Aukið umferðaröryggi við Austurveg
Vegagerðin hefur leitað eftir samstarfi við Svf. Árborg um úrbætur á umferðaröryggi á Austurvegi frá Tryggvatorgi að Sigtúni.
Mikill umferðarþungi er á svæðinu frá Tryggvatorgi að Sigtúni og á að setja upp girðingu í miðeyjuna til að beina gangandi fólki að gangbrautinni og þannig tryggja öryggi þess.
Aðgerðin felur í sér að núverandi trjágróður er fjarlægður og sett verða ný tré í staðinn. Þá verða settir blómakassar á girðinguna með svipuðum hætti og er við Tryggvatorg í dag.
Ný ásýnd Austurvegar þegar horft er til Austurvegar 3 - 5.
Í umferðaröryggisrýni kom fram að núverandi gróður skerðir sjónlínur ökumanna og stafar því hætta af því gagnvart annarri umferð og gangandi vegfarendum.
Myndin sýnir sjónlínur á Austurvegi.
Umhverfisnefnd Árborgar tók erindið til umfjöllunar á fundi sínum þann 5. mars sl. og gerði svohljóðandi bókun:
Nefndin samþykkir hugmyndir Vegagerðarinnar um breytingar á útfærslu miðeyju Austurvegar frá Tryggvatorgi að Sigtúni. Framkvæmdin hefur það að markmiði að auka umferðaröryggi en um leið bæta ásýnd við götuna. Þetta felur í sér að núverandi lággróður og tré verði fjarlægð en í staðin komi grindverk og ný tré í samræmi við fyrirliggjandi tillögu. Vegagerðin sér um framkvæmdir á eyjunni og uppsetningu grindverks en sveitarfélagið um að fjarlægja gróður og uppsetningu nýrra trjáa og blómakerja.
Ásýnd Austurvegar þegar horft er til Ráðhúss Árborgar.
Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við verkið sem fyrst og ljúka því í maí/júni.
Minnisblað | Umferðaröryggismat á Austurvegi