu að fá óháðan aðila til að vinna með sveitarfélögunum að kanna ávinning sameiningar fyrir íbúa. Mikilvægt er að vanda til verka og slík vinna gæti legið fyrir á fyrstu mánuðum næsta árs og verið veganesti inn í næsta kjörtímabil.